18. des. 2008 : Afhending á sónartæki til fæðingadeildar Landspítalans

Þann 11. desember síðastliðinn afhenti Kvennadeild Reykjvíkurdeildar Rauða kross Íslands,  Aloka ProSound 6, sónartæki að gjöf til fæðingardeildar Landspítalans. Þetta er hágæða tæki með miklum myndgæðum. 

Tækið er notað til að staðfesta fósturdauða hjá konum ef hjartsláttur heyrist ekki. Ennfremur til að greina legu barns ef erfitt er að greina hana með ytri skoðun og þá einkum við tvíburafæðingu. Eftir að fyrri tvíburi er þegar fæddur snýr seinni tvíburi oft í sitjanda eða þverlegu og efitt getur verið að greina legu hans.

Tækið má líka nota til að greina blæðingu á bak við fylgju ef um fylgjulos er að ræða og til að mæla lengd á leghálsi ef konur koma í fæðingu fyrir tímann.
 

18. des. 2008 : Mun fleiri leituðu neyðaraðstoðar í Kópavogi

Um 40 sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar Rauða krossins voru að störfum fyrir jólin vegna matar- og fataúthlutana og í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir. Sjálfboðaliðum við þessi verkefni hefur fjölgað mjög frá síðasta ári enda hafa mun fleiri leitað aðstoðar nú en á undanförnum árum. Þá eru ótaldir þeir sjálfboðaliðar sem sinna heimsóknaþjónustu og fleiri verkefnum á vegum deildarinnar. Um 50 heimsóknavinir fóru í desember á einkaheimili, stofnanir fyrir aldraða, í fangelsið í Kópavogi og víðar til að draga úr félagslegri einangrun.

16. des. 2008 : Fataúthlutun hjá Rauða krossinum á miðvikudögum

Rauða kross deildirnar á höfuðborgarsvæðinu standa að úthlutun á notuðum fatnaði alla miðvikudaga kl. 10-14. Sjálfboðaliðar Rauða krossins annast úthlutunina. Úthlutun fer fram að Laugavegi 116, gengið inn af bílastæði Grettisgötumegin. Verslanir Rauða krossins eru að Laugavegi 12 og Laugavegi 116 Reykjavík og Strandgötu 24 Hafnarfirði. Í verslununum er unnt að fá góðan fatnað á mjög sanngjörnu verði.

Vaxandi fjöldi fólks hefur nýtt sér þessa aðstoð Rauða krossins að undanförnu og eru þeir sem á þurfa að halda hvattir til þess að þiggja hana.

15. des. 2008 : Um 200 sjálfboðaliðar Rauða krossins í Reykjavík að störfum fyrir jólin

Um 200 sjálfboðaliðar Reykjavíkurdeildar Rauða krossins eru að störfum fyrir og um jólin vegna matar- og fataúthlutana, og í Konukoti, athvarfi fyrir heimilislausar konur. Sjálfboðaliðum við þessi verkefni hefur fjölgað um 50 frá síðasta ári vegna aukningar sem tengja má efnahagsþrengingunum. Skráning nýrra sjálfboðaliða hjá Reykjavíkurdeild frá september til desember er um 30% meiri en á sama tímabili 2007.

Í ár, eins og undanfarin ár, er samstarf um matarúthlutun fyrir jólin á milli Reykjavíkurdeildar Rauða krossins, Hjálparstarfs kirkjunnar og Mæðrastyrksnefndar. Rúmlega 70 sjálfboðaliðar Rauða krossins koma að úthlutuninni við skipulagningu, pökkun og dreifingu matvælanna. Byrjað verður að senda matargjafir út á land þann 15. desember en úthlutun í Reykjavík hefst þriðjudaginn 16. desember. Matarsendingar út  á land hafa tvöfaldast frá því í fyrra. Veruleg aukning er einnig í beiðnum um aðstoð í Reykjavík en endanlegar tölur liggja ekki fyrir. Fjöldi einstaklinga og fyrirtækja hefur lagt samstarfinu lið með framlögum í vörum, fjármunum, aðstöðu og vinnuframlagi. Er þeim öllum þakkað rausnarlegt framlag sitt til verkefnisins.

10. des. 2008 : Tombólukrökkum boðið í bíó í tilefni af degi sjálfboðaliðans

Sjálfboðaliðar Rauða krossins eru á öllum aldri, þau yngstu  hafa í gegnum tíðina verið iðin við að halda tombólur og nýtur Rauði kross Íslands góðs af þeirri vinnu. Um 450 börn um allt land stóðu á árinu fyrir alls konar söfnunum til að styrkja starf Rauða krossins. Á árinu söfnuðust 600.000 krónur.

Það var spenna í loftinu í Laugarásbíói á laugardaginn þegar tombólukrakkar Rauða krossins mættu til að horfa á myndina Lukkuláka. Ungmennadeild Reykjavíkurdeildar stóð fyrir bíósýningunni en eins og undanfarin ár gaf Laugarásbíó sýninguna.

Framlag tombólubarnanna rennur alltaf til ungmenna- og barnastarfs Rauða krossins víða um heim og að þessu sinni verða peningarnir notaðir til að hjálpa börnum í Malaví í suðurhluta Afríku. Þar hlúa sjálfboðaliðar að alnæmissjúkum, ungliðar fræða jafnaldra sína og börn eru studd til mennta.

Hægt er að sjá myndband frá Malaví hér

8. des. 2008 : Leikskólarnir í Grindavík heimsækja Rauða krossinn

Grindavíkurdeild Rauða krossins hefur verið í góðu samstarfi við leikskólana Laut og Krók. Nýverið heimsóttu elstu börn leikskólanna deildina en það hefur verið árviss viðburður um nokkurt skeið.

Krakkarnir spjölluðu um Rauða krossinn við Rósu starfsmann deildarinnar, horfðu á mynd með Rauða kross stráknum Hjálpfúsi og skoðuðu sjúkrabílinn. Þau fengu endurskinsborða og íspinna að gjöf. Krakkarnir kvöddu með söng sem í báðum tilfellum átti mjög vel við – Krókur með endurvinnslulagið og Laut með hjálparhandalagið – þetta gat ekki verið betra.

4. des. 2008 : Rauði krossinn og Mæðrastyrksnefnd veita neyðaraðstoð í Kópavogi

Kópavogsdeild Rauða krossins og Mæðrastyrksnefnd Kópavogs hafa gert samkomulag um neyðaraðstoð við bágstadda einstaklinga og fjölskyldur í Kópavogi fyrir jólin. Kópavogsdeild Rauða krossins hefur stóraukið framlag sitt vegna aðstoðarinnar miðað við fyrri ár enda er búist við að fleiri leiti aðstoðar nú.
 
Rauði krossinn og Mæðrastyrksnefnd hvetja fyrirtæki og stofnanir til að styrkja hjálparstarfið fyrir jólin með vörum eða fjárframlögum. Rauði krossinn þarf á talsverðum fjölda sjálfboðaliða að halda vegna verkefnisins og eru áhugasamir hvattir til að hafa samband í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected]

1. des. 2008 : Ókeypis faðmlag í Smáralind

Vegfarendur virtust í fyrstu feimnir, hissa eða kímnir þegar sjálfboðaliðar Ungmennahreyfingar Rauða krossins buðu frítt faðmalag í Smáralindinni í gær í tilefni alþjóðlega alnæmisdagsins.