29. des. 2009 : Mentee fær háskólastyrk

Félag háskólakvenna og kvenstúdenta veitti námsstyrk til tveggja kvenna af erlendum uppruna sem stunda nám við Háskóla Íslands. Styrkurinn er veittur til að létta undir framfærslu enda hafa þær ekki rétt á námslánum á Íslandi.

Félagið er í samstarfi við Garðabæjardeild Rauða krossins sem rekur verkefnið „Félagsvinur – Mentor er málið“. Deildin leggur til mentora fyrir konurnar sem styðja þær í náminu og hjálpa að aðlagast íslensku samfélagi.

Kristýna Antonova frá Tékklandi og Thuy Thi Pham frá Víetnam hlutu styrkinn. Kristýna mætti ásamt mentornum sínum, Jennýu Heiðu, til að veita styrknum viðtöku. Thuy var erlendis en hún mun einnig fá mentor í janúar þegar hún snýr aftur til Íslands.

9. des. 2009 : Tombólubörnum boðið í bíó

Í tilefni af degi sjálfboðaliðans  5. desember bauð Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík Tombólukrökkum hreyfingarinnar í bíó síðastliðinn föstudag. Laugarásbíó gaf inn á myndina Arthúr 2 sem var frumsýnd þennan sama dag og létu Tombólukrakkarnir ekki sitt eftir liggja og fjölmenntu í bíó.

Á hverju ári safna krakkar víðsvegar af á landinu háum fjárhæðum til styrktar Rauða krossinum. Árið 2009 söfnuðust 650.000 krónur og renna peningarnir til hjálparstarfs Rauða krossins fyrir börn í Malaví.

8. des. 2009 : Nemendur í SJÁ 102 fá viðurkenningu fyrir vel unnin sjálfboðaliðastörf

Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi í áfanganum SJÁ 102 fengu viðurkenningu á dögunum fyrir vel unnin sjálfboðaliðastörf hjá Kópavogsdeild. Nemendurnir voru tuttugu í áfanganum á þessari önn og unnu sjálfboðin störf í Rjóðrinu, með Eldhugum, sem námsvinir jafningja og í Dvöl. Þar að auki sátu þeir grunnnámskeið Rauða krossins þar sem þeir lærðu um upphaf, sögu, hugsjónir og verkefni hreyfingarinnar. Þeir héldu einnig dagbók um störf sín og lokaverkefni þeirra var að sjá um handverksmarkað í sjálfboðamiðstöðinni sem haldinn var þann 14. nóvember síðastliðinn.

1. des. 2009 : Jafningjafræðsla á alþjóðlegum alnæmisdegi

Alþjóðlegur baráttudagur gegn alnæmi er í dag 1. desember. Fræðsluhópur Plússins, ungmennastarfs Kópavogsdeildar hefur af því tilefni sinnt forvarnarfræðslu um alnæmi fyrir alla lífsleikninema Menntaskólans í Kópavogi undanfarna daga og vikur. Auk þess hélt hópurinn fyrirlestur og kynningu á Tyllidögum skólans í haust.

Fræðsluhópur sinnir fræðslu og forvörnum, bæði fyrir jafningja og yngri hópa og vinnur með eitt átaksverkefni á hverri önn. Verkefnið sem varð fyrir valinu í haust var fræðsla um alnæmi og hefur hópurinn leitast við að vekja jafningja sína til umhugsunar. Fræðslan var í formi hlutverkaleiks, auk fyrirlesturs þar sem fjallað var um helstu staðreyndir er varða sjúkdóminn. Fræðsluhópur vann þetta átaksverkefni í samstarfi við HIV–samtök Íslands.