27. apr. 2009 : Virkja ber þann mikla kraft sem býr í fólki og gefa því tækifæri til að gefa af sér, sjálfum sér og öðrum til ánægju.

Kollsteypan sem orðið hefur í efnahagslífi þjóðarinnar á undanförnu misseri hefur breytt lífi margra. Þegar fólk missir vinnuna eða þarf að minnka verulega við sig vinnu er hætta á að það einangrist og upplifi aðgerðaleysi og vanmátt.

20. apr. 2009 : Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík býður upp á ókeypis sumarnámskeið fyrir börn

Í júní og júlí mun Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík bjóða upp á ókeypis námskeið í Mannúð og Menningu, fyrir börn á aldrinum 7-12 ára. Námskeiðin byggja á ýmis konar fræðslu og leikjum sem miða að því að börnin tileinki sér mannúðarhugsjón Rauða krossins og tengi hana við sitt daglega líf. Námskeiðin eru blanda af fræðslu, útiveru og leikjum. Meðal efnis er; undirstöðuatriði skyndihjálpar, umhverfismál, skapandi leikir, saga og starf Rauða krossins, fjölmenningarlegt samfélag og uppskeruhátíð.

Námskeiðin hafa ekki áður verið ókeypis en vegna efnahagsástandsins ákvað Rauði krossinn í Reykjavík að bjóða í sumar upp á þessi námskeið frítt – til að létta undir með foreldrum og heimilum á höfuðborgarsvæðinu. Boðið verður upp á sex námskeið fyrir aldurshópana 7-9 ára og 10-12 ára. Hvert námskeið er ein vika, þau fyrstu hefjast mánudaginn 8. júní. Námskeiðin standa yfir frá mánudegi til föstudags frá kl. 09:00-16:00. Einn verkefnastjóri er með hvert námskeið og með honum eru tveir til þrír leiðbeinendur.

20. apr. 2009 : Nýr starfsmaður deildarinnar

Kjósarsýsludeild hefur ráðið Erlu Traustadóttur í 50% stöðu. Í kjölfarið mun sjálfboðaliðamiðstöðin vera opin tvo daga í viku, á þriðju-og fimmtudögum kl. 10 – 13. Í boði verður ýmis konar fræðsla og félagsstarf sem er öllum opið og eru Mosfellingar hvattir til að koma og kynna sér það sem er í boði.

Erla segir deildina ætla að bjóða upp á röð spennandi námskeiða og kynninga auk samveru fyrir áhugasama.  Viðburðirnir verða ókeypis og öllum opnir, ekki síst fólki í atvinnuleit og þeim sem hafa þurft að minnka við sig vinnu.  Fyrstu dagskrárliðirnir verða kennsla á GPS tæki þann 29. apríl og námskeið í ræktun kryddjurta þann 5. maí.  Fjölbreytt dagskrá mun svo fylgja í kjölfarið.