Heimsóknavinir og margmenning

Guðrúnu Völu Elísdóttur blaðamann á Morgunblaðinu

28. ágú. 2007

Viðtal við Ásu S. Harðardóttur starfsmann Borgarfjarðardeildar Rauða krossins eftir Guðrúnu Völu Elísdóttur blaðamann á Morgunblaðinu. Birt í Morgunblaðinu 27. ágúst.

Borgarfjarðardeild Rauða kross Íslands hefur ráðið nýjan starfskraft í 20%stöðu. Ása S. Harðardóttir tók við stöðunni í sumar og segir að markmið starfsins sé fyrst um sinn að leggja áherslu á þjónustu við erlenda íbúa svæðisins og þjónustu sem kölluð er heimsóknavinur. ,,Heimsóknavinaþjónusta Rauða krossins er liður í því að sporna við félagslegri einangrun hinna ýmsu þjóðfélagshópa, en samkvæmt skýrslu Rauða krossins ,,Hvar þrengir að“ er einangrun eitt alvarlegasta þjóðfélagsmein nútímans. Heimsóknavinur er sjálfboðaliði sem heimsækir gestgjafa sinn að öllu jöfnu einu sinni í viku og geta sjálfboðaliðar verið á öllum aldri, jafnt konur sem karlar. Og þeir sem fá heimsóknir eru líka konur, karlar, ungir og aldraðir. Ása segir heimsóknavinina og gestgjafana hafa ýmislegt fyrir stafni s.s. tala saman, hlusta á tónlist, spila, föndra, fara saman út að ganga, í bíó, á kaffihús, fara í bíltúr eða bara það sem þeim dettur í hug. ,,Mikilvægt er að geta tekið hverjum og einum eins og hann er, og fyrirkomulag heimsóknarinnar er samkomulag beggja“.

Sjálfboðaliðar sem heimsækja fara á sérstakt námskeið hjá Rauða krossi Íslands og eru bundnir trúnaði og þagnarskyldu. ,,Það þarf að vera tryggt að vitneskja um persónulega hagi fari ekki lengra,“ segir Ása.

Námskeið fyrir sjálfboðaliða í Borgarbyggð og nágrenni sem vilja gerast heimsóknavinir verður haldið í lok september nk. og er hægt að skrá sig sem sjálfboðaliða á heimasíðu Rauða krossins, www.redcross.is.

Mikil þörf á náinni samvinnu
Borgarfjarðardeild Rauða krossins bauð erlendum börnum á grunnskólaaldri í Borgarbyggð upp á aukanámskeið í íslensku í ágúst. ,,Já, við töldum mikilvægt að halda námskeið fyrir þessa krakka og réðum kennara úr Grunnskólanum til þess að kenna. Námskeiðið stóð í 8 daga, nemendum var skipt í tvo hópa eftir aldri, yngri og eldri. Þátttaka var mjög góð enda nemendur meðvitaðir um að aukin íslenskukunnátta bætir sjálfstraustið og ýtir undir gagnkvæma virðingu í vinahópunum. Ýmislegt fleira var brallað en bein kennsla því einn daginn var farið í sund og síðasta daginn var skroppið í Húsafell. Kennarar voru þær Ingibjörg Grétarsdóttir og Sólrún Tryggvadóttir.

Ása tók þátt í því að stofna grasrótarhreyfinguna ,,Félag áhugafólks um margmenningu í Borgarbyggð“ sl. vetur og var í stjórn félagsins um tíma. ,,Ég sagði mig úr stjórn félagsins þegar ég var ráðin í þessa stöðu, og kýs frekar að starfa náið með félaginu á vegum Rauða krossins, þótt ég sé auðvitað enn í félaginu. Mikil þörf er á náinni samvinnu allra íbúa Borgarbyggðar í grasrótinni vegna ört breyttrar samsetningar fólksins á svæðinu. Hér búa nú um 300 erlendir íbúar og fer fjölgandi, hingað flyst fjölskyldufólk í meira mæli en áður.

Búið er að ákveða fjölþjóðahátíð í Borgarnesi í samvinnu við Margmenningarfélagið en framkvæmd þess hefur verið frestað fram á næsta ár. Ástæða frestsins er fyrst og fremst tímaskortur við undirbúning, en við viljum standa vel að svona uppákomu. Svo er auðvitað mikilvægt að nefna að annan hvern sunnudag í vetur verður opið hús í húsnæði Rauða krossins í Borgarnesi á vegum Margmenningarfélagsins. Húsnæði Rauða krossins er í safnaðarheimilinu Félagsbæ við Borgarbraut og eru allir velkomnir sem áhuga hafa á margmenningu og betra mannlífi í Borgarbyggð.