27. des. 2007 : Leikskólinn Norðurberg styrkir börn í Malavi

Hafnarfjarðardeild Rauða krossins tók við framlagi leikskólans Norðurbergs til styrktar bágstöddum börnum í Malaví. Með því að vera dugleg og týna dósir í labbitúrum ásamt því að fá dósir að heiman náðu krakkarnir að safna 10.230.- krónum.

Malavi er í suðurhluta Afríku og er meðal fátækustu landa í heimi. Mörg börn eiga enga foreldra og í bænum Nkalo eru rúmlega 4.000 börn sem Rauði kross Íslands hjálpar á ýmsan hátt svo þau geti haldið áfram í skóla. Byggð hafa verið þrjú athvörf og verða peningarnir notaðir til að kaupa borð og stóla, leikföng og skóladót.

6. des. 2007 : Tombólukrakkar í bíó

Ungmennadeild Reykjavíkurdeildar Rauða krossins stóð fyrir bíósýningu fyrir öll þau tombólubörn á höfuðborgarsvæðinu sem styrktu Rauða krossinn á árinu á degi sjálfboðaliðans í gær. Bíómyndin var Ævintýraeyjan Ibba og var sýningin í boði Laugarásbíós sem hefur undanfarin ár gefið sýningu í þessu skyni.

Framlag þessara yngstu styrktaraðila Rauða krossins nam rúmlega 500.000 krónum á árinu. Krakkarnir hagnast með ýmsum aðferðum; tombólusölu, flöskusöfnun, sölu á eigin listaverkum og ein lítil stúlka á Akranesi seldi hundasúrur.

6. des. 2007 : Húsfyllir á fagnaði vegna alþjóðadags sjálfboðaliðans

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar fylltu sjálfboðamiðstöðina á fagnaði sem haldinn var í gærkvöldi í tilefni af alþjóðadegi sjálfboðaliðans. Sjálfboðaliðar og gestir þeirra áttu notalega stund saman, hlýddu á upplestur, söng og tónlist og nutu góðra veitinga. Garðar H. Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar, greindi frá því í stuttu ávarpi að sjálfboðaliðum deildarinnar hefur fjölgað verulega á árinu eins og á undanförnum árum.

Samningsbundnir sjálfboðaliðar voru 175 fyrir réttu ári en þeim hefur síðan fjölgað í 240 eða um 37 af hundraði. Garðar þakkaði sjálfboðaliðum fyrir frábært framlag þeirra á árinu og sagðist vonast til að sjá sem flesta að störfum á nýju ári.

3. des. 2007 : Frí faðmlög í boði Ungmennahreyfingarinnar

Á Alþjóðlega alnæmisdeginum 1. desember var Ungmennahreyfing Rauða krossins stödd í Smáralindinni til að vekja athygli á málefninu. Boðið var upp á frí faðmlög til þess að sýna fram á að alnæmi berst ekki með snertingu auk þess sem að krakkarnir bjuggu til alnæmismerkið á gólfi Smáralindar.

Krakkarnir seldu rauðar alnæmisnælur sem búnar voru til af fólki sem tekur þátt í sjálfshjálparhópi smitaðra á vegum Rauða krossins í Malaví og rennur allur ágóði af sölunni til hópsins. Á tveimur tímum náðist að safna um 27.000 krónum og á sá peningur eftir að koma að góðum notum.

Fyrr í vetur kom fulltrúi frá alþjóðasviði Rauða krossins og fræddi krakkana í Ungmennahreyfingunni um alnæmisvandann í sunnanverðri Afríku og starf Rauða krossins á þeim slóðum. Einnig komu læknanemar í heimsókn og voru með fræðslu um kynsjúkdóma og þar á meðal alnæmi.

26. nóv. 2007 : Rauði krossinn tekur í notkun tetra tæki

Viðbragðsaðilar neyðarvarna Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu komu saman í síðustu viku til þess að læra á tetra tæki sem Rauði krossinn er að taka í notkun sem hluti af búnaði sínum í neyðarvörnum.

Sérfræðingar frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðis komu á staðinn og kynntu notkun tækjanna. Einnig var tækifærið nýtt til að ræða samstarf Rauða krossins og Slökkviliðsins og farið yfir ferlið frá tilkynningu bruna til Neyðarlínu þar til viðbragðshópur Rauða krossins er kallaður út. Einnig var farið yfir drög að starfsreglum viðbragðshópsins og neyðarkerra neyðarnefndar skoðuð.

22. nóv. 2007 : Um 95 þúsund krónur söfnuðust á fatamarkaði MK-nema

Á fatamarkaði sem nemendur í áfanga um sjálfboðið starf í Menntaskólanum í Kópavogi héldu um síðustu helgi söfnuðust um 95 þúsund krónur. Fjöldi manns kom á markaðinn og gerði góð kaup á notuðum dömu-, herra- og barnafatnaði ásamt dóti. Allur ágóðinn rennur til styrktar börnum og ungmennum í Mósambík.

MK-nemarnir völdu föt fyrir markaðinn í fataflokkunarstöð Rauða krossins en hann var settur upp í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar með aðstoð bæði Eldhuga og Enter-krakkanna.

Fatamarkaðurinn var lokaverkefni nemendanna í áfanganum um sjálfboðið Rauða kross starf. Menntaskólinn í Kópavogi er enn sem komið er eini framhaldsskólinn á landinu sem býður upp á þess háttar áfanga. Nemendurnir hafa unnið sjálfboðin störf fyrir Kópavogsdeild Rauða krossins, svo sem starf með ungum innflytjendum í Enter og Eldhugunum og aðstoð við langveik börn í Rjóðrinu.

21. nóv. 2007 : Jólabasar og jólakort Kvennadeildar Reykjavíkurdeildar

Jólakortasala Kvenadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða krossins er í fullum gangi. Fyrirtækið Penninn gaf jólakortin og er þetta annað árið í röð sem Penninn styrkir starf deildarinnar með þessum hætti. Allur ágóði af sölu jólakortanna rennur óskiptur til fatlaðra barna á Íslandi.

 

Í hverjum pakka eru 5 kort og kosta þau 500 krónur. Hægt er að nálgast jólakortin í sölubúðum Kvennadeildarinnar á Landspítala Háskólasjúkrahúsi Fossvogi og við Hrinbraut. Einnig verða kortin seld á Jólabasar Kvennadeildarinnar í Kringlunni, 2. hæð næst Herragarðinum, föstudaginn 23. nóvember. Þar verða til sölu handunnir munir.

16. nóv. 2007 : Spilar óskalög og leiðbeinir við heimanám

Rauði krossinn hefur upp á fjölmargt að bjóða sjálfboðaliðum. Júlíana Elín Kjartansdóttir sagði Guðrúnu Guðlaugsdóttur hvers vegna hún valdi að leiðbeina nýbúabörnum og Jón Ingi Bergsteinsson kynnti hana fyrir spilagleði á Skjólbraut. Greinarnar birtust í Morgunblaðinu 13.11.2007.

15. nóv. 2007 : Að ganga í óstraujaðri flík er ósómi í Gambíu

María Guðrún Gunnlaugsdóttir sjálfboðaliði URKÍ-R fór til Gambíu og starfaði með vinadeild Reykjavíkurdeildar í Banjul. Fréttablaðið tók viðtal við Maríu sem birtist þann 17. október síðastliðinn.

14. nóv. 2007 : Fatamarkaður MK-nema til styrktar börnum og ungmennum í Mósambík

Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi halda fatamarkað föstudaginn 16. nóvember kl. 15-19 og laugardaginn 17. nóvember kl. 12-16 í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins að Hamraborg 11. Seld verða notuð föt á konur, karla, ungmenni og börn, ásamt alls kyns varningi, á verðinu 300-1500 krónur. Allur ágóði rennur til styrktar börnum og ungmennum í Mósambík.

Fatamarkaðurinn er lokaverkefni nemendanna í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf (SKA 112). Þetta er fjórða önnin í röð sem nemendur í MK geta valið áfangann en MK er fyrsti og enn sem komið er eini framhaldsskólinn sem kennir slíkan áfanga á landinu.

28. okt. 2007 : Kynningarfundur fyrir fjöldahjálparstjóra

Á þriðjudaginn stóð neyðarnefnd Rauða krossins á höfuðborgasvæðinu fyrir kynningarkvöldi fyrir fjöldahjálparstjóra.  Dagskráin var fjölbreytt. Greint frá störfum neyðarnefndarinnar og viðbragðshópsins á höfuðborgarsvæðinu en honum er ætlað að sinna útköllum utan almannavarnaástands s.s. vegna bruna í íbúðarhúsum, dagskrá vetrarins var kynnt, farið var yfir boðunarkerfi Rauða krossins og fjarskipti. 

19. okt. 2007 : BYKO verður bakhjarl ungmennastarfs Kópavogsdeildar Rauða krossins

BYKO hefur ákveðið að styrkja ungmennastarf Kópavogsdeildar Rauða krossins með veglegu fjárframlagi í vetur og verður þannig helsti bakhjarl starfs Kópavogsdeildar með ungmennum af innlendum og erlendum uppruna. Um er að ræða verkefnin Enter og Eldhuga en þau eru bæði hluti af átakinu „Byggjum betra samfélag“ sem Rauði krossinn stendur fyrir.

Undirritun fór fram í opnu húsi hjá Kópavogsdeild í gær. Samningurinn gerir Kópavogsdeild kleift að standa að verkefnunum af þeim krafti og metnaði sem hugur hennar stendur til en mikill fjöldi barna og ungmenna af erlendum og íslenskum uppruna tekur þátt í verkefnunum. Sjálfboðaliðar á ýmsum aldri bera verkefnið uppi.

19. okt. 2007 : Urkí Reykjavík heimsóttii Urkí Hafnarfirði

Á opnu húsi í Hafnarfjarðardeild Rauða krossins í gær heimsóttu krakkar úr ungmennastarfi Reykjavíkurdeildar sjálfboðamiðstöðina.

Ungmennin úr Hafnarfirði tóku á móti þeim og var mikið fjör. Byrjað var á því að spjalla saman og fá sér smá hressingu en síðan tók ,,breik-dans" kennari við. Það var hún Natasha sem sýndi frábærar hreyfingar ásamt tveimur nemendum sínum.

Það fór ekki á milli mála að það geta allir dansað breik því krakkarnir fengu að læra nokkur spor eftir sýninguna og voru fljót að ná þeim hreyfingum sem þurfti. Það er því aldrei að vita nema framtíðar breik dansarar hafi tekið sín fyrstu spor í sal Hafnarfjarðardeildar.

18. okt. 2007 : Opið hús í dag hjá deildum höfuðborgarsvæðis

Þessa dagana leggur Rauði krossinn sig fram um að kynna þau fjölmörgu verkefni sjálfboðaliða sem unnin eru á vegum deilda um allt land. Lögð er megin áhersla á að kynna störf sjálfboðaliða sem miða að því að draga úr einsemd, fordómum og félagslegri einangrun. Að því tilefni opna þrjár deildir á höfuðborgarsvæðinu sjálfboðamiðstöðvar sínar í dag fimmtudag.

Hafnarfjarðardeildin er með opið frá klukkan 10:00 - 20:00 en á milli klukkan 17:30 og 19:00 verða krakkarnir í unglingastarfi Reykjavíkurdeildarinnar í heimsókn í Hafnarfirðinum þar sem þau munu stíga dans saman. Allir velkomnir að taka þátt.

17. okt. 2007 : Flóttafjölskyldurnar frá Kólumbíu aðlagast nýjum heimkynnum

Kólumbíska flóttafólkið sem kom til landsins fyrir rúmri viku er nú hægt og rólega að byrja í aðlögunarferlinu sem stendur í eitt ár. Nýlega byrjaði fullorðna fólkið íslenskunám í Alþjóðahúsi og börnin eru að hefja nám í leik-, grunn-, og framhaldsskólum Reykjavíkur.

Flóttamannaverkefnið er samstarfsverkefni stjórnvalda, Rauða krossins, Reykjavíkurborgar og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Reykjavíkurdeild Rauða krossins hefur umsjá með framkvæmd móttkunnar fyrir hönd Rauða krossins og höfðu starfsfólk og sjálfboðaliðar á vegum deildarinnar meðal annars standsett íbúðir á vegum borgarinnar sem biðu flóttafólksins. Rútufyrirtækið Guðmundur Jónasson ehf. sá um að aka flóttafólkinu til hinna nýju heimkynna eins og það hefur alltaf gert síðan 1956 þegar fyrstu flóttamennirnir komu til Íslands.

15. okt. 2007 : Sjálfboðaliðar Rauða krossins gegn einsemd og einangrun

Grein um starf og verkefni Rauða krossins í Kópavogi eftir Geir A. Guðsteinsson blaðamann sem birtist í Kópavogsblaðinu.

 

8. okt. 2007 : Skemmtun í Perlunni í tilefni Alþjóða geðheilbrigðisdagsins

Alþjóði geðheilbrigðisdagurinn var haldinn hátíðlegur í gær með glæsilegri samkomu í Perlunni. Fjöldinn allur af félögum og stofnunum sem starfa að málefnum geðheilbrigðis kynntu starfsemi sína. Þar á meðal var Rauði krossinn sem lagði áherslu á kynningu athvarfanna á höfuðborgarsvæðinu, Vin í Reykjavík, Dvöl í Kópavogi og Læk í Hafnarfirði.
 
Skákfélag Vinjar hélt hraðskákmót í samvinnu við Hrókinn. Guðfríður Lilja Grétardóttir forseti Skáksambands Íslands flutti stutt ávarp og setti mótið formlega. Heiðar Ingi Svansson, markaðsstjóri Forlagsins, sem gaf glæsilega bókavinninga á mótið, lék svo fyrsta leikinn á mótinu. Gunnar Freyr Rúnarsson sigraði og lagði alla sína

5. okt. 2007 : Alþjóðlegir foreldrar hittast

Fyrsta samverustund Alþjóðlegra foreldra fór fram í gær í Mekka, félagsmiðstöð Hjallaskóla. Ellefu foreldrar mættu með ellefu börn sín á aldrinum sex vikna til sex ára. Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar Rauða krossins sáu um dagskrána og stýrðu henni með söng, leik og gleði.

Eftir formlega setningu og kynningu á verkefninu kynntu þátttakendur sig með nafni og sögðu frá hvaða landi þeir koma.  Á meðal þeirra voru fimm íslenskar mæður, þrjár pólskar, tvær frá Litháen og ein frá Ítalíu. Léttar veitingar voru í boði og leikföng fyrir börnin.

Markmið Kópavogsdeildar með verkefninu er að rjúfa félagslega einangrun innflytjenda sem eru heima með börn á aldrinum 0-6 ára. Allir foreldar, innflytjendur og innfæddir eru innilega velkomnir, hvort sem þeir tala enga íslensku eða litla.

28. sep. 2007 : Prjónað og heklað til góðra málefna

Konur í prjónahópi Reykjavíkurdeildar Rauða krossins hittust eftir gott sumarfrí á fimmtudaginn. Konurnar koma saman alla fimmtudaga yfir vetrarmánuðina frá kl. 13-16 þar sem þær hekla og prjóna. Handavinnan er síðan gefin til góðra málefna, seld í Rauðakrossbúðinni L-12 eða send til neyðaraðstoðar erlendis.
 
Hópurinn hefur verið starfræktur frá 1999 og stækkar jafnt og þétt. Að jafnaði eru konurnar 15-20 og smellur vel í prjónum og nálum á meðan þær spjalla yfir kaffitári og góðum sögum úr daglega lífinu.

24. sep. 2007 : Skemmtilegir krakkar í Enter og Eldhugum hittast aftur eftir sumarfrí

Starf Kópavogsdeildar með ungmennum, Enter og Eldhugar, fór aftur af stað af fullum krafti í síðustu viku. Enter-hópurinn eru ungir innflytjendur 9 -12 ára sem koma úr móttökudeild nýbúa í Hjallaskóla. Eldhugar skipa 13-16 ára ungmenni víðs vegar að úr Kópavogi, íslensk og erlend.
 
Krakkarnir í Enter byrjuðu á því að fara í nafnaleiki til að hrista af sér feimni og læra nöfn allra í hópnum. Einnig sögðu þau aðeins frá sér til að kynnast hvert öðru betur. Gaman er frá því að segja að í hópnum eru krakkar með alls konar þjóðerni, frá eins ólíkum löndum og Nepal og Þýskalandi.

19. sep. 2007 : Athvörf Rauða kross Íslands fyrir geðfatlaða á landsmóti

Athvörf Rauða krossins fyrir geðfatlaða héldu sitt árlega landsmót dagana 5.-7. september á Hótel Hvítá í Biskupstungum. Alls tóku 34 manns þátt í mótinu frá fjórum athvörfum, Vin í Reykjavík, Dvöl í Kópavogi, Læk í Hafnarfirði og Laut á Akureyri.

Dagarnir voru fullir að skemmtilegum uppákomum. Meðal annars var farin ferð um sveitir Árnessýslu og deild Rauða krossins bauð öllum í mat. Á kvöldin var farið í danskeppni, bingó og ýmislegt annað skemmtilegt.

13. sep. 2007 : Bæjarins beztu styrkja Konukot

Í tilefni af 70 ára afmæli Bæjarins beztu var um síðustu helgi haldið „stærsta pylsupartý Íslandssögunnar” á sölustöðum fyrirtækisins; í Tryggvagötu, Skeifunni og Smáralind.

12. sep. 2007 : Heimanámsaðstoð fyrir börn af erlendum uppruna

Aðstoð við heimanám barna af erlendum uppruna hefst aftur á haustdögum. Fer það fram í Fellaskóla og í húsnæði Reykjavíkurdeildar. Sjálfboðaliðar Rauða krossins aðstoða börnin við námið, efla íslenskukunnáttu þeirra og hjálpa þeim við að auka orðaforða sinn. Þegar vel gengur og börnin klára heimalærdóminn fljótt og örugglega er tíminn nýttur til leikja og að hafa gaman saman.

Heimanámsaðstoðin fer fram einu sinni í viku, á mánudögum í húsnæði Reykjavíkurdeildar að Laugavegi 120 og á miðvikudögum í Fellaskóla.

Börn sem notið hafa aðstoðar sjálfboðaliða við heimanámið hafa verið mjög ánægð og kennarar barnanna hafa einnig lýst ánægju sinni með árangursríkt starf. Aðsókn nemenda er mikil og því miður komast færri börn að en vilja þar sem sjálfboðaliðar geta einungis sinnt fáum einstaklingum í hvert sinn.

11. sep. 2007 : Alcan styrkir Rauða krossinn

Rauði krossinn hlaut samtals 1.1 milljón króna við úthlutun styrkja úr Samfélagssjóði Alcans í gær.

Ungmennastarf Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins hlaut 500.000 kr. fyrir vetrarstarfið 2007-2008, Reykjavíkurdeild Rauða krossins fékk 100.000 kr. til styrktar verkefninu ,,Hendum fordómum í ruslið” og landsskrifstofu Rauða krossins var úthlutað 500.000 kr. til að taka á móti og þjálfa sjálfboðaliða í störf með fólki sem býr við félagslega einangrun. 

Rannveig Rist forstjóri Alcans á Íslandi veitti styrkina við hátíðlega athöfn í Straumsvík í gær.

Styrkirnir eru kærkomnir og munu stuðla að eflingu innanlandsverkefna Rauða krossins. Verkefnið ,,Hendum fordómum í ruslið” er framtak ungliða Rauða krossins í Reykjavík gegn fordómum undir kjörorðinu ,,Byggjum betra samfélag”. Ungmennastarf Hafnarfjarðardeildar hefur staðið fyrir störfum í þágu innflytjenda og ungmenna í bæjarélaginu og mun styrkurinn nýtast vel fyrir áframhaldandi störf.  Eitt af forgangsverkefnum Rauða krossins á landsvísu er að rjúfa einangrun einstaklinga, og verður styrkurinn nýttur til að fjölga sjálfboðaliðum í félagslegum verkefnum félagsins.

11. sep. 2007 : Öflun sjálfboðaliða sem stuðningsfjölskyldur fyrir flóttafólkið hefur gengið vonum framar

Nú líður senn að því að flóttamenn frá Kólumbíu komi til Íslands en þeir munu setjast að í Reykjavík. Í nógu hefur verið að snúast hjá sjálfboðaliðum Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands sem hafa unnið ötullega að því að standsetja íbúðir fyrir fólkið.

Öflun sjálfboðaliða sem stuðningsfjölskyldur fyrir flóttafólkið hefur gengið vonum framar og munu tæplega 60 stuðningsfjölskyldur starfa við verkefnið næsta árið. Þetta er í annað sinn sem Reykjavíkurdeildin starfrækir stuðningsfjölskylduverkefnið og sýndi reynslan árið 2005 að þessi stuðningur við fólkið hefur haft mjög jákvæð áhrif.

7. sep. 2007 : Rauði krossinn veitti innflytjendum aðstoð eftir brottflutning úr ólöglegu húsnæði

Viðbragðshópur deilda Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu veitti fólki neyðaraðstoð þegar Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og lögregla innsigluðu ólöglegt húsnæði í Hafnarfirði þar sem hópur innflytjenda hafði búið um nokkurt skeið.  Um iðnaðarhúsnæði var að ræða og var það dæmt óhæft til búsetu.

Rauði krossinn bauð fólkinu neyðaraðstoð sem það þáði.  Farið var með fólkið í húsnæði Kjósarsýsludeildar Rauða krossins þar sem sjálfboðaliðar hennar tóku á móti því og hlúðu að því. 

Hópurinn, sex fullorðnir og eitt ungabarn, gisti eina nótt í húsnæði deildarinnar en fann sér annað húsnæði daginn eftir að sögn Jóhannesar Baldurs Guðmundssonar formanns Kjósarsýsludeildar Rauða krossins.

Vitað er að mikill fjöldi fólks býr í ólöglegu húsnæði á höfuðborgarsvæðinu og hefur Rauði krossinn áhyggjur af stöðu þess.

29. ágú. 2007 : Sjálfboðaliðar óskast í Konukot

Þann 1. september 2007 verður opnunartími Konukots, sem nú er kl. 19:00-10:00, lengdur þannig að opið verður frá kl. 17:00-12:00.

24. ágú. 2007 : Nýliðar kynna sér starfsemi Kópavogsdeildar

Á miðvikudaginn fékk Kópavogsdeildin heimsókn frá hópi nýrra starfsmanna Rauða krossins. Hópurinn var skipaður fólki sem nýlega hefur tekið við störfum hjá ýmsum deildum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi, og fékk hann kynningu á verkefnum og starfsemi Kópavogsdeildar.

Heimsóknin er liður í því að kynna fyrir nýliðunum starfsemi Rauða krossins en auk Kópvogsdeildar heimsótti hópurinn Fjölsmiðjuna sem er vinnusetur fyrir ungt fólk, fataflokkunarstöðina í Hafnarfirði og Vin sem er athvarf fyrir geðfatlaða í Reykjavík.

16. ágú. 2007 : Hendum fordómunum á Menningarnótt

Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands tekur þátt í hátíðarhöldum Reykjavíkurborgar á Menningarnótt með tvennum hætti að þessu sinni. Tveir hópar Ungmennadeildar Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R) verða áberandi á götum borgarinnar á þessum hátíðardegi þó með ólíkum hætti sé.

Skyndihjálparhópurinn gegnir sem fyrr mikilvægu hlutverki í öryggisgæslu höfuðborgarinnar og starfar við hlið lögreglu og björgunarsveita við eftirlit og aðstoð. Félagar í skyndihjálparhópnum verða á ferðinni um borgina svo lengi sem þörf er á og veita þeim sem á þurfa að halda fyrstu hjálp. Hópurinn hefur mikla reynslu af aðstoð á viðburðum sem þessum og er það Reykjavíkurdeild Rauða krossins sönn ánægja að geta boðið fram þjónustu sína á stærstu samkomu Reykjavíkurborgar.

14. ágú. 2007 : Unglingastarfið á fullt eftir sumarfrí

Hjá Kópavogsdeild Rauða krossins eru starfandi tveir hópar ungs fólks, Enter og Eldhugar. Starfsemin hefur legið niðri í sumar en í september hefst starfið af fullum þunga að nýju.

8. ágú. 2007 : Rauðakrossbúðirnar ganga vel

Sala í Rauðakrossbúðunum á Strandgötu í Hafnarfirði og Laugavegi í Reykjavík hefur verið með besta móti í sumar. Svo virðist sem blíðviðrið í júlímánuði hafi haft kaupaukandi áhrif á landann og er salan í Hafnarfirði til að mynda 100% meiri nú í ár en á sama tíma í fyrra.

S
jálfboðaliðar hafa unnið hörðum höndum í allt sumar við að flokka föt og sjá til þess að vöruúrvalið haldist spennandi. Haldnir hafa verið útimarkaðir og að sjálfsögðu var útsala í báðum búðum rétt eins og öðrum verslunum.

7. ágú. 2007 : 10. bekkingar læra skyndihjálp

Á fyrri helmingi ársins fengu 10. bekkingar fimm grunnskóla í Kópavogi, þ.e. Digranesskóla, Kársnesskóla, Kópavogsskóla, Salaskóla og Snælandsskóla, kennslu í skyndihjálp. Nemendurnir sóttu 16 kennslustunda námskeið í almennri skyndihjálp og hafa því öðlast víðtæka þekkingu á því hvernig bregðast skuli við í kjölfar slysa eða bráðaveikinda. Kunnátta í skyndihjálp getur skipt sköpum og hefur það marg sannað sig að almennir borgarar, sem oft mæta fyrstir á slysstað, geta veitt mikilvæga aðstoð áður en björgunarlið kemur á staðinn.

Námskeiðið er skólunum og nemendum að kostnaðarlausu og geta nemendurnir jafnframt fengið námskeiðið metið til eininga í framhaldsskólum.

2. ágú. 2007 : Tækifæri til að ná langt í lífinu

Viðtöl við Jeimmy Andrea Gutiérrez, Björgu Sigríði Hermannsdóttur, Atla Viðar Thorstensen og Karen H. Theodórsdóttur vegna komu flóttafólks frá Kólumbíu í september. Greinin, eftir Þórunni Elísabet Bogadóttur birtist í Fréttablaðinu 29. júlí.

25. júl. 2007 : Vinnuskóla fræðsla Rauða krossins og Lýðheilsustöðvar

Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands og Lýðheilsustöð hafa á undanförnum árum verið með fræðslu fyrir starfsmenn Vinnuskóla Reykjavíkur. Í ár voru það grunnskólanemendur sem útskrifuðust úr 10. bekk sem fengu fræðslu.

Í fræðslunni er lögð áhersla á að auka víðsýni og umburðalyndi ásamt því að leggja rækt við geðheilsuna. Þeir Davíð og Elías stóðu að fræðslunni fyrir hönd Rauða krossins og Lýðheilstöðvar og var sú breyting gerð á í sumar að hafa fræðsluna í hverfum borgarinnar en ekki í húsnæði Reykjavíkurdeildar líkt og fyrri ár.

13. júl. 2007 : 10. bekkingar í Hafnarfirði læra skyndihjálp

Við lok skólaársins lærðu nemendur í 10. bekk Áslandsskóla, Lækjarskóla, Setbergsskóla, Hvaleyrarskóla og Víðistaðaskóla í Hafnarfirði skyndihjálp. Nemendurnir sóttu 16 kennslustunda námskeið í almennri skyndihjálp og öðluðust því víðtæka þekkingu á hvernig bregðast á við komi þau t.d. á slysstað. 

Stefna grunnskólanna í Hafnarfirði og Hafnarfjarðarbæjar að bjóða öllum nemendum uppá þessi námskeið hefur verið skólunum og bæjarfélaginu til mikils sóma. Kunnátta í skyndihjálp getur komið að góðum notum og hefur það marg sannað sig að almennir borgarar, sem oft mæta fyrstir á slysstað, geta veitt mikilvæga aðstoð áður en björgunarlið kemur á staðinn.

21. jún. 2007 : Ánægðir Dvalargestir á Fuerteventura

Níu manna hópur frá Dvöl fór í vikulanga ferð til eyjarinnar Fuerteventura 22. maí síðastliðinn. Á eyjunni var ýmislegt skoðað. Farið var í dýragarðinn, bílferð um alla eyjuna, markaðir heimsóttir og dvalið á ströndinni.

20. jún. 2007 : Stórskemmtileg vorhátíð sjálfboðaliða

Á dögunum hélt Kópavogsdeild vorhátíð í Dvöl. Hátíðin er eins konar uppskeruhátíð sjálfboðaliða á liðnum vetri og var margs að fagna. Starf deildarinnar hefur eflst mikið í vetur með auknum fjölda sjálfboðaliða en rúmlega 70 manns hafa skrifað undir sjálfboðaliðasamning síðan haustið 2006.

Það var margt um manninn í Dvöl því hátt í 50 manns komu á hátíðina. Sjálfboðaliðar úr ýmsum  verkefnum komu saman og buðu með sér vinum og fjölskyldu. Yngsti hátíðargesturinn, 9 mánaða gutti, svaf vært í vagninum sínum á meðan leikar stóðu sem hæst.

14. jún. 2007 : Flugslysaáætlun Reykjavíkurflugvallar var undirrituð í dag

Fulltrúar frá Aðgerðastjórn almannavarna höfuðborgarsvæðisins komu saman í dag og undirrituðu flugslysaáætlun fyrir Reykjavíkurflugvöll sem fjölmargir hafa komið að. .

14. jún. 2007 : Fjórar kynslóðir á prjónakaffi

Rúmlega 30 manns sóttu síðasta prjónakaffi Kópavogsdeildar Rauða krossins fyrir sumarfrí sem haldið var í sjálfboðamiðstöðinni 30. maí síðastliðinn. Mætingin á vormánuðum hefur verið afar góð og vonast er til að enn bætist í hópinn með haustinu. Það er alltaf glatt á hjalla í prjónakaffi og gaman að segja frá því að meðal gesta síðast voru fjórar kynslóðir sömu fjölskyldunnar. Því er kjörið fyrir fjölskylduna að koma saman og láta gott af sér leiða.

Markmiðið með prjónakaffinu er að sjálfboðaliðar komi saman til að njóta félagsskapar við að prjóna eða sauma ungbarnafatnað fyrir neyðaraðstoð. Verkefnið heitir Föt sem framlag og er mikil þörf fyrir framlag af þessu tagi til hjálparstarfs innan lands sem utan.

6. jún. 2007 : Öflugt starf unga fólksins í Kópavogi

Þátttaka ungs fólks í starfi Kópavogsdeildar Rauða krossins hefur vaxið mikið á undanförnum misserum. Margir hafa gerst sjálfboðaliðar í ýmsum verkefnum og ný verkefni fyrir ungmenni hafa orðið til og fest rætur. Þar eru ungir innflytjendur áberandi.

6. jún. 2007 : Sunnuhlíð fagnar 25 ára afmæli

Fulltrúar Kópavogsdeildar Rauða krossins samfögnuðu hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð á 25 ára afmælinu sem haldið var hátíðlegt í síðustu viku. Við það tækifæri færði Kópavogsdeild hjúkrunarheimilinu ferðatæki með geislaspilara að gjöf sem mun nýtast við spilun á tónlist í virkninni þar sem heimilisfólk stundar ýmsa handavinnu.

Reynir Guðsteinsson, varaformaður Kópavogsdeildar, flutti Sunnuhlíð kveðju frá deildinni og minnti á hvernig leiðir Sunnuhlíðar og deildarinnar hafa legið saman frá upphafi hjúkrunarheimilisins.

Sunnuhlíð er fyrsta sérhannaða hjúkrunarheimilið fyrir aldraða á Íslandi og hóf rekstur árið 1982. Kópavogsdeild var í hópi fjölmargra félagasamtaka í Kópavogi sem stóðu að byggingu Sunnuhlíðar og hefur stutt myndarlega við bakið á uppbyggingu og starfi heimilisins með styrkjum, gjöfum og sjálfboðnu starfi.

4. jún. 2007 : Vorfagnaður URKÍ-R

Ungmennadeild Reykavíkurdeildar Rauða kross Íslands (URKÍ-R) hélt vorfagnað á dögunum. Sjálfboðaliðar deildarinnar fjölmenntu á landsskrifstofu Rauða kross Íslands þar sem leikurinn Storm of ’76 var leikinn. Þetta er hlutverkaleikur með skemmtilegu glæpsamlegu ívafi og höfðu allir kynnt sér sitt hlutverk vel áður en mætt var á vorfagnaðinn.

Það voru því kynlegir kvistir sem sáust bregða fyrir þetta kvöld og skemmtu sér allir konunglega. Sjálfboðaliðarnir gæddu sér svo á gómsætum hamborgurum og öðru ljúfmeti þetta góða kvöld.

31. maí 2007 : Lifandi bókasafn

Á Þjóðahátíð Alþjóðahússins munu félagar í Ungmennahreyfingu Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins standa fyrir lifandi bókasafni. En hvað er lifandi bókasafn? Lifandi bókasafn er námvæmlega eins og venjulegt bókasafn þar sem lesendur koma og fá lánaða bók í takmarkaðan tíma.

29. maí 2007 : Heimsókn heimsóknavina Akranesdeildar í Kópavogsdeild

Ellefu heimsóknavinir Akranesdeildar Rauða krossins sóttu Kópavogsdeild heim í vikunni. Með í för var Anna Lára Steindal verkefnastjóri.

22. maí 2007 : Sérlega vel heppnuð vorferð barna og ungmenna

Í síðustu viku héldu börn og ungmenni sem taka þátt í Rauða kross starfi á höfuðborgarsvæðinu í sína árlegu vorferð. Ferðin var dagsferð þar sem frí var í skólum og því kjörið tækifæri fyrir alla í ungmennastarfi Rauða krossins til að hittast og kynnast og hafa gaman saman.

Dagskrá ferðarinnar var bæði skemmtileg og vegleg og slæmt veður kom ekki að sök. Förinni var heitið á Reykjanesskagann þar sem öllum var boðið í Vatnaveröld sem er nýr sundlaugaskemmtigarður. Þar á eftir var komið við í húsnæði Suðurnesjadeildar Rauða krossins þar sem öllum var boðið upp á pizzu. Grindavíkurdeild bauð svo öllum hópnum í miðdegishressingu og leiki.

14. maí 2007 : Starfið á árinu 2006

4. maí 2007 : Ungmenni í Eldhugum og Enter sýna skapandi verk á Kópavogsdögum

Í tilefni Kópavogsdaga verður Kópavogsdeild Rauða krossins með kynningarbás í Smáralind laugardaginn 5. maí kl. 12-16. Ungmenni og sjálfboðaliðar í Enter og Eldhugum munu sýna skapandi verkefni sín og kynna starfið.

27. apr. 2007 : Gestir frá Gambíu í heimsókn

Þrír góðir gestur frá Gambíu eru nú í heimsókn hjá Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands.

26. apr. 2007 : Sjálfboðaliði Kópavogsdeildar heiðraður af Rótarý

Rótarýklúbbur Kópavogs hefur útnefnt Önnu Bjarnadóttur, sjálfboðaliða Kópavogsdeildar Rauða krossins, sem Eldhuga ársins 2007 fyrir störf að félags- og mannúðarmálum.

24. apr. 2007 : Rauði krossinn kynntur í grunnskólum

Öllum grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu býðst að fá kynningu á starfi Rauða krossins fyrir nemendur 8. bekkja. Í vetur hafa skólarnir verið duglegir að nýta sér boðið og flestir skólar fengið kynningu fyrir sína nemendur.

20. apr. 2007 : Nemendur í Snælandsskóla prjóna til góðs

Á miðvikudaginn afhentu nemendur á miðstigi í Snælandsskóla Kópavogsdeild teppi sem þeir hafa verið að prjóna undanfarið handa börnum í þróunarlöndum. Þeir hafa haft það sem verkefni undanfarin ár að prjóna teppi úr garnafgöngum og er það hluti af umhverfisstefnu skólans að nýta hráefni og um leið leggja öðrum lið.

Margir nemendur hafa komið að gerð teppanna, einnig nokkrir í yngri og efri bekkjum skólans. Þeir taka í prjónana á milli annarra verkefna og oft hafa margir unnið saman að hverju teppi. Nemendurnir eru enn að prjóna enda skólaárið ekki á enda. Verkefnið heldur svo áfram næsta vetur og er áhugi fyrir því að halda áfram að láta teppin nýtast í gegnum verkefni Rauða krossins í þróunarlöndum.

29. mar. 2007 : Vel heppnuð skyndihjálparæfing á höfuðborgarsvæði

Rauða kross deildir á höfuðborgarsvæði stóðu á dögunum fyrir sameiginlegri skyndihjálparæfingu í Hafnarfirði. Alls tóku 16 manns þátt í æfingunni.

Skyndihjálp er eitt af meginverkefnum Rauða krossins og þess er vænst af sjálfboðaliðum hans að þeir standi klárir á því hvernig bjarga eigi fólki í neyð.

Þrír skyndihjálparleiðbeinendur aðstoðuðu þátttakendur við að leysa ýmis verkefni s.s. að hnoða og blása í endurlífgunardúkkur, binda um snúinn ökkla, leita að áverkum o.s.frv.

Skyndihjálparæfingum er ekki ætlað að koma í stað hefðbundinna námskeiða heldur að gefa fólki kost á að rifja upp þekkinguna og æfa sig í að beita helstu aðferðum skyndihjálpar. Það hefur nefnilega sýnt sig að ef maður æfir tæknina reglulega á maður auðveldara með að beita henni þegar á reynir.

Stefnt er á að halda aðra æfingu í vor og eru áhugasamir hvattir til að hafa samband við Jón Brynjar Birgisson, svæðisfulltrúa, [email protected], sími 565 2425.

29. mar. 2007 : Vefsíða Eldhuga opnuð og Eldhugablaðið gefið út

Í dag efna Eldhugar til útgáfuteitis í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar þar sem opnuð verður vefsíða Eldhuga og útgáfu Eldhugablaðsins verður fagnað. Boðsgestir í teitinu verða ungmenni úr Hafnarfjarðardeild Rauða krossins.

Á forsíðunni á vef Kópavogsdeildar má nú finna hlekk til hægri inn á vefsíðu Eldhuga. Bein slóð á vefsíðuna er: www.redcross.is/eldhugar. Þar er að finna ýmsar upplýsingar um starf Eldhuga. Eldhugablaðið inniheldur efni sem Eldhugar hafa sett saman og tengist markmiði þeirra að byggja betra samfélag án mismununar og fordóma.

28. mar. 2007 : Guðný Halla hlaut 1. verðlaun í Byggjum betra samfélag ljósmyndasamkeppni

Guðný Halla Guðmundsdóttir hlaut fyrstu verðlaun í ljósmyndamaraþoni Ungmennahreyfingar Rauða krossins í Hafnarfirði sem haldin var á dögunum. Að launum fékk hún stafræna myndavél frá Hans Petersen í Firði.

26. mar. 2007 : Nemendur í Snælandsskóla gáfu Rauða krossinum fimmtán hjól

Í síðustu viku afhentu nokkrir nemendur úr 8.-10. bekk Snælandsskóla fulltrúum Rauða krossins fimmtán hjól sem send verða til Malaví. Landsfélag Rauða krossins í Malaví sér um afhendingu hjólanna en líklegt er að sjálfboðaliðar Rauða krossins

22. mar. 2007 : 21. mars Alþjóðlegur dagur gegn kynþáttafordómum

21. mars er alþjóðlegur dagur gegn kynþáttamisrétti. Árlega koma þúsundir manna saman þennan dag til að vinna gegn fordómum og misrétti fólks af ólíkum uppruna.

21. mar. 2007 : Aðalfundur Reykjavíkurdeildar

Aðalfundur Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands var haldinn þann 15. mars. Dagskrá fundarins var hefðbundin, ársreikningur 2006 var kynntur og lagður fyrir fundinn til samþykktar og framkvæmda- og fjárhagsáætlun næsta árs kynnt. Þá var á dagskrá kjör stjórnar.

20. mar. 2007 : Nemendur Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra tók þátt í hlutverkaleiknum Á flótta

Hlutverkaleikurinn Á flótta var leikinn á Norðurlandi síðastliðna helgi í samstarfi Ungmennadeildar Reykjavíkurdeildar og Skagafjarðardeildar Rauða kross Íslands og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Er þetta í fyrsta sinn sem slíkt samstarf hefur verið með uppsetningu leiksins.

15. mar. 2007 : Um 200 þúsund krónur söfnuðust á markaði til styrktar Dvöl

Mikill fjöldi fólks lagði leið sína á fata- og nytjamarkaðinn í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar um síðustu helgi þar sem söfnuðust alls 197.161 krónur í ferðasjóð Dvalar.

11. mar. 2007 : Flensborgarar flokka föt

Nemendur í lífsleikni við Flensborgarskólann í Hafnarfirði tóku nokkra daga í síðustu viku í að heimsækja Fataflokkunarstöð Rauða krossins í Hafnarfirði.

Þar fengu þau fræðslu um fataflokkunarverkefnið en brettu því næst upp ermar og flokkuðu og pökkuðu fötum í gámasendingar. Samtals voru farnar fjórar ferðir í Fataflokkunarstöðina en nemarnir eru tæplega hundrað.


9. mar. 2007 : Hægt er að gera kjarakaup á fatamarkaði alla helgina

MK-nemar halda fata- og nytjamarkað í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar nú um helgina, bæði laugardag og sunnudag kl. 11-16. Markaðurinn er haldinn í samvinnu við Dvöl, athvarf fyrir geðfatlaða, og rennur allur ágóði óskiptur í ferðasjóð athvarfsins. Þeir sem koma á markaðinn geta sannarlega gert kjarakaup og stutt verðugt málefni um leið.

Undirbúningur fyrir markaðinn stóð sem hæst í gær og óhætt er að segja að líf hafi verið í tuskunum í sjálfboðamiðstöðinni! Margt fallegt og nytsamlegt kom upp úr kössunum. Á markaðnum má meðal annars finna gott úrval barnafatnaðar, skó og gallabuxur á alla fjölskylduna og hægt er að gera kjarakaup á leðurjökkum fyrir fullorðna.

8. mar. 2007 : Fræslufundur um kvíðaraskanir og hugræna atferlismeðferð

Um 15 sjálfboðaliðar og notendur athvarfa Rauða krossins fyrir geðfatlaða, Dvalar í Kópavogi, Vinjar í Reykjavík og Lækjar í Hafnarfirði, áttu saman ánægjulega stund í húsakynnum Vinjar þriðjudagskvöldið 6. mars síðastliðinn.

Brynjar Emilsson sálfræðingur á geðsviði Landspítala Háskólasjúkrahúss hélt áhugavert erindi um kvíðaraskanir og hugræna atferlismeðferð. Í erindi hans kom meðal annars fram að öll höfum við einhvers konar áráttur og þráhyggjur sem gera oft ekki annað en að krydda líf okkar. En þegar þær fara að hafa óþægilega mikil áhrif er líklega kominn tími til að leita sér aðstoðar.

5. mar. 2007 : Prjónahópur Reykjavíkurdeildar styrkir Hjálparsjóð Rauða kross Íslands

Prjónahópur Reykjavíkurdeildar Rauða krossins lagði til tæpa eina milljón króna til Hjálparsjóðs Rauða kross Íslands með því að afhenda prjónavörur í L-12 Rauða krossbúðina en afrakstur búðarinnar rennur í Hjálparsjóð Rauða  krossins.

1. mar. 2007 : Tímamót hjá 1717

Í dag eru þrjú ár síðan Reykjavíkurdeild Rauða krossins tók við rekstri Hjálparsíma Rauða krossins 1717. Áður var verkefnið rekið af landsskrifstofunni eða frá 2002 en nú eru allar deildir Rauða krossins aðilar að Hjálparsímanum.

Þann 1. mars 2004 var verkefninu breytt og ákveðið að fjölga sjálfboðaliðum verulega. Mikill áhugi reyndist vera hjá fólki að starfa hjá 1717 og á skömmum tíma tókst að fá til liðs tugi sjálfboðaliða. Allir sem sýndu áhuga komu í viðtöl, fóru á tilskilin námskeið og þjálfun.

Starfsemi 1717 hefur vaxið og dafnað og í dag er meðal símtalafjöldi hvers sólarhrings um 50 talsins.

1. mar. 2007 : Áhugasamar prjónakonur fylltu sjálfboðamiðstöðina

Húsfyllir varð í prjónakaffinu sem haldið var hjá Kópavogsdeild Rauða krossins í gær þar sem verkefnið Föt sem framlag var kynnt. Segja má að viðtökurnar hafi verið vonum framar því hátt í 60 manns lögðu leið sína til deildarinnar til að taka þátt.

Vonast var til fjölgunar sjálfboðaliða í verkefninu og sýnir aðsóknin að margir geta hugsað sér að sinna sjálfboðnu starfi sem felst í hannyrðum. Stefnt er að því að halda prjónakaffi reglulega svo þeir sjálfboðaliðar sem þess óska geti hist með handavinnuna og átt saman skemmtilega stund.

28. feb. 2007 : Prjónakaffi fyrir alla áhugasama

Hjá Kópavogsdeild Rauða krossins sér hópur sjálfboðaliða um að prjóna, hekla og sauma ungbarnaföt fyrir börn í neyð. Hópurinn sem kallast Föt sem framlag samanstendur aðallega af konum en nokkrum körlum þó sem flest hafa látið gott af sér leiða með þessum hætti í mörg ár. Sjálfboðaliðarnir stunda handavinnuna mest megnis heima hjá sér hver á sínum hraða en síðan taka nokkrir þeirra að sér að hittast og raða flíkunum í pakka.

Nú er þörf á fleiri sjálfboðaliðum og eru áhugasamir hvattir til að koma og kynna sér verkefnið miðvikudaginn 28. febrúar kl. 16-18 í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11. Prjónar og garn verða á staðnum en velkomið er að taka með sér eigið prjónadót og prjóna með hópnum og spjalla saman. Kaffi verður á könnunni og með því.

22. feb. 2007 : Fjöldi sjálfboðaliða nær tvöfaldaðist á síðasta ári

Samningsbundnum sjálfboðaliðum Kópavogsdeildar Rauða krossins fjölgaði úr 95 í 182 á síðasta starfsári eða um 92 prósent. Sjálfboðaliðum í heimsóknaþjónustu fjölgaði úr 37 í 71 og sjálfboðaliðum í öðrum verkefnum fjölgaði einnig mikið. Þannig tóku 24 sjálfboðaliðar þátt í starfi Dvalar og 43 í starfi með börnum og ungmennum, Enter og Eldhugum. Þetta kom fram í máli Garðars H. Guðjónssonar formanns á fjölsóttum aðalfundi deildarinnar sem haldinn var á miðvikudagskvöldið.

Fjöldi sjálfboðaliða deildarinnar sótti fundinn auk fulltrúa ýmissa samstarfsaðila og frá landsskrifstofu félagsins. Gunnar Birgisson bæjarstjóri ávarpaði fundinn, þakkaði deildinni fyrir ánægjulegt samstarf á ýmsum sviðum og hvatti hana til góðra verka.

22. feb. 2007 : Rekstur Lækjar tryggður til næstu þriggja ára

Í gær skrifuðu fulltrúar Hafnarfjarðardeildar Rauða kross Íslands, Hafnarfjarðarbæjar og Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Reykjanesi (SMFR) undir nýjan rekstrarsamning um rekstur Lækjar athvarfs fyrir geðraskaða. Undirskriftin fór fram að viðstöddu fjölmenni í Læk.

Með þessum nýja samningi er rekstur athvarfsins tryggður til næstu þriggja ára. Hann er framlenging frá fyrri samningi þessara aðila en stofnsamningur Lækjar var gerður árið 2003.

Í nýja samningnum tekur Hafnarfjarðarbær á sig aukna þátttöku í rekstri Lækjar auk þess sem SMFR stefna að auknu framlagi á samningstímanum.

19. feb. 2007 : Fjör á grunnnámskeiði URKÍ í Alviðru

Félagar Ungmennahreyfingar Rauða krossins í deildunum í Hafnarfirði, Kópavogi og Reykjavík tóku þátt í grunnnámskeiði í Alviðru um helgina. Lagt var af stað síðdegis á föstudag og komið til baka á laugardagskvöld.

Á námskeiðinu lögðu krakkarnir áherslu á sjö grundvallarmarkmið Rauða krossins og voru samin leikrit til að túlka markmiðin. Þau lærðu jafnframt um upphaf hreyfingarinnar og fengu að heyra sögu Henry Dunant stofnanda Rauða krossins.

16. feb. 2007 : Rauði krossinn á framhaldsskólaböllum

Skyndihjálparhópur Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands sinnir mikilvægu hlutverki á böllum framhaldsskólanema.
Ingibjörg B. Sveinsdóttir blaðamaður fjallaði um starfið í Blaðinu þann 13. febrúar 2007.

13. feb. 2007 : Smokkasjálfsalar settir upp í Flensborg

Síðastliðinn miðvikudag afhenti Hrafnhildur Halldórsdóttir stjórnarmaður í Hafnarfjarðardeild Rauða kross Íslands fulltrúum nemenda í Flensborgarskólanum tvo smokkasjálfsala að gjöf.

Gjöf þessi er hluti af stuðningi Hafnarfjarðardeildar við forvarnastarf í þágu ungs fólks. Sjálfsölunum verður komið fyrir á kvenna- og karlasalernum í skólanum. Með þessu framtaki er ungu fólki auðveldaður aðgangur að öruggri getnaðarvörn og einu vörninni gegn kynsjúkdómum.

Í máli Hrafnhildar við afhendinguna kom fram að nýsmit klamidíu er mjög hátt á Íslandi og er ungt fólk í miklum meirihluta þeirra sem smitast. Jafnframt eru ótímabærar þunganir um 350 á ári og þar af fara um 200 stúlkur í fóstureyðingu.

7. feb. 2007 : Kópavogsdeild tekur þátt í upplýsingagjöf til innflytjenda

Einu sinni í viku er svarað í upplýsingasíma fyrir innflytjendur í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins. Símtölum er svarað frá einstaklingum sem hafa serbó-króatísku að móðurmáli og vilja leita að upplýsingum um hin ýmsu mál sem snerta búsetu þeirra á Íslandi. Í símann svarar Dragana Zastavnikovic sem hefur búið á Íslandi í 11 ár. Dragana segir að flest símtölin snúi að upplýsingagjöf sem snertir atvinnu- og búseturéttindi innflytjenda en einnig óski fólk eftir upplýsingum um hvar það getur nálgast ýmsa þjónustu og viðskipti.

U
pplýsingasími fyrir innflytjendur er rekinn af Fjölmenningarsetri Vestfjarða og var opnaður í samvinnu við Rauða kross Íslands.

2. feb. 2007 : ,,Mikilvægt að halda ró sinni"

Þriðjudagaskvöldið 30. janúar tóku tveir sjálfboðaliðar í Skyndihjálparhóp Ungmennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða krossins, sem einnig eru félagar í Björgunarsveit Árborgar, þátt í mjög erfiðu, en vel heppnuðu björgunarstarfi í Ölfusá í Árborg. Þeir Viðar Arason hópstjóri og Tryggvi Pálsson sjálfboðaliði í Skyndihjálparhópnum björguðu ungum manni sem ekið hafði út í Ölfusána eftir að bíl hans lenti utan vegar við Árveg, rétt norðan Ölfusárbrúar.

Þetta kvöld var töluvert mikið í ánni og þurfti að notast við björgunarbát. Ökumaðurinn var hættur að anda þegar í bátinn kom en var þó með púls.

30. jan. 2007 : 1. bekkur Ártúnsskóla gefur Rauða krossinum pening

Það var fríður hópur 1. bekkinga í Ártúnsskóla sem kíkti í heimsókn í Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands fimmtudaginn 25. janúar síðastliðinn. Hópurinn kom færandi hendi, þar sem bekkurinn hafði kosið lýðræðislega um það hvort þau skildu gefa hvort öðru jólagjafir þessi jólin, eða gefa Rauða krossinum andvirði jólagjafanna. Sú ákvörðun varð ofan á að gefa Rauða krossinum þá upphæð sem jólagjafirnar hefðu annars kostað.

Umsjónarmenn dagsins afhentu starfsmanni Reykjavíkurdeildar troðfullan sparibauk og Haukur Hákon, nemandi í bekknum, ákvað að leggja aukalega 1.000.- kr. í sjóðinn, sem hann fékk frá tannálfinum nóttina áður. Alls gaf bekkurinn Rauða krossinum 6.400.- krónur sem mun nýtast í Hjálparsjóð félagsins.

Í heimsókninni fengu krakkarnir stutta fræðslu um Rauða krossinn og hlutverk hans.

26. jan. 2007 : Styrkur til forvarnastarfs í Iðnskólanum í Hafnarfirði

Á dögunum afhenti Hafnarfjarðardeild Rauða krossins Iðnskólanum í Hafnarfirði tvo smokkasjálfsala sem komið verður fyrir á salernum við matsal nemenda. Gjöfin er liður í stuðningi við forvarnarstarf meðal ungs fólks en ósk um styrk barst frá forvarnafulltrúum framhaldsskólanna í Hafnarfirði.

Það var Guðfinna Guðmundsdóttir sem afhenti Jóhannesi Einarssyni skólameistara sjálfsalana á matsal skólans að viðstöddum fjölda nemenda. Sjálfsölunum verður komið fyrir bæði á karla- og kvennasalernum. Með því er lögð áhersla á jafna ábyrgð beggja kynja á að stunda öruggt kynlíf og koma í veg fyrir smitkynsjúkdóma.

24. jan. 2007 : Fermingarbörn fræðast um alnæmisverkefni í Afríku

Nýverið heimsóttu fermingarbörn Fríkirkjunnar í Hafnarfirði Sjálfboðamiðstöð Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins. Þau fengu kynningu á starfsemi Rauða krossins og alnæmisverkefni Rauða kross Íslands í Suður-Afríku.

22. jan. 2007 : Börnin á Norðurbergi aðstoða börn í Sierra Leone

Á hverju ári færa börnin á leikskólanum Norðurbergi í Hafnarfirði Rauða krossinum afrakstur flöskusöfnunar ársins. Leikskólinn starfar að umhverfismennt og skipar endurvinnsla stóran sess í daglegu starfi og námi barnanna. Endurvinnslan getur líka borgað sig á fleiri en einn hátt því að þessu sinni renna þeir peningar sem safnast hafa með sölu endurvinnanlegra drykkjarumbúða til verkefna Rauða krossins fyrir stríðshrjáð börn í Sierra Leone.

Suttu fyrir jól afhentu börnin fulltrúa Rauða krossins 21.401 kr. en flöskusöfnunin hefur aldrei gengið eins vel og á árinu 2006. Hjálpfús skyndihjálparstrákur mætti til að vera viðstaddur afhendinguna og könnuðust öll börnin við hann bæði úr fræðslu á vegum leikskólans sem og úr Stundinni okkar sem sýnd er á RÚV á sunnudögum.

19. jan. 2007 : Nýtt verkefni með hælisleitendum gengur vel

Hópur sjálfboðaliða í Hafnarfjarðardeild Rauða krossins hefur frá því í nóvember heimsótt hælisleitendur sem dvelja í Njarðvík á vegum Félagsþjónustunnar í Reykjanesbæ.

15. jan. 2007 : Vel heppnuð fjöldahjálparæfing í Varmárskóla

Neyðarnefnd Rauða kross deilda á höfuðborgarsvæði stóð fyrir fjöldahjálparæfingu í Varmárskóla í Mosfellsbæ á laugardaginn. Æfð var opnun fjöldahjálparstöðvar vegna sprengihótunar í bænum.

12. jan. 2007 : Syngjandi krakkar safna fyrir Rauða krossinn

Þessa duglegu krakka í Garðabæ langaði til að nota frídagana eftir áramótin til góðra verka. Þau gengu í hús í nágrenni við heimili sín og buðust til að syngja fyrir heimilisfólk „Stóð ég úti í tunglsljósi,"

4. jan. 2007 : Enta styrkir gesti Dvalar

Kópavogsfyrirtækið Enta ehf. færði Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, kærkomna gjöf um jólin með 50.000 króna framlagi í ferða- og tómstundasjóð Dvalar. Gjöfin mun gera gestum Dvalar kleift að skipuleggja tómstundaviðburði og ferðalög. Meðal gestanna hefur verið vinsælt að fara í dagsferðir innanlands yfir sumartímann. Athvarfið hefur einnig staðið fyrir tveimur ferðum út fyrir landsteinana, annars vegar til Danmerkur árið 2004 og hins vegar til Króatíu síðastliðið sumar.

Ferðir eru kærkomin upplyfting fyrir marga af gestum Dvalar sem treysta sér ekki í ferðalög nema með stuðningi starfsfólks og sjálfboðaliða Dvalar.