Fjör á samveru heimsóknavina

9. apr. 2008

Mánaðarleg samvera heimsóknavina Kópavogsdeildar var haldin í sjálfboðamiðstöðinni í gær og komu góðir gestir í heimsókn. Heimsóknavinum úr Hafnarfirði og Grindavík hafði verið boðið í því skyni að heimsóknavinir ólíkra deilda hittust, ættu góða stund saman og kynntu sér starf hvers annars.

Hópstjóri heimsóknavina í Kópavogsdeild byrjaði á því að segja frá heimsóknaþjónustu deildarinnar og síðan tóku fulltrúar úr Hafnarfjarðardeild við og sögðu meðal annars frá heimsóknum sínum til hælisleitenda. Heimsóknavinirnir úr Grindavík tóku því næst við orðinu og sögðu frá sínu starfi en þessi góði hópur kvenna kallar sig Friðarliljurnar. Þær syngja og spila fyrir sína gestgjafa og tóku lagið við góðar undirtektir hinna heimsóknavinanna. Það var því mikið líf og fjör í sjálfboðamiðstöðinni. Heimsóknavinirnir gæddu sér svo á fínum veitingum þar sem einn úr Kópavogsdeildinni hafði bakað pönnukökur og búið til kakó.

Samverur heimsóknavina í Kópavogsdeild eru alltaf haldnar annan þriðjudag hvers mánaðar í sjálfboðamiðstöðinni og er markmiðið að hafa eitthvað sérstakt í boði í hvert sinn eins og hópefli, fræðslu eða heimsóknir. Samveran er hugsuð sem tækifæri fyrir alla heimsóknavini deildarinnar til að hittast og eiga ánægjulega stund saman og er hún fyrir heimsóknavini sem sinna sjálfboðnum störfum í Sunnuhlíð, á sambýlum aldraðra, í Dvöl, í Rjóðrinu og á einkaheimilum.