29. feb. 2008 : Fjöldi nýrra sjálfboðaliða og nýtt verkefni á síðasta ári í Kópavogsdeild

Sjálfboðaliðum Kópavogsdeildar fjölgaði um nær þriðjung á síðasta ári, úr 182 í 240, og varð fjölgunin einkum í þremur verkefnum.

22. feb. 2008 : Lækur opnar á laugardögum

Lækur, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, í Hafnarfirði hefur nú opið á laugardögum milli klukkan 12:00 og 15:00. Lækur er staðsettur að Hörðuvöllum 1.

21. feb. 2008 : Vel heppnuð æfingarferð skyndihjálparhópa

Það var oft handagangur í öskjunni hjá skyndihjálparhópum Reykjavíkurdeildar og ungmenna á Austurlandi í sameiginlegri æfingarferð þeirra um síðustu helgi í Alviðru í Ölfusi.

15. feb. 2008 : Nemendur í Breiðagerðisskóla láta gott af sér leiða

Nemendur úr þriðja bekk Breiðagerðisskóla gáfu Rauða krossinum um tíu þúsund krónur sem þeir söfnuðu með ýmsum leiðum til styrktar barna úti í heimi sem þurfa á aðstoð að halda. Sjálfboðaliðar frá Rauða krossinum í Gambíu, sem eru hér á landi til að kynna sér ýmis verkefni Rauða kross Íslands, tóku á móti söfnunarfénu fyrir hönd félagsins.

Söfnunarféð fer í styrktarsjóð sem rennur til ungmenna- og barnastarfs Rauða krossins víða um heim, til dæmis voru peningar sem söfnuðust árið 2007 notaðir til að hjálpa börnum í Malaví í suðurhluta Afríku.

Nemendurnir fengu sér göngutúr og heimsóttu landskrifstofu Rauða krossins ásamt kennurum sínum og afhendu starfsmönnum söfnunarféð.

6. feb. 2008 : Fatapakkar til Malaví

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar í verkefninu Föt sem framlag komu saman í sjálfboðamiðstöðinni til að ganga frá ungbarnafötum í þar til gerða pakka sem sendir verða til barna í neyð í Malaví. Pakkarnir urðu 198.

Fötin eru afrakstur prjónavinnu sjálfboðaliðanna síðustu mánaða en síðasta miðvikudag hvers mánaðar hittast sjálfboðaliðarnir í prjónakaffi í sjálfboðamiðstöðinni og fá þá garn með sér heim til að prjóna ungbarnaföt eins og peysur, teppi, húfur og sokka. Einnig fara samfellur, treyjur, handklæði og taubleyjur í pakkana.