27. mar. 2009 : Nemendur Versló áhugasamir um Vinanetið og Hjálparsíma Rauða krossins 1717

Starfsmenn Reykjavíkurdeildar Rauða krossins heimsóttu alla þriðju bekki Verslunarskóla Íslands og kynntu fyrir nemendum verkefni ungmennahreyfingar deildarinnar, Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og Vinanetið. Móttökurnar voru góðar og nemendur Verslunarskóla Íslands áhugasamir um verkefni Rauða krossins.

Vinanet er spjall fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára sem af einhverjum ástæðum hefur einangrast frá samfélaginu. Á Vinaneti getur fólk rætt saman á uppbyggilegan hátt um hin ýmsu málefni. Einu sinni í mánuði stendur þeim sem spjalla saman á netinu til boða að hittast utan tölvuheima ásamt sjálfboðaliðum Rauða krossins þar sem ýmislegt skemmtilegt er gert  eins og fara saman í bíó, í keilu, á skauta, á kaffihús og svo framvegis. Hlutverk sjálfboðaliða er að halda utan um spjallið og sjá til þess að notendur spjalli saman á jákvæðum nótum ásamt því að ýta undir að allir taki virkan þátt – bæði í spjallinu og í mánaðarlegum hittingum utan netheima. Sjálfboðaliðar verkefnisins hafa setið grunnnámskeið Vinanets og fengið þjálfun í viðtalstækni.

18. mar. 2009 : Ungmenni kynna sér starfsemi Rauða krossins

Nú stendur yfir árleg þemavika í Lindaskóla í Kópavogi og þemað í unglingadeildinni í ár er Rauði kross Íslands. Nemendur úr skólanum hafa kynnt sér starfsemi Rauða krossins og hafa nokkrir hópar komið í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og tekið viðtöl við starfsmenn deildarinnar. Þeir hafa fræðst um rekstur deildarinnar, verkefnin, námskeið og ungmennastarfið. Þá hafa nokkrir hópar líka farið á landsskrifstofu Rauða krossins og fengið upplýsingar um starfið þar. Þeir fengu meðal annars stutta kennslu í skyndihjálp.

16. mar. 2009 : Góður stuðningur í landssöfnuninni sem hófst í dag

Sóley Gunnarsdóttir, 10 ára, kom færandi hendi í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar rétt í þessu í tilefni af landssöfnun Rauða kross Íslands og Hjálparstarfs kirkjunnar. Hún kom fyrir hönd frændsystkina sinna sem hvert gaf 500 krónur í söfnuna og færði hún Rauða krossinum alls 6.000 krónur. Fyrir hönd Rauða krossins færir Kópavogsdeildin frændsystkinunum kærar þakkir fyrir stuðninginn.

11. mar. 2009 : Foldaskóli færir Rauða krossinum peningagjöf

Krakkar í 6. bekk JA og HR í Foldaskóla afhentu Rauða krossinum í dag peningagjöf til styrktar börnum og ungmennum víða um heim. Þessir peningar voru hagnaður þeirra eftir markaðsdaginn í nýsköpun þar sem þau seldu framleiðslu fyrirtækja sinna.

Berglind Rós forstöðukona Ungmennadeildar Reykjavíkurdeildar veitti peningagjöfinni viðtöku frá Lóu Kristínu nýsköpunarkennara 6. bekkjar Foldaskóla. Hún þakkaði nemendum þessa veglegu gjöf. 

 

9. mar. 2009 : Eldhugar hitta palestínska unglinga á Akranesi

Það var sannkölluð fjölmenningarstemning á fundi Eldhuga á fimmtudaginn er þeir fóru saman ásamt sjálfboðaliðum að heimsækja Rauða krossinn á Akranesi. Þar fékk hópurinn frábærar móttökur. Nokkrir unglingar úr hópi palestínskra flóttamanna sem þar búa, ásamt sjálfboðaliðum og starfsfólki  deildarinnar, biðu hópsins með veitingar. Auk þess sem hann fékk fræðslu um móttöku flóttamanna til nýrra heimkynna. Þar kom fram hvernig Rauði krossinn á Akranesi stóð að móttöku flóttamannanna frá Palestínu sem fluttu þangað í fyrrahaust. Sagt var frá því hvernig deildin og bæjarbúar stuðluðu að því að fólkinu liði sem best og hvernig stuðningsfjölskyldur á Akranesi hafa stutt við hópinn og hjálpað þeim við að aðlagast lífi í nýju landi.

6. mar. 2009 : Fyrsti hittingur Vinanets

Fyrsti hittingur Vinanets fór fram miðvikudaginn 4. mars og gekk alveg frábærlega vel. Mættu 9 notendur Vinanets ásamt 7 sjálfboðaliðum þannig að í heildina voru 16 ungmenni samankomin til að eiga gott kvöld saman. Var ákveðið að taka nokkur spil og voru meðal annars spiluð Trivial Persuit, Party og Co. ásamt hinum ýmsu spilum með gömlu góðu venjulegu handspilum. Erum við gífurlega ánægð með þennan fyrsta hitting Vinanets og erum við strax farin að hlakka mikið til næsta hittings sem verður haldinn fimmtudaginn 2. apríl.

4. mar. 2009 : Kínversk heimsókn

Á dögunum fengu félagar í unglingastarfi URKÍ-H góða heimsókn frá Kína. Þar var á ferðinni Changlong Xu frá Kína sem búsettur er hér á landi en hann sagði krökkunum frá heimalandi sínu og hvernig upplifun það er fyrir hann að búa á Íslandi. Sýndi hann myndir frá heimahögunum og spjallaði um heima og geima.

Heimsóknin var einkar skemmtileg og fróðleg en hún er hluti af svo kölluðu vegabréfaverkefni URKÍ-H. Í því verkefni koma gestir og kynna ákveðið land, sögu þess og menningu. Annað hvort er um að ræða Íslendinga sem hafa búið erlendis um tíma eða innflytjendur sem búsettir eru hér á landi og koma og fræða krakkana um sitt heima land.

Markmið verkefnisins er að auka á víðsýni ungmenna, fræðast um ólík lönd og menningarheima, vinna gegn fordómum og auka á umburðarlyndi. Verkefnið er hluti af þemanu byggjum betra samfélag sem félagar URKÍ-H vinna að og er ætlað að draga úr fordómum og auka á vináttu, umburðarlyndi og virðingu í íslensku samfélagi.

4. mar. 2009 : Unglingahópur URKÍ-R Miðbæjar og Breiðholts

Miðbæjarhópur URKÍ-R kvaddi á dögunum verkefnastjóra sinn hana Hjördísi Dalberg, en hún er að fara í fæðingarorlof. Í tilefni þess að þetta var hennar síðasti hittingur var keyptur blómvöndur og föndrað kort handa tilvonandi móður. Hjördís kom einnig með gómsæta súkkulaðiköku og saman eyddu unglingarnir tímanum í að föndra persónuskjal hvers og eins þar sem helstu upplýsingar um þátttakendur í starfinu koma fram. Suluman Bah sjálfboðaliði Gambíska Rauða krossins, sem er á Íslandi í tengslum við vinadeildarsamstarfs Reykjavíkurdeildarinnar við Gambíu, kíkti á krakkanna og föndraði með þeim sitt persónuleikaskjal.

3. mar. 2009 : Kópavogsdeildin er virkur þátttakandi í alþjóðastarfi Rauða krossins

Markmið deildarinnar er að taka þátt í alþjóðlegri neyðaraðstoð á vegum Rauða kross Íslands og vera virkur þátttakandi í alþjóðahreyfingu Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Einn liður í þessu starfi er verkefnið Föt sem framlag en vel yfir 50 sjálfboðaliðar störfuðu við það árið 2008 eins og kemur fram í ársskýrslu deildarinnar sem var kynnt á aðalfundi í síðustu viku. Sjálfboðaliðarnir útbúa fatapakka fyrir börn í neyð og eru þeir sendir til Malaví í Afríku. Alls sendu þeir frá sér 640 pakka og yfir 100 teppi á síðasta ári. Þá lögðu gestir í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, verkefninu lið með handavinnu sem fer fram í athvarfinu. Konur á hjúkrunarheimilinu í Sunnuhlíð lögðu einnig sitt af mörkum með því að afhenda deildinni teppi og aðrar prjónavörur.

2. mar. 2009 : Heilahristingur og Vinanet – verkefni Rauða krossins fyrir ungmenni í Reykjavík

Heilahristingur, nýtt samstarfsverkefni Reykjavíkurdeildar Rauða krossins, Alþjóðahúss í Breiðholti og Borgarbóksafns, hófst þann 10. febrúar. Heilahristingur er heimanámsaðstoð fyrir börn af erlendum uppruna í 8. til 10. bekk Fella- og Hólabrekkuskóla. Einnig er fyrirhugað að setja á laggirnar heimanámsaðstoð fyrir yngri bekki Hólabrekkuskóla á næstu mánuðum. Verkefnið er starfrækt í Gerðubergssafni Borgarbókasafns.

Tilgangur verkefnisins er að bregðast við ótímabæru brottfalli grunnskólabarna af erlendum uppruna og auka líkur á að þau kjósi að fara í framhaldsskóla. Megináherslan er skapandi unglingastarf sem miðar að því að opna augu ungmennanna fyrir möguleikum sem fyrir hendi eru hvað varðar framtíð þeirra og styrkja sjálfsmynd þeirra.