Hringdi og bað um vin

Ingibjörgu Báru Sveinsdóttur blaðamann á 24stundum.

23. jún. 2008

Greinin birtist í 24stundum 12. júní. Eftir Ingibjörgu Báru Sveinsdóttur blaðamann.

> Heimsóknarvinaþjónusta Rauða krossins var sett á laggirnar 1966 en hét fyrst sjúkravinir þar sem eingöngu var farið til sjúklinga á stofnunum.

> Nú eru á milli 90 og 100 konur og karlar á lista Rauða krossins yfir heimsóknarvini.Ólöf Sigurrós, sem er 98 ára, fer í hverri viku á kaffihús með vinkonu sinni Bergdísi frá Rauða krossinum. Brýn þörf fyrir aðstoð.

„Ég veit ekki hvernig ég hefði farið að ef hún Bergdís hefði ekki komið til mín í gegnum Rauða krossinn. Ég hringdi og spurði hvort ég gæti ekki fengið vin og ég var svona stálheppin. Við höfum verið saman síðan.“

Ólöf Sigurrós Ólafsdóttir, sem er 98 ára og hefur dvalið á hjúkrunarheimilinu Sóltúni síðan í febrúar,bjó ein fyrir rúmum þremur árum þegar hún bað um vin. Hún varð fyrsti gestgjafi Bergdísar Kristjánsdóttur, sjálfboðaliða hjá Rauða krossinum. Bergdís, sem er 65 ára,var þá hætt hefðbundnum störfum sem hjúkrunarfræðingur.

„Ég ætlaði mér að gerast sjálfboðaliði þegar ég var ung og sótti um slíkt starf í Úganda þegar ég útskrifaðist sem hjúkrunarkona árið 1964. En þegar mér barst svar við umsókninni var ég búin að ráða mig til starfa í Svíþjóð þar sem ég var um nokkurra ára skeið. Síðan starfaði ég lengst af á Landspítalanum. Síðustu árin fékk ég það verkefni að byggja upp hjúkrunarþjónustu hjá sjúkrahóteli Rauða krossins. Þá kynntist ég starfsemi samtakanna og í tengslum við það ákvað ég að þegar ég hætti að vinna yrði sjálfboðaliðastarf hluti af mínu lífi. Sigurrós varð minn fyrsti gestgjafi,“segir Bergdís og leggur áherslu á að sjálfboðaliðastarfið sé ákaflega gefandi.

Hlakkar alltaf til

„Maður er ekki bara að þessu fyrir þann sem maður heimsækir, heldur einnig fyrir sjálfan sig. Maður finnur að maður er að gera gott.“Ólöf Sigurrós og Bergdís hittast á hverjum miðvikudegi og skreppa þá út saman. „Ég hlakka alltaf til miðvikudaganna. Við förum ýmist á kaffihús eða tökum þátt í söng hjá Félagi eldri borgara en það er hlé á söngnum núna í sumar,“ segir Ólöf Sigurrós sem hefur verið ekkja í rúma fjóra áratugi.

Á öllum aldri
Ólöf Sigurrós er eini gestgjafi Bergdísar, sem segist hafa lesið á tímabili fyrir vistmenn á Eir. Hún er jafnframt hópstjóri í heimsóknarvinaþjónustunni auk þess sem hún fer með sjálfboðaliðum í fyrstu heimsóknir þeirra.

Bæði heimsóknarvinirnir og gestgjafarnir eru á öllum aldri, að sögn Bergdísar. „Áður voru það
mest fullorðnar konur sem voru í heimsóknarvinaþjónustunni en nú erum við að fá stóran hóp af ungu fólki. Ég fór síðast nú í vikunni með ungri stúlku sem var að útskrifast úr menntaskóla í fyrstu heimsókn hennar til 94 ára gamallar konu sem hún ætlar að heimsækja einu sinni í viku í sumar. En það eru ekki bara aldraðir sem þurfa á aðstoð að halda, heldur einnig ungt fólk. Það hefur sýnt sig að þörfin er brýn í okkar velferðarsamfélagi.“