Lifnar yfir fólki þegar hundarnir koma í heimsókn

Ylfu Kristínu K. Árnadóttur blaðamann á Morgunblaðinu

6. maí 2008

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands hefur um árabil staðið fyrir heimsóknum í Sunnuhlíð, hjúkrunarheimili aldraðra, en fyrir tæpum tveimur árum var tekið upp á þeirri nýbreytni að leyfa ferfætlingum að gerast heimsóknarvinir.Ylfa Kristín K. Árnadóttir blaðamaður á Morgunblaðinu skrifaði grein sem birtist í blaðinu þann 3. maí.

Haustið 2006 hóf Pollý, sem er sjö ára Cavalier king Charles spaniel, að heimsækja heimilisfólkið í Sunnuhlíð einu sinni í viku ásamt eiganda sínum, Lilju Bögeskov. Ári síðar bættist Karólína í hópinn en hún er rúmlega fjögurra ára tík, blanda af Springer spaniel og Border collie, og skiptast nú hundarnir á að mæta. Að sögn Guðleifs Magnússonar, eiganda Karólínu, taka henni flestir afskaplega vel og fær hún mikið af strokum og atlotum. „Heimilisfólkið hefur margt afskaplega gaman af þessu. Karólína er svo spennt þegar við keyrum hingað upp að húsinu, hún fer öll á ið og byrjar að láta heyra í sér, hún veit hvert hún er að koma.“ Ekki er hún Pollý síður spennt að sögn Lilju. „Hún byrjar að dingla rófunni þegar ég keyri hingað, hún þekkir þetta. Heimsóknin gleður fólk óskaplega mikið. Það knúsar hana og klappar og sumir vilja fá hana upp í rúm til sín.“

Lifnar yfir fólki að fá dýrin í heimsókn
Á öllu landinu eru 19 hundar sem fara í heimsóknir með sjálfboðaliðum og þar af eru 12 í Kópavogi en þar hófst verkefnið. Heilbrigðisstofnanir eru ekki einu staðirnir sem hundarnir heimsækja en einnig er farið á einkaheimili fólks. Þá er yfirleitt um að ræða fólk sem er einmana og félagslega einangrað en að sögn Lindu Óskar Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra Kópavogsdeildar Rauða krossins, geta heimsóknir af þessu tagi rofið einsemd og einangrun fólks og veitt því hvatningu til að halda úr húsi, t.d. í gönguferðir með hundana.

Aufúsugestur Pollýanna, eða Pollý eins og hún er alltaf kölluð, hefur heimsótt heimilisfólkið á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi í hálft annað ár við miklar vinsældir.
Að sögn Lindu kallast þeir sem fá heimsóknir gestgjafar og er ekki bara um eldra fólk að ræða. Deildin vilji endilega fá fleiri sjálfboðaliða en einnig fleiri gestgjafa. „Stundum er eins og fólk finni fyrir vanmáttarkennd yfir því að þurfa að biðja einhvern um að heimsækja sig,“ segir Linda en að hennar mati hafa heimsóknirnar gefið afar góða raun. „Það er gaman og gefandi á báða bóga að fá sjálfboðaliða í heimsókn og oft myndast svo góður vinskapur.“

Linda segir heimsóknir með hunda vera verkefni sem hún vilji sjá um land allt. 50 Rauða kross deildir eru víðsvegar á landinu en aðeins þrjár til fjórar bjóða upp á heimsóknir með hunda. „Það eru fordómar gagnvart dýrum en fólk bráðnar þegar þau koma í heimsókn. Fólk sem hefur ekki viljað sjá þessi dýr í heimsókn, fussað og sveiað og haldið sig til hlés, bráðnar smátt og smátt. Að sjá brosin, þegar lifnar yfir fólki, er það sem mér finnst skemmtilegast við þetta.“

Forréttindi að koma að þessu verkefni
Hundaeigendur, sem sækja um aðild að verkefninu, þurfa að sækja 3 klst. námskeið hjá Rauða krossinum. Í kjölfarið fara hundarnir í atferlisskoðun en um hana sér Brynja Tomer. Í skoðuninni fer Brynja með hundana í ókunnugt umhverfi og fylgist með því hvernig þeir koma fram við ókunnuga. Það fyrsta sem hún skoðar er hvort hundarnir verða stressaðir eða halda ró sinni. Farið er með þá í lyftu, stiga og í rými sem mikið glymur í, líkt og getur fundist á stofnunum.

„Við erum að leita að góða meðalhundinum. Þar sem er eldra fólk, fólk í hjólastólum og göngugrindum, skiptir máli að hundarnir séu afar yfirvegaðir og frekar opnir en ekki æstir.“ Þá er æskilegt að þeir hafi mjúkt og fallegt yfirbragð og líkist hundum sem fólk minnist úr æsku sinni þegar það var í sveit. „Það eru forréttindi að fá að koma að svona verkefni. Þetta er viðurkenning á því að hundar skipta marga máli í daglegu lífi.“