30. jún. 2008 : Frábær ferð í Bláa Lónið og Svartsengi

Síðastliðinn miðvikudag fóru sjálfboðaliðar Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins og hælisleitendur á Íslandi í skemmtilega sumarferð í Bláa Lónið og Svartsengi.

Ferðin var farin í blíðskaparveðri og ríkti bæði mikil eftirvænting og kátína meðal ferðalanga. Morguninn hófst með boðsferð í Bláa Lónið þar sem menn nutu afslappandi baðsins á rólegum morgni. Endurnærður hélt hópurinn svo yfir í Svartsengi þar sem tekið var á móti hópnum með veitingum í Eldborg og orkuverin skoðuð eftir að menn höfðu fengið létta hressingu. Skoðunarferðin endaði í Eldvörpum þar sem blásið var kröftulega úr einni af borholum Hitaveitunnar.

24. jún. 2008 : Skyndihjálpahópur á Formúlu 1

Fjórum sjálfboðaliðum skyndihjálparhóps var boðið að taka þátt í sjúkragæslu á Formúlu 1 keppninni á dögunum. Hópurinn var í boði Rauða krossins í Mónakó, en þetta er annað árið í röð sem hópurinn fer þangað til starfa.

Verkefni hópsins voru fjölmörg enda í mörg horn að líta í svona keppni. Eitt af verkefnum hópsins á keppnisdaginn sjálfan var að gæta Alberts prins II við ráslínu keppninnar.

Að keppninni lokinn var sjálfboðaliðunum boðið til Ítalíu að skoða Rauða krossinn í San Remo. Þar var vel tekið á móti þeim að hætti Ítala með mat og drykk.
 

24. jún. 2008 : Öflugt starf í Kópavogi á liðnum vetri

Kópavogsdeild hefur haldið úti öflugu sjálfboðaliðastarfi á liðnum vetri. Sífellt bætist í hóp sjálfboðaliða sem sinna ýmsum verkefnum á vegum deildarinnar. Í vetur hefur fjöldi sjálfboðaliða sinnt heimsóknaþjónustu á einkaheimilum, sambýlum aldraðra, í Sunnuhlíð, Rjóðrinu og Dvöl. Heimsóknavinirnir hitta gestgjafa sína reglulega og fara út að ganga með þeim, spjalla saman, fara á kaffihús, syngja og lesa svo eitthvað sé nefnt.

Sjálfboðaliðar vinna einnig með ungmennum, bæði íslenskum og erlendum, og stjórna vikulegum samverum þeirra þar sem ungmennin eru virkjuð á fjölbreyttan máta eins og með dansi, leiklist, föndri, söng og ýmiss konar fræðslu.

23. jún. 2008 : Hringdi og bað um vin

Ólöf Sigurrós, sem er 98 ára, fer í hverri viku á kaffihús með vinkonu sinni Bergdísi frá Rauða krossinum. Greinin birtist í 24stundum 12. júní 2008.

12. jún. 2008 : Metþátttaka í Vin þegar Guðfríður Lilja Grétarsdóttir var heiðruð

Það var heldur betur tekist á í Vin, athvarfi Rauða krossins þegar Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sem nýverið lét af störfum sem forseti Skáksambandsins, var heiðruð með hraðskákmóti. 27 þátttakendur skráðu sig til leiks, og það á mánudegi kl. 13:00, en áður höfðu flestir mætt þar á Morgan Kane skákmótið í fyrra, átján manns.

Margir sterkir skákmenn voru með og nokkrir af efnilegustu ungu skákpiltum og –stúlkum landsins, m.a. Íslandsmeistaralið Rimaskóla og þau Jóhanna Björg og Birkir Karl úr heimsmeistaraliði Salaskóla í grunnskólaskák, árið 2007.

11. jún. 2008 : 18 milljónir fyrir notuð föt í neyðaraðstoð Rauða krossins

18 milljón króna framlag fatasöfnunarverkefnis Rauða krossins til neyðaraðstoðar var afhent við fatagám í Sorpu á Sævarhöfða í dag fyrir hönd allra þeirra sem gáfu notuð föt til félagsins á síðasta ári.  

Fjármagnið er fengið fyrir sölu á fatnaði sem fólk gefur Rauða krossinum, og fer allt framlagið til hjálparstarfa Alþjóða Rauða krossins.  Þetta er hæsta framlag sem fengist hefur fyrir notaðan fatnað á einu ári hér á landi síðan fatasöfnunarverkefnið hófst fyrir átta árum.

10. jún. 2008 : Fatasöfnunin fer í draumahúsnæðið

Fatasöfnunarstöð Rauða krossins fer í nýtt húsnæði í sumar. Hún flytur á besta mögulega stað, við Skútuvog 1, steinsnar frá athafnasvæði Samskipa við Sundahöfn. Fatasöfnunin hefur hingað til haft aðsetur við Gjótuhraun í Hafnarfirði.

"Þetta er draumastaðsetningin, nálægt höfninni og helstu flutningaleiðum og aðgengileg skjólstæðingum og sjálfboðaliðum á einkabílum eða í strætó," segir Þórir Guðmundsson, nýkjörinn formaður stjórnar Fatasöfnunar Rauða krossins.

Örn Ragnarsson verkefnisstjóri Fatasöfnunar segir “Tíu ára leigusamningur gerir okkur kleift að ná meiri stöðugleika í starfseminni. Fatasöfnunin hefur þurft að flytja fjórum sinnum á átta árum.

9. jún. 2008 : Rauði krossinn tók þátt í Þjóðahátíð Alþjóðahússins

Rauði krossinn tók þátt í Þjóðahátíð Alþjóðahússins og kynnti vinadeildasamstarf  Hafnarfjarðardeildar við Malaví og Mentoraverkefni Garðabæjardeildar.

Ungliðar á vegum Hafnarfjarðardeildar stóðu fyrir bókamarkaði til styrktar félagsstarfi fyrir hælisleitendur á Íslandi auk þess sem þau kynntu vinadeildasamstarf við deild innan malavíska Rauða krossins. Á bás þeirra mátti jafnframt kaupa ýmsa muni og te frá Malaví. Ágóði af sölunni rennur beint til styrktar Rauða kross deildinni í Malaví. Ungmennin söfnuðu alls 19.750 krónum sem skiptast nokkurn vegin til helminga á milli þessara tveggja verkefna.

Á næsta bási við bókamarkaðinn kynnti Garðabæjardeild Mentoraverkefni sem deildin hefur umsjón með. Í verkefninu styðja íslenskar konur við bakið á erlendum konum sem hér búa með það að markmiði að auðvelda þeim atvinnuþátttöku og aðlögun að íslensku samfélagi.