28. ágú. 2008 : Miðlað reynslu sín á milli

Efnt var til grillveislu í húsakynnum Rauða krossins fyrir alla þá sem komu að verkefninu Félagsvinir - Mentorar og Mentees sem rekið er af Garðabæjardeild Rauða krossins. Tilgangur veislunnar var fyrst og fremst að aðstandendur verkefnisins geri sér glaðan dag, miðli reynslu hver til annars og meti árangur verkefnisins.

Fjölmargir sóttu veisluna og má þar nefna bakhjarla verkefnisins, félagsleiðbeinendur og börn og maka aðstandenda verkefnisins.

Hugmyndafræði verkefnisins byggir á nokkurs konar námssambandi milli tveggja kvenna sem báðar njóta góðs af, önnur er frá heimalandinu (mentor) og hin af erlendum uppruna (mentee). Þannig eru tengdar saman innlendar konur og konur af erlendum uppruna sem geta skipst á upplýsingum og þekkingu á jafningjagrundvelli þar sem unnið er að því að beisla þann óvirkjaða mannauð sem felst í menntun, þekkingu og reynslu hjá konum af erlendum uppruna, bæði þeim og íslensku samfélagi til framdráttar.

21. ágú. 2008 : Alþjóðlegar sumarbúðir í Austurríki

Katla Björg Kristjánsdóttir sjálfboðaliði Ungmennahreyfingar Reykjavíkurdeildar, URKÍ-R, sótti Alþjóðlegar sumarbúðir í Langenlois  í Austurríki í sumar. Þátttakendur sumarbúðanna komu víða að en markmið búðanna var meðal annars að kynnast starfi Rauða krossins betur, menningu þátttakenda og að hafa gaman saman.

Katla sótti fjölmarga fyrirlestra sem í boði voru. Meðal fyrirlesara var Marco Feingold 97 ára fyrrum fangi í fangabúðum nasista. Marco sagði sögu sína og lýsti sex ára dvöl sinni í fangabúðunum og lífsreynslu sinni. Einnig voru fyrirlestrar um Mannúaðarlögin, Genfarsáttmálann og saga Rauða krossins var kynnt svo eitthvað sé nefnt.