26. feb. 2009 : BUSL námskeið

Ungmennahreyfing Rauða krossins í Reykjavík - URKÍ-R hélt námskeið síðasta laugardag fyrir þá sjálfboðaliða sína sem er í verkefninu BUSL en BUSL stendur fyrir Besta Unglingastarf Sjálfsbjargar Landsfélags.

Var námskeiðið vel sótt af sjálfboðaliðum URKÍ-R og fengu þau fræðslu m.a. frá þroskaþjálfara, fyrrum BUSL leiðbeinenda og mastersnema í fötlunarfræði við Háskóla Íslands. Einnig var farið í smá verklegar æfingar og hópefli til að hrista hópinn saman. Berglind Rós Karlsdóttir forstöðukona URKÍ-R og Leifur Leifsson verkefnastjóri BUSL höfðu yfirumsjón með námskeiðinu.

 

 

 

26. feb. 2009 : Nýttu tímann

Kópavogsdeildin býður upp á fjölda spennandi námskeiða og fyrirlestra auk samveru fyrir þá sem hafa nægan tíma og áhuga. Viðburðirnir eru á mánudögum og miðvikudögum frá kl. 10-13 og eru fyrst og fremst ætlaðir atvinnulausum og þeim sem hafa þurft að minnka við sig vinnu, þeim að kostnaðarlausu, en viðburðirnir eru auðvitað opnir öllum. Til dæmis er boðið upp á námskeið í fatasaumi, tafli og bridds. Þá verður kennt jóga og tai chi ásamt skapandi skrifum.

Upplýsingar um viðburðina og dagsetningar ásamt skráningu er að finna á vefsíðu Kópavogsdeildar undir „Á döfinni" eða með því að smella hér. Einnig má hafa samband við deildina í síma 554 6626 eða á [email protected].

25. feb. 2009 : Æfingahelgi skyndihjálparhóps í Alviðru

Skyndihjálparhópur ungmennadeildar Reykjavíkurdeildarinnar hélt árlega æfinga- og skemmtihelgi sína í Alviðru í Ölfusi um síðustu helgi. Auk Reykvíkinganna tóku nokkrir félagar í skyndihjálparhópi ungmenna á Austurlandi þátt.

Æfð voru ýmis atriði skyndihjálpar og hápunkturinn var svo hin ómissandi hópslysaæfing í hlöðunni.

Komin er um fimmtán ára hefð á þessar ferðir og skapast alltaf mikil stemning í kringum þær. Að lokinni vel heppnaðri dagskrá tók við grillveisla og kvöldskemmtun. Myndir: Oddný Björk Björnsdóttir.

23. feb. 2009 : Framadagar 2009

Framadagar voru haldnir föstudaginn 20. febrúar í húsakynnum Háskólabíós í fimmtánda skipti. Var Ungmennadeild Rauða krossins á staðnum til að kynna verkefni sín og Rauða krossinn almennt  fyrir gestum og gangandi.

Á Framadögum koma fyrirtæki og félagasamtök frá höfuðborgarsvæðinu saman til að kynna starfsemi sína fyrir dugandi menntafólki. Tilgangurinn er einnig að skapa sér jákvæða ímynd í huga háskólanema. Síðan 1995 hafa Framadagar skilað ómetanlegum tengslum á milli fyrirtækja, starfsmanna og menntafólks. Nemendur hafa m.a. komist í framtíðarstarf sitt í framhaldi af Framadögum og unnið lokaverkefni í samstarfi við fyrirtæki.

14. feb. 2009 : Þorir þú Á Flótta? 14.-15. feb.

Langar þig til að komast að því hvernig 20 milljónir flóttafólks í heiminum upplifir lífið?
Fólk sem neyðist til að flýja landið sitt með óvissuna í farteskinu því það hafði ekki tíma til að pakka niður eigum sínum.
Langar þig að kynnast hvernig er að vera óvelkominn í eigin landi vegna skoðanna þinna?

,,Á Flótta" er hlutverkaleikur þar sem að fólk á aldrinum 13 ára og eldra gefst kostur á að upplifa hvernig það er að vera flóttamaður í sólarhring. Þátttakendur fá nýja fjölskyldu, nýtt þjóðerni, ný trúarbrögð og upplifa dæmigerðar aðstæður flóttamanns frá stríði, spillingu og hungri á meðan þeir hrekjast frá einum stað til annars í leit að öruggum stað til að hefja nýtt líf. Allt miðar að því að upplifun þátttakenda verði eins raunveruleg og hægt er. 

9. feb. 2009 : Sjálfboðaliðar óskast í nýtt, tímabundið verkefni

Kópavogsdeildin er að hrinda í framkvæmd nýju, tímabundnu verkefni sem ber heitið Nýttu tímann: Námskeið – Fyrirlestrar – Samvera og er því ætlað að ná til atvinnulausra og þeirra sem hafa þurft að minnka við sig vinnu vegna efnahagsástandsins í landinu. Verkefnið er að sjálfssögðu opið öllum en áhersla er lögð á að ná til fyrrgreindra hópa. Áhersla er einnig lögð á að leiðbeinendur komi úr röðum sjálfboðaliða, sem og atvinnulausra, og því biðjum við áhugasama um að hafa samband við okkur ef þeir geta leiðbeint á einhverju af námskeiðunum. Leiðbeinendurnir þurfa ekki að vera fagmenn heldur bara sjálfboðaliðar með kunnáttu á viðfangsefninu hverju sinni.

5. feb. 2009 : Heilahristingur. Kynningarfundur Gerðubergssafni mánudaginn 9. febrúar kl. 17:30.

Heilahristingur, heimanámsaðstoð fyrir börn af erlendum uppruna í 8. til 10 bekk Fella- og Hólabrekkuskóla, hefst þriðjudaginn 10. febrúar kl. 15:15. Verkefnið verður starfrækt í Gerðubergssafni Borgarbókasafns. Fyrirhugað er að heimanámsaðstoð fyrir yngri bekki Hólabrekkuskóla verði einnig starfrækt seinna í vetur.

Tilgangur verkefnisins er að bregðast við ótímabæru brottfalli grunnskólabarna af erlendum uppruna og auka líkur á að þau kjósi að fara í framhaldsskóla. Megináherslan er skapandi unglingastarf sem miðar að því að opna augu ungmennanna fyrir möguleikum sem fyrir hendi eru hvað varðar framtíð þeirra og styrkja sjálfsmynd þeirra.