30. okt. 2008 : Nýir fjöldahjálparstjórar á höfuðborgarsvæðinu

Fjöldahjálparstjóranámskeið fyrir deildir Rauða krossins á höfuðborgarsvæði var haldið í vikunni með þátttöku flestra deilda svæðisins. Bætast þeir á lista fólks sem er tilbúið að vera til taks ef til almannavarnaástands kemur.

Á námskeiðinu var farið yfir hlutverk Rauða krossins á neyðarstundu, fjöldahjálp, samskipti við fjölmiðla og fleira. Æfð var opnun fjöldahjálparstöðvar í húsnæði Hafnarfjarðardeildar. Gulum borðum og skiltum var stillt upp á tilheyrandi stöðum. Námskeiðið gekk mjög vel og tóku þáttakendur virkan og góðan þátt.

Þeim sem vilja kynna sér verkefni Rauða krossins í neyðarvörnum á höfuðborgarsvæðinu er bent á hafa samband við Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur svæðisfulltrúa í síma 565 2425 eða netfangið [email protected].

17. okt. 2008 : Prjónahópur í menningarferð

Prjónahópur Reykjavíkurdeildar Rauða krossins fór í menningarferð í Gerðasal sl. fimmtudag.  Farið var á sýningu sem lýsir þjóðarsál og menningu Ekvador. Var gerður góður rómur af fallegum teppum, myndum og ekki síst skartgripum sem hópurinn dvaldi lengi við. Þegar prjónahópurinn gat loks dregið sig frá sýningunni, lá leiðin á kaffihús þar sem góðra veitinga var notið áður en haldið var heim.

Sjálfboðamiðlun Reykjavíkurdeildar hefur staðið fyrir opnu húsi á fimmtudögum kl. 13:30-16:00 fyrir fólk sem vill leggja góðu málefni lið með því að gefa vinnu sína við að prjóna eða hekla.

9. okt. 2008 : Athvarfið Dvöl í Kópavogi 10 ára

Í dag verður haldið upp á tíu ára afmæli Dvalar sem er í Reynihvammi 43. Athvarfið er samstarfsverkefni Kópavogsdeildar Rauða krossins, Kópavogsbæjar og svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Reykjanesi.

„Athvarfið hefur í tímans rás sannað gildi sitt og rofið einangrun fjölda fólks sem glímir við geðraskanir," segir Þórður Ingþórsson forstöðumaður Dvalar. Þórður segir að frá upphafi hafi verið lögð áhersla á að efla sjálfstæði og virkni gesta og er fólk aðstoðað við að leita nýrra leiða í leik og starfi óski viðkomandi þess. Margir sækja staðinn eftir að hafa dvalist á geðdeild en allir komi til að njóta samveru.