29. des. 2009 : Mentee fær háskólastyrk

Félag háskólakvenna og kvenstúdenta veitti námsstyrk til tveggja kvenna af erlendum uppruna sem stunda nám við Háskóla Íslands. Styrkurinn er veittur til að létta undir framfærslu enda hafa þær ekki rétt á námslánum á Íslandi.

Félagið er í samstarfi við Garðabæjardeild Rauða krossins sem rekur verkefnið „Félagsvinur – Mentor er málið“. Deildin leggur til mentora fyrir konurnar sem styðja þær í náminu og hjálpa að aðlagast íslensku samfélagi.

Kristýna Antonova frá Tékklandi og Thuy Thi Pham frá Víetnam hlutu styrkinn. Kristýna mætti ásamt mentornum sínum, Jennýu Heiðu, til að veita styrknum viðtöku. Thuy var erlendis en hún mun einnig fá mentor í janúar þegar hún snýr aftur til Íslands.

9. des. 2009 : Tombólubörnum boðið í bíó

Í tilefni af degi sjálfboðaliðans  5. desember bauð Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík Tombólukrökkum hreyfingarinnar í bíó síðastliðinn föstudag. Laugarásbíó gaf inn á myndina Arthúr 2 sem var frumsýnd þennan sama dag og létu Tombólukrakkarnir ekki sitt eftir liggja og fjölmenntu í bíó.

Á hverju ári safna krakkar víðsvegar af á landinu háum fjárhæðum til styrktar Rauða krossinum. Árið 2009 söfnuðust 650.000 krónur og renna peningarnir til hjálparstarfs Rauða krossins fyrir börn í Malaví.

8. des. 2009 : Nemendur í SJÁ 102 fá viðurkenningu fyrir vel unnin sjálfboðaliðastörf

Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi í áfanganum SJÁ 102 fengu viðurkenningu á dögunum fyrir vel unnin sjálfboðaliðastörf hjá Kópavogsdeild. Nemendurnir voru tuttugu í áfanganum á þessari önn og unnu sjálfboðin störf í Rjóðrinu, með Eldhugum, sem námsvinir jafningja og í Dvöl. Þar að auki sátu þeir grunnnámskeið Rauða krossins þar sem þeir lærðu um upphaf, sögu, hugsjónir og verkefni hreyfingarinnar. Þeir héldu einnig dagbók um störf sín og lokaverkefni þeirra var að sjá um handverksmarkað í sjálfboðamiðstöðinni sem haldinn var þann 14. nóvember síðastliðinn.

1. des. 2009 : Jafningjafræðsla á alþjóðlegum alnæmisdegi

Alþjóðlegur baráttudagur gegn alnæmi er í dag 1. desember. Fræðsluhópur Plússins, ungmennastarfs Kópavogsdeildar hefur af því tilefni sinnt forvarnarfræðslu um alnæmi fyrir alla lífsleikninema Menntaskólans í Kópavogi undanfarna daga og vikur. Auk þess hélt hópurinn fyrirlestur og kynningu á Tyllidögum skólans í haust.

Fræðsluhópur sinnir fræðslu og forvörnum, bæði fyrir jafningja og yngri hópa og vinnur með eitt átaksverkefni á hverri önn. Verkefnið sem varð fyrir valinu í haust var fræðsla um alnæmi og hefur hópurinn leitast við að vekja jafningja sína til umhugsunar. Fræðslan var í formi hlutverkaleiks, auk fyrirlesturs þar sem fjallað var um helstu staðreyndir er varða sjúkdóminn. Fræðsluhópur vann þetta átaksverkefni í samstarfi við HIV–samtök Íslands.

 

30. nóv. 2009 : Vel heppnaður skiptidótamarkaður og kakó á laugardaginn

Tuttugu og þrír sjálfboðaliðar Kópavogsdeildarinnar stóðu vaktina síðasta laugardag á skiptidótamarkaði í Molanum og við að gefa gestum og gangandi kakó og piparkökur á jólaskemmtun á Hálsatorgi á laugardaginn. Á markaðinum voru notuð leikföng sem fólk gat fengið í skiptum fyrir dót sem það átti og þannig endurnýjað í dótakassa barna sinna. Þá var einnig hægt að kaupa notuð leikföngin á vægu verði. Alls var selt fyrir 16 þúsund krónur og munu þær renna í neyðaraðstoð innanlands.

Þegar kveikt var á jólatré Kópavogs á Hálsatorgi síðar um daginn voru sjálfboðaliðar tilbúnir með heitt kakó og piparkökur fyrir þá sem komu til að fylgjast með dagskránni á torginu. Þetta voru heimsóknavinir, sjálfboðaliðar í neyðarvörnum og í verkefninu Föt sem framlag. Þá voru einnig sjálfboðaliðar í eldhúsinu í Molanum að búa til kakóið.

30. nóv. 2009 : Föt frá Álftanesi til Hvíta Rússlands

Álftanesdeild Rauða krossins og Félag eldri borgara á Álftanesi hafa unnið saman frá því í byrjun október að útbúa ungbarnapakka sem senda á með gámi til Hvíta Rússlands nú í desember.

Á milli 10-15 eldri borgarar hafa setið við að prjóna og sauma síðustu tvo mánuði og eins hefur verið leitað til foreldra barna á leikskólum á Álftanesi til að safna fötum sem einnig fara í gáminn.

Á föstudaginn komu saman allir þeir sem standa að verkefninu í Litla Koti húsnæði FEBÁ til að pakka fötunum í sérstaka poka til að afhenda þá til sendingar.

25. nóv. 2009 : Gefur fólki virkilega mikið að knúsa dýr

Heimsóknir hunda frá Rauða krossinum hófust á líknardeild Landspítalans í Kópavogi í gær. Á vegum Rauða krossins er fjöldi sjálfboðaliða sem fer með hunda sína í heimsóknir á stofnanir til að gleðja vistmenn, oftast eldra fólk. Greinin birtist í Fréttablaðinu 25.11.2009.

18. nóv. 2009 : BUSLarar í Keilu

Keilunum í Keiluhöllinni voru þeyttar niður hver á fætur annarri síðastliðinn miðvikudag þegar BUSLarar komu saman á sínum hálfsmánaðar hittingum. Snilldar taktar voru sýndir enda mikið keppnisfólk mætt á svæðið. Sjálfboðaliðar og BUSLarar skemmtu sér konunglega enda alltaf líf og fjör þegar þessi skemmtilegi hópur hittist.

BUSL er samstarfsverkefni Sjálfsbjargar og URKÍ-R og er fyrir hreyfihamlaða unglinga. Hópurinn hittist annan hvern miðvikudag milli kl. 19:30-22:00 og eru verkefnin fjölbreytt og skemmtileg.  Bakstöðvar hópsins eru í Rauðakrosshúsinu, Borgartúni 25 og er starfið opið öllum unglingum á aldrinum 13-18 ára.

16. nóv. 2009 : Stjórnarmenn á námskeiði um stjórnun félagasamtaka

Stjórnarmenn deilda Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu tóku þátt í námskeiði í síðustu viku um störf í stjórnum deilda. Leiðbeinandi var Ómar H. Kristmundsson fyrrverandi formaður Reykjavíkurdeildarinnar og stjórnar Rauða kross Íslands.

Ómar fjallaði um eðlilegt vinnulag í stjórnun félagasamtaka og kom inn á hlutverk og ábyrgð stjórnarmanna og verkskiptingu milli stjórna og launaðs starfsfólks. Fram kom á námskeiðinu að virk þátttaka stjórna er forsenda þess að félagasamtök geti starfað með öflugum hætti að markmiðum sínum. 

14. nóv. 2009 : Ný fataverslun opnar í Mjóddinni

Í dag opnaði Rauði krossinn fjórðu verslunina á höfuðborgarsvæðinu með notuð föt. Verslunin er staðsett í verslunarkjarnanum Mjóddinni.  Húsnæðið er bjart og rúmgott og þar er mikið úrval af fatnaði.

„Það var líflegt í búðinni strax við opnun hennar og greinilegt að fólk í nágrenninu var spennt að kynna sér starfsemina," segir Sigrún Jóhannsdóttir starfsmaður Fatasöfnunar Rauða krossins. Hún er afar þakklát góðum móttökum.
 
Með nýju versluninni er vonast til að komið sé enn frekar til móts við fólk sem hefur áhuga á að kaupa góðan almennan fatnað á úrvalsverði. Fatnaðurinn hefur verið gefinn Rauða krossinum, sem er með fatagáma á öllum móttökustöðvum Sorpu og víðar. Allur afrakstur rennur til alþjóðlegs hjálparstarfs Rauða krossins.

13. nóv. 2009 : Handverksmarkaður Kópavogsdeildar 14. nóvember

Kópavogsdeildin heldur handverksmarkað laugardaginn 14. nóvember kl. 11-16 í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11. Markaðurinn er lokaverkefni nemenda Menntaskólans í Kópavogi í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf. Einnig koma fleiri sjálfboðaliðar úr ýmsum verkefnum Kópavogsdeildar að markaðnum.

Selt verður fjölbreytt handverk sjálfboðaliða í verkefninu Föt sem framlag eins og fallegar sauma- og prjónavörur. Heimsóknavinir gefa kökur og þá verða í boði jólakort og sælgæti sem yngstu sjálfboðaliðar deildarinnar úr Enter og Eldhugum hafa búið til. Auk þess verður handverk frá Mósambík til sölu, s.s. litríkar töskur, skartgripir og batíkmyndir. Allur ágóði af sölunni rennur til neyðaraðstoðar innanlands.

12. nóv. 2009 : Símtöl vegna svínaflensunar

Hjálparsími  Rauða krossins var virkjaður til að svara almennum spurningum um svínaflensuna (Inflúensu A -H1N1) í gegnum gjaldfrjálsa númerið 1717. Það er meðal hlutverka Hjálparsímans að veita upplýsingar um samfélagsleg úrræði og þjónustu sem stendur  til boða. 

Sjálfboðaliðar og starfsfólk Hjálparsímans fengu ítarlega fræðslu frá Landlæknisembættinu um Inflúensuveiruna til að undirbúa sig fyrir símtölin. Frá ágústbyrjun til nóvemberloka hafa borist tæplega 500 símtöl vegna svínaflensunnar. Flest þeirra hafa snúið að einkennum og spurningum varðandi bólusetningar. Þau símtöl sem þarfnast faglegrar úrvinnslu hafa verið áframsend á læknavaktina eða fólki vísað á heilsugæslustöð í heimabyggð. Flest símtölin bárust í októbermánuði, þá töldu símtöl sem snéru að svínaflensunni um 300. Nú fer símtölum vegna þessa fækkandi. 

Áfram verður hægt að hringja í 1717 vegna almennra spurningar varðandi N1H1.

11. nóv. 2009 : Handagangur í heimanáminu

Það er alltaf líf og fjör á þriðjudags eftirmiðdögum í Reykjavíkurdeild Rauða krossins þegar krakkar af erlendum uppruna koma í deildina til að fá aðstoð við heimanámið. Sjálfboðaliðar sitja sveitir við að aðstoða nemendurna við stærðfræðiþrautir og íslenskumálfræði ásamt öðrum greinum sem kenndar eru í grunn.- og framhaldskólum landsins.

Krakkarnir sem koma eru frá 8 ára aldri og mætir hver og einn með það heimaverkefni sem þeim reynist flókið og reyna sjálfboðaliðar að aðstoða þau eftir bestu getu.

 

10. nóv. 2009 : Sjálfboðaliðar óskast í nýja fatabúð Rauða krossins

Rauði kross Íslands opnar nýja fatabúð í Mjódd í Reykjavík á næstunni og vantar sjálfboðaliða til að sjá um afgreiðslu. Í búðinni verða seld notuð föt sem almenningur hefur gefið Rauða krossinum. Sá fatnaður sem er gefinn Rauða krossinum er að hluta til seldur til flokkunarfyrirtækja í Evrópu sem endurnýta hann til sölu í verslunum og á mörkuðum erlendis. Fatnaðurinn er einnig flokkaður hér á landi í Fatasöfnunarstöð Rauða krossinn og sendur í búðirnar sem félagið rekur.

Auk nýju búðarinnar í Mjóddinni rekur félagið þrjár aðrar búðir á höfuðborgarsvæðinu, á Laugavegi 12 og 116 í Reykjavík og Strandgötu 24 í Hafnarfirði, og sjá sjálfboðaliðar alfarið um afgreiðslu í þeim. Allur ágóði af rekstri þeirra rennur í Hjálparsjóð Rauða krossins og er sjóðurinn nýttur í alþjóðlega neyðaraðstoð, neyðarvarnir og þróunaraðstoð.

5. nóv. 2009 : Á flótta á Keilissvæðinu

Hlutverkaleikurinn Á flótta var haldinn á Keilissvæðinu á Miðnesheiðinni um síðustu helgi. Þátttakendur voru að vanda hópur ungs fólks sem var tilbúið að setja sig í fótspor flóttamanna í heilan sólahring og taka þeim áskorunum sem flóttamenn í heiminum þurfa gjarnan að glíma við í sínu daglega lífi.  Það er Ungmennahreyfin Rauða krossins  sem á veg og vanda að skipulagningu og framkvæmd leiksins.

Í upphafi fá þátttakendur nýtt nafn, þjóðerni, vegabréf og jafnvel nýja fjölskyldu. Þarnæst hefst örlagarík atburðarás þar sem þátttakendur neyðast til þess að flýja lengri eða styttri vegalengdir, kljást við skæruliða, hermenn, svartamarkaðsbraskara, fólkssmyglara og skriffinna, matarlausir, þreyttir og niðurlægðir. Allt miðar að því að upplifun þátttakenda verði eins raunveruleg og hægt er.

4. nóv. 2009 : Hvít-Rússnesk rauðrófusúpa

Polina Diljá Helgadóttir nemandi í áfanga um sjálfboðið starf í Flensborgarskólanum hélt í gær kynningu á heimalandi sínu, Hvíta-Rússlandi, og bauð að því tilefni sjálfboðaliðum í föt sem framlag uppá ljúffenga rauðrófusúpu.

Tilefni kynningarinnar var að nú vinna sjálfboðaliðar um land allt hörðum höndum að því að útbúa ungbarnapakka sem senda á til Rauða krossins í Hvíta-Rússlandi. Þegar Polina heyrði af verkefninu var hún fljót að bjóðast til að koma og segja frá landinu sínu. Kynningin heppnaðist einkar vel og er óhætt að segja að rauðrófusúpan sem Polina bauð uppá hafi slegið í gegn.

2. nóv. 2009 : Söngstund í Roðasölum

Aðra hverja viku heimsækir hópur heimsóknavina Kópavogsdeildar sambýli fyrir fólk með heilabilun í Roðasölum og heldur söngstund fyrir íbúana. Sjálfboðliðarnir mæta með gítarinn og söngblöð og leiða íbúana í söng. Þá er einnig upplestur á ljóðum og í lokin er öllum boðið upp á kaffi og eitthvert góðmeti.

Fyrir utan söngglöðu heimsóknavinina heimsækja aðrir sjálfboðaliðar sambýlið. Heimsóknavinur með hund kemur einu sinni í viku og þá eru heimsóknir til einstaklinga.

29. okt. 2009 : Vinkonur styrkja börn í neyð

Vinkonurnar Helena Ósk Hálfdánardóttir og Andrea Steinþórsdóttir hafa æft saman fótbolta hjá FH í rúmlega 3 ár. Í sumar tóku þær sig saman og héldu nokkrar tombólur í Samkaupum í Hafnarfirði. Þar söfnuðu þær 6.710.- krónum.

Því er greinilega mikill kraftur í þessum fótboltastelpum og þakkar Hafnarfjarðardeild Rauða krossins þeim kærlega fyrir framlagið.
 

21. okt. 2009 : „Ég vildi gjarnan geta gert meira“

„Upphaflega ástæðan fyrir því að ég gerðist sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum var að ég missti vinnuna í vor," segir Þórey Valdimarsdóttir sjálfboðaliði í prjónahópi í Kjósarsýsludeild.

12. okt. 2009 : Svæðisfundur á höfuðborgarsvæði

Fjölsóttur svæðisfundur deilda á höfuðborgarsvæði var haldinn þann 7. október í húsnæði Kópavogsdeildar.

5. okt. 2009 : Tíkin Karólína afrekshundur ársins

Það er deildinni sönn ánægja að greina frá því að tíkin Karólína, sem sinnir heimsóknaþjónustu með eiganda sínum, var heiðruð um helgina sem afrekshundur ársins af Hundaræktarfélagi Íslands. Karólína er sex ára blendingur Border og Springer. Hún og Guðleifur eigandi hennar mynda heimsóknavinateymi sem hefur farið í heimsóknir á vegum deildarinnar síðan haustið 2007.

30. sep. 2009 : Vantar alltaf fleiri sjálfboðaliða

Litla búðin á fyrstu hæðinni á Borgarspítalanum er rekin á vegum kvennadeildar Rauða krossins í Reykjavík og allur ágóði af sölunni rennur til sjúkrahúsanna og góðgerðarmála. Greinin birtist í Morgunblaðinu 26.09.2009.

18. sep. 2009 : Enter- og Eldhugastarf hefst að nýju eftir sumarfrí

Nú er barna- og ungmennastarf Kópavogsdeildarinnar komið á fullt skrið en í fyrradag var fyrsta samvera Enter hópsins og í gærkvöldi hittust Eldhugar einnig í fyrsta sinn á nýju hausti. Enter er verkefni fyrir unga innflytjendur á aldrinum 9-12 ára en Eldhugar eru fyrir 13-16 ára unglinga af íslenskum og erlendum uppruna. Bæði verkefnin miða að því að auðvelda ungum innflytjendum að aðlagast nýju samfélagi og taka virkan þátt í því en Eldhugar vinna auk þess sérstaklega með hugtökin vináttu og virðingu í gegnum skapandi verkefni.

15. sep. 2009 : Undirbúningur, hópefli og fræðsla fyrir nýja sjálfboðaliða í ungmennastarfi

Í gærkvöldi var haldið undirbúnings- og fræðslukvöld fyrir þá sjálfboðaliða Kópavogsdeildar sem munu vinna í verkefnum er lúta að börnum og unglingum í vetur.

Kvöldið hófst með hópefli þar sem sjálfboðaliðarnir fengu tækifæri til að kynnast hver öðrum. Þá kynnti verkefnastjóri ungmennamála fyrir þeim verkefnin sem sjálfboðaliðarnir munu koma til með að starfa í; Enter og Eldhuga. Hann fór einnig yfir hlutverk sjálfboðaliðans með tilliti til þessara tveggja verkefna. Auk þess fengu sjálfboðaliðarnir tækifæri til að koma með tillögur og hugmyndir að þemaverkefnum og viðfangsefnum fyrir starf vetrarins.

14. sep. 2009 : Heimsóknavinahundar kynntir á smáhundadögum í Garðheimum

Heimsóknavinir sem sinna heimsóknaþjónustu með hunda sína hjá Rauða krossinum kynntu verkefnið á smáhundadögum í Garðheimum um helgina. Heimsóknavinirnir mættu með hundana sína og báru hundarnir sérstaka klúta merkta Rauða krossinum en klútana nota þeir einnig í heimsóknum sínum. Bæklingum var dreift og sýndu gestirnir verkefninu mikinn áhuga.

3. sep. 2009 : Lognið á undan storminum?

Símtölum í Hjálparsíma Rauða krossins 1717 fjölgaði upp í 70-80 símtöl að meðaltali á dag eftir hrun bankanna í fyrra, þ.e. frá 45-55 símtölum að meðaltali á dag fyrir hrunið. Þangað til í júlí tók Hjálparsíminn við þessum gríðalega fjölda símtala dag hvern og benti fólki á viðeigandi úrræði við sínum vandamálum. Símtölum í 1717 fækkað niður tæplega 55-60 símtöl að meðaltali á dag í júlí og fyrstu vikuna í ágúst. Við Íslendingar vorum heppin að fá gott veður í sumar, það er ótrúlegt hvað sólin getur létt lundina hjá fólki þrátt fyrir þá erfiðleika sem steðja að íslensku samfélagi. Þessi tala er þó hærri heldur en fyrir hrun, sem segir okkur að þrátt fyrir sól á himni voru ekki allir með sól í hjarta í sumar. 
 

2. sep. 2009 : Þorir þú Á Flótta?

Langar þig til að komast að því hvernig 20 milljónir flóttamanna í heiminum upplifa lífið? Fólk sem neyðist til að flýja landið sitt með óvissuna í farteskinu því það hafði ekki tíma til að pakka niður eigum sínum.

Langar þig að kynnast hvernig er að vera óvelkominn í eigin landi vegna skoðanna þinna?

Leikurinn Á Flótta verður næst 12. september 2009.

31. ágú. 2009 : Heimsóknavinir með hunda leiddu Laugavegsgöngu

Hin árlega Laugavegsganga Hundaræktarfélags Íslands var farin á laugardaginn síðastliðinn en þá ganga hundaeigendur með hunda sína niður Laugaveginn. Eins og undanfarin ár voru heimsóknavinir Rauða krossins sem heimsækja með hunda sína í broddi fylkingar. Þeir hundar sem heimsækja á vegum Rauða krossins eru með sérstaka klúta merkta félaginu og stóðu þeir sig með stakri prýði í göngunni.

28. ágú. 2009 : Uppskeruhátíð Austurbæjarbíós – Húss Unga Fólkssins, mánudaginn 31. ágúst kl. 18:00.

Á sjötta tug ungs listafólks sýnir verk sín á uppskeruhátíð Austurbæjarbíós mánudagskvöldið 31. ágúst kl. 18.00. Dagskránni lýkur svo með tónleikum þar sem ungar og upprennandi hljómsveitir láta ljós sitt skína.

Listamennirnir sem sýna verk sín hafa haft aðsetur í Austurbæjarbíói í sumar og unnið verk sín þar en húsið hefur verið rekið sem miðstöð ungs fólks á aldrinum 16-25 ára.

25. ágú. 2009 : Rauði krossinn á bæjarhátíðinni Í túninu heima

Kjósarsýsludeild  Rauða krossins mun taka þátt í hátíðarhöldum bæjarhátíðarinnar Í túninu heima sem haldin verður í Mosfellsbæ um næstu helgi. 

14. ágú. 2009 : Hjálparsíminn 1717 veitir allar almennar upplýsingar um Inflúensu A (H1N1)v

Sjálfboðaliðar og starfsmenn Hjálparsíma Rauða krossins 1717 veita allar almennar upplýsingar um Inflúensu A (H1N1)v (svínaflensuna) í gegnum gjaldfrjálsa númerið 1717. Hjálparsíminn hefur frá stofnun lagt mikið upp úr því hlutverki að veita upplýsingar um samfélagsleg úrræði og þjónustu til einstaklinga um hin ýmsu mál.

Aðdragandi þess að Hjálparsíminn hefur tekið að sér þetta verkefni er þátttaka fulltrúa Rauða kross Íslands í símahópi á vegum Landlæknisembættisins vegna Inflúensu A (H1N1)v. Hlutverk símahópsins var að undirbúa áætlun um hvernig haga eigi upplýsingagjöf til almennings ef flensan breiðist út á Íslandi. Nú þegar tilfellum flensunnar fjölgar ört hefur álagið á heilsugæslustöðvarnar og Læknavaktina aukist töluvert og því þarf að efla mannskap sem veitir almennum borgurum upplýsingar um inflúensuna.

13. ágú. 2009 : Skyndihjálparhópur URkÍ-R að störfum á Gay Pride

Skyndihjálparhópur Ungmennahreyfingar Rauða krossins í Reykjavík var við sjúkragæslu meðan Gay pride hátíðin fór fram síðasta laugardag. 

28. júl. 2009 : Tilraunaverkefni með miðbæjarölt hjá skyndihjálparhópi URKÍ-R

Skyndihjálparhópur Ungmennahreyfingar Rauða krossins í Reykjavík hefur síðustu fjórar helgar verið á miðbæjarrölti og sinnt sjúkragæslu eftir þörfum. Um er að ræða tilraunaverkefni.

24. júl. 2009 : Lífleg starfsemi í Austurbæjarbíói, Húsi Unga Fólksins

Húsnæði Austurbæjarbíós hefur tekið miklum breytingum frá því verkefnið Austurbæjarbíó, Hús Unga Fólksins var formlega opnað í byrjun júní. Starfsemin fór rólega af stað en nú starfa þar 70 til 80 einstaklingar að fjölbreyttum verkefnum. Mikið líf er alla daga í Austurbæjarbíói og er rýmið mjög vel nýtt.

Hús Unga Fólksins er opið alla virka daga frá kl. 10 til 22. Þar er rekið lítið kaffihús sem bíður þátttakendum og gestum uppá frítt kaffi en einnig er boðið uppá gæðakaffi  og vöfflur gegn vægu gjaldi. Verkefnið er ætlað ungu fólki á aldrinum 16 til 25 ára og eru allir velkomnir þangað til að spjalla, leita ráða um útfærslu hugmynda sinna, taka þátt í „endurbyggingu“ Austurbæjarbíós eða til að nýta sér þá fjölbreyttu afþreyingu sem þar er að finna.

2. júl. 2009 : Krakkar frá URKÍ tóku þátt í ungmennamóti í Solferino á Ítalíu

Ungmenni frá 150 landsfélögum Rauða krossins og Rauða hálfmánans komu saman í Solferino á Ítalíu í síðustu viku til að ræða hvernig bregðast skuli við þeim alvarlega mannúðarvanda sem ríkir um allan heim, oft atburðum sem  hafa engu minni þjáningar í för með sér heldur en orrustan um Solferino (Heljarslóðarorrusta). Á grunni hugleiðinga sinna settu ungmennin saman “Solferino yfirlýsinguna,” alþjóðlegt kall til aðgerða, sem þeir munu opinberlega kynna alþjóðasamfélaginu, það er að segja yfirvöldum í Sviss og Genf, fulltrúum Sameinuðu þjóðanna, ríkja og alþjóðlegrar hreyfingar Rauða krossins og Rauða hálfmánans.

Ungmennahreyfing Rauða kross Íslands sendi fimm fulltrúa til Solferino, þau Ara Hjálmarsson, Arnar Benjamín Kristjánsson, Ágústu Ósk Aronsdóttur, Katrínu Björg Stefánsdóttur og Pálínu Björk Matthíasdóttur. Þátttakendurnir frá Íslandi tóku daglega þátt í mismunandi vinnustofum en viðfangsefni þeirra tengdust þeim málefnum sem koma ungu fólki innan Rauða Krossins við.

15. jún. 2009 : Líf og fjör á námskeiðum Rauða krossins

Námskeiðin Mannúð og menning standa yfir þessa dagana. Hjá Kjósarsýsludeild Rauða krossins lauk fyrsta námskeiðinu í síðustu viku. Það hefur því verið líf og fjör hjá deildinni að undanförnu þar sem hópur krakka fræddust um Rauða krossinn, skyndihjálp, umhverfisvernd og fjölmenningu í gegnum leik og störf.

Á fjölmenningardeginum var boðið upp á hrísgrjóna- og grænmetisrétt samkvæmt gambískri fyrirmynd. Að sjálfsögðu var maturinn einnig snæddur eins og tíðkast í Gambíu, þ.e. hópurinn var berfættur, myndaði hring á gólfinu og borðaði með höndunum en einungis má nota vinstri hendina. Maturinn var reiddur fram á stóru fati og látinn ganga milli allra í hópnum. Þótti börnunum þetta ekki einföld aðferð.

12. jún. 2009 : Starfið á árinu 2008

9. jún. 2009 : Austurbæjarbíó – Hús unga fólksins!

Austurbæjarbíó - Hús Unga Fólksins opnar formlega þriðjudaginn 9. júní. Húsið verður miðstöð ungs  fólks sem vill virkja krafta sína í hvetjandi umhverfi.

Þeir aðilar sem standa Austurbæjarbíói eru Rauði krossinn í Reykjavík, Samfélagið Frumkvæði ( www.frumkvaedi.is ), Hitt Húsið, Lýðheilsustöð og Samband Íslenskra Framhaldsskólanema. Nánari upplýsingar veitir Þór Gíslason hjá Rauða krossinum í Reykjavík í síma 545-0406 eða netfang: [email protected]

Markmið miðstöðvarinnar er að bjóða ungu fólki upp á aðstöðu og aðstoð við framkvæmd hugmynda sinna. Virkir þátttakendur hússins móta fjölbreytta dagskrá sumarsins og sköpunarkraftar þeirra verða nýttir við andlitslyftingu á Austurbæjarbíó. Auk þess verður boðið upp á hressingu og gefst tækifæri til að sýna sig og sjá aðra. Haft verður að leiðarljósi að skapa vettvang þar sem öllum er frjálst að koma á sínum eigin forsendum og taka þátt í að skapa sér skemmtilegt sumar. Tveir sjóðir hafa verið stofnaðir sem hægt verður að sækja um styrki úr til að koma verkefnum af stað.

8. jún. 2009 : Sjálfboðaliðar fjölmenntu á vorgleði

Vorgleði sjálfboðaliða Kópavogsdeildar var haldin í sól og blíðu á laugardaginn í athvarfinu Dvöl við Reynihvamm 43. Sjálfboðaliðarnir fjölmenntu með maka, börn, barnabörn og aðra ættingja. Alls mættu yfir sextíu manns sem nutu veðurblíðunnar saman yfir grillmat og öðrum veitingum. Þá var haldin rúsínuspíttkeppni og sjálfboðaliði leiddi gestina í söng. Börnin fengu andlitsmálun og mátti meðal annars sjá litlar mýs, ketti, tígrisdýr og fiðrildi leika sér í snú snú og með sippubönd og húlahringi.

Gleðin er haldin árlega og er eins konar uppskeruhátið sjálfboðaliða deildarinnar þar sem markmiðið er að fagna starfsvetrinum og gleðjast saman í upphafi sumars. Deildin metur mikils framlag sjálfboðaliða sinna og þakkar þeim fyrir vel unnin sjálfboðin störf í vetur.


26. maí 2009 : Vorferð barna og ungmenna í Heiðmörk

Á uppstigningardag héldu börn og ungmenni sem tekið hafa þátt í Rauða kross starfi deildanna á höfuðborgarsvæðinu í sína árlegu vorferð. Í þessari dagsferð gefst ungmennunum einstakt tækifæri til að hittast og kynnast krökkum í öðrum deildum sem starfa með Rauða krossinum. Ferðin var afar vel sótt en rúmlega 70 börn og ungmenni auk sjálfboðaliða tóku þátt í ár.

Alls komu 28 börn og ungmenni frá Kópavogsdeild að þessu sinni. Úr Enter starfinu, sem er vikulegt starf  með sjálfboðaliðum fyrir 9-12 ára innflytjendur, komu 18 börn. Eldhugarnir voru 10 talsins en þeir eru unglingar á aldrinum 13-16 ára sem einnig hafa hist einu sinni í viku í vetur. Hópurinn var í heild sinni mjög alþjóðlegur en krakkarnir frá Kópavogsdeild komu meðal annars frá Póllandi, Litháen, Tælandi, Dóminíska lýðveldinu, Rúmeníu og Íslandi.

25. maí 2009 : Hátt í eitt hundrað námsmenn nýttu sér lesaðstöðu og námsaðstoð

Kópavogsdeild Rauða krossins bauð upp á ókeypis námsaðstoð fyrir fólk á framhaldsskólaaldri 27. apríl til 13. maí í samstarfi við Molann, menningar- og tómstundahús Kópavogs að Hábraut 2.

Í Molanum var opin lesaðstaða fyrir nemendur alla virka daga en tvisvar í viku voru sjálfboðaliðar frá Kópavogsdeild, sem búa yfir góðri þekkingu í helstu námsfögunum, á staðnum. Tilgangur verkefnisins var að sporna gegn brottfalli nemenda úr námi með því að veita þeim sérstaka aðstoð yfir prófatímann.

13. maí 2009 : Vetrarstarfi Eldhuga lýkur senn

Nú fer að líða að lokum vetrarstarfsins hjá Eldhugum en þeir hafa hist kl.17.30 alla fimmtudaga í vetur. Síðasta samvera Eldhuga verður þann 14. maí en þá fara þeir í heimsókn til Reykjavíkurdeildar. Þar verður haldin sameiginleg grillveisla og skemmtun fyrir 13-16 ára unglinga í Rauða kross starfi á höfuðborgarsvæðinu. Eldhugar munu þar fá tækifæri til þess að kynnast og eiga góða stund saman með öðrum unglingum. Auk þess munu þeir fá að sjá hvað önnur ungmenni innan Rauða krossins hafa verið að gera í vetur en hver deild mun vera með myndasýningu frá sínu vetrarstarfi.

13. maí 2009 : Vel heppnuð dagsferð með mentorum og mentee

Garðabæjardeild Rauða krossins efndi til dagsferðar með mentee og mentorum á laugardaginn. Ferðin var hugsuð sem vorglaðningur og einnig til að hitta fólk í öðru sveitarfélagi sem er með sama bakgrunn. Því var skipulögð heimsókn til Rauða kross deildarinnar á Akranesi en þar eru unnið að málefnum erlendra kvenna.

Keyrt var um Hvalfjörð þar sem stoppað var nokkrum sinnum, fallegir staðir skoðaðir og saga hvalstöðvarinnar og verkun hvals í áratugi rifjuð upp. Á íslensku baðströndinni á Langasandi við Akranes braust út gleði og frelsistilfinning einkum hjá börnunum, sem hlupu um og snertu sjóinn.

Síðan lá leiðin í kaffihúsið Skrúðgarðinn þar sem fulltrúar Rauða krossins biðu hópsins og buðu upp á veitingar og farið var í leiki sem tengdu fólkið saman.

27. apr. 2009 : Virkja ber þann mikla kraft sem býr í fólki og gefa því tækifæri til að gefa af sér, sjálfum sér og öðrum til ánægju.

Kollsteypan sem orðið hefur í efnahagslífi þjóðarinnar á undanförnu misseri hefur breytt lífi margra. Þegar fólk missir vinnuna eða þarf að minnka verulega við sig vinnu er hætta á að það einangrist og upplifi aðgerðaleysi og vanmátt.

20. apr. 2009 : Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík býður upp á ókeypis sumarnámskeið fyrir börn

Í júní og júlí mun Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík bjóða upp á ókeypis námskeið í Mannúð og Menningu, fyrir börn á aldrinum 7-12 ára. Námskeiðin byggja á ýmis konar fræðslu og leikjum sem miða að því að börnin tileinki sér mannúðarhugsjón Rauða krossins og tengi hana við sitt daglega líf. Námskeiðin eru blanda af fræðslu, útiveru og leikjum. Meðal efnis er; undirstöðuatriði skyndihjálpar, umhverfismál, skapandi leikir, saga og starf Rauða krossins, fjölmenningarlegt samfélag og uppskeruhátíð.

Námskeiðin hafa ekki áður verið ókeypis en vegna efnahagsástandsins ákvað Rauði krossinn í Reykjavík að bjóða í sumar upp á þessi námskeið frítt – til að létta undir með foreldrum og heimilum á höfuðborgarsvæðinu. Boðið verður upp á sex námskeið fyrir aldurshópana 7-9 ára og 10-12 ára. Hvert námskeið er ein vika, þau fyrstu hefjast mánudaginn 8. júní. Námskeiðin standa yfir frá mánudegi til föstudags frá kl. 09:00-16:00. Einn verkefnastjóri er með hvert námskeið og með honum eru tveir til þrír leiðbeinendur.

20. apr. 2009 : Nýr starfsmaður deildarinnar

Kjósarsýsludeild hefur ráðið Erlu Traustadóttur í 50% stöðu. Í kjölfarið mun sjálfboðaliðamiðstöðin vera opin tvo daga í viku, á þriðju-og fimmtudögum kl. 10 – 13. Í boði verður ýmis konar fræðsla og félagsstarf sem er öllum opið og eru Mosfellingar hvattir til að koma og kynna sér það sem er í boði.

Erla segir deildina ætla að bjóða upp á röð spennandi námskeiða og kynninga auk samveru fyrir áhugasama.  Viðburðirnir verða ókeypis og öllum opnir, ekki síst fólki í atvinnuleit og þeim sem hafa þurft að minnka við sig vinnu.  Fyrstu dagskrárliðirnir verða kennsla á GPS tæki þann 29. apríl og námskeið í ræktun kryddjurta þann 5. maí.  Fjölbreytt dagskrá mun svo fylgja í kjölfarið.

27. mar. 2009 : Nemendur Versló áhugasamir um Vinanetið og Hjálparsíma Rauða krossins 1717

Starfsmenn Reykjavíkurdeildar Rauða krossins heimsóttu alla þriðju bekki Verslunarskóla Íslands og kynntu fyrir nemendum verkefni ungmennahreyfingar deildarinnar, Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og Vinanetið. Móttökurnar voru góðar og nemendur Verslunarskóla Íslands áhugasamir um verkefni Rauða krossins.

Vinanet er spjall fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára sem af einhverjum ástæðum hefur einangrast frá samfélaginu. Á Vinaneti getur fólk rætt saman á uppbyggilegan hátt um hin ýmsu málefni. Einu sinni í mánuði stendur þeim sem spjalla saman á netinu til boða að hittast utan tölvuheima ásamt sjálfboðaliðum Rauða krossins þar sem ýmislegt skemmtilegt er gert  eins og fara saman í bíó, í keilu, á skauta, á kaffihús og svo framvegis. Hlutverk sjálfboðaliða er að halda utan um spjallið og sjá til þess að notendur spjalli saman á jákvæðum nótum ásamt því að ýta undir að allir taki virkan þátt – bæði í spjallinu og í mánaðarlegum hittingum utan netheima. Sjálfboðaliðar verkefnisins hafa setið grunnnámskeið Vinanets og fengið þjálfun í viðtalstækni.

18. mar. 2009 : Ungmenni kynna sér starfsemi Rauða krossins

Nú stendur yfir árleg þemavika í Lindaskóla í Kópavogi og þemað í unglingadeildinni í ár er Rauði kross Íslands. Nemendur úr skólanum hafa kynnt sér starfsemi Rauða krossins og hafa nokkrir hópar komið í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og tekið viðtöl við starfsmenn deildarinnar. Þeir hafa fræðst um rekstur deildarinnar, verkefnin, námskeið og ungmennastarfið. Þá hafa nokkrir hópar líka farið á landsskrifstofu Rauða krossins og fengið upplýsingar um starfið þar. Þeir fengu meðal annars stutta kennslu í skyndihjálp.

16. mar. 2009 : Góður stuðningur í landssöfnuninni sem hófst í dag

Sóley Gunnarsdóttir, 10 ára, kom færandi hendi í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar rétt í þessu í tilefni af landssöfnun Rauða kross Íslands og Hjálparstarfs kirkjunnar. Hún kom fyrir hönd frændsystkina sinna sem hvert gaf 500 krónur í söfnuna og færði hún Rauða krossinum alls 6.000 krónur. Fyrir hönd Rauða krossins færir Kópavogsdeildin frændsystkinunum kærar þakkir fyrir stuðninginn.

11. mar. 2009 : Foldaskóli færir Rauða krossinum peningagjöf

Krakkar í 6. bekk JA og HR í Foldaskóla afhentu Rauða krossinum í dag peningagjöf til styrktar börnum og ungmennum víða um heim. Þessir peningar voru hagnaður þeirra eftir markaðsdaginn í nýsköpun þar sem þau seldu framleiðslu fyrirtækja sinna.

Berglind Rós forstöðukona Ungmennadeildar Reykjavíkurdeildar veitti peningagjöfinni viðtöku frá Lóu Kristínu nýsköpunarkennara 6. bekkjar Foldaskóla. Hún þakkaði nemendum þessa veglegu gjöf. 

 

9. mar. 2009 : Eldhugar hitta palestínska unglinga á Akranesi

Það var sannkölluð fjölmenningarstemning á fundi Eldhuga á fimmtudaginn er þeir fóru saman ásamt sjálfboðaliðum að heimsækja Rauða krossinn á Akranesi. Þar fékk hópurinn frábærar móttökur. Nokkrir unglingar úr hópi palestínskra flóttamanna sem þar búa, ásamt sjálfboðaliðum og starfsfólki  deildarinnar, biðu hópsins með veitingar. Auk þess sem hann fékk fræðslu um móttöku flóttamanna til nýrra heimkynna. Þar kom fram hvernig Rauði krossinn á Akranesi stóð að móttöku flóttamannanna frá Palestínu sem fluttu þangað í fyrrahaust. Sagt var frá því hvernig deildin og bæjarbúar stuðluðu að því að fólkinu liði sem best og hvernig stuðningsfjölskyldur á Akranesi hafa stutt við hópinn og hjálpað þeim við að aðlagast lífi í nýju landi.

6. mar. 2009 : Fyrsti hittingur Vinanets

Fyrsti hittingur Vinanets fór fram miðvikudaginn 4. mars og gekk alveg frábærlega vel. Mættu 9 notendur Vinanets ásamt 7 sjálfboðaliðum þannig að í heildina voru 16 ungmenni samankomin til að eiga gott kvöld saman. Var ákveðið að taka nokkur spil og voru meðal annars spiluð Trivial Persuit, Party og Co. ásamt hinum ýmsu spilum með gömlu góðu venjulegu handspilum. Erum við gífurlega ánægð með þennan fyrsta hitting Vinanets og erum við strax farin að hlakka mikið til næsta hittings sem verður haldinn fimmtudaginn 2. apríl.

4. mar. 2009 : Kínversk heimsókn

Á dögunum fengu félagar í unglingastarfi URKÍ-H góða heimsókn frá Kína. Þar var á ferðinni Changlong Xu frá Kína sem búsettur er hér á landi en hann sagði krökkunum frá heimalandi sínu og hvernig upplifun það er fyrir hann að búa á Íslandi. Sýndi hann myndir frá heimahögunum og spjallaði um heima og geima.

Heimsóknin var einkar skemmtileg og fróðleg en hún er hluti af svo kölluðu vegabréfaverkefni URKÍ-H. Í því verkefni koma gestir og kynna ákveðið land, sögu þess og menningu. Annað hvort er um að ræða Íslendinga sem hafa búið erlendis um tíma eða innflytjendur sem búsettir eru hér á landi og koma og fræða krakkana um sitt heima land.

Markmið verkefnisins er að auka á víðsýni ungmenna, fræðast um ólík lönd og menningarheima, vinna gegn fordómum og auka á umburðarlyndi. Verkefnið er hluti af þemanu byggjum betra samfélag sem félagar URKÍ-H vinna að og er ætlað að draga úr fordómum og auka á vináttu, umburðarlyndi og virðingu í íslensku samfélagi.

4. mar. 2009 : Unglingahópur URKÍ-R Miðbæjar og Breiðholts

Miðbæjarhópur URKÍ-R kvaddi á dögunum verkefnastjóra sinn hana Hjördísi Dalberg, en hún er að fara í fæðingarorlof. Í tilefni þess að þetta var hennar síðasti hittingur var keyptur blómvöndur og föndrað kort handa tilvonandi móður. Hjördís kom einnig með gómsæta súkkulaðiköku og saman eyddu unglingarnir tímanum í að föndra persónuskjal hvers og eins þar sem helstu upplýsingar um þátttakendur í starfinu koma fram. Suluman Bah sjálfboðaliði Gambíska Rauða krossins, sem er á Íslandi í tengslum við vinadeildarsamstarfs Reykjavíkurdeildarinnar við Gambíu, kíkti á krakkanna og föndraði með þeim sitt persónuleikaskjal.

3. mar. 2009 : Kópavogsdeildin er virkur þátttakandi í alþjóðastarfi Rauða krossins

Markmið deildarinnar er að taka þátt í alþjóðlegri neyðaraðstoð á vegum Rauða kross Íslands og vera virkur þátttakandi í alþjóðahreyfingu Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Einn liður í þessu starfi er verkefnið Föt sem framlag en vel yfir 50 sjálfboðaliðar störfuðu við það árið 2008 eins og kemur fram í ársskýrslu deildarinnar sem var kynnt á aðalfundi í síðustu viku. Sjálfboðaliðarnir útbúa fatapakka fyrir börn í neyð og eru þeir sendir til Malaví í Afríku. Alls sendu þeir frá sér 640 pakka og yfir 100 teppi á síðasta ári. Þá lögðu gestir í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, verkefninu lið með handavinnu sem fer fram í athvarfinu. Konur á hjúkrunarheimilinu í Sunnuhlíð lögðu einnig sitt af mörkum með því að afhenda deildinni teppi og aðrar prjónavörur.

2. mar. 2009 : Heilahristingur og Vinanet – verkefni Rauða krossins fyrir ungmenni í Reykjavík

Heilahristingur, nýtt samstarfsverkefni Reykjavíkurdeildar Rauða krossins, Alþjóðahúss í Breiðholti og Borgarbóksafns, hófst þann 10. febrúar. Heilahristingur er heimanámsaðstoð fyrir börn af erlendum uppruna í 8. til 10. bekk Fella- og Hólabrekkuskóla. Einnig er fyrirhugað að setja á laggirnar heimanámsaðstoð fyrir yngri bekki Hólabrekkuskóla á næstu mánuðum. Verkefnið er starfrækt í Gerðubergssafni Borgarbókasafns.

Tilgangur verkefnisins er að bregðast við ótímabæru brottfalli grunnskólabarna af erlendum uppruna og auka líkur á að þau kjósi að fara í framhaldsskóla. Megináherslan er skapandi unglingastarf sem miðar að því að opna augu ungmennanna fyrir möguleikum sem fyrir hendi eru hvað varðar framtíð þeirra og styrkja sjálfsmynd þeirra.

26. feb. 2009 : BUSL námskeið

Ungmennahreyfing Rauða krossins í Reykjavík - URKÍ-R hélt námskeið síðasta laugardag fyrir þá sjálfboðaliða sína sem er í verkefninu BUSL en BUSL stendur fyrir Besta Unglingastarf Sjálfsbjargar Landsfélags.

Var námskeiðið vel sótt af sjálfboðaliðum URKÍ-R og fengu þau fræðslu m.a. frá þroskaþjálfara, fyrrum BUSL leiðbeinenda og mastersnema í fötlunarfræði við Háskóla Íslands. Einnig var farið í smá verklegar æfingar og hópefli til að hrista hópinn saman. Berglind Rós Karlsdóttir forstöðukona URKÍ-R og Leifur Leifsson verkefnastjóri BUSL höfðu yfirumsjón með námskeiðinu.

 

 

 

26. feb. 2009 : Nýttu tímann

Kópavogsdeildin býður upp á fjölda spennandi námskeiða og fyrirlestra auk samveru fyrir þá sem hafa nægan tíma og áhuga. Viðburðirnir eru á mánudögum og miðvikudögum frá kl. 10-13 og eru fyrst og fremst ætlaðir atvinnulausum og þeim sem hafa þurft að minnka við sig vinnu, þeim að kostnaðarlausu, en viðburðirnir eru auðvitað opnir öllum. Til dæmis er boðið upp á námskeið í fatasaumi, tafli og bridds. Þá verður kennt jóga og tai chi ásamt skapandi skrifum.

Upplýsingar um viðburðina og dagsetningar ásamt skráningu er að finna á vefsíðu Kópavogsdeildar undir „Á döfinni" eða með því að smella hér. Einnig má hafa samband við deildina í síma 554 6626 eða á [email protected].

25. feb. 2009 : Æfingahelgi skyndihjálparhóps í Alviðru

Skyndihjálparhópur ungmennadeildar Reykjavíkurdeildarinnar hélt árlega æfinga- og skemmtihelgi sína í Alviðru í Ölfusi um síðustu helgi. Auk Reykvíkinganna tóku nokkrir félagar í skyndihjálparhópi ungmenna á Austurlandi þátt.

Æfð voru ýmis atriði skyndihjálpar og hápunkturinn var svo hin ómissandi hópslysaæfing í hlöðunni.

Komin er um fimmtán ára hefð á þessar ferðir og skapast alltaf mikil stemning í kringum þær. Að lokinni vel heppnaðri dagskrá tók við grillveisla og kvöldskemmtun. Myndir: Oddný Björk Björnsdóttir.

23. feb. 2009 : Framadagar 2009

Framadagar voru haldnir föstudaginn 20. febrúar í húsakynnum Háskólabíós í fimmtánda skipti. Var Ungmennadeild Rauða krossins á staðnum til að kynna verkefni sín og Rauða krossinn almennt  fyrir gestum og gangandi.

Á Framadögum koma fyrirtæki og félagasamtök frá höfuðborgarsvæðinu saman til að kynna starfsemi sína fyrir dugandi menntafólki. Tilgangurinn er einnig að skapa sér jákvæða ímynd í huga háskólanema. Síðan 1995 hafa Framadagar skilað ómetanlegum tengslum á milli fyrirtækja, starfsmanna og menntafólks. Nemendur hafa m.a. komist í framtíðarstarf sitt í framhaldi af Framadögum og unnið lokaverkefni í samstarfi við fyrirtæki.

14. feb. 2009 : Þorir þú Á Flótta? 14.-15. feb.

Langar þig til að komast að því hvernig 20 milljónir flóttafólks í heiminum upplifir lífið?
Fólk sem neyðist til að flýja landið sitt með óvissuna í farteskinu því það hafði ekki tíma til að pakka niður eigum sínum.
Langar þig að kynnast hvernig er að vera óvelkominn í eigin landi vegna skoðanna þinna?

,,Á Flótta" er hlutverkaleikur þar sem að fólk á aldrinum 13 ára og eldra gefst kostur á að upplifa hvernig það er að vera flóttamaður í sólarhring. Þátttakendur fá nýja fjölskyldu, nýtt þjóðerni, ný trúarbrögð og upplifa dæmigerðar aðstæður flóttamanns frá stríði, spillingu og hungri á meðan þeir hrekjast frá einum stað til annars í leit að öruggum stað til að hefja nýtt líf. Allt miðar að því að upplifun þátttakenda verði eins raunveruleg og hægt er. 

9. feb. 2009 : Sjálfboðaliðar óskast í nýtt, tímabundið verkefni

Kópavogsdeildin er að hrinda í framkvæmd nýju, tímabundnu verkefni sem ber heitið Nýttu tímann: Námskeið – Fyrirlestrar – Samvera og er því ætlað að ná til atvinnulausra og þeirra sem hafa þurft að minnka við sig vinnu vegna efnahagsástandsins í landinu. Verkefnið er að sjálfssögðu opið öllum en áhersla er lögð á að ná til fyrrgreindra hópa. Áhersla er einnig lögð á að leiðbeinendur komi úr röðum sjálfboðaliða, sem og atvinnulausra, og því biðjum við áhugasama um að hafa samband við okkur ef þeir geta leiðbeint á einhverju af námskeiðunum. Leiðbeinendurnir þurfa ekki að vera fagmenn heldur bara sjálfboðaliðar með kunnáttu á viðfangsefninu hverju sinni.

5. feb. 2009 : Heilahristingur. Kynningarfundur Gerðubergssafni mánudaginn 9. febrúar kl. 17:30.

Heilahristingur, heimanámsaðstoð fyrir börn af erlendum uppruna í 8. til 10 bekk Fella- og Hólabrekkuskóla, hefst þriðjudaginn 10. febrúar kl. 15:15. Verkefnið verður starfrækt í Gerðubergssafni Borgarbókasafns. Fyrirhugað er að heimanámsaðstoð fyrir yngri bekki Hólabrekkuskóla verði einnig starfrækt seinna í vetur.

Tilgangur verkefnisins er að bregðast við ótímabæru brottfalli grunnskólabarna af erlendum uppruna og auka líkur á að þau kjósi að fara í framhaldsskóla. Megináherslan er skapandi unglingastarf sem miðar að því að opna augu ungmennanna fyrir möguleikum sem fyrir hendi eru hvað varðar framtíð þeirra og styrkja sjálfsmynd þeirra.

28. jan. 2009 : Rauði krossinn opnar Vinanet til að rjúfa einangrun ungmenna

Næstkomandi sunnudag verður Vinanet, sem er nýtt samstarfsverkefni Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og Ungmennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða krossins, formlega opnað. 

28. jan. 2009 : Heimsóknir til innflytjenda

Nýtt verkefni í heimsóknaþjónustu Kópavogsdeildar hefur farið af stað. Því er ætlað að ná til innflytjenda og koma í veg fyrir félagslega einangrun þeirra sem og auðvelda aðlögun þeirra að íslensku samfélagi.

26. jan. 2009 : Nýtt verkefni hjá Reykjavíkurdeild Rauða krossins

Vinanet er nýtt samstarfsverkefni Ungmennadeildar R-RKÍ og Hjálparsíma Rauða Krossins 1717

Hlutverk Vinanets
Vinanet er hugsað sem spjall fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára sem af einhverjum ástæðum hefur einangrað sig frá samfélaginu. Ætlunin er að ná til þessa hóps með aðstoð Internetsins en það er sá vettvangur þar sem auðvelt er að ná til sem flestra. Á Vinaneti getur fólk rætt saman á uppbyggilegan hátt um hin ýmsu málefni. Ekki er um vandamálamiðað spjall að ræða. Einu sinni í mánuði verða hittingar meðal þeirra sem eru á spjallinu ásamt sjálfboðaliðum og verður ýmislegt skemmtilegt gert eins og fara saman í bíó, í keilu, á skauta, á kaffihús og svo framvegis.

23. jan. 2009 : Fjölbreytt námskeið eru boði hjá Rauða krossinum

Rauði krossinn stendur fyrir fjölda námskeiða á ári hverju. Námskeiðin eru fyrir sjálfboðaliða félagsins og alla aðra áhugasama. 

23. jan. 2009 : Ungmennastarfið í Mosfellsbæ byrjar árið með fullum þunga

Mórall, Ungmennastarf Rauða krossins í Kjósarsýsludeild, heldur fyrsta fund sinn á þessu ári í dag klukkan 17:00 í húsnæði deildarinnar að Þverholti 7 Mosfellsbæ. Fundur í X-hópnum verður síðan haldinn fimmtudaginn 29. janúar klukkan 20:00.

Mórall er ungmennastarf fyrir hressa krakka á aldrinum 13-16 ára. Hist er einu sinni í viku og gert ýmislegt sem tengist Rauða krossinum og skemmt sér saman. Dagskráin fyrir vormisserið er tilbúin og verður mikið um að vera. Það má nefna keiluferð, gestakomur og lokaferð í sumar.

20. jan. 2009 : Hjálparsími Rauða krossins 1717 fær styrk frá Capacent

Kristján Sturluson framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands tók í gær við styrk frá Capacent að fjárhæð 500.000 krónur sem verður varið til reksturs á Hjálparsíma Rauða krossins 1717. Styrkurinn er veittur í þakklætisskyni við þátttakendur í símakönnun á vegum Capacent Gallup síðasta desember. Þar runnu 1.000 krónur af hverju samtali til styrktar Hjálparsímanum en könnunin, sem var alþjóðleg, snérist um efnahagsástandið og hagi landsmanna.

„Könnunin var í lengri kantinum miðað við okkar kannanir þannig að við vildum hvetja fólk til að svara og styrkja um leið þetta góða málefni," segir Einar Einarsson, framkvæmdastjóri rannsóknarsviðs Capacent.  „Styrkurinn er þannig frá fólkinu í landinu í gegnum þátttakendur könnunarinnar."