Heimsókn heimsóknavina Akranesdeildar í Kópavogsdeild

29. maí 2007

Ellefu heimsóknavinir Akranesdeildar Rauða krossins sóttu Kópavogsdeild heim í vikunni. Með í för var Anna Lára Steindal verkefnastjóri. Heimsóknin var hugsuð sem eins konar fræðslu- og umbunarferð fyrir sjálfboðaliðana. Fengu þeir fræðslu um störf heimsóknavina hjá Kópavogsdeild og boðið var upp á kaffi og með því. Stemmingin í hópnum var afar góð þrátt fyrir slæmt ferðaveður.

Formaður Kópavogsdeildar bauð gestina velkomna og lýsti yfir ánægju sinni með heimsóknina. Því næst sögðu gestirnir frá því hvaða störfum innan heimsóknaþjónustunnar þeir hafa sinnt og hversu lengi. Athygli vakti að sum þeirra hafa verið sjálfboðaliðar frá því deildin byrjaði með heimsóknaþjónustu, eða allt frá því snemma á áttunda áratugnum. Flestir gestanna starfa sem sjúkravinir á dvalarheimilinu og á spítalanum en óskum um heimsóknir á einkaheimili og sambýli fer fjölgandi.

Gestirnir voru afar ánægðir með fræðsluna, þeir spurðu margs, sögðu frá eigin reynslu og gáfu góð ráð. Það er mikill hugur í heimsóknavinum á Akranesi að fjölga sjálfboðaliðum í hópnum. Þau vilja auka þjónustuna, halda áfram að kynna hana vel og þannig gera enn betur en nú er.

Starfsfólk og sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar óska Akranesdeild alls hins besta og þiggja gott boð um heimsókn þangað við fyrsta tækifæri.