Fjórfættir heimsóknavinir Rauða krossins

Ingu Björk Gunnarsdóttur

16. maí 2007

Grein þessi birtist í Sámi, blaði Hundaræktarfélags Íslands. Inga Björk Gunnarsdóttir blaðamaður tók viðtal við Lindu Ósk Sigurðardóttur og Bjarna Sigurðsson. Hún tók einnig ljósmyndirnar af heimsóknunum.

Heimsóknavinir Rauða kross Íslands er verkefni sem hefur það markmið að rjúfa einsemd þeirra sem búa við félagslega einangrun. Hlutverk  heimsóknavina er að veita félagsskap, nærveru og hlýju. Stöðugt er verið að þróa nýjar tegundir heimsókna, allt í þeim tilgangi að mæta þörfum gestgjafa.   

Linda Ósk Sigurðardóttir, verkefnisstjóri Rauða kross Íslands, og  Brynja Tomer áttu  frumkvæðið að því að markvissar heimsóknir með hunda urðu að veruleika.  Mér lék forvitni á að vita meira um tilurð þessa verkefnis.

Hvenær og hvernig varð þessi hugmynd til?
Ég hef í gegnum árin fylgst með hinum ýmsu sjónvarpsþáttum t.d. á Animal Planet og heillaðist algjörlega af því sem ég sá og heyrði. Mig dreymdi um að koma sambærilegum verkefnum af stað hér á landi. Eins vissi ég af verkefni sem Ingibjörg Hjaltadóttir var með í gangi á Landakoti þar sem heilabilaðir fengu heimsóknir hunda. Þetta var eitthvað sem ég var alltaf að vonast til að við gætum bætt við flóruna okkar hvað heimsóknir varðar. Á þessum tímapunkti var ég samt ekki alveg búin að móta hvernig og hvar ég ætti að byrja með verkefnið.

Með hvaða hætti varð hugmyndin svo að veruleika?
Í framhaldi af viðtali, sem var við mig á Stöð 2 vorið 2006, hafði Brynja Tomer, mikil hundakona, samband við mig til að athuga möguleika á samstarfi. Hún vissi af hópi hundafólks sem hafði áhuga á að fara með dýrin sín í heimsóknir. Þannig fór þetta frábæra verkefni af stað. Ég er mikið fegin að hafa fengið það símtal því lykillinn að góðu starfi eru sjálfboðaliðar okkar og þarna var kærkomin viðbót að bætast við hóp þeirra hundruð sjálfboðaliða sem starfa fyrir félagið. Að fá svona flottan hóp til liðs við okkur var frábært.

Hvernig hefur Hundaræktarfélag Íslands komið að verkefninu?
Það er ekkert formlegt samstarf á milli HRFÍ og Rauða krossins en félagar í HRFÍ hafa sýnt þessu verkefni áhuga. Rauði krossinn á mikið og gott samstarf við hin ýmsu félög og stofnanir svo ég fagna hve vel þau hafa tekið í þetta verkefni og vona svo sannarlega að það eigi bara eftir að eflast. Formlegt samstarf við HRFÍ er eitthvað sem sjálfsagt er að skoða þegar verkefnið er komið betur af stað og meiri reynsla komin af því.

Hver hefur þróunin verið undanfarið ár?
Í dag erum við með 10 sjálfboðaliða í heimsóknum og erum sífellt að fá nýjar fyrirspurnir varðandi heimsóknir.

Ída hefur heimsótt Jón vikulega í rúmt ár og eru þau orðnir hinir mestu mátar.
Er auðvelt að fá fólk til að taka þátt í þessu verkefni og getið þið bætt við ykkur sjálfboðaliðum?
Við getum alltaf bætt við fleiri sjálfboðaliðum. Markmið okkar er að svara beiðnum gestgjafa eins fljótt og við getum og því er gott að hafa sjálfboðaliða til taks þegar kallið kemur. Það getur verið einmanalegt að bíða of lengi. Allir áhugasamir hundeigendur eru velkomnir til starfa með okkur.

Hver er undirbúningur hundeiganda og hunds áður en þeir verða heimsóknavinir Rauða krossins?
Sjálfboðaliðarnir sækja sérstök námskeið fyrir heimsóknavini. Þar er farið yfir störf, markmið og stefnu Rauða krossins, hvað það felur í sér að vera sjálfboðaliði og síðast en ekki síst hvert hlutverk heimsóknavinar er. Fjallað er um hvað má gera og hvað á ekki að gera í heimsóknum. Heimsóknavinir eru fyrst og fremst vinir sem veita nærveru og hlýju og eru til staðar. Það er ekki hlutverk þeirra að þrífa, baða eða sýsla með fjármál fólks.

Hversu oft er farið í heimsóknir?
Yfirleitt eru þetta vikulegar heimsóknir, klukkustund í senn en þetta byggist þó allt á samkomulagi á milli heimsóknavinar og gestgjafa, getur þess vegna verið á 2ja vikna fresti eða mánaðarlega.

Á hvaða stofnunum eða heimilum er boðið upp á heimsóknavini og er verkefnið á landsvísu?
Þar sem þetta er nýtt verkefni og í raun verkefni sem er enn í þróun þá vildum við byrja smátt og fara rólega af stað. Ég byrjaði á að bjóða þetta til einnar deildar af þeim fimmtíu deildum Rauða krossins sem eru að störfum um land allt. Kópavogsdeild Rauða krossins var spennt að taka þátt í þessu frá upphafi svo við byrjuðum þar. Ég veit að Kópavogsdeildin verður ekki mikið lengur eina deildin sem býður upp á þessar tegundir af heimsóknum því í undirbúningi eru heimsóknir á Selfossi og í Hafnarfirði. Í dag er verið að heimsækja sambýli aldraðra, hjúkrunarheimili, heimili Alzheimsersjúkra, skammtímavistun fyrir langveik börn, athvarf fyrir geðfatlaða og eins eru í gangi heimsóknir á heimili einstaklinga.

Hversu margar hundategundir taka þátt og er hægt að segja að einhver ein tegund eða gerð hunda henti betur en önnur?
Eins og málum er nú háttað eru það 4-5 tegundir sem taka þátt en ég held ekki að einhver ein tegund henti betur en önnur. Við reynum að finna hvaða tegund hentar í hverju tilviki. Það getur verið snúið að fá mjög stóra hunda í heimsókn inn á heimili þar sem lítið pláss er fyrir hendi. Það hefur gengið mjög vel að finna rétta tegund fyrir hverja heimsókn fyrir sig.

Hefur verið auðvelt að fá leyfi heilbrigðisyfirvalda til að fá að fara með hundana inn á stofnanir?
Já, sem betur fer hefur það gengið vel, allavega í Kópavogi þar sem virkilega hefur reynt á að fá þessar undanþágur og leyfi. Við vinnum það þannig að Rauða kross deildin og viðkomandi stofnun sækja í sameiningu um undanþágu fyrir þessar heimsóknir.

Heldur þú að það eigi jafnvel eftir að verða enn auðveldara í framtíðinni?
Ef aðrar heilbrigðisstofnanir taka jafn vel í þetta og þeir í Kópavoginum hafa gert þá lítur þetta vel út. Ég vona svo sannarlega að það eigi eftir að ganga eftir og hef fulla trú á að svo verði.

Áttu einhver góð dæmi um það hversu mikið hundur hefur hjálpað einstaklingi?
Já, þær eru nokkrar sögurnar til. Ein þeirra snertir geðfatlaðan mann sem fær vikulega heimsókn hunds; hann er t.d. mun duglegri að fara út að ganga því þá hefur hann ástæðu til að fara út. Hann brosir meira og líður betur að öllu leyti enda er heimsókn hundsins honum mjög mikilvæg. Hann man alltaf hvenær von er á þessum litla vini sínum. Þau eru ófá brosin sem ég hef séð þegar komið er með hundana í heimsóknir. Hundarnir virka t.d. oft sem ísbrjótar á þá sem eiga erfitt með að tjá sig. Ég veit um eina konu sem er farin að mæta mun fyrr á daginn í athvarf geðfatlaðra því hún vill alls ekki missa af heimsókn hundsins.

Þegar svona framfarir verða hjá einstaklingi er árangrinum þá komið á framfæri til þeirra sem hafa á hendi  leyfisveitingu fyrir hundaheimsóknum, t.d. til að liðka enn frekar fyrir leyfisveitingum?
Nei, við höfum ekki gert það hingað til þar sem þetta er svo nýtt verkefni. En það er eitthvað sem við eigum alveg örugglega eftir að gera þegar fram líða stundir.

Jón Sigurður Friðvinsson, Bjarni Sigurðsson og Ída. Gönguferðir eru Jóni mikilvægar því hann er yfirleitt ekki viljugur að fara mikið út, það að fá tilgang með göngunni breytir öllu.
Bjarni Sigurðsson er ásamt cavalier king Charles spaniel-tíkinni sinni, Ídu, heimsóknavinur Rauða krossins. Þau hafa í rúmt ár heimsótt Jón Sigurð Friðvinsson vikulega en hann býr á sambýli við Sléttuveg í Reykjavík.  
Jón er með geðklofa og heftir sjúkdómurinn hann töluvert í mannlegum samskiptum. Það var því yndislegt að upplifa viðbrögð Jóns við heimsókn Bjarna og Ídu. Jón kom feimnislega til dyra en þegar hann sá Ídu ljómaði andlit hans og það var greinilegt að Ída þekkti Jón og líkaði vel við þennan vin sinn. Þegar inn var komið lét Jón Ídu gera alls kyns hlýðniæfingar og fékk hún harðfiskbita að launum. Því næst var farið í stutta gönguferð í rokinu sem ríkti þennan dag en þessar gönguferðir eru Jóni mikilvægar því hann er yfirleitt ekki viljugur að fara mikið út. Að fara út að ganga með hund gaf göngutúrnum greinilega mikinn tilgang. Eftir göngutúrinn töluðu þeir Bjarni og Jón um allt milli himins og jarðar, ég reyndi að láta lítið fyrir mér fara en Ída vissi alveg hvar var von á klappi og harðfiskbita og sótti í að vera hjá Jóni. Eftir heimsóknina lagði ég nokkrar spurningar fyrir Bjarna.

Getur þú sagt okkur aðeins frá þér og Ídu?
Við fengum Ídu fyrir fimm árum. Hún er frábær hundur sem hefur gefið okkur mikla gleði. Hún er róleg og yfirveguð og þess vegna er einmitt hentugt að fara með hana í svona heimsóknir. Þegar við erum að koma í heimsókn til Jóns sem á heima á 3. hæð þá skokkar hún alltaf beint upp stigana og bíður eftir að ég opni fyrir henni og inn til Jóns. Það eru fagnaðarfundir þegar þau hittast og hann laumar alltaf einhverju góðgæti að henni. Stundum fer ég líka með Arven, sem er dóttir Ídu, í heimsókn til Jóns en það er meiri fyrirferð í henni þannig að það þarf aðeins að hafa meira fyrir heimsóknunum þegar hún er með.

Ída kveður Jón innilega með blautum kossi.
Hvernig stóð á því að þú ákvaðst að gerast heimsóknavinur Rauða krossins?
Konunni minni var boðið að koma á  kynningarfund hjá Rauða krossinum en komst ekki og bað mig um að mæta fyrir sig. Mér leist bara svona rosalega vel á þessa hugmynd og það starf sem þarna var verið að vinna að ég sló til. Ég sé ekki eftir einni einustu mínútu sem ég er búinn að nota í heimsóknirnar því þær eru mjög gefandi.  Hundaheimsóknirnar eru eitt af mörgum frábærum verkefnum sem Rauði krossinn er að vinna.

Nú eruð þið Ída búin að heimsækja Jón í rúmt ár. Getur þú sagt mér aðeins frá heimsóknunum og hvaða breytingar hafa orðið á Jóni?
Við komum alltaf til Jóns á föstudögum. Hann tekur á móti okkur og eyðir smá tíma í að heilsa Ídu, gefur henni nammi, klappar henni og lætur hana jafnvel gera léttar hlýðniæfingar. Svo spjöllum við saman um daginn og veginn og því næst förum við í  göngutúr saman, en það fer eftir veðri hversu lengi við göngum. Stundum förum við jafnvel í bíltúr ef þannig liggur á okkur. Jón er orðinn mun öruggari með sig og léttari í lund en áður. Hann er farinn að grínast meira og það leynist mikill húmoristi í Jóni þannig að það verður sífellt skemmtilegra að heimsækja hann.

Að lokum, getur þú sagt okkur hvað er mest gefandi við þetta sjálfboðaliðastarf?
Maður er fyrst og fremst að reyna að láta gott af sér leiða. Ég fer til Jóns einu sinni í viku og er kannski upp í klukkutíma hjá honum í einu. Það er nú það minnsta sem maður getur gert til að gleðja mann eins og Jón. Þegar maður kynnist sjúkdómi Jóns og sér hversu erfitt það er að þurfa að búa við þennan sjúkdóm kemst maður að því hversu gott maður sjálfur hefur það. Maður ætti ekki að vera að kvarta yfir smáatriðum sem fara úrskeiðis í lífi manns – maður hefur það bara ansi gott.