28. maí 2008 : Unglingastarfið í vorferð

Krakkarnir sem taka þátt í unglingarstarfi deilda á höfuðborgarsvæðinu héldu í sína árlegu vorferð á laugardaginn.

28. maí 2008 : Nýr forstöðumaður hefur tekið til starfa á Fjölskyldumiðstöð

Ragnheiður Sigurjónsdóttir hefur tekið við starfi forstöðumanns Fjölskyldumiðstöðvar. Erla Þórðardóttir hefur látið af störfum og eru henni færðar þakkir fyrir vel unnin störf.

 

26. maí 2008 : Heimsóknavinir Rauða krossins í Sunnuhlíð

„Allt þetta samstarf Kópavogsdeildar Rauða krossins og Sunnuhlíðar hefur jafnan verið með miklum ágætum og öllum sem að því koma til gleði og skemmtunar."

20. maí 2008 : Afhentu 8 milljónir í Hjálparsjóð

Á aðalfundir Rauða kross Íslands, sem haldinn var í Kópavogi um síðustu helgi, afhentu deildir á höfuðborgarsvæðinu 8 milljón króna framlag í Hjálparsjóð. Framlagið er hagnaður af fatasöfnunarverkefni deildanna og er þetta ekki í fyrsta skipti sem svo ríkulegt framlag rennur í Hjálparsjóð frá þessu verkefni. Frá stofnun fatasöfnunar árið 2000 hefur verkefnið skilað 24,5 milljónum í Hjálparsjóð og því ljóst að mikil verðmæti eru falin í þeim fatnaði sem til fellur á heimilum fólks.

Framlagið í Hjálparsjóð eru þó ekki einu verðmætin sem skapast í fatasöfnunni því vikulega fer fram úthlutun á fatnaði auk þess sem fatnaður er sendur til hjálparstarfs þegar þess er þörf. Sjálfboðaliðar Rauða krossins vinna mikið og óeigingjarnt verk í fatasöfnuninni jafnt í flokkunarstöðinni, úthlutun sem og Rauðakrossbúðunum. Ef þú hefur áhuga á að leggja verkefninu lið hafðu þá samband í síma 587-0900

19. maí 2008 : Tímamótasamningur um fatasöfnun

Á laugardaginn skrifuðu Rauða kross deildir á höfuðborgarsvæðinu undir nýjan samning um fatasöfnun. Markar samningurinn nokkur tímamót í sögu verkefnisins en með honum er stjórnun verkefnisins einfölduð og vænta menn þess að það verði til mikilla hagsbóta.

Þriggja manna rekstrarstjórn mun nú stýra verkefninu ásamt verkefnisstjóra. Í þessari fyrstu verkefnisstjórn sitja Þórir Guðmundsson Reykjavíkurdeild, sem jafnframt er formaður, Gunnar M. Hansson Kópavogsdeild og Herdís Sigurjónsdóttir Kjósarsýsludeild. Verkefnisstjóri fatasöfnunar er Örn Ragnarsson.

19. maí 2008 : Saga Kópavogsdeildar 1958-2008

Saga Kópavogsdeildar Rauða krossins í 50 ár er komin út en þar er greint frá verkum deildarinnar og sjálfboðaliða hennar frá stofnun 12. maí 1958 til þessa dags. Um er að ræða veglegt afmælisrit prýtt fjölda mynda og ber það heitið Verkin tala – Kópavogsdeild Rauða krossins 1958-2008. Garðar H. Guðjónsson tók verkið saman en Kópavogsdeild er útgefandi. Útgáfu ritsins og afmælis Kópavogsdeildar var fagnað í móttöku í sjálfboðamiðstöð deildarinnar fimmtudaginn 15. maí.

Unnið hefur verið að útgáfu ritsins síðan aðalfundur deildarinnar 2005 samþykkti að ráðist skyldi í undirbúning. Kópavogsdeild hefur í áranna rás ráðist í stórvirki í þágu aldraðra, fólks með geðraskanir, ungmenna í vanda og fólks sem býr við einsemd og félagslega einangrun. Á síðustu árum hefur deildin byggt upp öflugt starf sjálfboðaliða að ýmsum verkefnum og eru samningsbundnir sjálfboðaliðar deildarinnar nú um 300 talsins.

15. maí 2008 : Fengin í sjálfboðaliðastörf í heita pottinum

Sigríður Þorvaldsdóttir, eða Ninna eins og hún er alltaf kölluð, hefur starfað sem sjálfboðaliði í Rauðakrossbúðinni í Hafnarfirði frá opnun búðarinnar haustið 2005. Ninna vinnur eina vakt í viku á föstudögum því hún vill gjarnan láta gott af sér leiða. Hér má lesa stutt viðtal við Ninnu.
 
Hvernig kom til að þú fórst að vinna í Rauðakrossbúðinni?
Ég var hætt að vinna og hafði lengi unnið við verslunarstörf m.a. í ein 27 ár í fataversluninni Emblu sem var í miðbæ Hafnarfjarðar. Mér fannst ég enn full af orku og vildi finna mér eitthvað að gera. Einn daginn var ég stödd í heitapottinum í Sundhöllinni og heyrði af því að til stæði að opna þessa búð. Þar var kona sem heitir Gunnhildur Sigurðardóttir og hefur verið sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum lengi, að segja okkur frá því hvað til stæði. Ég ákvað því að láta mér ekki einungis nægja að hlusta heldur skella mér í verkefnið.

14. maí 2008 : Kópavogsdeild veitir veglega styrki á 50 ára afmælinu

Kópavogsdeild Rauða krossins hefur fært hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð og Fjölsmiðjunni í Kópavogi veglegar gjafir í tilefni af 50 ára afmæli sínu. Garðar H. Guðjónsson formaður afhenti gjafirnar á sérstökum hátíðarfundi stjórnar á alþjóðadegi Rauða krossins 8. maí. Við sama tækifæri afhentu nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi hjálparsjóði Rauða kross Íslands afrakstur af fatamarkaði sem þeir héldu nýverið til styrktar ungmennum í Mósambík.

Sunnuhlíð og Fjölsmiðjan eru meðal umfangsmestu verkefnanna í fimmtíu ára sögu Kópavogsdeildar frá stofnun 12. maí 1958. Hvor stofnunin um sig hlaut 500 þúsund krónur til brýnna tækjakaupa. Kópavogsdeild hafði afgerandi forystu um uppbyggingu Sunnuhlíðar frá því um 1980 og til aldamóta. Þar varð einnig til sjálfboðið starf sem myndaði grunn að öflugri heimsóknaþjónustu sem deildin heldur úti nú. Rauði krossinn átti jafnframt frumkvæði að stofnun Fjölsmiðjunnar 2001 og hefur Kópavogsdeild stutt dyggilega við uppbyggingu og rekstur hennar síðan.

14. maí 2008 : Nemendur MK afhenda afrakstur fatamarkaðar

Nemendur frá Menntaskólanum í Kópavogi afhentu á dögunum framkvæmdastjóra Rauða kross Íslands, Kristjáni Sturlusyni, 145 þúsund krónur sem söfnuðust á fatamarkaði sem nemendurnir stóðu fyrir í apríl. Peningarnir renna í hjálparsjóð Rauða krossins sem er notaður til að efla menntun fátækra ungmenna í Mósambík.

Fatamarkaðurinn var lokaverkefni nemendanna í áfanga um sjálfboðið starf hjá Menntaskólanum í Kópavogi en áfanginn er kenndur í samvinnu við Kópavogsdeild Rauða krossins. Í áfanganum vinna nemendurnir sjálfboðin störf fyrir deildina og fá ýmiss konar fræðslu, meðal annars um störf Rauða krossins.

8. maí 2008 : Kópavogsdeild Rauða krossins í 50 ár

Alþjóðadagur Rauða krossins og Rauða hálfmánans er í dag og Kópavogsdeild Rauða kross Íslands fagnar 50 ára afmæli 12. maí.

 

7. maí 2008 : Unglingastarf URKÍ-R í sælgætisgerð

Eitt af fjölmörgum skemmtilegum verkefnum unglingastarfs Reykjavíkurdeildar (URKÍ-R) er sælgætisgerð. Nú stendur yfir sala á afurðunum og verður ágóðinn notaður til að styrkja Rauða kross starfið í Gambíu.

Hugmyndin að sælgætisgerðinni vaknaði í kjölfar heimsóknar tveggja sjálfboðaliða frá vinadeildum Reykjavíkurdeildar, Banjul og KM í Gambíu. Þeir dvöldu á Íslandi í sex vikur í vetur.

Eftir mikið föndur og flókna vinnu við sælgætisgerðina er nú loks hægt að kaupa molana sykursætu hjá sjálfboðaliðum unglingastarfsins eða á skrifstofu deildarinnar að Laugavegi 120. Pokinn af þessum ljúfu molum kostar 300 krónur en valið stendur á milli brjóstsykurs með peru- jarðaberja- og/eða lakkrísbragði.

6. maí 2008 : Lifnar yfir fólki þegar hundarnir koma í heimsókn

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands hefur um árabil staðið fyrir heimsóknum í Sunnuhlíð, hjúkrunarheimili aldraðra, en fyrir tæpum tveimur árum var tekið upp á þeirri nýbreytni að leyfa ferfætlingum að gerast heimsóknarvinir. Greinin birtist í Morgunblaðnu 3. maí.