Sjálfboðaliðar Rauða krossins gegn einsemd og einangrun

Geir A. Guðsteinsson blaðamann á Kópavogsblaðinu

15. okt. 2007

Eitt af áhersluverkefnum Kópavogsdeildar Rauða krossins er að vinna gegn einsemd og félagslegri einangrun. Deildin sinnir þessu með öflugri heimsóknaþjónustu og rekstri Dvalar, athvarfs fyrir geðfatlaða. Þjónustan er sífellt að eflast og nú eru 65-70 sjálfboðaliðar í reglubundnum verkefnum heimsóknavina. Gestgjafarnir eru karlar og konur á ýmsum aldri. Heimsóknirnar fara fram á einkaheimilum, sambýlum aldraðra, sambýlum og athvarfi geðfatlaðra, sambýli heilabilaðra, skammtímavistun fyrir langveik börn og í Sunnuhlíð. Þess má geta að heimsóknir til heimilismanna í Sunnuhlíð hafa staðið yfir frá árinu 1984. Alltaf er þörf fyrir sjálfboðaliða og alltaf heitt á könnunni á skrifstofunni í Hamraborg. Einnig er hægt að fylgjast með starfinu á netsíðunni www.redcross.is/kopavogur

„Öll höfum við þörf fyrir félagsskap, nærveru og hlýju, við erum bara misdugleg að bera okkur eftir björginni. Oftast eru það aðstæður og upplag sem valda því að fólk upplifir sig einmana og félagslega einangrað. Aukið framboð á afþreyingu, erill, hraði og tímaskortur eru líka ástæður þess að fólk upplifir einsemd. Oft og tíðum verður þetta að vítahring sem erfitt er að rjúfa en þar geta sjálfboðaliðar Rauða krossins komið til aðstoðar með reglubundnum heimsóknum sínum,” segir Linda Ósk Sigurðardóttir, nýráðinn framkvæmdastjóri Kópavogsdeildar, í samtali við Kópavogsblaðið. Kópavogsdeildin er ein sú öflugasta á landinu, og heldur upp á 50 ára afmæli sitt árið 2008.

„Yfirleitt er um að ræða klukkustundar heimsókn hverju sinni og þá gjarnan einu sinni í viku. Þó eru líka dæmi um heimsóknir á tveggja vikna fresti. Fjölbreytileiki og tíðni heimsókna fer eftir óskum og þörfum gestgjafa. Samveran er gjarnan notuð til að spjalla saman, spila, lesa, syngja, tefla, föndra, fara saman út að keyra, í bíó, á kaffihús, í göngutúra eða hvað annað sem tveir góðir vinir koma sér saman um að gera. Hvernig heimsóknavinur og gestgjafi ákveða að eyða tímanum saman er alfarið í þeirra höndum. Linda segir að sífellt sé verið að efla og þróa þjónustuna og það nýjasta eru heimsóknir sjálfboðaliða með hunda. Í Kópavogi eru níu hundar að störfum við mikinn fögnuð gestgjafa sem njóta samvista við þá.”

Til viðbótar við opinberar stofnanir

Heimsóknaþjónusta Rauða krossins kemur ekki í stað þeirrar þjónustu sem opinberar stofnanir og aðilar eiga að sinna heldur er litið á hana sem kærkomna viðbót við það sem í boði er. Hver heimsókn er vel undirbúin og hittir fulltrúi deildarinnar bæði sjálfboðaliða og gestgjafa fyrir fyrstu heimsókn.

„Þótt meirihluti þeirra sem þiggja heimsóknir séu aldraðir þá erum við sífellt að fá fleiri yngri gestgjafa, ungmenni og fólk á miðjum aldri sem hafa lent í erfiðleikum, t.d. vegna veikinda. Opin umræða um einsemd og félagslega einangrun og kynning á þjónustunni er að skila sér til okkar og því fögnum við. Innflytjendur og fólk með geðraskanir eru í hópi þeirra sem við viljum gjarnan þjónusta betur. Við erum aðallega að fá ábendingar frá fjölskyldu, vinum, starfsfólki félagsþjónustu og heimahjúkrunar. Það eru dæmi um að fólk hringi sjálft og óski eftir heimsóknavini, það er samt eitthvað sem við viljum gjarnan sjá meira af, að fólk sé óhrætt við að leita til okkar og biðja um aðstoð. Það er gott að gefa af sér því maður fær það svo margfalt til baka. Gestgjafarnir hafa svo mikið að gefa og það er það skemmtilega og góða við þetta verkefni,” segir Linda Ósk.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins sækja námskeið áður en farið er af stað í heimsóknir. Um er að ræða þriggja klukkustunda löng námskeið sem haldin eru reglulega í húsnæði deildarinnar og standa öllum áhugasömum til boða þeim að kostnaðarlausu. Á þessum námskeiðum er farið yfir hlutverk, starfsreglur og skuldbindingar heimsóknavina og mikilvægi þess að virða þagnarskyldu varðandi persónuleg málefni gestgjafa enda er hún forsenda trausts og trúnaðar. Sjálfboðaliðum  Kópavogsdeildar stendur þar að auki til boða ýmis fræðsla og þjálfun og haldin er reglulega samvera heimsóknavina til að styrkja þá í starfi.

Nýlega tóku tveir starfsmenn við deildinni

Dögg Guðmundsdóttir verkefnisstjóri sjálfboðamiðstöðvar. Dögg er mannfræðingur frá Háskóla Íslands með framhaldsmenntun í þróunarmálum og alþjóðasamskiptum frá Háskólanum í Álaborg í Danmörku. Á liðnum vetri var hún í starfsþjálfun í Úganda á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og gegndi áður verkefnavinnu fyrir mannréttindasamtökin Human Rights without Frontiers í Belgíu. 

Linda Ósk Sigurðardóttir er framkvæmdastjóri og hefur starfað fyrir Rauða krossinn í ein 9 ár og hefur mikla og góða reynslu af störfum fyrir Rauða krossinn. Byrjaði sem sjálfboðaliði og þá sem formaður Grundarfjarðardeildar Rauða krossins en hefur gegnt stöðu svæðisfulltrúa Rauða kross deilda á höfuðborgarsvæðinu og Vesturlandi og verið verkefnisstjóri heimsóknaþjónustu á landsskrifstofu þar til hún hóf störf í byrjun ágústmánaðar hjá Kópavogsdeild ásamt Dögg.