25. nóv. 2005 : Fjölmennt fræðslukvöld um geðraskanir

Erla Hrönn Diðriksdóttir og Garðar Sölvi Helgason kynntu starfsemi Vinjar.
Streita, geðsjúkdómar og svefnvenjur voru á meðal þess sem rætt var um á mánudagskvöldið þegar sjálfboðaliðar, gestir og starfsfólk Dvalar, Lækjar og Vinjar hittust í húsakynnum Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands að Laugavegi 120. 

Rauði krossinn rekur eins og kunnugt er þrjú athvörf fyrir geðfatlaða á höfuðborgarsvæðinu: Dvöl í Kópavogi, Læk Hafnarfirði og Vin í Reykjavík. Tilgangur með rekstrinum er að gefa geðfötluðum vettvang þar sem þeir geta komið og rabbað saman, lesið blöðin og þar fram eftir götunum. Með því er hægt að rjúfa félagslega einangrun þessa hóps og styrkja með samneyti við aðra andlega og líkamlega heilsu. Þar sem athvörfin eru þrjú á höfuðborgarsvæðinu þykir tilvalið að standa að sameiginlegum fræðslu- og skemmtikvöldum með reglulegu millibili og var þetta fræðslukvöld fyrsti vísirinn að því.

23. nóv. 2005 : 7 ára nemendur í Hjallaskóla styðja börn í Sri Lanka

Garðar Guðjónsson formaður Kópavogsdeildar Rauða krossins tekur við söfnunarfénu. Sigrún Stefánsdóttir umsjónarkennari stendur til hægri við bekkinn.
Nemendur í bekknum 2.S.S. í Hjallaskóla afhentu nýverið Rauða krossi Íslands afrakstur af fjársöfnun sinni fyrir bágstödd börn. Söfnunarfénu verður varið í stuðning við börn í Sri Lanka. Hugmyndin að söfnuninni varð til í tíma í samfélagsfræði þegar nemendurnir voru að læra um mismunandi lífskjör og hvernig væri hægt að hjálpa öðrum.

Krakkarnir söfnuðu alls 11.057 kr. með fjölbreyttum hætti, svo sem með því að safna flöskum og dósum, halda tombólur og einn nemandinn gaf hluta af peningum sem hann hafði nýlega fengið í afmælisgjöf. Kennslustundir í samfélagsfræði og kristinfræði voru nýttar undir söfnunina og fræðslu henni tengdri en þar að auki urðu stærðfræðitímarnir mjög vinsælir þegar þeir voru nýttir í flokkun og talningu á drykkjarílátum sem höfðu safnast.

18. nóv. 2005 : Maður er manns gaman - um heimsóknaþjónusta

Áshildur er framkvæmdastjóri Hafnarfjarðardeildar Rauða kross Íslands.

18. nóv. 2005 : Líflegar umræður í Flensborgarskólanum

Flensborgarskólinn í Hafnarfirði.
Fulltrúar frá Rauða krossinum heimsóttu á dögunum nemendur Flensborgarskólans í Hafnarfirði og fræddu þá um starf Rauða krossins, jafnt innanlands sem utan. Fræðslan fór fram í sögu og félagsfræði.

Í áfanga um sögu líðandi stundar voru neyðarvarnir hreyfingarinnar kynntar og meðal annars fjallað um hvernig brugðist er við náttúruhamförum. Nemendur fræddust um hlutverk Rauða kross Íslands í almannavarnakerfinu og skoðuðu meða annars heimasíðu félagsins.