Viðtal við Lovísu Guðmundsdóttur, heimsóknavin

21. okt. 2011

Lovísa Guðmundsdóttir er búin að vera heimsóknavinur hjá Kópavogsdeild í hátt í tvö ár. Hún ákvað að gerast heimsóknavinur eftir að hún hætti að vinna eins og hún segir sjálf frá: „Ég ætlaði að vinna þangað til ég yrði 67 ára en því miður varð ég að hætta vegna heilsubrests. Það er ekki auðvelt að þurfa að hætta vinnu fyrir aldur og mig langaði að gera eitthvað gagnlegt. Ég vissi að Rauði krossinn væri með alls konar sjálfboðaliðastörf ég fór í Rauðakrosshúsið í Kópavogi og sé ekki eftir því.“

Eftir að hafa kynnt sér verkefni deildarinnar ákvað hún að fara á undirbúningsnámskeið fyrir nýja heimsóknavini. Fljótlega eftir það fór hún að heimsækja konu sem hún fór út að ganga með. Nærri tveimur árum seinna hittast þær enn einu sinni í viku og ganga saman. Lovísa segir að heimsóknirnar gefi sér heilmikið og að hún hlakki til þeirra í hverri viku. Það skemmtilegasta við starfið sé „þegar maður sér árangur í því sem maður er að gera“. Að lokum bætir hún svo við að hún sé ákaflega þakklát fyrir að vera sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í starfinu hjá Kópavogsdeild eru hvattir til að hafa samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is. Í Rauðakrosshúsinu í Hamraborg er alltaf heitt á könnunni og leggjum við okkur fram við að taka vel á móti fólki.