27. des. 2007 : Leikskólinn Norðurberg styrkir börn í Malavi

Hafnarfjarðardeild Rauða krossins tók við framlagi leikskólans Norðurbergs til styrktar bágstöddum börnum í Malaví. Með því að vera dugleg og týna dósir í labbitúrum ásamt því að fá dósir að heiman náðu krakkarnir að safna 10.230.- krónum.

Malavi er í suðurhluta Afríku og er meðal fátækustu landa í heimi. Mörg börn eiga enga foreldra og í bænum Nkalo eru rúmlega 4.000 börn sem Rauði kross Íslands hjálpar á ýmsan hátt svo þau geti haldið áfram í skóla. Byggð hafa verið þrjú athvörf og verða peningarnir notaðir til að kaupa borð og stóla, leikföng og skóladót.

6. des. 2007 : Tombólukrakkar í bíó

Ungmennadeild Reykjavíkurdeildar Rauða krossins stóð fyrir bíósýningu fyrir öll þau tombólubörn á höfuðborgarsvæðinu sem styrktu Rauða krossinn á árinu á degi sjálfboðaliðans í gær. Bíómyndin var Ævintýraeyjan Ibba og var sýningin í boði Laugarásbíós sem hefur undanfarin ár gefið sýningu í þessu skyni.

Framlag þessara yngstu styrktaraðila Rauða krossins nam rúmlega 500.000 krónum á árinu. Krakkarnir hagnast með ýmsum aðferðum; tombólusölu, flöskusöfnun, sölu á eigin listaverkum og ein lítil stúlka á Akranesi seldi hundasúrur.

6. des. 2007 : Húsfyllir á fagnaði vegna alþjóðadags sjálfboðaliðans

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar fylltu sjálfboðamiðstöðina á fagnaði sem haldinn var í gærkvöldi í tilefni af alþjóðadegi sjálfboðaliðans. Sjálfboðaliðar og gestir þeirra áttu notalega stund saman, hlýddu á upplestur, söng og tónlist og nutu góðra veitinga. Garðar H. Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar, greindi frá því í stuttu ávarpi að sjálfboðaliðum deildarinnar hefur fjölgað verulega á árinu eins og á undanförnum árum.

Samningsbundnir sjálfboðaliðar voru 175 fyrir réttu ári en þeim hefur síðan fjölgað í 240 eða um 37 af hundraði. Garðar þakkaði sjálfboðaliðum fyrir frábært framlag þeirra á árinu og sagðist vonast til að sjá sem flesta að störfum á nýju ári.

3. des. 2007 : Frí faðmlög í boði Ungmennahreyfingarinnar

Á Alþjóðlega alnæmisdeginum 1. desember var Ungmennahreyfing Rauða krossins stödd í Smáralindinni til að vekja athygli á málefninu. Boðið var upp á frí faðmlög til þess að sýna fram á að alnæmi berst ekki með snertingu auk þess sem að krakkarnir bjuggu til alnæmismerkið á gólfi Smáralindar.

Krakkarnir seldu rauðar alnæmisnælur sem búnar voru til af fólki sem tekur þátt í sjálfshjálparhópi smitaðra á vegum Rauða krossins í Malaví og rennur allur ágóði af sölunni til hópsins. Á tveimur tímum náðist að safna um 27.000 krónum og á sá peningur eftir að koma að góðum notum.

Fyrr í vetur kom fulltrúi frá alþjóðasviði Rauða krossins og fræddi krakkana í Ungmennahreyfingunni um alnæmisvandann í sunnanverðri Afríku og starf Rauða krossins á þeim slóðum. Einnig komu læknanemar í heimsókn og voru með fræðslu um kynsjúkdóma og þar á meðal alnæmi.