30. mar. 2006 : Fatamarkaður MK-nema til styrktar götubörnum í Mósambík

Nemendurnir flokkuðu föt fyrir markaðinn í fataflokkunarstöð Rauða krossins.
Hópur nemenda í Menntaskólanum í Kópavogi heldur fatamarkað laugardaginn 1. apríl kl. 11-16 í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins í Hamraborg 11. Notuð föt verða seld á vægu verði, allt á 300 eða 500 krónur. Fólki er einnig velkomið að prútta. Ágóðinn af markaðnum rennur til styrktar götubörnum í Mósambík.

22. mar. 2006 : Rauða kross starf kynnt á MK-deginum

Sjálfboðaliðarnir Hjördís Perla og Guðbjörg voru meðal þeirra sem kynntu samstarf Kópavogsdeildar og MK á MK-deginum.
Samstarf Kópavogsdeildar Rauða krossins og Menntaskólans í Kópavogi var á dögunum kynnt á opnu húsi í skólanum þar sem vakin var athygli á fjölbreyttu námsframboði skólans. Nemendur úr MK sem taka áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf kynntu þátttöku sína í verkefnum Kópavogsdeildar. Áfanginn sem var í fyrsta sinn í boði á þessari önn verður aftur í boði á haustönn.

Jafnframt var vakin athygli á aðkomu Kópavogsdeildar að áföngum í sálfræði og félagsfræði þar sem nemendur kynnast ákveðnum verkefnum Rauða krossins sem tengjast námsefninu.

21. mar. 2006 : Skemmtileg heimsókn úr Grafarvogi

Hér má sjá hluta nemenda Foldaskóla sem heimsóttu Hafnarfjörðinn.
Um 80 hressir krakkar úr Foldaskóla í Grafarvogi heimsóttu Rauða krossinn í Hafnarfirði í síðustu viku. Voru þar á ferðinni 8. bekkingar sem voru að kynna sér starf Rauða krossins. Ferðin var liður í þemadögum sem nú standa yfir í skólanum.

Hver bekkur fékk þrjár kynningar um starfsemi Rauða krossins. Í Fataflokkunarstöðinni tók Örn Ragnarsson verkefnisstjóri á móti krökkunum og kynnti þeim það starf sem þar fer fram s.s. fataflokkun, fatasendingar til útlanda og fataúthlutun.

14. mar. 2006 : Rauði krossinn á Imbrudögum í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ

Áslaug Arnoldsdóttir sendifulltrúi ræðir við áhugasama stúlku í Fjölbrautarskólanum.
Fjölbrautarskólinn í Garðabæ hélt svonefnda Imbrudaga í skólanum í síðustu viku þar sem þemað var Afríka, og mannúð og hjálparstarf með áherslu á börn og stríð. Rauði krossinn heimsótti skólann og lagði til fræðslu um málefnið.

Formaður Garðabæjardeildar Rauða krossins Ólafur Reimar Gunnarsson kynnti deildina og helstu verkefni hennar og svæðasamstarf sem er með öðrum deildum á höfuðborgarsvæðinu.

13. mar. 2006 : Sjálfboðaliðar heiðraðir á aðalfundi

Tómas Árnason eiginmaður Þóru Kristínar Eiríksdóttur og Anna Bjarnadóttir.
Þær Anna Bjarnadóttir og Þóra Kristín Eiríksdóttir fengu sérstaka viðurkenningu fyrir mikið og óeigingjarnt sjálfboðið starf í þágu Kópavogsdeildar á aðalfundi deildarinnar sem haldinn var í gærkvöldi. Anna og Þóra Kristín voru báðar í hópi sjö kvenna sem ýttu starfi heimsóknavina í Sunnuhlíð úr vör í september 1984. Þær hafa síðan starfað sleitulaust fyrir deildina sem heimsóknavinir.

Þóra Kristín var lengi ein helsta driffjöðurin í að skipuleggja starfið og Anna hefur, auk þess að vera heimsóknavinur, farið fyrir öflugum hópi kvenna sem starfar að verkefninu Föt sem framlag.

3. mar. 2006 : Reykjavíkurdeild Rauða krossins hlaut viðurkenningu frá Fréttablaðinu

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands afhendir Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins.
Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands hlaut í gær viðurkenningu frá Fréttablaðinu fyrir störf sín í þágu heimilislausra kvenna með stofnun athvarfsins Konukots árið 2004.

Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins voru veitt í fyrsta sinn í gær og var Reykjavíkurdeildin tilnefnd ásamt þremur öðrum félagasamtökum: Byrginu, Geðhjálp og Forma, samtökum átröskunarsjúklinga, sem hlutu verðlaunin.