22. des. 2006 : Nemendur í Hamraskóla hugsa til bágstaddra á jólum

Nemendur Hamraskóla héldu litlu jólin hátíðleg miðvikudaginn 20. desember meðal annars með því að færa Rauða krossinum andvirði jólapakka sem nemendur höfðu safnað. Í stað þess að halda jólagjafaleik á litlu jólunum skreyttu börnin umslög með fénu í til að gefa Rauða krossinum.

Fjölnir Sigurjónsson nemandi í 4.-5. A bekk afhenti fulltrúa frá Rauða krossi Íslands rúmlega 80 þúsund krónur en upphæðin rennur í Hjálparsjóð Rauða krossins.

-Það er ánægjulegt að finna ungt fólk sýna samkennd og leggja sitt af mörkum til að gera öðrum lífið léttbærara. Féð rennur í Hjálparsjóð Rauða krossins sem nýttur er þegar vá ber að garði.

7. des. 2006 : Tombólusölur mikilvægar í hjálparstarfi Rauða krossins

Einn duglegasti hópur sjálfboðaliða eru yngstu börnin sem standa fyrir tombólusölum til styrktar Rauða krossinum. Á þessu ári voru það 400 börn sem færðu Rauða krossinum hagnað tombólusölu, flöskusöfnunar eða annarra safnana að fjárhæð 600 þúsund krónum.

Undanfarin ár hefur Ungmennadeild Reykjavíkurdeildar staðið fyrir bíósýningu í viðurkenningarskyni og Laugarásbíó gaf eins og áður eina sýningu. Að þessu sinni var það myndin Ástríkur og víkingarnir. Sýningin var á degi sjálfboðaliðans þann 5. desember og fjölmenntu krakkarnir í bíó. Mátti heyra hlátrasköll í salnum á meðan á myndinni stóð og að henni lokinni voru húrra hróp og lófaklapp.

1. des. 2006 : Styrkur frá Góða hirðinum

Rauði kross Íslands hlaut í dag tveggja milljóna króna styrk frá Góða hirðinum sem ætlað er að nýta í verkefnið Framtíð í nýju landi (FÍNL). Tilgangur þess er að aðstoða víetnömsk ungmenni á aldrinum 15-25 ára við að afla sér menntunar og ná markmiðum sínum. Um er að ræða þriggja ára þróunarverkefni og er lokaárið að hefjast. Við lok þess verður til fyrirmynd sem mun nýtast öðrum hópum innflytjenda og auðvelda þeim aðlögun að íslensku samfélagi. Helga G. Halldórsdóttir, sviðsstjóri innanlandssviðs Rauða krossins, tók við styrknum fyrir hönd félagsins.

Auk Rauða krossins hlutu eftirtalin samtök styrk við þetta sama tilefni: Hjálparstarf kirkjunnar, Umhyggja, Bandalag kvenna, Hjálpræðisherinn, Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, Mæðrastyrksnefnd Kópavogs og Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar. Samtals voru þetta 10 milljónir króna og eru þær ágóði af rekstri Góða hirðisins á árinu.

18. ágú. 2006 : Skemmtileg dagsferð gesta í Dvöl

Gestir í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, fóru í dagsferð 18. júlí um svæði á Reykjanesi og Suðurlandi. Sautján þátttakendur mættu í Dvöl að morgni dags í blíðskaparveðri. Keyrt var um Hafnarfjörð að Kleifarvatni og til Krýsuvíkur. Hópurinn skoðaði jarðhitasvæðið í Krýsuvík og því næst Krýsuvíkurkirkju.

10. ágú. 2006 : Rauði krossinn með fræðslu fyrir unglinga í vinnuskólum

Davíð Sigþórsson leiðbeinandi hjá Reykjavíkurdeild fræðir ungmenni í Vinnuskóla Reykjavíkur.

9. ágú. 2006 : Líflegur útimarkaður á Thorsplani

Fjöldi fólks kíkti í gær á útimarkað Rauðakrossbúðarinnar sem haldinn var á Thorsplani í blíðviðrinu.

1. ágú. 2006 : James Cook leggur úr höfn

1. ágú. 2006 : James Cook leggur úr höfn

Ágústa, til vinstri, og Lára með enskum skipsfélaga þeirra áður en þær lögðu úr höfn.
Föstudaginn 28. júlí lagði enska skólaskútan James Cook úr Hafnarfjarðarhöfn í átta daga ferð meðfram ströndum landsins. Meðal áhafnarmeðlima eru tvær stelpur úr Ungmennahreyfingu Rauða krossins, Lára Ágústsdóttir og Ágústa Aronsdóttir sem eru félagar í Kjósarsýsludeild. Eru þær fullar tilhlökkunar fyrir ferðalaginu.

Skútan er í eigu ensku samtakanna Ocean Youth Trust North og markmiðið með henni er að styrkja leiðtogahæfileika ungs fólks og þjálfa það í því að vinna í hópi.

17. júl. 2006 : Dvöl hlýtur milljón króna í styrk frá Bónus

Garðar H. Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar, tekur við styrknum úr hendi Jóhannesar Jónssonar kaupmanns. Á milli þeirra eru Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs, og Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus.
Á þjóðhátíðardaginn fékk Dvöl, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, afhentan styrk frá Bónus að upphæð ein milljón króna. Féð mun renna í ferða- og tómstundasjóð gesta Dvalar og mun þannig nýtast til að rjúfa félagslega einangrun þeirra.

Jóhannes Jónsson kaupmaður afhenti Garðari H. Guðjónssyni, formanni Kópavogsdeildar, styrkinn við opnun nýrrar verslunar Bónus í Ögurhvarfi í Kópavogi að viðstöddum nokkrum gestum Dvalar og fjölmörgum viðskiptavinum verslunarinnar.

 ?Þetta er höfðingleg gjöf og ánægjuleg viðurkenning á því starfi sem fram fer í Dvöl.

27. jún. 2006 : Vel heppnuð ferð til Berlínar

Ferðalangarnir frá Læk staddir við Berlínarmúrinn.
Frá stofnun Lækjar, athvarfs fyrir fólk með geðraskanir, hafa gestir starfrækt ferðafélagið Sólarsýn. Markmið félagsins er að standa fyrir ferðum jafnt innanlands sem utan. Í maí stóð félagið fyrir annari utanlandsferð sinni þegar 14 manna hópur flaug til Berlínar.

Ferðin var farin þann 25. maí og stóð í 6 daga. Það er mál manna að einkar vel hafi tekist til og eru ferðalangar mjög ánægðir með ferðina. Berlín er um margt spennandi borg og ekki skortur á athyglisverðum stöðum til að kynna sér. Dagskrá ferðarinnar var fjölbreytt og meðal þeirra staða sem skoðaðir voru má nefna glæsilegan dýragarð í miðborg Berlínar, leifar Berlínarmúrsins, Brandenborgarhliðið og fleira.

14. jún. 2006 : Hjálpfús börn í leikskólanum Rjúpnahæð

Börn í leikskólanum Rjúpnahæð með gjafirnar sem þau afhentu Fanneyju Karlsdóttur, framkvæmdastjóra Kópavogsdeildar.
Börn í leikskólanum Rjúpnahæð í Kópavogi komu nýlega í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins og afhentu leikföng sem þau höfðu safnað handa börnum í neyð. 

Leikskólabörnin hafa verið að læra um Hjálpfús að undanförnu en það er fræðsluefni sem inniheldur sögur sem sagðar eru af Rauða kross stráknum Hjálpfúsi í formi fingurbrúðu. Markmið námsefnisins er að kenna nemendum hversu mikilvægt það er að rétta fólki hjálparhönd þegar eitthvað bjátar á.

13. jún. 2006 : Dvalargestir í Króatíu

Hópurinn fyrir framan gistiheimilið.
Mig langar í nokkrum orðum að segja frá ferð Dvalarhópsins til Króatíu, um leið og ég vil fyrir hönd hópsins þakka öllum sem komu nálægt því að gera þessa ferð mögulega.

Undirbúningur og skipulagning fyrir ferðina var í höndum starfsfólks Dvalar, svo og leiðir til að ná kostnaðinum niður.

Dvalið var í eina viku á hóteli við Adríahafið í 25-29ºC hita í sól og logni. Við fórum 12 saman frá Dvöl aðfaranótt miðvikudagsins 17. maí sl. og tók ferðin um 11 klukkustundir, þar til komið var á áfangastað.

6. jún. 2006 : Líf og fjör á Björtum dögum

Krakkarnir í móttökudeild Lækjarskóla og Ungmennahreyfingu Rauða krossins í Hafnarfirði unnu saman að fræðslu um fordóma og mismunun.
Félagar í Ungmennahreyfingu Rauða krossins í Hafnarfirði, URKÍ-H, tóku á laugardaginn þátt í lista- og menningarhátíðinni Björtum dögum sem stendur yfir í Hafnarfjarðafirði þessa dagana.

Að deginum var opið hús í móttökudeild Lækjarskóla þar sem nemendur deildarinnar og félagar í URKÍ-H buðu uppá fjölbreytt skemmtiatriði. Krakkarnir sem fram komu voru á aldrinum 7-16 ára og unnu skemmtiatriðin sjálf. Meðal atriða voru dans, söngur og ljóðalestur. Í lokin sungu krakkarnir Meistara Jakob á móðurmáli sínu sem endaði í fjöldasöng á íslensku.

31. maí 2006 : Vorferð Rauða kross ungmenna

Krakkarnir saman komnir á Þingvöllum.
Á uppstigningardag héldu tæplega 50 krakkar í ungmennastarfi Rauða kross deildanna á höfuðborgarsvæðinu í sameiginlega vorferð.

Eftir að allir höfðu verið sóttir lá leiðin á Þingvöll þar sem stoppað var við Hakið og útsýnið skoðað áður en gengið var niður Almannagjá. Frá Þingvöllum var haldið í Þrastarlund og slegið upp grillveislu á tjaldstæðinu, farið í leiki og mikið hlegið. Eftir ánægjulega veru í Þrastarlundi var brunað á Stokkseyri þar sem krakkarnir skelltu sér í sund.

8. maí 2006 : Vaxandi áhugi á sjálfboðnu Rauða kross starfi

Garðar er formaður Kópavogsdeildar og Fanney er framkvæmdastjóri deildarinnar

7. apr. 2006 : Frábær söfnun á fatamarkaði MK-nema

Nína Helgadóttir, sem veitti söfnunarfénu viðtöku, er hér ásamt fulltrúum nemenda í MK, Garðari Guðjónssyni formanni Kópavogsdeildar og Fanneyju Karlsdóttur framkvæmdastjóra deildarinnar.
Nemendur í áfanga um sjálfboðið starf í MK afhentu í gær Rauða krossi Íslands 140.017 krónur sem renna eiga til götubarna í Mósambík. Fjárhæðin er ágóði af fatamarkaði sem haldinn var í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar 1. apríl síðastliðinn.

Nína Helgadóttir, sem sinnir verkefnum Rauða kross Íslands í Afríku, veitti söfnunarfé MK-nemanna viðtöku í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og sagði að fjárhæðin myndi nýtast afar vel þeim götubörnum í Mósambík sem leita skjóls í athvörfum Rauða krossins.

30. mar. 2006 : Fatamarkaður MK-nema til styrktar götubörnum í Mósambík

Nemendurnir flokkuðu föt fyrir markaðinn í fataflokkunarstöð Rauða krossins.
Hópur nemenda í Menntaskólanum í Kópavogi heldur fatamarkað laugardaginn 1. apríl kl. 11-16 í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins í Hamraborg 11. Notuð föt verða seld á vægu verði, allt á 300 eða 500 krónur. Fólki er einnig velkomið að prútta. Ágóðinn af markaðnum rennur til styrktar götubörnum í Mósambík.

22. mar. 2006 : Rauða kross starf kynnt á MK-deginum

Sjálfboðaliðarnir Hjördís Perla og Guðbjörg voru meðal þeirra sem kynntu samstarf Kópavogsdeildar og MK á MK-deginum.
Samstarf Kópavogsdeildar Rauða krossins og Menntaskólans í Kópavogi var á dögunum kynnt á opnu húsi í skólanum þar sem vakin var athygli á fjölbreyttu námsframboði skólans. Nemendur úr MK sem taka áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf kynntu þátttöku sína í verkefnum Kópavogsdeildar. Áfanginn sem var í fyrsta sinn í boði á þessari önn verður aftur í boði á haustönn.

Jafnframt var vakin athygli á aðkomu Kópavogsdeildar að áföngum í sálfræði og félagsfræði þar sem nemendur kynnast ákveðnum verkefnum Rauða krossins sem tengjast námsefninu.

21. mar. 2006 : Skemmtileg heimsókn úr Grafarvogi

Hér má sjá hluta nemenda Foldaskóla sem heimsóttu Hafnarfjörðinn.
Um 80 hressir krakkar úr Foldaskóla í Grafarvogi heimsóttu Rauða krossinn í Hafnarfirði í síðustu viku. Voru þar á ferðinni 8. bekkingar sem voru að kynna sér starf Rauða krossins. Ferðin var liður í þemadögum sem nú standa yfir í skólanum.

Hver bekkur fékk þrjár kynningar um starfsemi Rauða krossins. Í Fataflokkunarstöðinni tók Örn Ragnarsson verkefnisstjóri á móti krökkunum og kynnti þeim það starf sem þar fer fram s.s. fataflokkun, fatasendingar til útlanda og fataúthlutun.

14. mar. 2006 : Rauði krossinn á Imbrudögum í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ

Áslaug Arnoldsdóttir sendifulltrúi ræðir við áhugasama stúlku í Fjölbrautarskólanum.
Fjölbrautarskólinn í Garðabæ hélt svonefnda Imbrudaga í skólanum í síðustu viku þar sem þemað var Afríka, og mannúð og hjálparstarf með áherslu á börn og stríð. Rauði krossinn heimsótti skólann og lagði til fræðslu um málefnið.

Formaður Garðabæjardeildar Rauða krossins Ólafur Reimar Gunnarsson kynnti deildina og helstu verkefni hennar og svæðasamstarf sem er með öðrum deildum á höfuðborgarsvæðinu.

13. mar. 2006 : Sjálfboðaliðar heiðraðir á aðalfundi

Tómas Árnason eiginmaður Þóru Kristínar Eiríksdóttur og Anna Bjarnadóttir.
Þær Anna Bjarnadóttir og Þóra Kristín Eiríksdóttir fengu sérstaka viðurkenningu fyrir mikið og óeigingjarnt sjálfboðið starf í þágu Kópavogsdeildar á aðalfundi deildarinnar sem haldinn var í gærkvöldi. Anna og Þóra Kristín voru báðar í hópi sjö kvenna sem ýttu starfi heimsóknavina í Sunnuhlíð úr vör í september 1984. Þær hafa síðan starfað sleitulaust fyrir deildina sem heimsóknavinir.

Þóra Kristín var lengi ein helsta driffjöðurin í að skipuleggja starfið og Anna hefur, auk þess að vera heimsóknavinur, farið fyrir öflugum hópi kvenna sem starfar að verkefninu Föt sem framlag.

3. mar. 2006 : Reykjavíkurdeild Rauða krossins hlaut viðurkenningu frá Fréttablaðinu

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands afhendir Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins.
Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands hlaut í gær viðurkenningu frá Fréttablaðinu fyrir störf sín í þágu heimilislausra kvenna með stofnun athvarfsins Konukots árið 2004.

Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins voru veitt í fyrsta sinn í gær og var Reykjavíkurdeildin tilnefnd ásamt þremur öðrum félagasamtökum: Byrginu, Geðhjálp og Forma, samtökum átröskunarsjúklinga, sem hlutu verðlaunin.

22. feb. 2006 : Fjölgun í hópi heimsóknavina Kópavogsdeildar

Hluti af þátttakendum á námskeiði fyrir heimsóknavini.
Kópavogsdeild Rauða krossins hélt nýverið námskeið fyrir nýja sjálfboðaliða í heimsóknaþjónustu. Nýir heimsóknavinir eru því að hefja störf enda ekki vanþörf á þar sem deildin hefur fengið allmargar óskir um heimsóknir sjálfboðaliða að undanförnu. Meirihluti þeirra sem notfæra sér þjónustuna eru aldraðir en þó eru nokkrir yngri, allt niður í tvítugt.

Heimsóknavinir eru sjálfboðaliðar sem rjúfa einsemd og félagslega einangrun með heimsóknum á einkaheimili eða stofnanir.   

20. feb. 2006 : Rausnarleg gjöf til Kvennaathvarfsins

Drífa Snædal og Þórlaug Jónsdóttir með föndurhópnum sem hittist á hverjum miðvikudegi í húsnæði Reykjavíkurdeildar Rauða krossins.
Föndurhópur í Kvennadeild Reykjavíkurdeildar Rauða krossins styrkti Kvennaathvarfið með ágóða af basarsölu 2005, en á hverju ári er valið eitt verðugt verkefni til að styrkja. Styrkurinn var að upphæð 450 þúsund krónur.

?Það er mjög ánægjulegt að geta styrkt svona starfsemi og Kvennaathvarfskonur voru mjög ánægðar og sögðu að þetta framlag kæmi að góðum notum,? sagði Auður Kristjánsdóttir verkefnisstjóri Kvennadeildarinnar.

17. feb. 2006 : Rausnarlegt framlag Lækjarskóla til hjálparstarfsins í Pakistan

Fulltrúar nemenda í Lækjarskóla afhenda Halldóru Kr. Pétursdóttur afrakstur söfnunarinnar.
Nemendur og starfsfólk Lækjarskóla afhentu Rauða krossinum rausnarlegt framlag sitt til hjálparstarfsins í Pakistan. Alls söfnuðust 155.341 kr. sem rennur beint til hjálparstarfs Rauða hálfmánans í Pakistan, en mikill jarðskjálfti skók landið í október síðastliðnum.

Nemendaráð Lækjarskóla rekur morgunverðarsjoppu í skólanum þar sem nemendur eiga þess kost að kaupa sér hollustufæði. Ákvað nemendaráðið að leggja desembersöluna í söfnunina en að auki komu nemendur með frjáls framlög og starfsfólkið lagði einnig sitt af mörkum.

17. feb. 2006 : Fatamarkaður til styrktar ferðalöngum í Dvöl

Gestir í Dvöl munu selja hluta af hannyrðum sínum á fatamarkaðnum.
Gestir í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, halda fatamarkað laugardaginn 18. febrúar kl. 11-16 í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins Hamraborg 11, 2. hæð. Seld verða notuð föt á vægu verði, allt á 300 kr. eða 500 kr. Ýmsar hannyrðir og málverk eftir gesti Dvalar verða einnig til sölu. Kaffi á könnunni.

Allur ágóði af markaðnum rennur í ferðasjóð Dvalar en gestirnir eru að safna fyrir ferðalagi til Króatíu í sumar. Ferðir eru kærkomin upplyfting fyrir marga af gestum Dvalar sem treysta sér ekki í ferðalög nema með stuðningi starfsfólks og sjálfboðaliða Dvalar.

16. feb. 2006 : Ungir innflytjendur í ratleik um miðbæ Reykjavíkur

Sjálfboðaliðarnir Helena og Freyja með Antoni og Irfan í ráðhúsinu.
Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar Rauða kross Íslands fóru á dögunum með unga innflytjendur í ratleik um miðbæ Reykjavíkur. Krakkarnir þurftu að finna Austurvöll, Arnarhól, útitaflið, Bæjarins bestu og svara spurningum á hverjum stað.

Á Austurvelli fannst 10 ára dömu ekki nóg að svara því hvaða dag Jón Sigurðsson ætti afmæli heldur bætti því við að hann væri fæddur 1811. Endastöðin hjá öllum var við stóra kortið af Íslandi í ráðhúsinu.

15. feb. 2006 : Opið hús í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð á 112 daginn

Margir litu við hjá Rauða krossinum og fræddust um starf félagsins innan almannavarnakerfisins.
Þann 11. febrúar síðastliðinn fylktu allir helstu viðbragðsaðilar á höfuðborgarsvæðinu liði í sameiginlegri kynningu á því umfangsmikla björgunar- og neyðarkerfi sem fer í gang þegar fólk í nauðum hringir í Neyðarlínuna 112.

Rauða kross deildir á höfuðborgarsvæðinu voru með tvo kynningarbása á sýningunni. Í öðrum þeirra gafst almenningi kostur á að kynnast nýjum staðli í endurlífgun ásamt því að prófa sjálfvirk hjartastuðtæki. Fjölmargir gestir notuðu tækifærið og reyndu kunnáttu sína í skyndihjálp á kennslubrúðum.

6. feb. 2006 : Rauði krossinn á Framadögum

Huldís Haraldsdóttir, Fanney Karlsdóttir, Elfa Dögg S. Leifsdóttir og Áslaug Arnaldsdóttir í bás Rauða krossins á Framadögum.

AIESEC, alþjóðlegt félag háskólanema, stóð fyrir Framadögum í 12. sinn föstudaginn 3. febrúar. Markmið Framadaga er fyrst og fremst að veita háskólanemum greiðan aðgang að framsæknum fyrirtækjum og forsvarsmönnum þeirra. Háskólanemar fá þannig tækifæri til að gera sér grein fyrir því hvernig menntun þeirra nýtist í atvinnulífinu.

Rauða krossinum var boðið að taka þátt í Framadögum eins og undanfarin þrjú ár. Er þetta gott tækifæri fyrir félagið að kynna starfsemina fyrir háskólanemum. Áhersla var lögð á að kynna sjálfboðin störf og störf sendifulltrúa á erlendri grundu.

1. feb. 2006 : Gestir Dvalar undirbúa fatamarkað í fjáröflunarskyni

Joakim sjálfboðaliði hefur leiðbeint gestum Dvalar í myndlist og málverk gestanna gætu orðið til sýnis og jafnvel til sölu á fatamarkaðnum.
Þessa dagana er fjölbreytt dagskrá í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða í Kópavogi. Gestir athvarfsins eru að undirbúa fatamarkað sem haldinn verður í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar laugardaginn 18. febrúar. Seld verða notuð föt á vægu verði auk ýmissa hannyrða sem gestirnir útbúa.

Ágóðinn af fatamarkaðnum mun renna í ferðasjóð Dvalar og er markið sett á að komast alla leið til Króatíu í sumar auk þess að fara í eina dagsferð innanlands.

Ferðir eru kærkomin upplyfting fyrir marga af gestum Dvalar sem treysta sér ekki í ferðalög nema með stuðningi starfsfólks og sjálfboðaliða Dvalar.

30. jan. 2006 : Heitar umræður um fordóma og mismunun

Þessir hressu krakkar úr Öldutúnsskóla tóku þátt í umræðum um fordóma og mismunun undir kjörorðunum ,,Byggjum betra samfélag."
Það sköpuðust heitar umræður um fordóma og mismunun meðal nemenda í 10. bekkjum Öldutúnsskóla í Hafnarfirði er þau heimsóttu Sjálfboðamiðstöð Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins fyrir helgi.

Krakkarnir röltu ásamt kennara sínum niður í miðbæ þar sem deildin er til húsa og spjölluðu við Áshildi Linnet framkvæmdastjóra um fordóma og mismunun í íslensku samfélagi undir kjörorðunum ,,byggjum betra samfélag".

Byggjum betra samfélag er vitundarvakning Rauða krossins um fordóma og mismunun og er markmiðið að vekja ungt fólk til umhugsunar um málefni minnihlutahópa í landinu og auka skilning þeirra og umburðarlyndi gagnvart náunganum.

25. jan. 2006 : Skyndihjálparhópur með námskeið í Alviðru

Skyndihjálparhópur Reykjavíkurdeildar Rauða krossins hélt austur í Alviðru í Ölfusi helgina 20.-22. janúar síðastliðinn, líkt og hann hefur gert árlega um nokkurra ára skeið, í þeim tilgangi að halda framhaldsnámskeið í skyndihjálp.

Í þetta sinn voru þátttakendur 17, að leiðbeinendum meðtöldum, og voru nokkrir þeirra félagar í nýstofnuðum skyndihjálparhópi á Ísafirði.

Námskeiðið byggist að stórum hluta upp á verklegum æfingum þar sem settir eru upp slysavettvangar sem þátttakendur glíma við í sameiningu.

24. jan. 2006 : Nemendur MK velja áfanga um sjálfboðið starf

Nemendur MK hafa áður kynnst starfi Rauða krossins í gegnum fræðslu í nokkrum námsáföngum.
Á þessari önn gefst nemendum Menntaskólans í Kópavogi í fyrsta sinn kostur á að velja áfangann SJÁ 102, sem felur í sér sjálfboðið starf, í samráði við Kópavogsdeild Rauða krossins. Kennarar í MK og fulltrúar Kópavogsdeildar tóku sig saman um að hanna áfangann með það að markmiði að gefa nemendum færi á að kynnast sjálfboðnu starfi og fá það metið sem hluta af námi sínu.

Nemendur munu sinna verkefnum á borð við aðstoð við aldraða og einmana, störf í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, og félagsstarf með ungum innflytjendum. Í lok annar skipuleggja nemendurnir og hafa umsjón með fatamarkaði sem verður haldinn í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar. Allur ágóði af markaðnum rennur til styrktar ungmennum í neyð erlendis.

18. jan. 2006 : Nemendur Álftamýrarskóla læra um starf Rauða krossins

Nemendur 10. bekkjar Álftamýrarskóla kynntu sér fjölbreytt starf Rauða krossins út um allan heim.
Lífsleiknitímar í 10. bekk Álftamýrarskóla hafa undanfarið verið notaðir til fræðslu um Rauða krossinn. Í byrjun var almenn kynning á hreyfingunni, markmiðum með skólafræðslu Rauða kross Íslands og bekkirnir sáu myndbandið ?Æska í skugga ofbeldis,? en þar er fjallað um börn í stríði.

Með skólafræðslu Rauða krossins er stefnt að því að nemendur séu sér meðvitaðir um þann mun sem er á aðstæðum fólks, bæði á Íslandi og um allan heim. Einnig að þeir kynnist alþjóðlegri mannúðarstarfsemi og samhjálp.

?Nemendur kynntu sér starfsemi Rauða krossins hér á landi og erlendis og voru hvattir til að kynna sér unglingastarfið og þeim uppálagt að fara inn á heimasíðu félagsins www.redcross.is,? sagði Fanný Gunnarsdóttir námsráðgjafi og lífsleiknikennari.

18. jan. 2006 : Afhentu verulega fjárhæð til hjálparstarfs í Pakistan

Aníta Ólöf, Hjördís, Kristján og Garðar við afhendingu söfnunarfjárins.
Aníta Ólöf Jónsdóttir og Hjördís Einarsdóttir afhentu í dag Kópavogsdeild Rauða kross Íslands ágóðann af tónleikum til styrktar fórnarlömbum jarðskjálftans í Pakistan sem haldnir voru í Austurbæ 29. desember síðastliðinn.

Upphæðin sem safnaðist vegna tónleikanna var 610.000 kr. en auk þess voru lagðar inn 280.000 kr. á söfnunarreikning Rauða krossins dagana í kringum tónleikana. Samtals söfnuðust því 890.000 kr. sem renna óskertar í hjálparstarf Rauða krossins á hamfarasvæðunum.

17. jan. 2006 : Rauði krossinn æfir viðbrögð vegna bruna í fjölbýlishúsi

Sjálfboðaliðar léku íbúa fjölbýlishússins og skráðu sig í fjöldahjálparstöðinni.
Á laugardaginn voru æfð viðbrögð Rauða krossins við aðstoð íbúa sem þurfa að yfirgefa heimili sín vegna bruna í íbúablokk.

Opnuð var fjöldahjálparstöð í Fellaskóla og komu 25 manns í stöðina og veittu fulltrúar Rauða kross deilda á höfuðborgarsvæði almenna umönnun, sálrænan stuðning og skyndihjálp.

Neyðarnefndin var staðsett í Fellaskóla þar sem 15 þjálfaðir fjöldahjálparstjórar voru að störfum auk starfsfólks frá skólanum. Samhliða voru tveir fulltrúar landsskrifstofu Rauða krossins í Samhæfingarstöðinni og æfðu úrvinnslu skráningar og aðra aðstoð vegna aðgerðarinnar.

16. jan. 2006 : Microsoft Íslandi aðstoðar flóttamenn

 
Elvar Steinn Þorkelsson, framkvæmdastjóri Microsoft, Katla Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Reykjavíkurdeildar Rauða krossins og Karen Theodórsdóttir, verkefnisstjóri Reykjavíkurdeildar Rauða krossins.
Nýjar tölvur og hugbúnaður hjálpa til við aðlögun að íslensku samfélagi
Microsoft Íslandi afhenti á dögunum Reykjavíkurdeild Rauða krossins hugbúnað að gjöf. Rauði krossinn mun svo útdeila honum til flóttamannafjölskyldna sem komu hingað til lands frá Kosovo og Kólumbíu í haust. Hugbúnaðurinn, Microsoft Windows XP stýrikerfi og Microsoft Office, verður notaður í tölvur sem flóttamennirnir hafa fengið að gjöf frá velunnurum Rauða krossins.

Fjölskyldurnar sem um ræðir eru sjö talsins, ein sjö manna fjölskylda frá Kosovo og sex einstæðar mæður frá Kólumbíu með alls 18 börn á sínu framfæri. Hver fjölskylda fær sína eigin tölvu með hugbúnaðinum frá Microsoft uppsettum. Allir fjölskyldumeðlimir stunda nú íslenskunám af miklum krafti og munu tölvurnar og hugbúnaðurinn hjálpa þeim umtalsvert við að fóta sig í nýju landi.

Karen Theodórsdóttir, verkefnisstjóri hjá Reykjavíkurdeild Rauða krossins, segir miklu máli skipta fyrir flóttafólkið að hafa aðgang að tölvum og Internetinu á heimilum sínum. ?Það er mikilvægt við íslenskunámið, því bæði geta hinir fullorðnu nýtt tölvurnar við fjarnám og börnin þurfa ekki lengur að vinna öll sín verkefni á tölvustofum skólanna eins og verið hefur. Jafnframt á fólkið auðveldara með að halda sambandi við ættmenni erlendis og fylgjast með fréttum frá fyrri heimaslóðum. Þessi gjöf frá Microsoft á því eftir að reynast kærkomin.?

5. jan. 2006 : Viðurkenningarhafar Alþjóðahúss 2005

Frá vinstri: Bjarni Karlsson, Jóna Hrönn Bolladóttir, Vigdís Arna Jónsdóttir, Hope Knútsson og Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson. Fremst er barnabarn Hafdísar.
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson afhenti 30.12.2005 í Alþjóðahúsinu Jónu Hrönn Bolladóttur, Bjarna Karlssyni, Hope Knútsson og Kramhúsinu viðurkenningu Alþjóðahúss fyrir lofsverða frammistöðu í málefnum innflytjenda á Íslandi. Viðurkenningarnar eru veittar í þremur flokkum; einstaklingur af innlendum uppruna, einstaklingur af erlendum uppruna og fyrirtæki eða stofnun. Alþjóðahúsið er rekið af Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands.

Viðurkenningarnar, sem nú eru veittar í þriðja skiptið, þjóna þeim tilgangi að vekja athygli á jákvæðu starfi sem unnið er hér á landi í málefnum innflytjenda. Þeir sem viðurkenninguna fá eru vel að henni komnir enda unnið frumkvöðlastarf á undanförnum árum í málefnum fjölmenningarlegs samfélags.

2. jan. 2006 : Nemendur á Álftanesi safna til styrktar hjálparstarfi í Pakistan

Fulltrúar Álftanesdeildar Rauða kross Íslands taka við framlagi frá Álftanesskóla.
Máltækið um að sælla sé að gefa en þiggja á svo sannarlega við enn þann dag í dag. Nemendur Álftanesskóla tóku sig nefnilega til í desember og ákváðu að sleppa því að skiptast á gjöfum á litlu jólum skólans, heldur notuðu andvirði gjafanna til að styrkja hjálparstarf Rauða krossins í Pakistan.

Nemendaráðið afhenti stjórnarmönnum Álftanesdeildar Rauða krossins söfnunarféð við formlega athöfn í húsakynnum skólans mánudaginn 19. desember síðastliðinn. Álftanesdeild óskar nemendum skólans, fjölskyldum þeirra og starfsfólki gleðilegra jóla og þakkar um leið fyrir framlagið.