11. júl. 2008 : Sjálfboðaliðar URKÍ-R í Gambíu

Sjálfboðaliðarnir Sigurbjörg Birgisdóttir og Egill Þór Níelsson fóru í byrjun júlí sem fulltrúar Ungmennahreyfingar Reykjavíkurdeildar til Gambíu.

9. júl. 2008 : Kjósarsýsludeild færði leikskólunum í Mosfellsbæ og Kjalarnesi hávaðamæla að gjöf

Rannsóknir hafa sýnt að hávaði í leikskólum er að meðaltali á bilinu 76,1 - 98 dB í jafngildishljóðstigi og fer upp í allt að 116 dB. Niðurstöður rannsókna sýna að hávaði sem fer yfir hættumörk getur valdið varanlegum skaða. Vitað er að börn eru viðkvæmari fyrir hávaða en fullorðnir. Kjósarsýsludeild Rauða kross Íslands var það því ljúft og skylt að verða við ósk um að gefa hávaðamæla á alla leikskólana á svæði deildarinnar.

Mælarnir eru líkir umferðarljósum, á þeim logar grænt ljós en þegar hávaði eykst verður ljósið gult og að lokum rautt ef hávaðinn fer yfir hættumörk. Börnin sjá mælinn og eru þau minnt á að passa að ljósið verði ekki rautt. Mælarnir eru einnig búnir sírenu sem hægt er að kveikja á en hún fer þá í gang þegar ljósið verður rautt. Það er von deildarinnar að mælarnir verði gott hjálpartæki til að halda hávaða innan veggja leikskólanna innan hættumarka.

1. júl. 2008 : Kópavogsdeild afhendir Héraðsskjalasafni Kópavogs gömul gögn

Linda Ósk Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Kópavogsdeildar, og Þóra Elfa Björnsson afhentu í dag Hrafni Sveinbjarnarsyni, héraðsskjalaverði, gömul gögn frá Kópavogsdeild. Þar á meðal voru bókhaldsgögn og handskrifaðar fundargerðarbækur, sú elsta frá stjórnarfundi 1977 en einnig bækur frá 1982 þegar sjúkravinahópur deildarinnar var settur á fót. Þóra Elfa sat í stjórn deildarinnar í 19 ár og skrifaði sumar fundargerðarbækurnar.

Helsta hlutverk sjúkravinanna var að skemmta heimilisfólki Sunnuhlíðar með lestri og söng en þeir stóðu einnig fyrir margvíslegum viðburðum á hjúkrunarheimilinu, eins og aðventuskemmtun, árshátíð og bingói. Sjúkravinir urðu svo síðar að heimsóknavinum en það kallast sjálfboðaliðar sem sinna heimsóknaþjónustu á vegum deildarinnar í dag. Heimsóknavinir standa enn fyrir ýmsum viðburðum í Sunnuhlíð en þeir heimsækja einnig sambýli aldraðra og á einkaheimili.