30. nóv. 2009 : Vel heppnaður skiptidótamarkaður og kakó á laugardaginn

Tuttugu og þrír sjálfboðaliðar Kópavogsdeildarinnar stóðu vaktina síðasta laugardag á skiptidótamarkaði í Molanum og við að gefa gestum og gangandi kakó og piparkökur á jólaskemmtun á Hálsatorgi á laugardaginn. Á markaðinum voru notuð leikföng sem fólk gat fengið í skiptum fyrir dót sem það átti og þannig endurnýjað í dótakassa barna sinna. Þá var einnig hægt að kaupa notuð leikföngin á vægu verði. Alls var selt fyrir 16 þúsund krónur og munu þær renna í neyðaraðstoð innanlands.

Þegar kveikt var á jólatré Kópavogs á Hálsatorgi síðar um daginn voru sjálfboðaliðar tilbúnir með heitt kakó og piparkökur fyrir þá sem komu til að fylgjast með dagskránni á torginu. Þetta voru heimsóknavinir, sjálfboðaliðar í neyðarvörnum og í verkefninu Föt sem framlag. Þá voru einnig sjálfboðaliðar í eldhúsinu í Molanum að búa til kakóið.

30. nóv. 2009 : Föt frá Álftanesi til Hvíta Rússlands

Álftanesdeild Rauða krossins og Félag eldri borgara á Álftanesi hafa unnið saman frá því í byrjun október að útbúa ungbarnapakka sem senda á með gámi til Hvíta Rússlands nú í desember.

Á milli 10-15 eldri borgarar hafa setið við að prjóna og sauma síðustu tvo mánuði og eins hefur verið leitað til foreldra barna á leikskólum á Álftanesi til að safna fötum sem einnig fara í gáminn.

Á föstudaginn komu saman allir þeir sem standa að verkefninu í Litla Koti húsnæði FEBÁ til að pakka fötunum í sérstaka poka til að afhenda þá til sendingar.

25. nóv. 2009 : Gefur fólki virkilega mikið að knúsa dýr

Heimsóknir hunda frá Rauða krossinum hófust á líknardeild Landspítalans í Kópavogi í gær. Á vegum Rauða krossins er fjöldi sjálfboðaliða sem fer með hunda sína í heimsóknir á stofnanir til að gleðja vistmenn, oftast eldra fólk. Greinin birtist í Fréttablaðinu 25.11.2009.

18. nóv. 2009 : BUSLarar í Keilu

Keilunum í Keiluhöllinni voru þeyttar niður hver á fætur annarri síðastliðinn miðvikudag þegar BUSLarar komu saman á sínum hálfsmánaðar hittingum. Snilldar taktar voru sýndir enda mikið keppnisfólk mætt á svæðið. Sjálfboðaliðar og BUSLarar skemmtu sér konunglega enda alltaf líf og fjör þegar þessi skemmtilegi hópur hittist.

BUSL er samstarfsverkefni Sjálfsbjargar og URKÍ-R og er fyrir hreyfihamlaða unglinga. Hópurinn hittist annan hvern miðvikudag milli kl. 19:30-22:00 og eru verkefnin fjölbreytt og skemmtileg.  Bakstöðvar hópsins eru í Rauðakrosshúsinu, Borgartúni 25 og er starfið opið öllum unglingum á aldrinum 13-18 ára.

16. nóv. 2009 : Stjórnarmenn á námskeiði um stjórnun félagasamtaka

Stjórnarmenn deilda Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu tóku þátt í námskeiði í síðustu viku um störf í stjórnum deilda. Leiðbeinandi var Ómar H. Kristmundsson fyrrverandi formaður Reykjavíkurdeildarinnar og stjórnar Rauða kross Íslands.

Ómar fjallaði um eðlilegt vinnulag í stjórnun félagasamtaka og kom inn á hlutverk og ábyrgð stjórnarmanna og verkskiptingu milli stjórna og launaðs starfsfólks. Fram kom á námskeiðinu að virk þátttaka stjórna er forsenda þess að félagasamtök geti starfað með öflugum hætti að markmiðum sínum. 

14. nóv. 2009 : Ný fataverslun opnar í Mjóddinni

Í dag opnaði Rauði krossinn fjórðu verslunina á höfuðborgarsvæðinu með notuð föt. Verslunin er staðsett í verslunarkjarnanum Mjóddinni.  Húsnæðið er bjart og rúmgott og þar er mikið úrval af fatnaði.

„Það var líflegt í búðinni strax við opnun hennar og greinilegt að fólk í nágrenninu var spennt að kynna sér starfsemina," segir Sigrún Jóhannsdóttir starfsmaður Fatasöfnunar Rauða krossins. Hún er afar þakklát góðum móttökum.
 
Með nýju versluninni er vonast til að komið sé enn frekar til móts við fólk sem hefur áhuga á að kaupa góðan almennan fatnað á úrvalsverði. Fatnaðurinn hefur verið gefinn Rauða krossinum, sem er með fatagáma á öllum móttökustöðvum Sorpu og víðar. Allur afrakstur rennur til alþjóðlegs hjálparstarfs Rauða krossins.

13. nóv. 2009 : Handverksmarkaður Kópavogsdeildar 14. nóvember

Kópavogsdeildin heldur handverksmarkað laugardaginn 14. nóvember kl. 11-16 í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11. Markaðurinn er lokaverkefni nemenda Menntaskólans í Kópavogi í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf. Einnig koma fleiri sjálfboðaliðar úr ýmsum verkefnum Kópavogsdeildar að markaðnum.

Selt verður fjölbreytt handverk sjálfboðaliða í verkefninu Föt sem framlag eins og fallegar sauma- og prjónavörur. Heimsóknavinir gefa kökur og þá verða í boði jólakort og sælgæti sem yngstu sjálfboðaliðar deildarinnar úr Enter og Eldhugum hafa búið til. Auk þess verður handverk frá Mósambík til sölu, s.s. litríkar töskur, skartgripir og batíkmyndir. Allur ágóði af sölunni rennur til neyðaraðstoðar innanlands.

12. nóv. 2009 : Símtöl vegna svínaflensunar

Hjálparsími  Rauða krossins var virkjaður til að svara almennum spurningum um svínaflensuna (Inflúensu A -H1N1) í gegnum gjaldfrjálsa númerið 1717. Það er meðal hlutverka Hjálparsímans að veita upplýsingar um samfélagsleg úrræði og þjónustu sem stendur  til boða. 

Sjálfboðaliðar og starfsfólk Hjálparsímans fengu ítarlega fræðslu frá Landlæknisembættinu um Inflúensuveiruna til að undirbúa sig fyrir símtölin. Frá ágústbyrjun til nóvemberloka hafa borist tæplega 500 símtöl vegna svínaflensunnar. Flest þeirra hafa snúið að einkennum og spurningum varðandi bólusetningar. Þau símtöl sem þarfnast faglegrar úrvinnslu hafa verið áframsend á læknavaktina eða fólki vísað á heilsugæslustöð í heimabyggð. Flest símtölin bárust í októbermánuði, þá töldu símtöl sem snéru að svínaflensunni um 300. Nú fer símtölum vegna þessa fækkandi. 

Áfram verður hægt að hringja í 1717 vegna almennra spurningar varðandi N1H1.

11. nóv. 2009 : Handagangur í heimanáminu

Það er alltaf líf og fjör á þriðjudags eftirmiðdögum í Reykjavíkurdeild Rauða krossins þegar krakkar af erlendum uppruna koma í deildina til að fá aðstoð við heimanámið. Sjálfboðaliðar sitja sveitir við að aðstoða nemendurna við stærðfræðiþrautir og íslenskumálfræði ásamt öðrum greinum sem kenndar eru í grunn.- og framhaldskólum landsins.

Krakkarnir sem koma eru frá 8 ára aldri og mætir hver og einn með það heimaverkefni sem þeim reynist flókið og reyna sjálfboðaliðar að aðstoða þau eftir bestu getu.

 

10. nóv. 2009 : Sjálfboðaliðar óskast í nýja fatabúð Rauða krossins

Rauði kross Íslands opnar nýja fatabúð í Mjódd í Reykjavík á næstunni og vantar sjálfboðaliða til að sjá um afgreiðslu. Í búðinni verða seld notuð föt sem almenningur hefur gefið Rauða krossinum. Sá fatnaður sem er gefinn Rauða krossinum er að hluta til seldur til flokkunarfyrirtækja í Evrópu sem endurnýta hann til sölu í verslunum og á mörkuðum erlendis. Fatnaðurinn er einnig flokkaður hér á landi í Fatasöfnunarstöð Rauða krossinn og sendur í búðirnar sem félagið rekur.

Auk nýju búðarinnar í Mjóddinni rekur félagið þrjár aðrar búðir á höfuðborgarsvæðinu, á Laugavegi 12 og 116 í Reykjavík og Strandgötu 24 í Hafnarfirði, og sjá sjálfboðaliðar alfarið um afgreiðslu í þeim. Allur ágóði af rekstri þeirra rennur í Hjálparsjóð Rauða krossins og er sjóðurinn nýttur í alþjóðlega neyðaraðstoð, neyðarvarnir og þróunaraðstoð.

5. nóv. 2009 : Á flótta á Keilissvæðinu

Hlutverkaleikurinn Á flótta var haldinn á Keilissvæðinu á Miðnesheiðinni um síðustu helgi. Þátttakendur voru að vanda hópur ungs fólks sem var tilbúið að setja sig í fótspor flóttamanna í heilan sólahring og taka þeim áskorunum sem flóttamenn í heiminum þurfa gjarnan að glíma við í sínu daglega lífi.  Það er Ungmennahreyfin Rauða krossins  sem á veg og vanda að skipulagningu og framkvæmd leiksins.

Í upphafi fá þátttakendur nýtt nafn, þjóðerni, vegabréf og jafnvel nýja fjölskyldu. Þarnæst hefst örlagarík atburðarás þar sem þátttakendur neyðast til þess að flýja lengri eða styttri vegalengdir, kljást við skæruliða, hermenn, svartamarkaðsbraskara, fólkssmyglara og skriffinna, matarlausir, þreyttir og niðurlægðir. Allt miðar að því að upplifun þátttakenda verði eins raunveruleg og hægt er.

4. nóv. 2009 : Hvít-Rússnesk rauðrófusúpa

Polina Diljá Helgadóttir nemandi í áfanga um sjálfboðið starf í Flensborgarskólanum hélt í gær kynningu á heimalandi sínu, Hvíta-Rússlandi, og bauð að því tilefni sjálfboðaliðum í föt sem framlag uppá ljúffenga rauðrófusúpu.

Tilefni kynningarinnar var að nú vinna sjálfboðaliðar um land allt hörðum höndum að því að útbúa ungbarnapakka sem senda á til Rauða krossins í Hvíta-Rússlandi. Þegar Polina heyrði af verkefninu var hún fljót að bjóðast til að koma og segja frá landinu sínu. Kynningin heppnaðist einkar vel og er óhætt að segja að rauðrófusúpan sem Polina bauð uppá hafi slegið í gegn.

2. nóv. 2009 : Söngstund í Roðasölum

Aðra hverja viku heimsækir hópur heimsóknavina Kópavogsdeildar sambýli fyrir fólk með heilabilun í Roðasölum og heldur söngstund fyrir íbúana. Sjálfboðliðarnir mæta með gítarinn og söngblöð og leiða íbúana í söng. Þá er einnig upplestur á ljóðum og í lokin er öllum boðið upp á kaffi og eitthvert góðmeti.

Fyrir utan söngglöðu heimsóknavinina heimsækja aðrir sjálfboðaliðar sambýlið. Heimsóknavinur með hund kemur einu sinni í viku og þá eru heimsóknir til einstaklinga.