26. maí 2009 : Vorferð barna og ungmenna í Heiðmörk

Á uppstigningardag héldu börn og ungmenni sem tekið hafa þátt í Rauða kross starfi deildanna á höfuðborgarsvæðinu í sína árlegu vorferð. Í þessari dagsferð gefst ungmennunum einstakt tækifæri til að hittast og kynnast krökkum í öðrum deildum sem starfa með Rauða krossinum. Ferðin var afar vel sótt en rúmlega 70 börn og ungmenni auk sjálfboðaliða tóku þátt í ár.

Alls komu 28 börn og ungmenni frá Kópavogsdeild að þessu sinni. Úr Enter starfinu, sem er vikulegt starf  með sjálfboðaliðum fyrir 9-12 ára innflytjendur, komu 18 börn. Eldhugarnir voru 10 talsins en þeir eru unglingar á aldrinum 13-16 ára sem einnig hafa hist einu sinni í viku í vetur. Hópurinn var í heild sinni mjög alþjóðlegur en krakkarnir frá Kópavogsdeild komu meðal annars frá Póllandi, Litháen, Tælandi, Dóminíska lýðveldinu, Rúmeníu og Íslandi.

25. maí 2009 : Hátt í eitt hundrað námsmenn nýttu sér lesaðstöðu og námsaðstoð

Kópavogsdeild Rauða krossins bauð upp á ókeypis námsaðstoð fyrir fólk á framhaldsskólaaldri 27. apríl til 13. maí í samstarfi við Molann, menningar- og tómstundahús Kópavogs að Hábraut 2.

Í Molanum var opin lesaðstaða fyrir nemendur alla virka daga en tvisvar í viku voru sjálfboðaliðar frá Kópavogsdeild, sem búa yfir góðri þekkingu í helstu námsfögunum, á staðnum. Tilgangur verkefnisins var að sporna gegn brottfalli nemenda úr námi með því að veita þeim sérstaka aðstoð yfir prófatímann.

13. maí 2009 : Vetrarstarfi Eldhuga lýkur senn

Nú fer að líða að lokum vetrarstarfsins hjá Eldhugum en þeir hafa hist kl.17.30 alla fimmtudaga í vetur. Síðasta samvera Eldhuga verður þann 14. maí en þá fara þeir í heimsókn til Reykjavíkurdeildar. Þar verður haldin sameiginleg grillveisla og skemmtun fyrir 13-16 ára unglinga í Rauða kross starfi á höfuðborgarsvæðinu. Eldhugar munu þar fá tækifæri til þess að kynnast og eiga góða stund saman með öðrum unglingum. Auk þess munu þeir fá að sjá hvað önnur ungmenni innan Rauða krossins hafa verið að gera í vetur en hver deild mun vera með myndasýningu frá sínu vetrarstarfi.

13. maí 2009 : Vel heppnuð dagsferð með mentorum og mentee

Garðabæjardeild Rauða krossins efndi til dagsferðar með mentee og mentorum á laugardaginn. Ferðin var hugsuð sem vorglaðningur og einnig til að hitta fólk í öðru sveitarfélagi sem er með sama bakgrunn. Því var skipulögð heimsókn til Rauða kross deildarinnar á Akranesi en þar eru unnið að málefnum erlendra kvenna.

Keyrt var um Hvalfjörð þar sem stoppað var nokkrum sinnum, fallegir staðir skoðaðir og saga hvalstöðvarinnar og verkun hvals í áratugi rifjuð upp. Á íslensku baðströndinni á Langasandi við Akranes braust út gleði og frelsistilfinning einkum hjá börnunum, sem hlupu um og snertu sjóinn.

Síðan lá leiðin í kaffihúsið Skrúðgarðinn þar sem fulltrúar Rauða krossins biðu hópsins og buðu upp á veitingar og farið var í leiki sem tengdu fólkið saman.