30. jan. 2006 : Heitar umræður um fordóma og mismunun

Þessir hressu krakkar úr Öldutúnsskóla tóku þátt í umræðum um fordóma og mismunun undir kjörorðunum ,,Byggjum betra samfélag."
Það sköpuðust heitar umræður um fordóma og mismunun meðal nemenda í 10. bekkjum Öldutúnsskóla í Hafnarfirði er þau heimsóttu Sjálfboðamiðstöð Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins fyrir helgi.

Krakkarnir röltu ásamt kennara sínum niður í miðbæ þar sem deildin er til húsa og spjölluðu við Áshildi Linnet framkvæmdastjóra um fordóma og mismunun í íslensku samfélagi undir kjörorðunum ,,byggjum betra samfélag".

Byggjum betra samfélag er vitundarvakning Rauða krossins um fordóma og mismunun og er markmiðið að vekja ungt fólk til umhugsunar um málefni minnihlutahópa í landinu og auka skilning þeirra og umburðarlyndi gagnvart náunganum.

25. jan. 2006 : Skyndihjálparhópur með námskeið í Alviðru

Skyndihjálparhópur Reykjavíkurdeildar Rauða krossins hélt austur í Alviðru í Ölfusi helgina 20.-22. janúar síðastliðinn, líkt og hann hefur gert árlega um nokkurra ára skeið, í þeim tilgangi að halda framhaldsnámskeið í skyndihjálp.

Í þetta sinn voru þátttakendur 17, að leiðbeinendum meðtöldum, og voru nokkrir þeirra félagar í nýstofnuðum skyndihjálparhópi á Ísafirði.

Námskeiðið byggist að stórum hluta upp á verklegum æfingum þar sem settir eru upp slysavettvangar sem þátttakendur glíma við í sameiningu.

24. jan. 2006 : Nemendur MK velja áfanga um sjálfboðið starf

Nemendur MK hafa áður kynnst starfi Rauða krossins í gegnum fræðslu í nokkrum námsáföngum.
Á þessari önn gefst nemendum Menntaskólans í Kópavogi í fyrsta sinn kostur á að velja áfangann SJÁ 102, sem felur í sér sjálfboðið starf, í samráði við Kópavogsdeild Rauða krossins. Kennarar í MK og fulltrúar Kópavogsdeildar tóku sig saman um að hanna áfangann með það að markmiði að gefa nemendum færi á að kynnast sjálfboðnu starfi og fá það metið sem hluta af námi sínu.

Nemendur munu sinna verkefnum á borð við aðstoð við aldraða og einmana, störf í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, og félagsstarf með ungum innflytjendum. Í lok annar skipuleggja nemendurnir og hafa umsjón með fatamarkaði sem verður haldinn í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar. Allur ágóði af markaðnum rennur til styrktar ungmennum í neyð erlendis.

18. jan. 2006 : Nemendur Álftamýrarskóla læra um starf Rauða krossins

Nemendur 10. bekkjar Álftamýrarskóla kynntu sér fjölbreytt starf Rauða krossins út um allan heim.
Lífsleiknitímar í 10. bekk Álftamýrarskóla hafa undanfarið verið notaðir til fræðslu um Rauða krossinn. Í byrjun var almenn kynning á hreyfingunni, markmiðum með skólafræðslu Rauða kross Íslands og bekkirnir sáu myndbandið ?Æska í skugga ofbeldis,? en þar er fjallað um börn í stríði.

Með skólafræðslu Rauða krossins er stefnt að því að nemendur séu sér meðvitaðir um þann mun sem er á aðstæðum fólks, bæði á Íslandi og um allan heim. Einnig að þeir kynnist alþjóðlegri mannúðarstarfsemi og samhjálp.

?Nemendur kynntu sér starfsemi Rauða krossins hér á landi og erlendis og voru hvattir til að kynna sér unglingastarfið og þeim uppálagt að fara inn á heimasíðu félagsins www.redcross.is,? sagði Fanný Gunnarsdóttir námsráðgjafi og lífsleiknikennari.

18. jan. 2006 : Afhentu verulega fjárhæð til hjálparstarfs í Pakistan

Aníta Ólöf, Hjördís, Kristján og Garðar við afhendingu söfnunarfjárins.
Aníta Ólöf Jónsdóttir og Hjördís Einarsdóttir afhentu í dag Kópavogsdeild Rauða kross Íslands ágóðann af tónleikum til styrktar fórnarlömbum jarðskjálftans í Pakistan sem haldnir voru í Austurbæ 29. desember síðastliðinn.

Upphæðin sem safnaðist vegna tónleikanna var 610.000 kr. en auk þess voru lagðar inn 280.000 kr. á söfnunarreikning Rauða krossins dagana í kringum tónleikana. Samtals söfnuðust því 890.000 kr. sem renna óskertar í hjálparstarf Rauða krossins á hamfarasvæðunum.

17. jan. 2006 : Rauði krossinn æfir viðbrögð vegna bruna í fjölbýlishúsi

Sjálfboðaliðar léku íbúa fjölbýlishússins og skráðu sig í fjöldahjálparstöðinni.
Á laugardaginn voru æfð viðbrögð Rauða krossins við aðstoð íbúa sem þurfa að yfirgefa heimili sín vegna bruna í íbúablokk.

Opnuð var fjöldahjálparstöð í Fellaskóla og komu 25 manns í stöðina og veittu fulltrúar Rauða kross deilda á höfuðborgarsvæði almenna umönnun, sálrænan stuðning og skyndihjálp.

Neyðarnefndin var staðsett í Fellaskóla þar sem 15 þjálfaðir fjöldahjálparstjórar voru að störfum auk starfsfólks frá skólanum. Samhliða voru tveir fulltrúar landsskrifstofu Rauða krossins í Samhæfingarstöðinni og æfðu úrvinnslu skráningar og aðra aðstoð vegna aðgerðarinnar.

16. jan. 2006 : Microsoft Íslandi aðstoðar flóttamenn

 
Elvar Steinn Þorkelsson, framkvæmdastjóri Microsoft, Katla Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Reykjavíkurdeildar Rauða krossins og Karen Theodórsdóttir, verkefnisstjóri Reykjavíkurdeildar Rauða krossins.
Nýjar tölvur og hugbúnaður hjálpa til við aðlögun að íslensku samfélagi
Microsoft Íslandi afhenti á dögunum Reykjavíkurdeild Rauða krossins hugbúnað að gjöf. Rauði krossinn mun svo útdeila honum til flóttamannafjölskyldna sem komu hingað til lands frá Kosovo og Kólumbíu í haust. Hugbúnaðurinn, Microsoft Windows XP stýrikerfi og Microsoft Office, verður notaður í tölvur sem flóttamennirnir hafa fengið að gjöf frá velunnurum Rauða krossins.

Fjölskyldurnar sem um ræðir eru sjö talsins, ein sjö manna fjölskylda frá Kosovo og sex einstæðar mæður frá Kólumbíu með alls 18 börn á sínu framfæri. Hver fjölskylda fær sína eigin tölvu með hugbúnaðinum frá Microsoft uppsettum. Allir fjölskyldumeðlimir stunda nú íslenskunám af miklum krafti og munu tölvurnar og hugbúnaðurinn hjálpa þeim umtalsvert við að fóta sig í nýju landi.

Karen Theodórsdóttir, verkefnisstjóri hjá Reykjavíkurdeild Rauða krossins, segir miklu máli skipta fyrir flóttafólkið að hafa aðgang að tölvum og Internetinu á heimilum sínum. ?Það er mikilvægt við íslenskunámið, því bæði geta hinir fullorðnu nýtt tölvurnar við fjarnám og börnin þurfa ekki lengur að vinna öll sín verkefni á tölvustofum skólanna eins og verið hefur. Jafnframt á fólkið auðveldara með að halda sambandi við ættmenni erlendis og fylgjast með fréttum frá fyrri heimaslóðum. Þessi gjöf frá Microsoft á því eftir að reynast kærkomin.?

5. jan. 2006 : Viðurkenningarhafar Alþjóðahúss 2005

Frá vinstri: Bjarni Karlsson, Jóna Hrönn Bolladóttir, Vigdís Arna Jónsdóttir, Hope Knútsson og Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson. Fremst er barnabarn Hafdísar.
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson afhenti 30.12.2005 í Alþjóðahúsinu Jónu Hrönn Bolladóttur, Bjarna Karlssyni, Hope Knútsson og Kramhúsinu viðurkenningu Alþjóðahúss fyrir lofsverða frammistöðu í málefnum innflytjenda á Íslandi. Viðurkenningarnar eru veittar í þremur flokkum; einstaklingur af innlendum uppruna, einstaklingur af erlendum uppruna og fyrirtæki eða stofnun. Alþjóðahúsið er rekið af Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands.

Viðurkenningarnar, sem nú eru veittar í þriðja skiptið, þjóna þeim tilgangi að vekja athygli á jákvæðu starfi sem unnið er hér á landi í málefnum innflytjenda. Þeir sem viðurkenninguna fá eru vel að henni komnir enda unnið frumkvöðlastarf á undanförnum árum í málefnum fjölmenningarlegs samfélags.

2. jan. 2006 : Nemendur á Álftanesi safna til styrktar hjálparstarfi í Pakistan

Fulltrúar Álftanesdeildar Rauða kross Íslands taka við framlagi frá Álftanesskóla.
Máltækið um að sælla sé að gefa en þiggja á svo sannarlega við enn þann dag í dag. Nemendur Álftanesskóla tóku sig nefnilega til í desember og ákváðu að sleppa því að skiptast á gjöfum á litlu jólum skólans, heldur notuðu andvirði gjafanna til að styrkja hjálparstarf Rauða krossins í Pakistan.

Nemendaráðið afhenti stjórnarmönnum Álftanesdeildar Rauða krossins söfnunarféð við formlega athöfn í húsakynnum skólans mánudaginn 19. desember síðastliðinn. Álftanesdeild óskar nemendum skólans, fjölskyldum þeirra og starfsfólki gleðilegra jóla og þakkar um leið fyrir framlagið.