15. jún. 2009 : Líf og fjör á námskeiðum Rauða krossins

Námskeiðin Mannúð og menning standa yfir þessa dagana. Hjá Kjósarsýsludeild Rauða krossins lauk fyrsta námskeiðinu í síðustu viku. Það hefur því verið líf og fjör hjá deildinni að undanförnu þar sem hópur krakka fræddust um Rauða krossinn, skyndihjálp, umhverfisvernd og fjölmenningu í gegnum leik og störf.

Á fjölmenningardeginum var boðið upp á hrísgrjóna- og grænmetisrétt samkvæmt gambískri fyrirmynd. Að sjálfsögðu var maturinn einnig snæddur eins og tíðkast í Gambíu, þ.e. hópurinn var berfættur, myndaði hring á gólfinu og borðaði með höndunum en einungis má nota vinstri hendina. Maturinn var reiddur fram á stóru fati og látinn ganga milli allra í hópnum. Þótti börnunum þetta ekki einföld aðferð.

12. jún. 2009 : Starfið á árinu 2008

9. jún. 2009 : Austurbæjarbíó – Hús unga fólksins!

Austurbæjarbíó - Hús Unga Fólksins opnar formlega þriðjudaginn 9. júní. Húsið verður miðstöð ungs  fólks sem vill virkja krafta sína í hvetjandi umhverfi.

Þeir aðilar sem standa Austurbæjarbíói eru Rauði krossinn í Reykjavík, Samfélagið Frumkvæði ( www.frumkvaedi.is ), Hitt Húsið, Lýðheilsustöð og Samband Íslenskra Framhaldsskólanema. Nánari upplýsingar veitir Þór Gíslason hjá Rauða krossinum í Reykjavík í síma 545-0406 eða netfang: [email protected]

Markmið miðstöðvarinnar er að bjóða ungu fólki upp á aðstöðu og aðstoð við framkvæmd hugmynda sinna. Virkir þátttakendur hússins móta fjölbreytta dagskrá sumarsins og sköpunarkraftar þeirra verða nýttir við andlitslyftingu á Austurbæjarbíó. Auk þess verður boðið upp á hressingu og gefst tækifæri til að sýna sig og sjá aðra. Haft verður að leiðarljósi að skapa vettvang þar sem öllum er frjálst að koma á sínum eigin forsendum og taka þátt í að skapa sér skemmtilegt sumar. Tveir sjóðir hafa verið stofnaðir sem hægt verður að sækja um styrki úr til að koma verkefnum af stað.

8. jún. 2009 : Sjálfboðaliðar fjölmenntu á vorgleði

Vorgleði sjálfboðaliða Kópavogsdeildar var haldin í sól og blíðu á laugardaginn í athvarfinu Dvöl við Reynihvamm 43. Sjálfboðaliðarnir fjölmenntu með maka, börn, barnabörn og aðra ættingja. Alls mættu yfir sextíu manns sem nutu veðurblíðunnar saman yfir grillmat og öðrum veitingum. Þá var haldin rúsínuspíttkeppni og sjálfboðaliði leiddi gestina í söng. Börnin fengu andlitsmálun og mátti meðal annars sjá litlar mýs, ketti, tígrisdýr og fiðrildi leika sér í snú snú og með sippubönd og húlahringi.

Gleðin er haldin árlega og er eins konar uppskeruhátið sjálfboðaliða deildarinnar þar sem markmiðið er að fagna starfsvetrinum og gleðjast saman í upphafi sumars. Deildin metur mikils framlag sjálfboðaliða sinna og þakkar þeim fyrir vel unnin sjálfboðin störf í vetur.