22. feb. 2006 : Fjölgun í hópi heimsóknavina Kópavogsdeildar

Hluti af þátttakendum á námskeiði fyrir heimsóknavini.
Kópavogsdeild Rauða krossins hélt nýverið námskeið fyrir nýja sjálfboðaliða í heimsóknaþjónustu. Nýir heimsóknavinir eru því að hefja störf enda ekki vanþörf á þar sem deildin hefur fengið allmargar óskir um heimsóknir sjálfboðaliða að undanförnu. Meirihluti þeirra sem notfæra sér þjónustuna eru aldraðir en þó eru nokkrir yngri, allt niður í tvítugt.

Heimsóknavinir eru sjálfboðaliðar sem rjúfa einsemd og félagslega einangrun með heimsóknum á einkaheimili eða stofnanir.   

20. feb. 2006 : Rausnarleg gjöf til Kvennaathvarfsins

Drífa Snædal og Þórlaug Jónsdóttir með föndurhópnum sem hittist á hverjum miðvikudegi í húsnæði Reykjavíkurdeildar Rauða krossins.
Föndurhópur í Kvennadeild Reykjavíkurdeildar Rauða krossins styrkti Kvennaathvarfið með ágóða af basarsölu 2005, en á hverju ári er valið eitt verðugt verkefni til að styrkja. Styrkurinn var að upphæð 450 þúsund krónur.

?Það er mjög ánægjulegt að geta styrkt svona starfsemi og Kvennaathvarfskonur voru mjög ánægðar og sögðu að þetta framlag kæmi að góðum notum,? sagði Auður Kristjánsdóttir verkefnisstjóri Kvennadeildarinnar.

17. feb. 2006 : Rausnarlegt framlag Lækjarskóla til hjálparstarfsins í Pakistan

Fulltrúar nemenda í Lækjarskóla afhenda Halldóru Kr. Pétursdóttur afrakstur söfnunarinnar.
Nemendur og starfsfólk Lækjarskóla afhentu Rauða krossinum rausnarlegt framlag sitt til hjálparstarfsins í Pakistan. Alls söfnuðust 155.341 kr. sem rennur beint til hjálparstarfs Rauða hálfmánans í Pakistan, en mikill jarðskjálfti skók landið í október síðastliðnum.

Nemendaráð Lækjarskóla rekur morgunverðarsjoppu í skólanum þar sem nemendur eiga þess kost að kaupa sér hollustufæði. Ákvað nemendaráðið að leggja desembersöluna í söfnunina en að auki komu nemendur með frjáls framlög og starfsfólkið lagði einnig sitt af mörkum.

17. feb. 2006 : Fatamarkaður til styrktar ferðalöngum í Dvöl

Gestir í Dvöl munu selja hluta af hannyrðum sínum á fatamarkaðnum.
Gestir í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, halda fatamarkað laugardaginn 18. febrúar kl. 11-16 í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins Hamraborg 11, 2. hæð. Seld verða notuð föt á vægu verði, allt á 300 kr. eða 500 kr. Ýmsar hannyrðir og málverk eftir gesti Dvalar verða einnig til sölu. Kaffi á könnunni.

Allur ágóði af markaðnum rennur í ferðasjóð Dvalar en gestirnir eru að safna fyrir ferðalagi til Króatíu í sumar. Ferðir eru kærkomin upplyfting fyrir marga af gestum Dvalar sem treysta sér ekki í ferðalög nema með stuðningi starfsfólks og sjálfboðaliða Dvalar.

16. feb. 2006 : Ungir innflytjendur í ratleik um miðbæ Reykjavíkur

Sjálfboðaliðarnir Helena og Freyja með Antoni og Irfan í ráðhúsinu.
Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar Rauða kross Íslands fóru á dögunum með unga innflytjendur í ratleik um miðbæ Reykjavíkur. Krakkarnir þurftu að finna Austurvöll, Arnarhól, útitaflið, Bæjarins bestu og svara spurningum á hverjum stað.

Á Austurvelli fannst 10 ára dömu ekki nóg að svara því hvaða dag Jón Sigurðsson ætti afmæli heldur bætti því við að hann væri fæddur 1811. Endastöðin hjá öllum var við stóra kortið af Íslandi í ráðhúsinu.

15. feb. 2006 : Opið hús í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð á 112 daginn

Margir litu við hjá Rauða krossinum og fræddust um starf félagsins innan almannavarnakerfisins.
Þann 11. febrúar síðastliðinn fylktu allir helstu viðbragðsaðilar á höfuðborgarsvæðinu liði í sameiginlegri kynningu á því umfangsmikla björgunar- og neyðarkerfi sem fer í gang þegar fólk í nauðum hringir í Neyðarlínuna 112.

Rauða kross deildir á höfuðborgarsvæðinu voru með tvo kynningarbása á sýningunni. Í öðrum þeirra gafst almenningi kostur á að kynnast nýjum staðli í endurlífgun ásamt því að prófa sjálfvirk hjartastuðtæki. Fjölmargir gestir notuðu tækifærið og reyndu kunnáttu sína í skyndihjálp á kennslubrúðum.

6. feb. 2006 : Rauði krossinn á Framadögum

Huldís Haraldsdóttir, Fanney Karlsdóttir, Elfa Dögg S. Leifsdóttir og Áslaug Arnaldsdóttir í bás Rauða krossins á Framadögum.

AIESEC, alþjóðlegt félag háskólanema, stóð fyrir Framadögum í 12. sinn föstudaginn 3. febrúar. Markmið Framadaga er fyrst og fremst að veita háskólanemum greiðan aðgang að framsæknum fyrirtækjum og forsvarsmönnum þeirra. Háskólanemar fá þannig tækifæri til að gera sér grein fyrir því hvernig menntun þeirra nýtist í atvinnulífinu.

Rauða krossinum var boðið að taka þátt í Framadögum eins og undanfarin þrjú ár. Er þetta gott tækifæri fyrir félagið að kynna starfsemina fyrir háskólanemum. Áhersla var lögð á að kynna sjálfboðin störf og störf sendifulltrúa á erlendri grundu.

1. feb. 2006 : Gestir Dvalar undirbúa fatamarkað í fjáröflunarskyni

Joakim sjálfboðaliði hefur leiðbeint gestum Dvalar í myndlist og málverk gestanna gætu orðið til sýnis og jafnvel til sölu á fatamarkaðnum.
Þessa dagana er fjölbreytt dagskrá í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða í Kópavogi. Gestir athvarfsins eru að undirbúa fatamarkað sem haldinn verður í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar laugardaginn 18. febrúar. Seld verða notuð föt á vægu verði auk ýmissa hannyrða sem gestirnir útbúa.

Ágóðinn af fatamarkaðnum mun renna í ferðasjóð Dvalar og er markið sett á að komast alla leið til Króatíu í sumar auk þess að fara í eina dagsferð innanlands.

Ferðir eru kærkomin upplyfting fyrir marga af gestum Dvalar sem treysta sér ekki í ferðalög nema með stuðningi starfsfólks og sjálfboðaliða Dvalar.