22. des. 2006 : Nemendur í Hamraskóla hugsa til bágstaddra á jólum

Nemendur Hamraskóla héldu litlu jólin hátíðleg miðvikudaginn 20. desember meðal annars með því að færa Rauða krossinum andvirði jólapakka sem nemendur höfðu safnað. Í stað þess að halda jólagjafaleik á litlu jólunum skreyttu börnin umslög með fénu í til að gefa Rauða krossinum.

Fjölnir Sigurjónsson nemandi í 4.-5. A bekk afhenti fulltrúa frá Rauða krossi Íslands rúmlega 80 þúsund krónur en upphæðin rennur í Hjálparsjóð Rauða krossins.

-Það er ánægjulegt að finna ungt fólk sýna samkennd og leggja sitt af mörkum til að gera öðrum lífið léttbærara. Féð rennur í Hjálparsjóð Rauða krossins sem nýttur er þegar vá ber að garði.

7. des. 2006 : Tombólusölur mikilvægar í hjálparstarfi Rauða krossins

Einn duglegasti hópur sjálfboðaliða eru yngstu börnin sem standa fyrir tombólusölum til styrktar Rauða krossinum. Á þessu ári voru það 400 börn sem færðu Rauða krossinum hagnað tombólusölu, flöskusöfnunar eða annarra safnana að fjárhæð 600 þúsund krónum.

Undanfarin ár hefur Ungmennadeild Reykjavíkurdeildar staðið fyrir bíósýningu í viðurkenningarskyni og Laugarásbíó gaf eins og áður eina sýningu. Að þessu sinni var það myndin Ástríkur og víkingarnir. Sýningin var á degi sjálfboðaliðans þann 5. desember og fjölmenntu krakkarnir í bíó. Mátti heyra hlátrasköll í salnum á meðan á myndinni stóð og að henni lokinni voru húrra hróp og lófaklapp.

1. des. 2006 : Styrkur frá Góða hirðinum

Rauði kross Íslands hlaut í dag tveggja milljóna króna styrk frá Góða hirðinum sem ætlað er að nýta í verkefnið Framtíð í nýju landi (FÍNL). Tilgangur þess er að aðstoða víetnömsk ungmenni á aldrinum 15-25 ára við að afla sér menntunar og ná markmiðum sínum. Um er að ræða þriggja ára þróunarverkefni og er lokaárið að hefjast. Við lok þess verður til fyrirmynd sem mun nýtast öðrum hópum innflytjenda og auðvelda þeim aðlögun að íslensku samfélagi. Helga G. Halldórsdóttir, sviðsstjóri innanlandssviðs Rauða krossins, tók við styrknum fyrir hönd félagsins.

Auk Rauða krossins hlutu eftirtalin samtök styrk við þetta sama tilefni: Hjálparstarf kirkjunnar, Umhyggja, Bandalag kvenna, Hjálpræðisherinn, Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, Mæðrastyrksnefnd Kópavogs og Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar. Samtals voru þetta 10 milljónir króna og eru þær ágóði af rekstri Góða hirðisins á árinu.