28. sep. 2007 : Prjónað og heklað til góðra málefna

Konur í prjónahópi Reykjavíkurdeildar Rauða krossins hittust eftir gott sumarfrí á fimmtudaginn. Konurnar koma saman alla fimmtudaga yfir vetrarmánuðina frá kl. 13-16 þar sem þær hekla og prjóna. Handavinnan er síðan gefin til góðra málefna, seld í Rauðakrossbúðinni L-12 eða send til neyðaraðstoðar erlendis.
 
Hópurinn hefur verið starfræktur frá 1999 og stækkar jafnt og þétt. Að jafnaði eru konurnar 15-20 og smellur vel í prjónum og nálum á meðan þær spjalla yfir kaffitári og góðum sögum úr daglega lífinu.

24. sep. 2007 : Skemmtilegir krakkar í Enter og Eldhugum hittast aftur eftir sumarfrí

Starf Kópavogsdeildar með ungmennum, Enter og Eldhugar, fór aftur af stað af fullum krafti í síðustu viku. Enter-hópurinn eru ungir innflytjendur 9 -12 ára sem koma úr móttökudeild nýbúa í Hjallaskóla. Eldhugar skipa 13-16 ára ungmenni víðs vegar að úr Kópavogi, íslensk og erlend.
 
Krakkarnir í Enter byrjuðu á því að fara í nafnaleiki til að hrista af sér feimni og læra nöfn allra í hópnum. Einnig sögðu þau aðeins frá sér til að kynnast hvert öðru betur. Gaman er frá því að segja að í hópnum eru krakkar með alls konar þjóðerni, frá eins ólíkum löndum og Nepal og Þýskalandi.

19. sep. 2007 : Athvörf Rauða kross Íslands fyrir geðfatlaða á landsmóti

Athvörf Rauða krossins fyrir geðfatlaða héldu sitt árlega landsmót dagana 5.-7. september á Hótel Hvítá í Biskupstungum. Alls tóku 34 manns þátt í mótinu frá fjórum athvörfum, Vin í Reykjavík, Dvöl í Kópavogi, Læk í Hafnarfirði og Laut á Akureyri.

Dagarnir voru fullir að skemmtilegum uppákomum. Meðal annars var farin ferð um sveitir Árnessýslu og deild Rauða krossins bauð öllum í mat. Á kvöldin var farið í danskeppni, bingó og ýmislegt annað skemmtilegt.

13. sep. 2007 : Bæjarins beztu styrkja Konukot

Í tilefni af 70 ára afmæli Bæjarins beztu var um síðustu helgi haldið „stærsta pylsupartý Íslandssögunnar” á sölustöðum fyrirtækisins; í Tryggvagötu, Skeifunni og Smáralind.

12. sep. 2007 : Heimanámsaðstoð fyrir börn af erlendum uppruna

Aðstoð við heimanám barna af erlendum uppruna hefst aftur á haustdögum. Fer það fram í Fellaskóla og í húsnæði Reykjavíkurdeildar. Sjálfboðaliðar Rauða krossins aðstoða börnin við námið, efla íslenskukunnáttu þeirra og hjálpa þeim við að auka orðaforða sinn. Þegar vel gengur og börnin klára heimalærdóminn fljótt og örugglega er tíminn nýttur til leikja og að hafa gaman saman.

Heimanámsaðstoðin fer fram einu sinni í viku, á mánudögum í húsnæði Reykjavíkurdeildar að Laugavegi 120 og á miðvikudögum í Fellaskóla.

Börn sem notið hafa aðstoðar sjálfboðaliða við heimanámið hafa verið mjög ánægð og kennarar barnanna hafa einnig lýst ánægju sinni með árangursríkt starf. Aðsókn nemenda er mikil og því miður komast færri börn að en vilja þar sem sjálfboðaliðar geta einungis sinnt fáum einstaklingum í hvert sinn.

11. sep. 2007 : Alcan styrkir Rauða krossinn

Rauði krossinn hlaut samtals 1.1 milljón króna við úthlutun styrkja úr Samfélagssjóði Alcans í gær.

Ungmennastarf Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins hlaut 500.000 kr. fyrir vetrarstarfið 2007-2008, Reykjavíkurdeild Rauða krossins fékk 100.000 kr. til styrktar verkefninu ,,Hendum fordómum í ruslið” og landsskrifstofu Rauða krossins var úthlutað 500.000 kr. til að taka á móti og þjálfa sjálfboðaliða í störf með fólki sem býr við félagslega einangrun. 

Rannveig Rist forstjóri Alcans á Íslandi veitti styrkina við hátíðlega athöfn í Straumsvík í gær.

Styrkirnir eru kærkomnir og munu stuðla að eflingu innanlandsverkefna Rauða krossins. Verkefnið ,,Hendum fordómum í ruslið” er framtak ungliða Rauða krossins í Reykjavík gegn fordómum undir kjörorðinu ,,Byggjum betra samfélag”. Ungmennastarf Hafnarfjarðardeildar hefur staðið fyrir störfum í þágu innflytjenda og ungmenna í bæjarélaginu og mun styrkurinn nýtast vel fyrir áframhaldandi störf.  Eitt af forgangsverkefnum Rauða krossins á landsvísu er að rjúfa einangrun einstaklinga, og verður styrkurinn nýttur til að fjölga sjálfboðaliðum í félagslegum verkefnum félagsins.

11. sep. 2007 : Öflun sjálfboðaliða sem stuðningsfjölskyldur fyrir flóttafólkið hefur gengið vonum framar

Nú líður senn að því að flóttamenn frá Kólumbíu komi til Íslands en þeir munu setjast að í Reykjavík. Í nógu hefur verið að snúast hjá sjálfboðaliðum Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands sem hafa unnið ötullega að því að standsetja íbúðir fyrir fólkið.

Öflun sjálfboðaliða sem stuðningsfjölskyldur fyrir flóttafólkið hefur gengið vonum framar og munu tæplega 60 stuðningsfjölskyldur starfa við verkefnið næsta árið. Þetta er í annað sinn sem Reykjavíkurdeildin starfrækir stuðningsfjölskylduverkefnið og sýndi reynslan árið 2005 að þessi stuðningur við fólkið hefur haft mjög jákvæð áhrif.

7. sep. 2007 : Rauði krossinn veitti innflytjendum aðstoð eftir brottflutning úr ólöglegu húsnæði

Viðbragðshópur deilda Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu veitti fólki neyðaraðstoð þegar Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og lögregla innsigluðu ólöglegt húsnæði í Hafnarfirði þar sem hópur innflytjenda hafði búið um nokkurt skeið.  Um iðnaðarhúsnæði var að ræða og var það dæmt óhæft til búsetu.

Rauði krossinn bauð fólkinu neyðaraðstoð sem það þáði.  Farið var með fólkið í húsnæði Kjósarsýsludeildar Rauða krossins þar sem sjálfboðaliðar hennar tóku á móti því og hlúðu að því. 

Hópurinn, sex fullorðnir og eitt ungabarn, gisti eina nótt í húsnæði deildarinnar en fann sér annað húsnæði daginn eftir að sögn Jóhannesar Baldurs Guðmundssonar formanns Kjósarsýsludeildar Rauða krossins.

Vitað er að mikill fjöldi fólks býr í ólöglegu húsnæði á höfuðborgarsvæðinu og hefur Rauði krossinn áhyggjur af stöðu þess.