26. nóv. 2007 : Rauði krossinn tekur í notkun tetra tæki

Viðbragðsaðilar neyðarvarna Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu komu saman í síðustu viku til þess að læra á tetra tæki sem Rauði krossinn er að taka í notkun sem hluti af búnaði sínum í neyðarvörnum.

Sérfræðingar frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðis komu á staðinn og kynntu notkun tækjanna. Einnig var tækifærið nýtt til að ræða samstarf Rauða krossins og Slökkviliðsins og farið yfir ferlið frá tilkynningu bruna til Neyðarlínu þar til viðbragðshópur Rauða krossins er kallaður út. Einnig var farið yfir drög að starfsreglum viðbragðshópsins og neyðarkerra neyðarnefndar skoðuð.

22. nóv. 2007 : Um 95 þúsund krónur söfnuðust á fatamarkaði MK-nema

Á fatamarkaði sem nemendur í áfanga um sjálfboðið starf í Menntaskólanum í Kópavogi héldu um síðustu helgi söfnuðust um 95 þúsund krónur. Fjöldi manns kom á markaðinn og gerði góð kaup á notuðum dömu-, herra- og barnafatnaði ásamt dóti. Allur ágóðinn rennur til styrktar börnum og ungmennum í Mósambík.

MK-nemarnir völdu föt fyrir markaðinn í fataflokkunarstöð Rauða krossins en hann var settur upp í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar með aðstoð bæði Eldhuga og Enter-krakkanna.

Fatamarkaðurinn var lokaverkefni nemendanna í áfanganum um sjálfboðið Rauða kross starf. Menntaskólinn í Kópavogi er enn sem komið er eini framhaldsskólinn á landinu sem býður upp á þess háttar áfanga. Nemendurnir hafa unnið sjálfboðin störf fyrir Kópavogsdeild Rauða krossins, svo sem starf með ungum innflytjendum í Enter og Eldhugunum og aðstoð við langveik börn í Rjóðrinu.

21. nóv. 2007 : Jólabasar og jólakort Kvennadeildar Reykjavíkurdeildar

Jólakortasala Kvenadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða krossins er í fullum gangi. Fyrirtækið Penninn gaf jólakortin og er þetta annað árið í röð sem Penninn styrkir starf deildarinnar með þessum hætti. Allur ágóði af sölu jólakortanna rennur óskiptur til fatlaðra barna á Íslandi.

 

Í hverjum pakka eru 5 kort og kosta þau 500 krónur. Hægt er að nálgast jólakortin í sölubúðum Kvennadeildarinnar á Landspítala Háskólasjúkrahúsi Fossvogi og við Hrinbraut. Einnig verða kortin seld á Jólabasar Kvennadeildarinnar í Kringlunni, 2. hæð næst Herragarðinum, föstudaginn 23. nóvember. Þar verða til sölu handunnir munir.

16. nóv. 2007 : Spilar óskalög og leiðbeinir við heimanám

Rauði krossinn hefur upp á fjölmargt að bjóða sjálfboðaliðum. Júlíana Elín Kjartansdóttir sagði Guðrúnu Guðlaugsdóttur hvers vegna hún valdi að leiðbeina nýbúabörnum og Jón Ingi Bergsteinsson kynnti hana fyrir spilagleði á Skjólbraut. Greinarnar birtust í Morgunblaðinu 13.11.2007.

15. nóv. 2007 : Að ganga í óstraujaðri flík er ósómi í Gambíu

María Guðrún Gunnlaugsdóttir sjálfboðaliði URKÍ-R fór til Gambíu og starfaði með vinadeild Reykjavíkurdeildar í Banjul. Fréttablaðið tók viðtal við Maríu sem birtist þann 17. október síðastliðinn.

14. nóv. 2007 : Fatamarkaður MK-nema til styrktar börnum og ungmennum í Mósambík

Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi halda fatamarkað föstudaginn 16. nóvember kl. 15-19 og laugardaginn 17. nóvember kl. 12-16 í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins að Hamraborg 11. Seld verða notuð föt á konur, karla, ungmenni og börn, ásamt alls kyns varningi, á verðinu 300-1500 krónur. Allur ágóði rennur til styrktar börnum og ungmennum í Mósambík.

Fatamarkaðurinn er lokaverkefni nemendanna í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf (SKA 112). Þetta er fjórða önnin í röð sem nemendur í MK geta valið áfangann en MK er fyrsti og enn sem komið er eini framhaldsskólinn sem kennir slíkan áfanga á landinu.