18. des. 2008 : Afhending á sónartæki til fæðingadeildar Landspítalans

Þann 11. desember síðastliðinn afhenti Kvennadeild Reykjvíkurdeildar Rauða kross Íslands,  Aloka ProSound 6, sónartæki að gjöf til fæðingardeildar Landspítalans. Þetta er hágæða tæki með miklum myndgæðum. 

Tækið er notað til að staðfesta fósturdauða hjá konum ef hjartsláttur heyrist ekki. Ennfremur til að greina legu barns ef erfitt er að greina hana með ytri skoðun og þá einkum við tvíburafæðingu. Eftir að fyrri tvíburi er þegar fæddur snýr seinni tvíburi oft í sitjanda eða þverlegu og efitt getur verið að greina legu hans.

Tækið má líka nota til að greina blæðingu á bak við fylgju ef um fylgjulos er að ræða og til að mæla lengd á leghálsi ef konur koma í fæðingu fyrir tímann.
 

18. des. 2008 : Mun fleiri leituðu neyðaraðstoðar í Kópavogi

Um 40 sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar Rauða krossins voru að störfum fyrir jólin vegna matar- og fataúthlutana og í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir. Sjálfboðaliðum við þessi verkefni hefur fjölgað mjög frá síðasta ári enda hafa mun fleiri leitað aðstoðar nú en á undanförnum árum. Þá eru ótaldir þeir sjálfboðaliðar sem sinna heimsóknaþjónustu og fleiri verkefnum á vegum deildarinnar. Um 50 heimsóknavinir fóru í desember á einkaheimili, stofnanir fyrir aldraða, í fangelsið í Kópavogi og víðar til að draga úr félagslegri einangrun.

16. des. 2008 : Fataúthlutun hjá Rauða krossinum á miðvikudögum

Rauða kross deildirnar á höfuðborgarsvæðinu standa að úthlutun á notuðum fatnaði alla miðvikudaga kl. 10-14. Sjálfboðaliðar Rauða krossins annast úthlutunina. Úthlutun fer fram að Laugavegi 116, gengið inn af bílastæði Grettisgötumegin. Verslanir Rauða krossins eru að Laugavegi 12 og Laugavegi 116 Reykjavík og Strandgötu 24 Hafnarfirði. Í verslununum er unnt að fá góðan fatnað á mjög sanngjörnu verði.

Vaxandi fjöldi fólks hefur nýtt sér þessa aðstoð Rauða krossins að undanförnu og eru þeir sem á þurfa að halda hvattir til þess að þiggja hana.

15. des. 2008 : Um 200 sjálfboðaliðar Rauða krossins í Reykjavík að störfum fyrir jólin

Um 200 sjálfboðaliðar Reykjavíkurdeildar Rauða krossins eru að störfum fyrir og um jólin vegna matar- og fataúthlutana, og í Konukoti, athvarfi fyrir heimilislausar konur. Sjálfboðaliðum við þessi verkefni hefur fjölgað um 50 frá síðasta ári vegna aukningar sem tengja má efnahagsþrengingunum. Skráning nýrra sjálfboðaliða hjá Reykjavíkurdeild frá september til desember er um 30% meiri en á sama tímabili 2007.

Í ár, eins og undanfarin ár, er samstarf um matarúthlutun fyrir jólin á milli Reykjavíkurdeildar Rauða krossins, Hjálparstarfs kirkjunnar og Mæðrastyrksnefndar. Rúmlega 70 sjálfboðaliðar Rauða krossins koma að úthlutuninni við skipulagningu, pökkun og dreifingu matvælanna. Byrjað verður að senda matargjafir út á land þann 15. desember en úthlutun í Reykjavík hefst þriðjudaginn 16. desember. Matarsendingar út  á land hafa tvöfaldast frá því í fyrra. Veruleg aukning er einnig í beiðnum um aðstoð í Reykjavík en endanlegar tölur liggja ekki fyrir. Fjöldi einstaklinga og fyrirtækja hefur lagt samstarfinu lið með framlögum í vörum, fjármunum, aðstöðu og vinnuframlagi. Er þeim öllum þakkað rausnarlegt framlag sitt til verkefnisins.

10. des. 2008 : Tombólukrökkum boðið í bíó í tilefni af degi sjálfboðaliðans

Sjálfboðaliðar Rauða krossins eru á öllum aldri, þau yngstu  hafa í gegnum tíðina verið iðin við að halda tombólur og nýtur Rauði kross Íslands góðs af þeirri vinnu. Um 450 börn um allt land stóðu á árinu fyrir alls konar söfnunum til að styrkja starf Rauða krossins. Á árinu söfnuðust 600.000 krónur.

Það var spenna í loftinu í Laugarásbíói á laugardaginn þegar tombólukrakkar Rauða krossins mættu til að horfa á myndina Lukkuláka. Ungmennadeild Reykjavíkurdeildar stóð fyrir bíósýningunni en eins og undanfarin ár gaf Laugarásbíó sýninguna.

Framlag tombólubarnanna rennur alltaf til ungmenna- og barnastarfs Rauða krossins víða um heim og að þessu sinni verða peningarnir notaðir til að hjálpa börnum í Malaví í suðurhluta Afríku. Þar hlúa sjálfboðaliðar að alnæmissjúkum, ungliðar fræða jafnaldra sína og börn eru studd til mennta.

Hægt er að sjá myndband frá Malaví hér

8. des. 2008 : Leikskólarnir í Grindavík heimsækja Rauða krossinn

Grindavíkurdeild Rauða krossins hefur verið í góðu samstarfi við leikskólana Laut og Krók. Nýverið heimsóttu elstu börn leikskólanna deildina en það hefur verið árviss viðburður um nokkurt skeið.

Krakkarnir spjölluðu um Rauða krossinn við Rósu starfsmann deildarinnar, horfðu á mynd með Rauða kross stráknum Hjálpfúsi og skoðuðu sjúkrabílinn. Þau fengu endurskinsborða og íspinna að gjöf. Krakkarnir kvöddu með söng sem í báðum tilfellum átti mjög vel við – Krókur með endurvinnslulagið og Laut með hjálparhandalagið – þetta gat ekki verið betra.

4. des. 2008 : Rauði krossinn og Mæðrastyrksnefnd veita neyðaraðstoð í Kópavogi

Kópavogsdeild Rauða krossins og Mæðrastyrksnefnd Kópavogs hafa gert samkomulag um neyðaraðstoð við bágstadda einstaklinga og fjölskyldur í Kópavogi fyrir jólin. Kópavogsdeild Rauða krossins hefur stóraukið framlag sitt vegna aðstoðarinnar miðað við fyrri ár enda er búist við að fleiri leiti aðstoðar nú.
 
Rauði krossinn og Mæðrastyrksnefnd hvetja fyrirtæki og stofnanir til að styrkja hjálparstarfið fyrir jólin með vörum eða fjárframlögum. Rauði krossinn þarf á talsverðum fjölda sjálfboðaliða að halda vegna verkefnisins og eru áhugasamir hvattir til að hafa samband í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected]

1. des. 2008 : Ókeypis faðmlag í Smáralind

Vegfarendur virtust í fyrstu feimnir, hissa eða kímnir þegar sjálfboðaliðar Ungmennahreyfingar Rauða krossins buðu frítt faðmalag í Smáralindinni í gær í tilefni alþjóðlega alnæmisdagsins.

28. nóv. 2008 : Unglingastarf URKÍ-R gefur gjafir

Unglingastarf Ungmennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands fékk gefins á dögunum lager af gömlum tímaritum.

27. nóv. 2008 : Heimsókn í Konukot

Starfsmenn Geðdeildar Landspítala Háskólasjúkrahúss heimsóttu Konukot í vikunni og kynntu sér aðstæður þar.

25. nóv. 2008 : Jólaföndur og jólabakstur í fangelsinu í Kópavogi

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar sáu um jólaföndur í fangelsinu síðustu tvo laugardaga fyrir þá sem sitja af sér dóm þar. Beiðni barst frá fangelsinu um aðstoð sjálfboðaliðanna til að auka afþreyingu fyrir fólkið sem situr þar inni og koma af stað dálitlum jólaundirbúningi. Fyrstu laugardagana í desember munu sjálfboðaliðar svo sjá um að leiðbeina fólkinu í jólabakstri.

24. nóv. 2008 : Nemendur í Hjallaskóla fá fræðslu um starf Kópavogsdeildar

Um fimmtíu nemendur unglingadeildar Hjallaskóla komu í sjálfboðamiðstöðina fyrir helgi og fengu fræðslu um starf deildarinnar. Fræðslan var hluti af þemadögum í skólanum sem stóð yfir í síðustu viku og var þemað mannúð.

Í sjálfboðamiðstöðinni fengu nemendurnir fræðslu um heimsóknaþjónustuna, fataverkefnið, verkefni tengd innflytjendum, vinadeildasamstarfið og að sjálfsögðu Eldhugana en það er starf sem þessum nemendum stendur einmitt til boða að taka þátt í. Þeir sáu myndband úr starfinu frá því í fyrra og myndir úr starfi síðustu mánaða. Eldhugarnir hittast á fimmtudögum kl. hálfsex og er opið fyrir alla 13-16 ára Kópavogsbúa.

14. nóv. 2008 : Ungir og aldnir vinna saman að því að safna fyrir Rauðakrossdeildina í Maputo

Kópavogsdeild Rauða krossins stendur fyrir handverksmarkaði til styrktar Rauðakrossdeild í Mósambík. Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 14.11.2008.

12. nóv. 2008 : Markaðir og þjóðadagur um helgina

Afmæli Húsavíkurdeildar og þjóðadagur
Í tilefni 50 ára afmælis Húsavíkurdeildar Rauða krossins verður haldinn þjóðadagur laugardaginn 15. nóvember í sal Borgarhólsskóla á Húsavík. Dagskráin hefst kl.14:00.
 
Fatamarkaður á vegum Rauða kross deildar Austur Húnavatnssýslu
Laugardaginn 15. nóvember kl. 14:00 - 17:00 verður haldinn fatamarkaður á vegum Rauðakrossdeildar A-Hún í húsi deildarinnar að Húnabraut 13 á Blönduósi.

Kópavogsdeild Rauða krossins heldur handverksmarkað laugardaginn 15. nóvember kl. 10-18 í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11, 2. hæð. Seld verða handverk sjálfboðaliða deildarinnar, sauma- og prjónavörur, kökur og annað föndur. Einnig verður handverk frá Mósambík til sölu, skartgripir, box, töskur, batik-myndir og fleira.

10. nóv. 2008 : Fjölþjóðlegur saumaklúbbur

Það ríkti notaleg stemning á fyrsta hittingi fjölþjóðlegs saumaklúbbs í Sjálfboðamiðstöðinni á dögunum
Á dögunum var stofnaður fjölþjóðlegur saumaklúbbur hjá Rauða krossinum. Hugmyndina að stofnun klúbbsins átti Alice Kimani frá Kenýa en hana hefur lengi langað til að taka þátt í saumaklúbbi.

Klúbburinn er ætlaður öllum áhugasömum konum jafnt íslenskum sem erlendum. Markmiðið er að skapa skemmtilegan vettvang fyrir konur til að kynnast, spjalla og eiga notalega stund saman. Klúbbfélagar skiptast á að koma með veitingar og er ætlunin að hittast einu sinni í mánuði.

3. nóv. 2008 : Tónlistarnemar á Áftanesi styðja Rauða krossinn

Nemendur í Tónlistarskóla Álftaness gáfu út geisladisk með tónlist sinni sem þau síðan seldu vinum og fjölskyldu. Ágóðinn af sölunni 109.000 krónur afhentu þau Rauða krossinum.

Peningarnir renna í alþjóðaverkefni Rauða krossins til aðstoðar börnum sem búa við erfiðar aðstæður og munu bætast við framlag tombólubarna þetta árið.

Á síðasta ári söfnuðu börn á Íslandi 570 þúsund krónum sem ráðstafað var til að styðja börn í Malaví sem eiga um sárt að binda vegna alnæmis. Framlögin voru notuð til að kaupa húsbúnað í barnaathvörf sem Rauði krosssinn rekur í Chiranczulu.

30. okt. 2008 : Nýir fjöldahjálparstjórar á höfuðborgarsvæðinu

Fjöldahjálparstjóranámskeið fyrir deildir Rauða krossins á höfuðborgarsvæði var haldið í vikunni með þátttöku flestra deilda svæðisins. Bætast þeir á lista fólks sem er tilbúið að vera til taks ef til almannavarnaástands kemur.

Á námskeiðinu var farið yfir hlutverk Rauða krossins á neyðarstundu, fjöldahjálp, samskipti við fjölmiðla og fleira. Æfð var opnun fjöldahjálparstöðvar í húsnæði Hafnarfjarðardeildar. Gulum borðum og skiltum var stillt upp á tilheyrandi stöðum. Námskeiðið gekk mjög vel og tóku þáttakendur virkan og góðan þátt.

Þeim sem vilja kynna sér verkefni Rauða krossins í neyðarvörnum á höfuðborgarsvæðinu er bent á hafa samband við Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur svæðisfulltrúa í síma 565 2425 eða netfangið [email protected].

17. okt. 2008 : Prjónahópur í menningarferð

Prjónahópur Reykjavíkurdeildar Rauða krossins fór í menningarferð í Gerðasal sl. fimmtudag.  Farið var á sýningu sem lýsir þjóðarsál og menningu Ekvador. Var gerður góður rómur af fallegum teppum, myndum og ekki síst skartgripum sem hópurinn dvaldi lengi við. Þegar prjónahópurinn gat loks dregið sig frá sýningunni, lá leiðin á kaffihús þar sem góðra veitinga var notið áður en haldið var heim.

Sjálfboðamiðlun Reykjavíkurdeildar hefur staðið fyrir opnu húsi á fimmtudögum kl. 13:30-16:00 fyrir fólk sem vill leggja góðu málefni lið með því að gefa vinnu sína við að prjóna eða hekla.

9. okt. 2008 : Athvarfið Dvöl í Kópavogi 10 ára

Í dag verður haldið upp á tíu ára afmæli Dvalar sem er í Reynihvammi 43. Athvarfið er samstarfsverkefni Kópavogsdeildar Rauða krossins, Kópavogsbæjar og svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Reykjanesi.

„Athvarfið hefur í tímans rás sannað gildi sitt og rofið einangrun fjölda fólks sem glímir við geðraskanir," segir Þórður Ingþórsson forstöðumaður Dvalar. Þórður segir að frá upphafi hafi verið lögð áhersla á að efla sjálfstæði og virkni gesta og er fólk aðstoðað við að leita nýrra leiða í leik og starfi óski viðkomandi þess. Margir sækja staðinn eftir að hafa dvalist á geðdeild en allir komi til að njóta samveru.

26. sep. 2008 : Fjölmenni í 5 ára afmæli Lækjar

Það var fjölmenni sem mætti í afmælisveislu Lækjar, athvarfs fyrir fólk með geðraskanir, í gær. Lækur fagnaði þar 5 ára afmæli og bauð til veislu í sal Rauða krossins í Hafnarfirði. Gestir voru í kringum sjötíu og ríkti sannkölluð afmælisstemning.

Þórdís Guðjónsdóttir forstöðumaður Lækjar ávarpaði gesti og greindi frá góðum árangri af starfi Lækjar, einn af gestum Lækjar sagði frá sinni reynslu og boðið var uppá ljúfan djass í flutningi þeirra Margrétar Sigurðardóttur söngkonu og Gunnars Hrafnsson kontrabassaleikara. Eins og í góðum afmælum var svo að sjálfsögðu boðið uppá kaffi og kökur.

25. sep. 2008 : Lækur 5 ára

Í DAG er haldið upp á það að liðin eru fimm ár síðan Lækur, athvarf fyrir þá sem átt hafa við geðraskanir að stríða, hóf starfsemi sína.

22. sep. 2008 : Heimilisfólkið í Sunnuhlíð skoðar Þjóðmenningarhús

Kópavogsdeildin stóð á dögunum fyrir ferð í Þjóðmenningarhúsið fyrir heimilisfólkið í Sunnuhlíð. Rúmlega fjörutíu manns fóru í ferðina en auk íbúanna í Sunnuhlíð voru starfsmenn hjúkrunarheimilisins með í för sem og aðstandendur og sjálfboðaliðar frá deildinni. Þeir voru fólkinu innan handar í ferðinni og aðstoðuðu þá þar sem þurfti. Sú hefð hefur skapast hjá deildinni að bjóða reglulega upp á slíkar ferðir fyrir heimilisfólkið og er þá oftar en ekki farið á söfn og svo fengið sér kaffi og með því á eftir.

17. sep. 2008 : Sumarferð Kvennadeildar um Suðurlandið

Sumarferð Kvennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða krossins var heimsókn á Suðurlandið. 60 konur úr deildinni nutu ferðarinnar og veðurblíðunnar sem einkenndi daginn.

Fyrsti viðkomustaður var Brugghúsið Skjálfti í Ölvisholti í Flóahreppi þar sem Bjarni Einarsson framkvæmdastjóri tók rausnarlega á móti hópnum. Þaðan var farið á Heklusetrið á Leirubakka, safnið skoðað og hádegisverður snæddur.

Þegar til Víkur kom var kirkjan skoðuð undir leiðsögn Sr. Haraldar M. Kristjánssonar en síðan tók Sveinn Þorsteinsson formaður Víkurdeildar á móti konunum, sýndi þeim bæinn og var innanhandar meðan á dvölinni þar stóð. Félagsheimilið í Vík var opnað fyrir hópinn þar sem fyrirtækin Freyja og Innes buðu upp á veitingar. Sveini er þakkaður hans þáttur í að gera dvölina svo ánægjulega í Vík.

11. sep. 2008 : Það geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi hjá Rauða krossinum...

...eru hvatningarorð Reynis Guðsteinssonar til allra á eftirlaunaaldri sem vilja láta gott af sér leiða en Reynir lét nýlega af stjórnarstörfum hjá Kópavogsdeild. Reynir kom inn í stjórn deildarinnar á aðalfundi hennar árið 2000. Hann segist alla tíð hafa verið félagslega sinnaður og hafi komið mikið að félagsmálum gegnum tíðina. Hann taldi að hann gæti hugsanlega gert gagn hjá Rauða krossinum og sló því til þegar honum bauðst sæti í stjórninni. Í fyrstu ætlaði hann bara að sitja eitt ár til reynslu en þau urðu svo á endanum átta. Hann sér ekki eftir því.

Auk stjórnarsetu, þar sem Reynir hefur hin síðustu ár verið bæði varaformaður og ritari, sat hann í stjórn Fjölsmiðjunnar og var varamaður í svæðisráði höfuðborgarsvæðisins. Hann spilaði einnig og söng ásamt öðrum í nokkurn tíma fyrir heimilisfólkið í Roðasölum en það er sambýli í Kópavogi fyrir heilabilaða. Núna er Reynir í vinnuhópi hjá Rauða krossinum sem hefur málefni geðfatlaðra á sinni könnu.

9. sep. 2008 : Haustferð sjálfboðaliða Hafnarfjarðar- og Garðabæjardeildar

Leikskólasöngur Estherar Lindar, B-R-O-S-A  „Að brosa er ókeypis” var aðalsöngur sjálfboðaliða Hafnafjarðar- og Garðabæjadeildar í haustferð gærdagsins og boðskapur textans gerður að einkunnarorðum dagsins.

Hafnafjarðar- og Garðabæjadeild ákváðu að skella sér saman í ferð og var það virkilega vel til fundið! Um 35 flottir sjálfboðaliðar mættu galvaskir til leiks. Leiðin lá austur fyrir fjall, fyrst til Hveragerðis og síðan áfram til Selfoss. Á leiðinni voru sígild íslensk lög sungin af hjartans innlifun. Fyrsta lagið, „Kátir voru karlar” var tileinkað karlmönnunum tveimur sem í rútunni voru. Í Hveragerði tók svæðisfulltrúi Rauða krossins á Suðurlandi, Jóhanna Róbertsdóttir á móti hópnum og fræddi um störf á svæðinu sem og jarðskjálftann í sumar, áhrif hans og eftirköst. Tækifærið var gripið á staðnum til að dreifa tveimur fyrripörtum og ferðalangar beðnir að botna. Heimtur í keppninni voru ekki gríðalegar en einhver skáld leyndust þó meðal sjálfboðaliðanna.

1. sep. 2008 : Sjálfboðaliðar tóku virkan þátt í Menningarnótt

Sjálfboðaliðar Ungmennahreyfingar Rauða krossins, URKÍ-R tóku virkan þátt í Menningarnótt. Sjálfboðaliðarnir sáu ýmist um að hjálpa gestum og gangandi við að losa sig við fordómana sína með því að skrifa þá á blað og henda þeim í ruslið og einnig voru þrír gönguhópar Skyndihjálparhóps á rölti um miðbæinn og veitu þeim sem þurftu fyrstu hjálp.

Skyndihjálparhópurinn gegndi sem áður mikilvægu hlutverki í öryggisgæslu borgarinnar þar sem hópurinn starfaði við hlið lögreglunnar og björgunarsveita við fyrstu hjálp og aðstoð. Hópurinn skipti sér upp í þrjá gönguhópa sem vöktu hver og einn sinn bæjarhlutann. Mikil reynsla er í hópnum og þátttaka í hátíðarhöldum sem þessum er ekki ný af nálinni, en þetta var fjórða árið sem Skyndihjálparhópur URKÍ-R tekur þátt í Menningarnótt með þessum hætti.

28. ágú. 2008 : Miðlað reynslu sín á milli

Efnt var til grillveislu í húsakynnum Rauða krossins fyrir alla þá sem komu að verkefninu Félagsvinir - Mentorar og Mentees sem rekið er af Garðabæjardeild Rauða krossins. Tilgangur veislunnar var fyrst og fremst að aðstandendur verkefnisins geri sér glaðan dag, miðli reynslu hver til annars og meti árangur verkefnisins.

Fjölmargir sóttu veisluna og má þar nefna bakhjarla verkefnisins, félagsleiðbeinendur og börn og maka aðstandenda verkefnisins.

Hugmyndafræði verkefnisins byggir á nokkurs konar námssambandi milli tveggja kvenna sem báðar njóta góðs af, önnur er frá heimalandinu (mentor) og hin af erlendum uppruna (mentee). Þannig eru tengdar saman innlendar konur og konur af erlendum uppruna sem geta skipst á upplýsingum og þekkingu á jafningjagrundvelli þar sem unnið er að því að beisla þann óvirkjaða mannauð sem felst í menntun, þekkingu og reynslu hjá konum af erlendum uppruna, bæði þeim og íslensku samfélagi til framdráttar.

21. ágú. 2008 : Alþjóðlegar sumarbúðir í Austurríki

Katla Björg Kristjánsdóttir sjálfboðaliði Ungmennahreyfingar Reykjavíkurdeildar, URKÍ-R, sótti Alþjóðlegar sumarbúðir í Langenlois  í Austurríki í sumar. Þátttakendur sumarbúðanna komu víða að en markmið búðanna var meðal annars að kynnast starfi Rauða krossins betur, menningu þátttakenda og að hafa gaman saman.

Katla sótti fjölmarga fyrirlestra sem í boði voru. Meðal fyrirlesara var Marco Feingold 97 ára fyrrum fangi í fangabúðum nasista. Marco sagði sögu sína og lýsti sex ára dvöl sinni í fangabúðunum og lífsreynslu sinni. Einnig voru fyrirlestrar um Mannúaðarlögin, Genfarsáttmálann og saga Rauða krossins var kynnt svo eitthvað sé nefnt.

11. júl. 2008 : Sjálfboðaliðar URKÍ-R í Gambíu

Sjálfboðaliðarnir Sigurbjörg Birgisdóttir og Egill Þór Níelsson fóru í byrjun júlí sem fulltrúar Ungmennahreyfingar Reykjavíkurdeildar til Gambíu.

9. júl. 2008 : Kjósarsýsludeild færði leikskólunum í Mosfellsbæ og Kjalarnesi hávaðamæla að gjöf

Rannsóknir hafa sýnt að hávaði í leikskólum er að meðaltali á bilinu 76,1 - 98 dB í jafngildishljóðstigi og fer upp í allt að 116 dB. Niðurstöður rannsókna sýna að hávaði sem fer yfir hættumörk getur valdið varanlegum skaða. Vitað er að börn eru viðkvæmari fyrir hávaða en fullorðnir. Kjósarsýsludeild Rauða kross Íslands var það því ljúft og skylt að verða við ósk um að gefa hávaðamæla á alla leikskólana á svæði deildarinnar.

Mælarnir eru líkir umferðarljósum, á þeim logar grænt ljós en þegar hávaði eykst verður ljósið gult og að lokum rautt ef hávaðinn fer yfir hættumörk. Börnin sjá mælinn og eru þau minnt á að passa að ljósið verði ekki rautt. Mælarnir eru einnig búnir sírenu sem hægt er að kveikja á en hún fer þá í gang þegar ljósið verður rautt. Það er von deildarinnar að mælarnir verði gott hjálpartæki til að halda hávaða innan veggja leikskólanna innan hættumarka.

1. júl. 2008 : Kópavogsdeild afhendir Héraðsskjalasafni Kópavogs gömul gögn

Linda Ósk Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Kópavogsdeildar, og Þóra Elfa Björnsson afhentu í dag Hrafni Sveinbjarnarsyni, héraðsskjalaverði, gömul gögn frá Kópavogsdeild. Þar á meðal voru bókhaldsgögn og handskrifaðar fundargerðarbækur, sú elsta frá stjórnarfundi 1977 en einnig bækur frá 1982 þegar sjúkravinahópur deildarinnar var settur á fót. Þóra Elfa sat í stjórn deildarinnar í 19 ár og skrifaði sumar fundargerðarbækurnar.

Helsta hlutverk sjúkravinanna var að skemmta heimilisfólki Sunnuhlíðar með lestri og söng en þeir stóðu einnig fyrir margvíslegum viðburðum á hjúkrunarheimilinu, eins og aðventuskemmtun, árshátíð og bingói. Sjúkravinir urðu svo síðar að heimsóknavinum en það kallast sjálfboðaliðar sem sinna heimsóknaþjónustu á vegum deildarinnar í dag. Heimsóknavinir standa enn fyrir ýmsum viðburðum í Sunnuhlíð en þeir heimsækja einnig sambýli aldraðra og á einkaheimili.

30. jún. 2008 : Frábær ferð í Bláa Lónið og Svartsengi

Síðastliðinn miðvikudag fóru sjálfboðaliðar Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins og hælisleitendur á Íslandi í skemmtilega sumarferð í Bláa Lónið og Svartsengi.

Ferðin var farin í blíðskaparveðri og ríkti bæði mikil eftirvænting og kátína meðal ferðalanga. Morguninn hófst með boðsferð í Bláa Lónið þar sem menn nutu afslappandi baðsins á rólegum morgni. Endurnærður hélt hópurinn svo yfir í Svartsengi þar sem tekið var á móti hópnum með veitingum í Eldborg og orkuverin skoðuð eftir að menn höfðu fengið létta hressingu. Skoðunarferðin endaði í Eldvörpum þar sem blásið var kröftulega úr einni af borholum Hitaveitunnar.

24. jún. 2008 : Skyndihjálpahópur á Formúlu 1

Fjórum sjálfboðaliðum skyndihjálparhóps var boðið að taka þátt í sjúkragæslu á Formúlu 1 keppninni á dögunum. Hópurinn var í boði Rauða krossins í Mónakó, en þetta er annað árið í röð sem hópurinn fer þangað til starfa.

Verkefni hópsins voru fjölmörg enda í mörg horn að líta í svona keppni. Eitt af verkefnum hópsins á keppnisdaginn sjálfan var að gæta Alberts prins II við ráslínu keppninnar.

Að keppninni lokinn var sjálfboðaliðunum boðið til Ítalíu að skoða Rauða krossinn í San Remo. Þar var vel tekið á móti þeim að hætti Ítala með mat og drykk.
 

24. jún. 2008 : Öflugt starf í Kópavogi á liðnum vetri

Kópavogsdeild hefur haldið úti öflugu sjálfboðaliðastarfi á liðnum vetri. Sífellt bætist í hóp sjálfboðaliða sem sinna ýmsum verkefnum á vegum deildarinnar. Í vetur hefur fjöldi sjálfboðaliða sinnt heimsóknaþjónustu á einkaheimilum, sambýlum aldraðra, í Sunnuhlíð, Rjóðrinu og Dvöl. Heimsóknavinirnir hitta gestgjafa sína reglulega og fara út að ganga með þeim, spjalla saman, fara á kaffihús, syngja og lesa svo eitthvað sé nefnt.

Sjálfboðaliðar vinna einnig með ungmennum, bæði íslenskum og erlendum, og stjórna vikulegum samverum þeirra þar sem ungmennin eru virkjuð á fjölbreyttan máta eins og með dansi, leiklist, föndri, söng og ýmiss konar fræðslu.

23. jún. 2008 : Hringdi og bað um vin

Ólöf Sigurrós, sem er 98 ára, fer í hverri viku á kaffihús með vinkonu sinni Bergdísi frá Rauða krossinum. Greinin birtist í 24stundum 12. júní 2008.

12. jún. 2008 : Metþátttaka í Vin þegar Guðfríður Lilja Grétarsdóttir var heiðruð

Það var heldur betur tekist á í Vin, athvarfi Rauða krossins þegar Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sem nýverið lét af störfum sem forseti Skáksambandsins, var heiðruð með hraðskákmóti. 27 þátttakendur skráðu sig til leiks, og það á mánudegi kl. 13:00, en áður höfðu flestir mætt þar á Morgan Kane skákmótið í fyrra, átján manns.

Margir sterkir skákmenn voru með og nokkrir af efnilegustu ungu skákpiltum og –stúlkum landsins, m.a. Íslandsmeistaralið Rimaskóla og þau Jóhanna Björg og Birkir Karl úr heimsmeistaraliði Salaskóla í grunnskólaskák, árið 2007.

11. jún. 2008 : 18 milljónir fyrir notuð föt í neyðaraðstoð Rauða krossins

18 milljón króna framlag fatasöfnunarverkefnis Rauða krossins til neyðaraðstoðar var afhent við fatagám í Sorpu á Sævarhöfða í dag fyrir hönd allra þeirra sem gáfu notuð föt til félagsins á síðasta ári.  

Fjármagnið er fengið fyrir sölu á fatnaði sem fólk gefur Rauða krossinum, og fer allt framlagið til hjálparstarfa Alþjóða Rauða krossins.  Þetta er hæsta framlag sem fengist hefur fyrir notaðan fatnað á einu ári hér á landi síðan fatasöfnunarverkefnið hófst fyrir átta árum.

10. jún. 2008 : Fatasöfnunin fer í draumahúsnæðið

Fatasöfnunarstöð Rauða krossins fer í nýtt húsnæði í sumar. Hún flytur á besta mögulega stað, við Skútuvog 1, steinsnar frá athafnasvæði Samskipa við Sundahöfn. Fatasöfnunin hefur hingað til haft aðsetur við Gjótuhraun í Hafnarfirði.

"Þetta er draumastaðsetningin, nálægt höfninni og helstu flutningaleiðum og aðgengileg skjólstæðingum og sjálfboðaliðum á einkabílum eða í strætó," segir Þórir Guðmundsson, nýkjörinn formaður stjórnar Fatasöfnunar Rauða krossins.

Örn Ragnarsson verkefnisstjóri Fatasöfnunar segir “Tíu ára leigusamningur gerir okkur kleift að ná meiri stöðugleika í starfseminni. Fatasöfnunin hefur þurft að flytja fjórum sinnum á átta árum.

9. jún. 2008 : Rauði krossinn tók þátt í Þjóðahátíð Alþjóðahússins

Rauði krossinn tók þátt í Þjóðahátíð Alþjóðahússins og kynnti vinadeildasamstarf  Hafnarfjarðardeildar við Malaví og Mentoraverkefni Garðabæjardeildar.

Ungliðar á vegum Hafnarfjarðardeildar stóðu fyrir bókamarkaði til styrktar félagsstarfi fyrir hælisleitendur á Íslandi auk þess sem þau kynntu vinadeildasamstarf við deild innan malavíska Rauða krossins. Á bás þeirra mátti jafnframt kaupa ýmsa muni og te frá Malaví. Ágóði af sölunni rennur beint til styrktar Rauða kross deildinni í Malaví. Ungmennin söfnuðu alls 19.750 krónum sem skiptast nokkurn vegin til helminga á milli þessara tveggja verkefna.

Á næsta bási við bókamarkaðinn kynnti Garðabæjardeild Mentoraverkefni sem deildin hefur umsjón með. Í verkefninu styðja íslenskar konur við bakið á erlendum konum sem hér búa með það að markmiði að auðvelda þeim atvinnuþátttöku og aðlögun að íslensku samfélagi.

28. maí 2008 : Unglingastarfið í vorferð

Krakkarnir sem taka þátt í unglingarstarfi deilda á höfuðborgarsvæðinu héldu í sína árlegu vorferð á laugardaginn.

28. maí 2008 : Nýr forstöðumaður hefur tekið til starfa á Fjölskyldumiðstöð

Ragnheiður Sigurjónsdóttir hefur tekið við starfi forstöðumanns Fjölskyldumiðstöðvar. Erla Þórðardóttir hefur látið af störfum og eru henni færðar þakkir fyrir vel unnin störf.

 

26. maí 2008 : Heimsóknavinir Rauða krossins í Sunnuhlíð

„Allt þetta samstarf Kópavogsdeildar Rauða krossins og Sunnuhlíðar hefur jafnan verið með miklum ágætum og öllum sem að því koma til gleði og skemmtunar."

20. maí 2008 : Afhentu 8 milljónir í Hjálparsjóð

Á aðalfundir Rauða kross Íslands, sem haldinn var í Kópavogi um síðustu helgi, afhentu deildir á höfuðborgarsvæðinu 8 milljón króna framlag í Hjálparsjóð. Framlagið er hagnaður af fatasöfnunarverkefni deildanna og er þetta ekki í fyrsta skipti sem svo ríkulegt framlag rennur í Hjálparsjóð frá þessu verkefni. Frá stofnun fatasöfnunar árið 2000 hefur verkefnið skilað 24,5 milljónum í Hjálparsjóð og því ljóst að mikil verðmæti eru falin í þeim fatnaði sem til fellur á heimilum fólks.

Framlagið í Hjálparsjóð eru þó ekki einu verðmætin sem skapast í fatasöfnunni því vikulega fer fram úthlutun á fatnaði auk þess sem fatnaður er sendur til hjálparstarfs þegar þess er þörf. Sjálfboðaliðar Rauða krossins vinna mikið og óeigingjarnt verk í fatasöfnuninni jafnt í flokkunarstöðinni, úthlutun sem og Rauðakrossbúðunum. Ef þú hefur áhuga á að leggja verkefninu lið hafðu þá samband í síma 587-0900

19. maí 2008 : Tímamótasamningur um fatasöfnun

Á laugardaginn skrifuðu Rauða kross deildir á höfuðborgarsvæðinu undir nýjan samning um fatasöfnun. Markar samningurinn nokkur tímamót í sögu verkefnisins en með honum er stjórnun verkefnisins einfölduð og vænta menn þess að það verði til mikilla hagsbóta.

Þriggja manna rekstrarstjórn mun nú stýra verkefninu ásamt verkefnisstjóra. Í þessari fyrstu verkefnisstjórn sitja Þórir Guðmundsson Reykjavíkurdeild, sem jafnframt er formaður, Gunnar M. Hansson Kópavogsdeild og Herdís Sigurjónsdóttir Kjósarsýsludeild. Verkefnisstjóri fatasöfnunar er Örn Ragnarsson.

19. maí 2008 : Saga Kópavogsdeildar 1958-2008

Saga Kópavogsdeildar Rauða krossins í 50 ár er komin út en þar er greint frá verkum deildarinnar og sjálfboðaliða hennar frá stofnun 12. maí 1958 til þessa dags. Um er að ræða veglegt afmælisrit prýtt fjölda mynda og ber það heitið Verkin tala – Kópavogsdeild Rauða krossins 1958-2008. Garðar H. Guðjónsson tók verkið saman en Kópavogsdeild er útgefandi. Útgáfu ritsins og afmælis Kópavogsdeildar var fagnað í móttöku í sjálfboðamiðstöð deildarinnar fimmtudaginn 15. maí.

Unnið hefur verið að útgáfu ritsins síðan aðalfundur deildarinnar 2005 samþykkti að ráðist skyldi í undirbúning. Kópavogsdeild hefur í áranna rás ráðist í stórvirki í þágu aldraðra, fólks með geðraskanir, ungmenna í vanda og fólks sem býr við einsemd og félagslega einangrun. Á síðustu árum hefur deildin byggt upp öflugt starf sjálfboðaliða að ýmsum verkefnum og eru samningsbundnir sjálfboðaliðar deildarinnar nú um 300 talsins.

15. maí 2008 : Fengin í sjálfboðaliðastörf í heita pottinum

Sigríður Þorvaldsdóttir, eða Ninna eins og hún er alltaf kölluð, hefur starfað sem sjálfboðaliði í Rauðakrossbúðinni í Hafnarfirði frá opnun búðarinnar haustið 2005. Ninna vinnur eina vakt í viku á föstudögum því hún vill gjarnan láta gott af sér leiða. Hér má lesa stutt viðtal við Ninnu.
 
Hvernig kom til að þú fórst að vinna í Rauðakrossbúðinni?
Ég var hætt að vinna og hafði lengi unnið við verslunarstörf m.a. í ein 27 ár í fataversluninni Emblu sem var í miðbæ Hafnarfjarðar. Mér fannst ég enn full af orku og vildi finna mér eitthvað að gera. Einn daginn var ég stödd í heitapottinum í Sundhöllinni og heyrði af því að til stæði að opna þessa búð. Þar var kona sem heitir Gunnhildur Sigurðardóttir og hefur verið sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum lengi, að segja okkur frá því hvað til stæði. Ég ákvað því að láta mér ekki einungis nægja að hlusta heldur skella mér í verkefnið.

14. maí 2008 : Kópavogsdeild veitir veglega styrki á 50 ára afmælinu

Kópavogsdeild Rauða krossins hefur fært hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð og Fjölsmiðjunni í Kópavogi veglegar gjafir í tilefni af 50 ára afmæli sínu. Garðar H. Guðjónsson formaður afhenti gjafirnar á sérstökum hátíðarfundi stjórnar á alþjóðadegi Rauða krossins 8. maí. Við sama tækifæri afhentu nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi hjálparsjóði Rauða kross Íslands afrakstur af fatamarkaði sem þeir héldu nýverið til styrktar ungmennum í Mósambík.

Sunnuhlíð og Fjölsmiðjan eru meðal umfangsmestu verkefnanna í fimmtíu ára sögu Kópavogsdeildar frá stofnun 12. maí 1958. Hvor stofnunin um sig hlaut 500 þúsund krónur til brýnna tækjakaupa. Kópavogsdeild hafði afgerandi forystu um uppbyggingu Sunnuhlíðar frá því um 1980 og til aldamóta. Þar varð einnig til sjálfboðið starf sem myndaði grunn að öflugri heimsóknaþjónustu sem deildin heldur úti nú. Rauði krossinn átti jafnframt frumkvæði að stofnun Fjölsmiðjunnar 2001 og hefur Kópavogsdeild stutt dyggilega við uppbyggingu og rekstur hennar síðan.

14. maí 2008 : Nemendur MK afhenda afrakstur fatamarkaðar

Nemendur frá Menntaskólanum í Kópavogi afhentu á dögunum framkvæmdastjóra Rauða kross Íslands, Kristjáni Sturlusyni, 145 þúsund krónur sem söfnuðust á fatamarkaði sem nemendurnir stóðu fyrir í apríl. Peningarnir renna í hjálparsjóð Rauða krossins sem er notaður til að efla menntun fátækra ungmenna í Mósambík.

Fatamarkaðurinn var lokaverkefni nemendanna í áfanga um sjálfboðið starf hjá Menntaskólanum í Kópavogi en áfanginn er kenndur í samvinnu við Kópavogsdeild Rauða krossins. Í áfanganum vinna nemendurnir sjálfboðin störf fyrir deildina og fá ýmiss konar fræðslu, meðal annars um störf Rauða krossins.

8. maí 2008 : Kópavogsdeild Rauða krossins í 50 ár

Alþjóðadagur Rauða krossins og Rauða hálfmánans er í dag og Kópavogsdeild Rauða kross Íslands fagnar 50 ára afmæli 12. maí.

 

7. maí 2008 : Unglingastarf URKÍ-R í sælgætisgerð

Eitt af fjölmörgum skemmtilegum verkefnum unglingastarfs Reykjavíkurdeildar (URKÍ-R) er sælgætisgerð. Nú stendur yfir sala á afurðunum og verður ágóðinn notaður til að styrkja Rauða kross starfið í Gambíu.

Hugmyndin að sælgætisgerðinni vaknaði í kjölfar heimsóknar tveggja sjálfboðaliða frá vinadeildum Reykjavíkurdeildar, Banjul og KM í Gambíu. Þeir dvöldu á Íslandi í sex vikur í vetur.

Eftir mikið föndur og flókna vinnu við sælgætisgerðina er nú loks hægt að kaupa molana sykursætu hjá sjálfboðaliðum unglingastarfsins eða á skrifstofu deildarinnar að Laugavegi 120. Pokinn af þessum ljúfu molum kostar 300 krónur en valið stendur á milli brjóstsykurs með peru- jarðaberja- og/eða lakkrísbragði.

6. maí 2008 : Lifnar yfir fólki þegar hundarnir koma í heimsókn

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands hefur um árabil staðið fyrir heimsóknum í Sunnuhlíð, hjúkrunarheimili aldraðra, en fyrir tæpum tveimur árum var tekið upp á þeirri nýbreytni að leyfa ferfætlingum að gerast heimsóknarvinir. Greinin birtist í Morgunblaðnu 3. maí.

23. apr. 2008 : Ársskýrsla 2007

16. apr. 2008 : Sjálfboðaliðar í Hnotuberg

Hafnarfjarðardeild Rauða krossins hélt á mánudaginn fund fyrir sjálfboðaliða sem stefna að því að vinna að verkefni með skammtímavistun Hnotubergs.

11. apr. 2008 : Undirbúningur hafinn fyrir fatamarkað MK-nema

Nemendur Menntaskólans í Kópavogi í áfanganum SJÁ 102 hófu í vikunni undirbúning fyrir fatamarkað sem haldinn verður í sjálfboðamiðstöðinni 18. og 19. apríl næstkomandi.

Áfanginn snýst um að vinna sjálfboðið starf fyrir Kópavogsdeild og er fatamarkaðurinn lokaverkefni nemendanna. Fóru þeir í fataflokkunarstöð Rauða krossins til að velja föt á markaðinn. Á næstunni munu þeir setja hann upp í sjálfboðamiðstöðinni, hengja upp auglýsingar vítt og breitt um Kópavog og loks afgreiða á markaðinum sjálfum.

10. apr. 2008 : Doberman félagar hafa áhuga á að vera heimsóknavinir

Heimsóknir sjálfboðaliða með hunda fór af stað árið 2006 en það er angi af heimsóknavinaverkefni Rauða krossins sem lýtur að því að draga úr félagslegri einangrun fólks. Sífellt meiri eftirspurn er eftir því að fá hund í heimsókn og vantar orðið sjálfboðaliða til að sinna verkefninu.

Á laugardaginn fóru verkefnistjóri heimsóknarþjónustu á landsskrifstofu ásamt sjálfboðaliða, sem er heimsóknarvinur með hund, og kynntu verkefnið fyrir félögum í „Doberman Ísland“ sem er félag Doberman hundaeigenda á Íslandi. Mikill áhugi er hjá félagsmönnum að taka þátt í verkefninu og var þeim kynnt það ferli sem hundaeigendur þurfa að fara í gegnum áður en hundarnir geta farið að heimsækja á vegum Rauða krossins ásamt fleiru. 

9. apr. 2008 : Fjör á samveru heimsóknavina

Mánaðarleg samvera heimsóknavina Kópavogsdeildar var haldin í sjálfboðamiðstöðinni í gær og komu góðir gestir í heimsókn. Heimsóknavinum úr Hafnarfirði og Grindavík hafði verið boðið í því skyni að heimsóknavinir ólíkra deilda hittust, ættu góða stund saman og kynntu sér starf hvers annars.

Hópstjóri heimsóknavina í Kópavogsdeild byrjaði á því að segja frá heimsóknaþjónustu deildarinnar og síðan tóku fulltrúar úr Hafnarfjarðardeild við og sögðu meðal annars frá heimsóknum sínum til hælisleitenda. Heimsóknavinirnir úr Grindavík tóku því næst við orðinu og sögðu frá sínu starfi en þessi góði hópur kvenna kallar sig Friðarliljurnar. Þær syngja og spila fyrir sína gestgjafa og tóku lagið við góðar undirtektir hinna heimsóknavinanna. Það var því mikið líf og fjör í sjálfboðamiðstöðinni. Heimsóknavinirnir gæddu sér svo á fínum veitingum þar sem einn úr Kópavogsdeildinni hafði bakað pönnukökur og búið til kakó.

2. apr. 2008 : Söngstund hjá Enter-krökkunum í Kópavogi

Enter-krakkarnir komu í dag í Sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og var söngur á dagskránni. Krakkarnir fengu sönghefti með gömlum og góðum íslenskum barnalögum og spreyttu sig á ýmsum lögum. Meðal annars tóku þau Sá ég spóa og Höfuð, herðar, hné og tær sem vakti mikla kátínu krakkanna. Síðan tók við dálítill dans og enduðu krakkarnir á því að fara í nokkra leiki. Tíkin Karó kom einnig í heimsókn og gerði hún hundakúnstir fyrir krakkana og gáfu þau henni nammi að launum.

27. mar. 2008 : Færanleg sjálfboðamiðstöð

Í vikunni afhenti IB. ehf. á Selfossi Reykjavíkurdeildinni nýjan Ford Expedition bíl. Bíllinn er keyptu í þeim tilgangi að draga hjólhýsi sem notað verður sem færanleg sjálfboðamiðstöð. Hjólhýsið verður til dæmis notað til að veita fólki skjól eftir eldsvoða, aðstoða ungt fólk af erlendum uppruna með heimalærdóm í hverfum borgarinnar, sjúkragæslu á Menningarnótt og margt fleira. IB ehf. gaf Rauða krossinum góðan afslátt og eiga þeir bestu þakkir fyrir.

Þann 8. apríl næstkomandi verður kynningarfundur á Laugarvegi 120 kl. 20:00 fyrir sjálfboðaliða sem hafa áhuga á að starfa í bílahópi Reykjavíkurdeildarinnar. Hlutverk hópsins er að sjá um minniháttar viðhald bílsins og hjólhýssins, vera sérfræðingar í notkun á hjólhýsinu og aka því þegar á þarf að halda. Kynningarfundurinn er opinn öllum.

22. mar. 2008 : Nemendur í Snælandsskóla gáfu Rauða krossinum þrettán hjól

Á dögunum afhentu nokkrir nemendur úr unglingadeild Snælandsskóla fulltrúum Rauða krossins þrettán hjól sem þau höfðu gert upp. Nokkur hjól eru nú þegar á leið til Gambíu en þau sem eftir eru fara síðar til Malaví. Landsfélög Rauða krossins í þessum löndum koma hjólunum áleiðis til þeirra sem þurfa. Þetta er í annað sinn sem krakkarnir í Snælandsskóla afhenda Rauða krossinum hjól að gjöf og munu þau áreiðanlega koma sér vel hjá nýjum eigendum.

19. mar. 2008 : Dæmir þú fólk eftir útlitinu?

Í tilefni af Evrópuviku gegn fordómum tók Rauði krossinn þátt í hátíðarhöldum í gær ásamt Mannréttindaskrifstofu, Alþjóðahúsi, Amnesty International, Þjóðkirkjunni, Íslandi Panorama og Soka Gakkai Íslandi.

18. mar. 2008 : Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti

Ungmennahreyfing Rauða kross Íslands tekur ásamt sex öðrum félagasamtökum þátt í Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti sem stendur 15.-21. mars.

17. mar. 2008 : Veittu sálrænan stuðning í kjölfar eldsvoða

Viðbragðshópur Rauða krossins var kallaður út í gærmorgun vegna elds í fjölbýlishúsi í Hrafnhólum í Breiðholti. Allt tiltækt lið Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu var kallað út.

Eldurinn kviknaði í íbúð á annarri hæð en húsið er átta hæða með um fimmtíu íbúðir og hátt í tvö hundruð íbúa. Greiðlega gekk að slökkva eldinn og varð engum íbúa meint af.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins veittu íbúum í húsinu sálrænan stuðning þar sem mörgum hafði brugðið þegar eldsins varð vart.

Íbúðin þar sem eldurinn kviknaði var mannlaus og rannsakar lögreglan eldsupptök.

14. mar. 2008 : Heimsóknavinir Kópavogsdeildar hittast mánaðarlega

Kópavogsdeild Rauða krossins hélt mánaðarlega samveru heimsóknavina á þriðjudaginn. Alls mættu yfir tuttugu heimsóknavinir til að hlýða á erindi um þunglyndi og kvíða.

7. mar. 2008 : Grunnskólar höfuðborgarsvæðis fá heimsókn frá Rauða krossinum

Deildir á höfuðborgarsvæðinu hafa í vetur eins og undanfarin ár heimsótt áttundu bekkinga grunnskólanna og kynnt starf félagsins innanlands og hvaða verkefni fyrir ungmenni deildir hafa upp á að bjóða. Krakkarnir geta til dæmis lagt sitt af mörkum við hjálparstarfið með því að gefa fötin sem þau eru hætt að nota til Fataflokkunarstöðvarinnar á höfuðborgarsvæðinu.

 

Svæðisfulltrúi heldur utan um kynningarnar og fer í skólana ásamt sjálfboðaliðum og starfsmönnum deilda. Um þessar mundir eru sjálfboðaliðar frá Gambíu í Vestur-Afríku í heimsókn hjá Ungmennadeild Reykjavíkurdeildar og hafa þeir komið með í nokkrar kynningar og kynnt land og þjóð og starfsemi Rauða krossins þar. Heimsóttir hafa verið 20 skólar og nokkrar heimsóknir eru framundan.

Rauði krossinn hefur á boðstólnum fræðsluefni fyrir öll skólastig á skólvef, www.redcross.is/skoli. Kennsluleiðbeiningar fylgja.

29. feb. 2008 : Fjöldi nýrra sjálfboðaliða og nýtt verkefni á síðasta ári í Kópavogsdeild

Sjálfboðaliðum Kópavogsdeildar fjölgaði um nær þriðjung á síðasta ári, úr 182 í 240, og varð fjölgunin einkum í þremur verkefnum.

22. feb. 2008 : Lækur opnar á laugardögum

Lækur, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, í Hafnarfirði hefur nú opið á laugardögum milli klukkan 12:00 og 15:00. Lækur er staðsettur að Hörðuvöllum 1.

21. feb. 2008 : Vel heppnuð æfingarferð skyndihjálparhópa

Það var oft handagangur í öskjunni hjá skyndihjálparhópum Reykjavíkurdeildar og ungmenna á Austurlandi í sameiginlegri æfingarferð þeirra um síðustu helgi í Alviðru í Ölfusi.

15. feb. 2008 : Nemendur í Breiðagerðisskóla láta gott af sér leiða

Nemendur úr þriðja bekk Breiðagerðisskóla gáfu Rauða krossinum um tíu þúsund krónur sem þeir söfnuðu með ýmsum leiðum til styrktar barna úti í heimi sem þurfa á aðstoð að halda. Sjálfboðaliðar frá Rauða krossinum í Gambíu, sem eru hér á landi til að kynna sér ýmis verkefni Rauða kross Íslands, tóku á móti söfnunarfénu fyrir hönd félagsins.

Söfnunarféð fer í styrktarsjóð sem rennur til ungmenna- og barnastarfs Rauða krossins víða um heim, til dæmis voru peningar sem söfnuðust árið 2007 notaðir til að hjálpa börnum í Malaví í suðurhluta Afríku.

Nemendurnir fengu sér göngutúr og heimsóttu landskrifstofu Rauða krossins ásamt kennurum sínum og afhendu starfsmönnum söfnunarféð.

6. feb. 2008 : Fatapakkar til Malaví

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar í verkefninu Föt sem framlag komu saman í sjálfboðamiðstöðinni til að ganga frá ungbarnafötum í þar til gerða pakka sem sendir verða til barna í neyð í Malaví. Pakkarnir urðu 198.

Fötin eru afrakstur prjónavinnu sjálfboðaliðanna síðustu mánaða en síðasta miðvikudag hvers mánaðar hittast sjálfboðaliðarnir í prjónakaffi í sjálfboðamiðstöðinni og fá þá garn með sér heim til að prjóna ungbarnaföt eins og peysur, teppi, húfur og sokka. Einnig fara samfellur, treyjur, handklæði og taubleyjur í pakkana.

10. jan. 2008 : Unglingar í Rauða krossinum eru í skemmtilegum verkefnum

Unglingastarf Reykjavíkurdeildar, URKÍ-R, er öflugt um þessar mundir. Tveir hópar hittast á hverjum fimmtudegi og funda. Annar hópurinn í Breiðholti, Álfabakka 14a, 3. hæð og hinn hópurinn í miðbænum á Laugavegi 120, 5. hæð.
 
Síðustu mánuði hafa verkefnin verið fjölbreytt. Meðal annars fengu krakkarnir leiklistarkennara til að kenna spuna og heimsóttu fataflokkun Rauða krossins og aðstoðuðu við fataflokkun. Einnig fengu þau fræðslu í skyndihjálp, heimsóttu aðrar Rauða kross deildir og leiklistarhópurinn Perlan kom í heimsókn.
 
Fyrir jól föndruðu hóparnir jólakort og skrifuðu í þau kveðju og fóru með á Elliheimilið Grund. Var vel tekið á móti þeim og í tilefni heimsóknarinnar söng kór nokkur vel valin jólalög. Krakkarnir röltu svo um heimili Grundar og afhentu vistmönnum jólakortin.