29. des. 2010 : Ungir Hafnfirðingar láta sig mannúðarmálin varða

Börnin á leikskólanum Norðurbergi í Hafnarfirði hafa um árabil styrkt hjálparstarf Rauða krossins. Það gera þau með því að safna dósum og flöskum sem þau tína í göngutúrum sínum í nágrenninu og eitthvað kemur heiman að frá. Þau heimsóttu Hafnarfjarðardeildina fyrir skömmu og sungu nokkur lög fyrir starfsfólkið sem skemmti sér vel.

Alls söfnuðu börnin á Norðurbergi samtals 21.043 krónum í ár. Peningarnir fara í sjóð „tombólubarna“ sem er notaður til að kaupa skólavörur fyrir börnin á Haítí sem eiga um sárt að binda eftir hamfarirnar.

26. des. 2010 : Sjálboðaliðar óskast sem stuðningsfjölskyldur flóttamanna

Þann 10. desember síðastliðin komu til landsins tvær flóttafjölskyldur frá Kólumbíu í boði ríkisstjórnar Íslands, en fjölskyldurnar hafa nú sest að í Reykjavík.

Reykjavíkurdeild Rauða krossins óskar eftir sjálfboðaliðum til að sinna stuðningsfjölskylduhlutverki við flóttamannafjölskyldurnar.

Áhugsamir hafi samband við:

Karen H. Theodórsdóttir, [email protected]
Sími 545-0404

eða

Jeimmy Andrea, [email protected]

17. des. 2010 : Margt og mikið að gerast hjá Móral

Krakkarnir í Móral, ungmennastarfi Kjósarsýsludeildar Rauða krossins, héldu jólamarkað í Álafosskvosinni nú í desember. Til sölu voru fjölbreyttar og fallegar prjónavörur frá sjálfboðaliðum og velunnurum deildarinnar og ilmandi heimagerður brjóstsykur sem krakkarnir höfðu útbúið.

Ágóði markaðsins var 50.000 krónur og rennur hann í jólaúthlutun Kjósarsýsludeildar

Mórall er hópur krakka 13-16 ára sem hittist alla mánudaga kl. 20 í Þverholti 7.

Krakkarnir fræðast um Rauða krossinn, vinna verkefni tengd hugsjónum og starfi Rauða krossins um allan heim, fara í ferðir og hitta aðrar ungmennadeildir. Það kostar ekkert að vera með. Komdu og kíktu ef þú þorir....

16. des. 2010 : Viltu bregðast við í neyð?

Viðbragðshópur Höfuðborgarsvæðis getur bætt við sig fleiri sjálfboðaliðum. Viðbragðshópurinn sinnir neyðaraðstoð fyrir óslasaða þolendur á vettvangi bruna, vatnstjóna, rýmingar húsa og annarra alvarlegra atburða sem lenda utan skipulags almannavarna.

Hópfélagar taka bakvaktir eina viku í senn. Þeir taka námskeið áður en þeir hefja störf, m.a. í sálrænum stuðningi og úrlausnum eftir tjón. Hópurinn starfar undir Neyðarnefnd höfuðborgarsvæðis sem velur einstaklinga í hópinn. Sjálfboðaliðar þurfa að vera búnir að ná 23 ára aldri.

Næsta námskeið fyrir verðandi félaga í viðbragðshóp er fyrirhugað um miðjan febrúar og inntökuviðtöl hefjast síðustu viku í janúar.

7. des. 2010 : Heitt kakó í miðbæ Reykajvíkur

Átta þúsund bollar af heitu kakói verða gefnir alla laugardaga í desember og á Þorláksmessu. 150 sjálfboðaliðar standa vaktina á 12 stöðvum víðsvegar um miðbæinn. Tilgangurinn er að safna til styrktar Elínborgarsjóði Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands en sjóðnum er ætlað að styrkja einstaklinga og fjölskyldur sem á þurfa að halda.

Með sjálfboðaliðum Reykjavíkurdeildar er fjöldi erlendra sjálfboðaliða á vegum SEEDS sjálfboðaliðasamtakanna en án hjálpar allra sjálfboðaliðanna væri söfnun sem þessi ógerleg.

6. des. 2010 : Tombólukrakkar í bíó

Mikil stemning var í Laugarásbíó nú um helgina á degi sjálfboðaliðans, 5. desember, þegar kvikmyndahúsið bauð öllum krökkum sem eiga heima á höfuðborgarsvæðinu og voru með tombólu á árinu í bíó. Myndin sem var sýnd heitir Arthúr 3 en hún kom út í nóvember á þessu ári.

Tæplega einni milljón króna var safnað af 550 tombólubörnum á liðnu ári og er það met framlag frá þessum yngsta hópi styrktarmanna Rauða kross Íslands.

3. des. 2010 : Hekla er heimilishundur með hlutverk

Fyrsti hundurinn til að sinna sjálfboðnu starfi fyrir Rauða krossinn í Mosfellsbæ heitir Hekla. Hún er vinaleg blendingstík og heimilishundur Völu Friðriksdóttur líffræðings. Hekla gegnir margföldu hlutverki sem heimsóknavinur Rauða krossins.

2. des. 2010 : Það er gott að láta gott af sér leiða - Viðtal við sjálfboðaliða

Rakel Sara Hjartardóttir er 19 ára Kópavogsbúi sem hefur verið sjálfboðaliði hjá Kópavogsdeild í hátt á annað ár. Hún hefur unnið með börnunum í Enter en þau eru ungir innflytjendur á aldrinum 9-12 ára. Verkefnið er unnið í samvinnu við móttökudeild nýbúa í Álfhólsskóla og hófst árið 2004. Börnin koma einu sinni í viku eftir skóla í Rauðakrosshúsið Hamraborg 11 og fá meðal annars málörvun og fræðslu í gegnum fjölbreytta leiki og vettvangsferðir. Markmið verkefnisins er að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því.

Rakel Sara ákvað í byrjun að gerast sjálfboðaliði þar sem hún hafði frítíma sem hún vildi nýta til góðs. Þá hafði hún heyrt af Rauða krossinum í Kópavogi í gegnum vinkonu sína. Hún hafði því samband við Kópavogsdeild, fór í viðtal og fékk að heyra hvaða sjálfboðaliðastörf væru í boði fyrir hana. Hún hafði sérstakan áhuga á því að vinna með börnum og þess vegna varð Enter-starfið fyrir valinu.

29. nóv. 2010 : Starfsmenn leikskóla búa til jólagjafir

Starfsfólk á leikskólunum Reykjakoti og Hlaðhömrum í Mosfellsbæ hafa setið við í frítíma sínum undanfarna mánuði og prjónað húfur, vettlinga, sokka, ennisbönd, peysur og ýmislegt fleira. 

Í síðustu viku komu þau saman og pökkuðu prjónavörunum ásamt ýmsu öðru í 60 glæsilegar jólagjafir fyrir börn á leikskólaaldri. Leitað var til nokkurra fyrirtækja um aðstoð til að gera gjafirnar sem veglegastar og fengust góðar gjafir frá Barnasmiðjunni, Diplo eht, Ístex, Nóa Síríus og Bókaútgáfunni Sölku ehf.   

Gjafirnar voru afhentar Kjósarsýsludeild Rauða krossins sem mun úthluta  þeim í samvinnu við Lágafellskirkju.

25. nóv. 2010 : Skyndihjálparhópur höfuðborgarsvæðisins tekur til starfa

Neyðarnefnd deilda Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu og Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R) hafa gert með sér samstarfssamning um starfsemi Skyndihjálparhóps.

Skyndihjálparhópurinn er tilraunaverkefni til þriggja ára og getur fólk allt frá 16 ára aldri tekið þátt í starfinu. URKÍ-R mun sjá um sjálfboðaliða hópsins á aldrinum 16-25 ára sem annast sjúkragæslu á viðburðum framhaldsskóla, en Neyðarnefnd heldur utan um starf fyrir sjálfboðaliða 23 ára og eldri sem standa munu fyrir fræðslu, kynningum og að draga úr skaða hjá ýmsum jaðarhópum í samfélaginu. Aðeins sjálfboðaliðar sem eru sjálfráða geta tekið þátt í gæslu og viðburðum, en ungt fólk á aldrinum 16-18 ára getur tekið þátt í æfingum og þjálfun. Allir sjálfboðaliðar Skyndihjálparhóps sem taka vaktir í gæslu og/eða viðburðum fara í inntökuviðtöl og fá góða skyndihjálparþjálfun.

24. nóv. 2010 : Atvinnuleitendur pakka jólagjöfum fyrir Mæðrastyrksnefnd Kópavogs

Ungir atvinnuleitendur sem taka þátt í sjálfboðaliðastarfi Rauða krossins aðstoðuðu Mæðrastyrksnefnd Kópavogs við að pakka inn jólagjöfum fyrir jólaúthlutunina í desember. Það skapaðist jólastemning í hópnum og einn sjálfboðaliði hafði jafnvel orð á því að þetta væri ágætis upphitun fyrir jólainnpökkun fjölskyldunnar.

Þessir atvinnuleitendur taka þátt í verkefnum þar sem blandað er saman atvinnuleit og sjálfboðaliðastarfi. Sjálfboðaliðarnir í verkefninu hafa tekið þátt í ýmsum störfum hjá Rauða krossinum síðustu mánuði eins og unnið í athvörfum fyrir fólk með geðraskanir, fatasöfnun, með innflytjendum og nýtt sér starf Rauðakrosshúsanna.

22. nóv. 2010 : Roksala á markaði Kópavogsdeildar

Fjöldi fólks mætti í Rauðakrosshúsið í Kópavogi á laugardaginn og gerði góð kaup á handverksmarkaði MK-nema. Til sölu voru alls konar prjónavörur, kökur, brjóstsykur, jólakort og handverk frá vinadeild í Mósambík. Alls seldust vörur fyrir 300.000 þúsund krónur. Ágóðinn rennur til verkefna innanlands.

Handverksmarkaðurinn var lokaverkefni MK-nemanna í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf. Markmið áfangans er að nemendur kynnist sjálfboðnu starfi hjá Rauða krossi Íslands. Nemendur vinna sem sjálfboðaliðar yfir önnina í samráði við kennara í MK og Kópavogsdeildina. Meðal verkefna í boði eru aðstoð við aldraða og einmana, störf í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, og félagsstarf með ungum innflytjendum. Nemendur fá fræðslu um hugsjónir og störf Rauða kross hreyfingarinnar og sækja námskeið fyrir sjálfboðaliða.

16. nóv. 2010 : Börn og ungmenni í starfi Kópavogsdeildar útbúa handverk fyrir markað

Síðustu vikur hafa börnin í Enter og unglingarnir í Eldhugum, barna- og unglingastarfi Kópavogsdeildarinnar unnið að gerð handverks sem selt verður á markaði hennar á laugardaginn, 20. nóvember næstkomandi. Vinnan hefur gengið vel en Enter börnin hafa unnið að gerð dagatals og Eldhugarnir búið til lakkrísbrjóstsykur. Þess má einnig geta að ungmenni úr Plúsnum, starfi fyrir 16-24 ára sjálfboðaliða, hafa búið til hálsklúta, hárskraut og skartgripi sem einnig verða til sölu á markaðinum.

Markaðurinn verður haldinn í Rauðakrosshúsinu, Hamraborg 11, 2. hæð, og stendur frá kl. 11-16. Þar verður einnig selt fleira handverk, eins og prjónavörur, sem unnið er af sjálfboðaliðum deildarinnar, heimagerðar kökur og handgerðir munir frá Mósambík.

9. nóv. 2010 : Félagsvinir hittast og skera út í ávexti

Þátttakendur í verkefninu Félagsvinir kvenna af erlendum uppruna gerðu sér glaðan dag nú í nóvember. Konurnar hittust í Rauðakrosshúsinu í Borgartúni 25 og skáru út í ávexti undir góðri leiðsögn Sonju, sem er fagkona á þessu sviði. Ávaxtaskurður sem þessi er tælenskur siður og gleður bæði augu og bragðlauka.

Það er vandasamt verk að skera út svo vel sé og ekki á allra færi, það var ótrúlegt hvað sumar kvennanna voru fljótar að tileinka sér handbragðið og hver melónan á fætur annarri var færð í nýjan búning. Það var mikið hlegið og spjallað en þegar einbeitingin náði hámarki færðist hljóð yfir hópinn.

20. okt. 2010 : Hafnarfjarðardeild sinnir félagsstarfi fyrir hælisleitendur

Sumarið 2009 hófst mánaðarlegt félagsstarf fyrir hælisleitendur. Hópur sjálfboðaliða hjá Hafnarfjarðardeild Rauða krossins hafa séð alfarið um skipulag og framkvæmd starfsins og bjóða uppá fjölbreytta dagskrá svo sem ferðalög, danskvöld, tölvuleikjakvöld og hátíðarkvöldverð. Ferðalög eru alltaf vinsælust og hefur verið boðið upp á ferð í Bláa Lónið, réttir og náttúruskoðanir.

Deildirnar í Grindavík, Hveragerði, Vík og Vestmannaeyjum hafa allar tekið höfðinglega á móti þessum hópi auk þess sem Suðurnesjadeild hefur lánað húsnæði sitt undir spilakvöld og aðra viðburði sem fara fram í Reykjanesbæ.

Verkefnið hefur því í senn verið lyftistöng í félagslífi hælisleitenda sem og aukið á samstarf Rauða kross deilda og sjálfboðaliða þeirra.

15. okt. 2010 : Rauða kross búð á Garðatorgi - Opnunarhátíð og „List til góðs”

Laugardaginn 16. október næstkomandi kl. 13:00 -15:00 mun Garðabæjardeild Rauða krossins í samstarfi við Fatasöfnun Rauða kross Íslands opna fataverslun á Garðatorgi sem mun selja notaðan fatnað. Búðin verður mönnuð sjálfboðaliðum úr Garðabæ og allur hagnaður af sölu fatnaðarins rennur í Hjálparsjóð Rauða krossins. Af tilefni opnunarinnar býður Garðabæjardeild Rauða krossins til hátíðar á Garðatorgi (Hrísmóum 4). Allir eru velkomnir.

12. okt. 2010 : Laganemar og lögfræðingar vinna að réttindagæslu

Réttindagæsla fyrir hælisleitendur er verkefni sem hóf göngu sína sumarið 2009 á vegum Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins. Sjálfboðaliðarnir sem sinna verkefninu eru laganemar og lögfræðingar. Unnið er í samstarfi við deildina og félaganna Orator og Lögréttu.

Sjálfboðaliðarnir fylgja hælisleitendum í hælisskýrslu, aðstoða þá við gerð greinargerða til Útlendingastofnunar og fylgja þeim í birtingu þegar hælismáli er lokið.

Það er samdóma álit þeirra sem að verkefninu koma að vinna sjálfboðaliða Rauða krossins skipti sköpum fyrir fólk í þessari stöðu. Um 15 manna hópur hefur sinnt þessu verkefni en nýlega bættust 12 nýir sjálfboðaliðar við.

Réttindagæslan er hluti af verkefnum Hafnarfjarðardeildar til stuðnings hælisleitendum en að auki er boðið uppá heimsóknaþjónustu, félagsstarf og stuðningsfjölskyldur.

1. okt. 2010 : Hvaða götu ætlar þú að taka?

Rauði krossinn hvetur landsmenn til að taka þátt í landssöfnuninni Göngum til góðs laugardaginn 2. október.  Markmiðið er að fá 3.000 sjálfboðaliða til að ganga í öll hús á landinu og safna fyrir verkefni Rauða krossins í Afríku.

Ýmsir þekktir einstaklingar leggja Rauða krossinum lið í söfnuninni, og mun rapparinn Erpur Eyvindarson standa vaktina í heimabæ sínum Kópavogi megnið af deginum, og fjölmiðlakonan Tobba Marinós ætlar að standa við stóru orðin og taka Karlagötuna.

Þá munu Íslandsmeistararnir í knattspyrnu karla, meistaraflokkur Breiðabliks, ganga fyrir Rauða krossinn í Kópavogi. 

30. sep. 2010 : Við erum ekki vön að láta okkar eftir liggja hér í Kópavogi!

„Nú treystum við á að bæjarbúar gangi til liðs við okkur eins og ávallt þegar við leitum eftir stuðningi“, segir Ingibjörg Lilja Diðriksdóttir formaður Kópavogsdeildar. Laugardaginn 2. október verður gengið til góðs í Kópavogi og er stefnt á að ganga með söfnunarbauka í hvert hús í bænum og þarf deildin því á mörgum sjálfboðaliðum að halda, eða um 350 talsins.

Söfnunarfénu verður varið til verkefna Rauða kross Íslands í Afríku, sérstaklega til barna- og ungmennaverkefna í Malaví og Síerra Leóne. Í Malaví aðstoðar Rauði krossinn börn sem eiga um sárt að binda vegna alnæmis og í Síerra Leóne er unnið að stuðningi við stríðshrjáð börn og barnahermenn. Féð gerir Rauða krossinum meðal annars kleift að gefa munaðarlausum börnum eina heita máltíð á dag í athvörfum, þar sem þau geta líka leikið sér og fengið uppbyggjandi fræðslu. Sjálfshjálparhópar alnæmissmitaðra fá einnig aðstoð við að koma sér upp matjurtargörðum og að minnsta kosti 150 stríðshrjáð ungmenni á ári fá kennslu í lestri, skrift og ýmsum iðngreinum sem færir þeim aukin tækifæri í lífinu.

17. sep. 2010 : Sam-Frímúrarareglan færir Konukoti gjöf

Konukot, athvarf Rauða krossins fyrir heimilislausar konur, fékk í vikunni til sín góða gesti. Það voru meðlimir Sam-Frímúrarareglunnar, Le Droit Humain (sem á frönsku merkir mannréttindi eða mannlegt réttlæti) sem færðu athvarfinu styrk að upphæð 200 þúsund krónur.

Konukot er næturathvarf fyrir heimilislausar konur, samstarfsverkefni Reykjavíkurdeildar Rrauða kross Íslands og Reykavíkurborgar. Nánar um Konukot með því að smella hér.

3. sep. 2010 : Starfið á árinu 2009

2. sep. 2010 : Vel heppnuð bæjarhátíð

Bæjarhátíð Mosfellinga, Í túninu heima, sem fram fór síðustu helgi, var mjög vel heppnuð. Mismunandi hverfalitir prýddu allan bæinn og svo heppilega vildi til að húsnæði Kjósarsýsludeildar Rauða krossins, Þverholt 7 var einmitt í rauða hverfinu.

Deildin var með kynningarbás í íþróttahúsinu Varmá og kaffi fyrir sjálfboðaliða og velunnara deildarinnar að hátíð lokinni. Gaman var að finna áhuga og velvilja bæjarbúa á starfi Rauða krossins og þökkum við öllum kærlega fyrir innlit í básinn og kaffið!
 

 

1. sep. 2010 : SJÁ 102 í Flensborgarskóla

Áfanginn SJÁ102 er að fara í gang þessa haustönnina í Flensborgarskóla. Nemendur geta tekið þátt í sjálfboðnu starfi hjá Hafnarfjarðardeild Rauða krossins, farið á námskeið og lagt sitt af mörkum í fjáröflunarverkefni og fengið 2 einingar fyrir.

Meðal verkefna í boði eru: Heimsóknavinir, störf í Læk - athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, ungmennastarf og starf í Rauða krossbúðinni. Nemendur fá fræðslu um hugsjónir og störf Rauða kross hreyfingarinnar og sækja annað námskeið fyrir sjálfboðaliða. Einnig munu nemendur vinna kynningar- og fjáröflunarverkefni. Nemendur skrifa dagbók um vinnu sína. Áfanginn byggir á hugmyndum um þátttökunám (service learning) og er próflaus. 

31. ágú. 2010 : Líf og fjör í Hamraborginni

Kópavogsdeild Rauða krossins tók þátt í vel heppnaðri Hamraborgarhátíð sem haldin var í sól og blíðu á laugardaginn. Opið hús var hjá deildinni og gátu gestir kynnt sér starf og verkefni deildarinnar auk þess sem boðið var upp á kaffi og meðlæti. Sjálfboðaliðar deildarinnar stóðu vaktina utandyra og seldu prjónavörur sjálfboðaliða og handverk frá vinadeild í Mósambík en ágóðinn, alls 27.500 krónur, rennur í verkefnið Föt sem framlag.

Hátíðin var haldin á vegum Kópavogsbæjar í samstarfi við verslanir, fyrirtæki og menningarstofnanir í Hamraborginni. Kópavogsdeild vill þakka bænum fyrir skemmtilegt framtak og hlakkar til að taka þátt í hátíðinni að ári.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefnum deildarinnar geta haft samband við deildina í síma 554 6626.

30. ágú. 2010 : Leitum að laganemum og lögfræðingum

Frá því sumarið 2009 hefur hópur laganema og lögfræðinga starfað sem sjálfboðaliðar Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins við réttindagæslu hælisleitenda. Sjálfboðaliðarnir hafa aðstoðað hælisleitendur á fyrstu stigum málsmeðferðar á þeim tíma sem þeir hafa ekki átt rétt á aðstoð lögmanns af hálfu hins opinbera.

Nú leitum við að nýjum sjálfboðaliðum til að bætast í hóp starfandi réttindagæslu sjálfboðaliða. Leitað er að lögmönnum eða laganemum (þurfa að vera komnir á þriðja ár laganáms eða lengra) með áhuga á málaflokknum.

Sjálfboðaliðar fylgja hælisleitendum í skýrslutökur og viðtöl hjá lögreglu og Útlendingastofnun og aðstoða við gerð greinargerða til Útlendingastofnunnar.

29. ágú. 2010 : Grill og gleði

Það var vaskur hópur sjálfboðaliða Hafnarfjarðardeildar sem mætti á umhverfisvaktina síðastliðið fimmtudagskvöld. Líkt og áður sá Rauði krossinn um að fegra umhverfið í miðbænum og var gengið um helstu göngustíga og útivistarsvæði og nokkuð magn af rusli tínt upp.

Markmið umhverfisvaktarinnar er tvíþætt, annars vegar að fegra bæjarlandið og okkar nánasta umhverfi og hins vegar að vekja almenning til umhugsunar um góða umgengni og mikilvægi þess að henda ekki frá sér rusli. Það voru sjálfboðaliðar á öllum aldri sem tóku þátt, allt frá þriggja ára og upp í ellilífeyrisþega, og voru allir kátir eftir hressandi umhverfisgöngu.

26. ágú. 2010 : Verkefnið Föt sem framlag fékk góðan fjárstyrk

Anna Bjarnadóttir, sjálfboðaliði og prjónakona, í verkefninu Föt sem framlag færði Kópavogsdeildinni í gær fjárstyrk að upphæð 263 þúsund krónur. Anna átti stórafmæli fyrr í sumar og í stað þess að þiggja gjafir bað hún fólk um að styrkja verkefnið. Þetta varð afraksturinn og kemur hann sér einkar vel fyrir verkefnið.

Fjármagninu verður varið til kaupa á garni fyrir sjálfboðaliða verkefnisins. Anna var ein af fyrstu sjálfboðaliðunum í verkefninu og hefur tekið þátt í því í yfir 20 ár. Deildin færir henni bestu þakkir fyrir þennan rausnarlega styrk.

5. ágú. 2010 : Lýkur við hundruðustu peysuna

Sigríður Björnsdóttir er sjálfboðaliði í Hafnarfjarðardeild Rauða krossins. Hún hefur lagt sitt af mörkum með þátttöku í landssöfnunum Rauða krossins Göngum til góðs en bætti um betur fyrir ári síðan þegar hún hóf þátttöku í verkefninu „Föt sem framlag" þegar söfnun hófst á ungbarnapökkum sem sendur voru til neyðaraðstoðar í Hvíta Rússlandi. Á myndinni sést hún ljúka við að prjóna hundruðustu peysuna, auk þess hefur hún prjónað nokkrar húfur, hosur og bleijubuxur.
 
Þegar Sigríður frétti af þessu verkefni var hún nýlega búin að minnka við sig vinnu og hafði því yfir meiri frítíma að ráða. Sá hún strax að þetta væri eitthvað fyrir sig þar sem hún hefur gaman af handavinnu en jafnframt engan áhuga á því að gera eitthvað sem engan tilgang hefur. Þarna gæti hún slegið tvær flugur í einu höggi. 

4. ágú. 2010 : Styðjum Rauða krossinn í Reykjavíkurmaraþoni 21. ágúst

Rauði kross Íslands hvetur félaga og velunnara sína að heita á eða hlaupa fyrir Rauða krossinn í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 21. ágúst. Hægt er að heita á hlaupara fram að miðnætti mánudaginn 23. ágúst með því að smella á hlaupastyrkur.is.

Til að skrá áheit þarf að smella á nafn hlaupara sem ætlunin er að heita á. Þá opnast síða hlauparans með upplýsingum um vegalengd, góðgerðafélag og jafnvel stuttum texta um það hversvegna hlaupari ætlar að hlaupa fyrir viðkomandi félag. Á síðu hlauparans er hægt að heita á hann með því að greiða með kreditkorti en einnig með því að senda áheita númer hans sem sms skilaboð. Upphæðin rennur síðan til þess góðgerðarfélags sem viðkomandi hlaupari valdi þegar hann skráði sig í hlaupið.

Hlaupum til góðs fyrir Rauða kross Íslands.

2. júl. 2010 : Sjálfboðaliðar úr Plúsnum á leið á sumarbúðir til Finnlands

Hulda Hvönn Kristinsdóttir og Dagbjört Rós Jónsdóttir, sjálfboðaliðar í ungmennastarfi Kópavogsdeildar Rauða krossins taka þátt í sumarbúðum á vegum finnska Rauða krossins í Herttoniemi Helsinki 2.-8. ágúst næstkomandi. Hulda og Dagbjört hófu þátttöku sína í Rauða kross starfi með því að gerast Eldhugar en færðu sig svo yfir í Plúsinn þegar þær urðu eldri en það er starf fyrir 16-24 ára ungmenni. Auk þeirra fara tvö önnur ungmenni frá Rauða krossinum á Suðurnesjum og Stykkishólmi í sumarbúðirnar.

29. jún. 2010 : Heilsuhópur Takts fór í Esjugöngu

Heilsuhópur Takts – Ungt fólk til athafna fór á dögunum í gönguferð upp á Esju. Til að ná úr sér þreytunni eftir vel heppnaða fjallgöngu endaði ferðin í heita pottinum í Nauthólsvík.

Heilsuhópurinn er einn af fjölmörgum hópum í Takti, virkniverkefni Rauða krossins. Einnig er boðið uppá mömmuhóp, prjónahóp, myndlistarhóp, hönnunarhóp, heimildamyndagerð, íslenskukennslu og margt fleira. Síðan eru ótal sjálfboðaliðastörf innan Rauða krossins sem unga fólkið hefur valið sér og tekið þátt í.

24. jún. 2010 : Borgarstjóri í heimsókn í Konukot

Borgarstjórinn í Reykjavík, Jón Gnarr, aðsoðarmaður hans, Heiða Kristín Helgadóttir ásamt Huldu Gunnarsdóttur, upplýsingafulltrúa skrifstofu borgarstjóra, heimsóttu Konukot í gær.

Borgarstjórinn hefur látið í ljós áhuga sinn á aðstæðum heimilislausra kvenna. Hann hefur á stefnuskrá sinni að bæta þær aðstæður og áttu framkvæmdastjóri Reykjavíkurdeildar og verkefnastjóri Konukots fund í gær þar sem málin voru rædd. Í framhaldi af þeim fundi var farið í Konukot og ekki var annað að sjá en gestunum litist vel á aðbúnað í húsinu.

15. jún. 2010 : URKÍ-H stóð fyrir Lifandi bókasafni

Ungmennastarf Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins tók á móti fólki í sjálfboðamiðstöðinni á Björtum dögum og bauð upp á lifandi bókasafn. Miklar og fræðandi umræður voru í gangi og mikið hægt að fræðast um alls kyns heima og geima. 

Lifandi bókasafn var lokaverkefni ungmennastarfsins á þessum vetri. Hafnarfjarðardeildin þakkar öllu því góða fólki sem kom og stóð vaktina sem bækur bókasafnsins. Án þeirra hefði þetta ekki orðið að veruleika.

10. jún. 2010 : Líflegur Rauða kross markaður á Thorsplani

Þátttakendur í verkefninu Taktur héldu líflegan Rauða kross markað á dögunum. Unga fólkið sá um að velja vörur, setja þær upp og annast söluna. Markaðurinn var fjáröflun til styrktar Rauða kross starfs í Malaví.

Markaðurinn var haldinn í 50 fermetra tjaldi á Thorsplani fyrir utan Rauða kross deildina í Hafnarfirði. Selt var ýmiss konar handverk frá Malaví eins og skálar, salatáhöld, skartgripir og myndir. Einnig var mjög fjölbreyttur fatamarkaður með fötum fyrir alla, bæði unga sem aldna og var úrvalið það mikið að það fyllti allt tjaldið.

8. jún. 2010 : Sjálfboðaliðar nutu veðurblíðu á vorgleði

Vorgleði sjálfboðaliða Kópavogsdeildar var haldin í sól og blíðu á laugardaginn í athvarfinu Dvöl við Reynihvamm 43. Sjálfboðaliðarnir fjölmenntu með maka, börn, barnabörn og aðra ættingja. Gestirnir nutu veðurblíðunnar saman yfir grillmat og öðrum veitingum. Þeir sungu saman og börnin fengu andlitsmálun.

Gleðin er haldin árlega og er eins konar uppskeruhátíð sjálfboðaliða deildarinnar þar sem markmiðið er að fagna starfsvetrinum og gleðjast saman í upphafi sumars. Deildin metur mikils framlag sjálfboðaliða sinna og þakkar þeim fyrir vel unnin sjálfboðin störf í vetur.


7. jún. 2010 : Sumarnámskeiðin Mannúð og menning eru hafin

Í dag hófust sumarnámskeiðin Mannúð og menning sem Reykjavíkurdeild Rauða krossins býður krökkum á aldrinum 7-12 á, þeim að kostnaðarlausu. Námskeiðin eru haldin á tveimur stöðum í borginni, í Aflagranda 40 og í Breiðholtsskóla. Krakkarnir voru komnir á fullt í skemmtilegum nafnaleikjum þegar starfsmaður deildarinnar leit við með myndavél í morgun.

Alls verða 12 námskeið haldin næstu 6 vikurnar og skiptist hópurinn í tvennt 7-9 ára og 10-12 ára. Reykjavíkurdeildin býður þátttakendum upp á hádeigsverð á meðan námskeiðinu stendur, en börnin koma með nesti fyrir kaffitímana.

 

2. jún. 2010 : Myndband um Konukot

Árni Þór Theodórsson kvikmyndargerðarmaður og sjálfboðaliði hjá Takti lauk á dögunum við fyrsta sjálfboðaliðaverkefnið sitt, kynningarmyndband um Konukot, athvarf fyrir heimilislausar konur, rekið af Reykjavíkurdeild Rauða krossins.

Myndbandið var sýnt í fyrsta sinn á landsfundi Rauða krossins en í dag var myndbandið frumsýnt í Rauðakrosshúsinu Borgartúni 25. Við það tilefni var gestum boðið upp á ljúffengar veitingar í boði OSUSHI.

1. jún. 2010 : Alþjóðlegir foreldrar í Grasagarðinum

Góður hópur alþjóðlegra foreldra átti skemmtilega stund saman í Grasagarðinum í síðustu viku. Hópurinn hittist fimmtudagsmorgna í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildarinnar en fer þó fljótlega í sumarfrí þannig að hann gerði sér dagamun í Grasagarðinum til tilbreytingar. Alls mættu um 15 foreldrar með börnin sín og gæddu sér á veitingum í góðu veðri.

Venjulega mæta um 10 foreldrar á hverja samveru og hefur myndast góð eining í hópnum. Hann hefur jafnvel skipulagt samverur utan hins hefðbundna tíma og farið í gönguferðir og prjónað saman. Á samverunum í sjálfboðamiðstöðinni er reglulega boðið upp á fræðslu eða kynningar sem tengjast börnum. Auk íslenskra foreldra eru þátttakendur frá Kína, Suður- Afríku, Japan, Póllandi, Ghana, Bretlandi, Bandaríkjunum og Þýskalandi.

19. maí 2010 : Vorferð barna og unglinga

Á uppstigningardag héldu börn og ungmenni sem tekið hafa þátt í Rauða kross starfi deildanna á höfuðborgarsvæðinu í sína árlegu vorferð. Um 70 manna hópur mætti við Viðeyjarhöfn og hélt af stað á vit ævintýra eyjarinnar.

Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir tók á móti hópnum og kynnti staðarhætti. Þar er margt forvitnilegt að sjá og vel hægt að eyða löngum tíma í að spóka sig í göngutúrum um þessa fallegu eyju. Þegar Guðlaug lauk sínu máli var komið að ratleikjum. Eldri krakkarnir spreyttu sig í skyndihjálp og þrautum tengdum henni en yngri krakkarnir reyndu á kunnáttu sína um Rauða krossinn, þar sem grundvallarmarkmiðin skipuðu stóran sess.

18. maí 2010 : Samstarfssamningur um neyðarvarnir á höfuðborgarsvæðinu

Á aðalfundi Rauða kross Íslands þann 15. maí skrifuðu deildir á höfuðborgarsvæðinu undir nýjan samstarfssamning um neyðarvarnir. Samningurinn fjallar um markmið og skyldur neyðarnefndarinnar á höfuðborgarsvæðinu en neyðarnefndinni er ætlað að samhæfa neyðarvarnastarf deildanna á svæðinu. Þetta er í annað skipti sem slíkur samningur er undirritaður en sá fyrri er frá árinu 2005.

Samstarf deildanna hefur reynst vel og það hefur sýnt sig að deildirnar ná meiri árangri saman í neyðarvörnum en hver í sínu lagi.  Í nýja samningnum er gert ráð fyrir stofnun skyndihjálparhóps sem mun líta dagsins ljós á næsta ári. Fyrir er starfandi viðbragðshópur neyðarnefndarinnar sem sinnir neyðaraðstoð vegna atburða utan almannavarnaástands.

17. maí 2010 : Nemendur í Kársnesskóla styrkja Föt sem framlag

Í dag tók Kópavogsdeild Rauða krossins við góðu framlagi frá Kársnesskóla til verkefnisins Föt sem framlag við mikla athöfn en nemendur í lífsleikni í 9. bekk höfðu unnið að því að sauma og prjóna föt í allan vetur. Afraksturinn lét ekki á sér standa þar sem nemendurnir afhentu deildinni um 200 flíkur í heildina sem munu verða sendar til barna og fjölskyldna í neyð erlendis. Pakkar með flíkum sem deildin hefur sent frá sér hafa farið til Malaví, Gambíu og Hvíta-Rússlands. Hver pakki inniheldur prjónaða peysu, teppi, húfu, sokka og bleyjubuxur ásamt handklæði, samfellum, taubleyjum, buxum og treyju.

7. maí 2010 : Heimsóknavinur með hund

Heimsóknavinir Rauða krossins eru í öllum stærðum og gerðum. Jafnvel hundar hafa tekið að sér þetta mikilvæga verkefni, með hjálp eigenda sinna. Áður en sjálfboðaliðar sem eiga hunda taka að sér heimsóknir sækja þeir námskeið á vegum Rauða krossins. Nýverið var eitt slíkt námskeið haldið en fyrirlesari á námskeiðinu var Brynja Tomer. Fyrirlesturinn var fræðandi og skemmtilegur og áttu sér stað fjörugar umræður í lok námskeiðsins.

Árlega heimsækja sjálfboðaliðar Rauða krossins hundruð einstaklinga sem eru félagslega einangraðir. Árið 2006 hófst starfsemi hundavina og er verkefnið að erlendri fyrirmynd.

6. maí 2010 : Taktur - virkniverkefni fyrir ungt fólk stundar sjósund

Heilsuhópur Takts hélt til Nauthólsvíkur á dögunum og brá sér í sjósund. Taktur er verkefni fyrir ungt atvinnulaust fólk á höfuðborgarsvæðinu sem sprottið er upp úr verkefninu Ungt fólk til athafna sem Rauði kross Íslands, félags- og tryggingamálaráðuneytið og Vinnumálastofnun settu á laggirnar til að tryggja sjálfboðastörf fyrir allt að 180 unga atvinnuleitendur.  Auk hefðbundinna sjálfboðaverkefna eru nokkrir ný og vinnuhópar að störfum.

Ísleifur starfsmaður Nauthólsvíkur tók á móti hópnum og leiddi í allan sannleik um sjóböð og leiðbeiningar um hvernig best er að bera sig að. Það er t.d mælt með því að standa aðeins á bakkanum áður en vaðið er út í. Svo er galdurinn að labba hægt út í sjóinn og fara svo smátt og smátt með líkamann ofan í. Að þessu loknu er í lagi að taka smá sundsprett en mjög mikilvægt er að hlusta á líkamann og vera ekki of lengi ofan í. Forstöðumaður Nauthólsvíkur segir að margir tali um það að sjósund bæti hressi kæti og hafi góð áhrif á geðheilsu og að sumir séu hreinlega háðir sundinu. Í heilsuhópi Takts eru skráðir um 10 manns en einungis þrír þorðu að fara út í.

5. maí 2010 : Vetrarstarf Plússins

Á liðnum vetri hafa sjálfboðaliðahópar innan Plússins, ungmennastarfs Kópavogsdeildar Rauða krossins fyrir 16-24 ára, unnið að ýmsum verkefnum.

Sjálfboðaliðar hönnunarhóps leyfðu sköpunargáfunni að njóta sín og endurhönnuðu og saumuðu föt og fylgihluti út frá hugmyndum hvers og eins. Afraksturinn voru hárskraut og klæðnaður sem var til sölu á handverksmörkuðum deildarinnar og í Rauða kross búðunum. Vörurnar vann hópurinn úr fatnaði sem fenginn var úr Fatasöfnunarstöð Rauða krossins.

4. maí 2010 : 6. bekkingar í Álftanesskóla fá reiðhjólahjálma að gjöf

Margar deildir Rauða krossins hafa til margra ára haft það verkefni í lok skólaárs að gefa börnum reiðhjólahjálma. Er þetta liður í forvarnastarfi félagsins í skyndihjálp og forvörnum.

Fulltrúar Álftanesdeildar Rauða kross Íslands, Helga Bragadóttir og Fjóla S. Ólafsdóttir færðu nemendum 6. bekkjar Álftanesskóla reiðhjólahjálma að gjöf frá deildinni. Við það tækifæri var rætt við nemendur um öryggi í umferðinni og afleiðingar slysa.

Flestir nemendur vissu hversu mikilvægt er að nota hjálma og ein stúlka sagði frá því hvernig hjálmur hefði bjargað lífi hennar þegar slys varð og hún meiddist lítilsháttar en hjálmurinn brotnaði. 

30. apr. 2010 : Lærði að prjóna lopapeysu á einum mánuði

Allt frá því að Dvöl tók til starfa hafa nokkrir skiptinemar á vegum AUS, sem eru alþjóðleg ungmennaskipti, verið þar sem sjálfboðaliðar. Dvöl er athvarf fyrir fólk með geðraskanir þar sem Kópavogsdeild Rauða krossins kemur að reksti.

Ungmennunum hefur verið vel tekið af gestum og vinnuframlag vel þegið af starfsfólki.

Í byrjun apríl kom til Dvalar stúlka frá Slóvakíu sem heitir Ráchel Kovácová, 24 ára gömul og sálfræðingur að mennt. Hún verður í Dvöl þangað til í desember á þessu ári.

29. apr. 2010 : Skrifað undir samning um Deigluna

Í gær, miðvikudag, skrifuðu Hafnarfjarðar- og Garðabæjardeildir Rauða krossins undir samstarfssamning við sveitarfélögin Hafnarfjörð og Garðabæ um virkniúrræði í Deiglunni í bæjarfélögunum tveimur.

Markmiðið með rekstri Deiglunnar er að skapa vettvang fyrir atvinnuleitendur í Hafnarfirði og Garðabæ til sjálfseflingar og virkni í atvinnuleit. Boðið verður uppá námskeið og afþreyingu sniðna að þörfum atvinnuleitenda og með virkri þátttöku þess hóps sem vill nýta sér starfsemi Deiglunnar.

Starfsemin mun fara fram í sjálfboðamiðstöðvum beggja deilda, í Hafnarfirði að Strandgötu 24 og í Garðabæ á Garðatorgi. 

27. apr. 2010 : Ungmennastarfið í Þjóðleikhúsinu

Um miðjan apríl fór hópur úr krakkastarfi og ungmennastarfi Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins í skemmtilega heimsókn í Þjóðlekhúsið. Ferðin byrjaði ekkert allt of vel þar sem strætóinn bilaði á miðri leið og þurfti því að breyta ferðatilhöguninni. En krakkarnir gerðu bara gott úr því og komust að lokum í Þjóðleikhúsið. Þar var vel tekið á móti þeim og fengu þau frábæra leiðsögn um leikhúsið. Heyrðu allt um starfseminna þar, fengu að skoða stóra sviðið bæði að ofan og undir því, fóru í alla króka og kima baksviðs, skoðuðu hvernig leikmyndin virkar, sáu búningsherbergi leikaranna, fengu að máta hárkollur og margt fleira. 

Við þökkum Þjóðleikhúsinu kærlega fyrir þessar frábæru móttökur. 

23. apr. 2010 : Rauði krossinn á umhverfisvaktinni

Rauða kross deildin í Hafnarfirði hefur ásamt öðrum félagasamtökum í Hafnarfirði skrifað undir samning við Hafnarfjarðarbæ um umhverfisvaktina. Þetta er í þriðja skipti sem Hafnarfjarðarbær stendur fyrir umhverfisvaktinni og annað árið sem sjálfboðaliðar Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins taka þátt.

Verkefnið gengur útá það að félagasamtök taka hluta bæjarlandsins í fóstur og sjá um hreinsun á opnum svæðum fjórum sinnum á ári. Fyrsta tímabilið hefst þann 25. apríl, á degi umhverfisins, sem er fæðingardagur Sveins Pálssonar sem lauk prófi í náttúrufræði árið 1791, fyrstur Íslendinga.

8. apr. 2010 : Frásögn frá Jórdaníu

Á spennandi vegabréfakvöldi unglingastarfs URKÍ-H um daginn kynntu systurnar Shirin Erla og Golnaz krökkunum heimaland sitt Jórdaníu.

Systurnar eru báðar búsettar í Hafnarfirði og hafa tekið virkan þátt í starfi Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins. Á vegabréfakvöldinu sögðu þær frá landinu sínu, matarmenningunni og hvernig var að búa í Jórdaníu. Þetta var í annað skipti sem Shirin mætir til að kynna ungu Rauða kross fólki landið sitt en áður hafði hún heimsótt krakkana í barnastarfinu. Margt áhugavert kom fram í máli þeirra systra og voru allir mun fróðari um þetta fjarlæga land eftir heimsóknina.

Vegabréfaverkefni URKÍ-H er hluti af fræðslustarfi sem unnið er í barna og unglingastarfi Rauða krossins. Þar fræðast krakkarnir um framandi lönd og menningu með það að markmiði að auka viðsýni sína og umburðarlyndi fyrir fjölbreytileika mannlífsins. Ýmis lönd hafa verið kynnt frá því að verkefnið hófst eins og t.d. Svíþjóð, Palestína, Gambía og nú síðast Jórdanía.

7. apr. 2010 : Félagvinir óskast

Félagsvinir fyrir konur og börn af erlendum uppruna – Sjálfboðaliðar óskast ! 

Það skiptir sköpum fyrir innflytjendur að hafa einhvern til að leita til þegar þeir reyna að aðlagast nýju samfélagi, nýjum siðum og menningu. Vilt þú sýna stuðning í verki og bjóða fram krafta þína við að opna dyr nýja samfélagsins?

Við leitum eftir íslenskum konum á öllum aldri til að gerast félagsvinir. Hægt er að gerast félagsvinur konu eða barns af erlendum uppruna. Í báðum tilfellum felur það í sér 9-12 mánaða samband við einstakling sem þarf andlegan stuðning við aðlögun í íslensku samfélagi og/eða aðstoð við að rjúfa félagslega einangrun. Námskeið fyrir félagsvini verður haldið 27. apríl. Nánari upplýsingar eru að finna á heimasíðu Garðabæjardeildar RKÍ en einnig er hægt að hafa samband við Erlu í síma 565 9494 eða í gegnum tölvupóst: [email protected].
 

6. apr. 2010 : Kynntu föt sem framlag

Fyrir skemmstu hélt Heimilisiðnaðarfélagið útgáfuhóf vegna útgáfu ársritsins Hugar og handar. Þar kynnti handverksfólk, sem fjallað er um í nýjasta riti Hugar og handar, þau verkefni sem það vinnur að.

Þær Anna Jóna, Díana og Lizzi, sem allar eru í prjónahópi hjá Hafnarfjarðardeild, kynntu verkefnið föt sem framlag fyrir hönd Rauða krossins. Að þeirra sögn var útgáfuhófið hið áhugaverðasta og aðsókn mjög góð. Margir sýndu verkefninu föt sem framlag áhuga og runnu kynningarbæklingar um verkefnið út eins og heitar lummur.

Nú taka tuttugu og fimm deildir þátt í föt sem framlagi svo áhugasamir um allt land ættu að geta tekið þátt. Sjálfboðaliðar bæði prjóna og sauma fatnað fyrir börn á fyrsta ári. Nú í apríllok fer sending ungbarnapakka til Rauða krossins í Malaví og strax í kjölfarið hefst vinna við næstu sendingu.

30. mar. 2010 : Hlutverk leiðtoga kynnt fyrir sjálfboðaliðum höfuðborgarsvæðis

Svæðisráð Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu stendur nú fyrir námskeiðum fyrir sjálfboðaliða. Fyrir nokkru var haldin kynning á Genfarsamningunum og í síðustu viku var haldið leiðtoganámskeið.

Leiðtoganámskeiðið fór fram í nýrri mynd, var haft styttra og tók einungis þrjár klukkustundir. Ýmsir fyrirlesarar frá deildunum á svæðinu, jafnt sjálfboðaliðar og starfsmenn, héldu erindi.

Fyrirlesarar fóru yfir mismunandi þætti leiðtogahlutverksins og voru efnistökin fjölbreytt s.s. hvað er að vera leiðtogi, hvað er að vera sjórnandi, hvernig best er að stýra innan félagasamtaka og mikilvægi stuðnings við sjálfboðaliða og umbunar, svo eitthvað sé nefnt.

29. mar. 2010 : Heimsókn frá Frostheimum

Það komu góðir gestir í heimsókn í Reykjarvíkurdeild Rauða krossins á mánudagsmorgun í dymbilvikunni, það voru krakkar úr frístundarheimilinu Frostheimum sem komu færandi hendi. Krakkarnir höfðu sett saman jólamarkað í desember, þar sem þau föndruðu og skreyttu og seldu handverk sitt gestum og gangandi. Ágóðan gáfu þau til hjálparstarfs Rauða kross Íslands í Malaví. Starfsmaður Rauða krossins í Reykjavík heimsótti krakkana í Frostheima í janúar og sagði þeim frá fjölbreyttu hjálparstarfinu í Malaví og svaraði spurningum þeirra.

Í dag komu svo krakkarnir færandi hendi og afhendu Rauða krossi Íslands söfnunarféð sem rennur óskipt til hjálpar þurfandi barna í Malaví. Hópurinn fékk sér létta hressingu í Reykjavíkurdeildinni horfði á stutt myndskeið með Hjálpfús og létu taka af sér mynd.

Það er vissulega gaman að taka á móti svona flottum, kurteisum og hressum krökkum eins og krakkarnir í Frostheimum eru.

29. mar. 2010 : Ungmenni Kópavogsdeildar skapa sitt eigið heimshorn

Ungmennahópur Kópavogsdeildar Rauða krossins hefur fengið afnot af einu herbergi í sjálfboðamiðstöðinni og vinnur nú að því að gera það að „sínu”. Ungir sjálfboðaliðar úr röðum Eldhuga og Plússins hafa haft penslana á lofti og skapað sitt eigið „heimshorn” eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Ungmennin máluðu heimskort á einn vegginn ásamt mynd af stofnanda Rauða krossins, Henry Dunant. Fleiri hugmyndir eru á teikniborðinu hjá ungmennunum til að skreyta herbergið en það á að vera vettvangur fyrir unga fólkið til að geta hist og jafnvel lært eða haft það notalegt án þess að eiginleg samvera sé á dagskrá. Þá mun herbergið einnig verða nýtt undir Enter-starfið fyrir unga innflytjendur.

26. mar. 2010 : Ungmennadeild stofnuð við Kjósarsýsludeild

Í gærkvöldi var stofnfundur ungmennadeildar Kjósarsýsludeildar Rauða krossins (URKÍ-Kjós) haldinn í Sjálfboðamiðstöðinni, Þverholti 7. Lög deildarinnar voru samþykkt og stjórn skipuð. Ágústa Ósk Aronsdóttir var kjörin formaður URKÍ-Kjós, en hún hefur borið hitan og þungan af ungmennastarfi deildarinnar undanfarin ár. Aðrir stjórnarmenn hafa einnig verið virkir í ungmennastarfi deildarinnar og URKÍ. Þau eru Þrúður Kristjánsdóttir, Anna Dúna Halldórsdóttir, Arnar Benjamín Kristjánsson og Gísli Freyr Guðbjörnsson.

Þessi kraftmiklu ungmenni eru stórhuga varðandi uppbyggingu ungmennastarfsins í Kjósinni og verður spennandi að fylgjast með þeim í framtíðinni.

 

24. mar. 2010 : Ungmennastarfið í fræðsluferð

Félagar í Ungmennastarfi deilda Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu dvöldu í Alviðru um síðustu helgi við leik og fræðslu.

Fræðslan var unnin upp úr námsefninu Kompási, handbók um mannréttindi fyrir ungt fólk sem Evrópuráð gaf út.

Hver hópur sá um eitt atriði á kvöldvökunni og var mikið lagt til. Þegar skemmtiatriðum lauk fóru krakkarnir út í hlöðu þar sem boðið var upp á skotbolta í myrkri, með upplýstum bolta.

Í lok ferðar var komið við í sundlaug Hveragerðis og þvegið af sér fyrir heimferð í rigningunni en hún virtist elta hópinn.

23. mar. 2010 : Evrópuvika gegn kynþáttafordómum

Í tilefni af Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti tóku unglingstarf Rauða krossins í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi, Mannréttindaskrifstofa, unglingastarf Þjóðkirkjunnar, Soka Gakkai á Íslandi og sjálfboðaliðar SEEDS á Íslandi höndum saman og stóðu fyri viðburðum í Smáralind til að vekja athygli á vikunni og fagna fjölmenningu á Íslandi.

Unga fólkið tók gesti og gangandi tali og spjallaði um kynþáttafordóma, dreifði fræðsluefni, barmmerkjum, póstkortum og nammi. Krakkarnir máluðu sig í framan í mismunandi litum og klæddust bolum með slagorðinu, Njótum fjölbreytileikans!

19. mar. 2010 : Ungir heimsóknavinir

Ungir heimsóknavinir er nýtt verkefni innan Kjósarsýsludeildar sem unnið er í samstarfi við Lágafellsskóla, Varmárskóla og dvalarheimilið Eirhamra.  Verkefnið er framhald af öðru samstarfsverkefni þessara aðila sem kallast Æskan og ellin á jólunum sem hefur það markmið að brúa bilið milli kynslóðanna.

Verkefnið hófst í síðustu viku þegar sex 6. bekkingar úr Lágafellsskóla heimsóttu Eirhamra ásamt sjálfboðaliða deildarinnar.  Í morgun fóru svo krakkar úr Varmárskóla í heimsókn og voru heimsóknirnar báðar mjög ánægjulegar.  Krakkarnir voru áhugasamir, prúðir og kurteisir og fannst heimsóknin fróðleg.  Íbúar og starfsfólk Eirhamra tók vel á móti krökkunum og þótti gaman að fá svona skemmtilega heimsókn.

18. mar. 2010 : Plúsinn styrkir börn á Haítí

Hulda, Unnur og Dagbjört fóru fyrir hópi sjálfboðaliða úr starfi Plússins, ungmennastarfi Kópavogsdeildar, og afhentu Kristjáni Sturlusyni framkvæmdastjóra Rauða kross Íslands og Þóri Guðmundssyni sviðsstjóra alþjóðasviðs um 60 þúsund krónur sem söfnuðust á fatamarkaði sem hópurinn hélt 6. mars síðastliðinn. Peningurinn verður nýttur til að aðstoða börn á Haítí sem eiga um sárt að binda vegna jarðskjálftans sem reið yfir landið 12. janúar.

Kristján og Þórir sögðu að fjárhæðin myndi nýtast afar vel enda væri mikil þörf á áframhaldandi aðstoð í landinu. Haítí var bágstatt ríki fyrir skjálftann en núna væri uppbyggingarstarf í gangi og enn mikil þörf á aðstoð.

10. mar. 2010 : Ávaxtaskurður í félagsvinaboði

Garðabæjardeild Rauða kross Íslands hélt boð fyrir fjörtíu hressar konur í lok febrúar. Konurnar eru allar þátttakendur í verkefninu „Félagsvinur kvenna af erlendum uppruna“ en þar eru leiddar saman íslenskar og erlendar konur með það að markmiði að veita erlendu konunni stuðning við aðlögun, námi og vinnu í íslensku samfélagi.

Sonja, tælenskur útskurðarmeistari, var fengin til að kenna örlítið sérstakan útskurð en það er útskurður í melónur, gúrkur og rófur svo eitthvað sé nefnt. Það urðu til mörg fögur listaverk á þessu kvöldi og ekki skemmdi það fyrir að fá gómsætar kökur frá Okkar Bakarí.
Þeir sem vilja vita meira um Félagsvinaverkefnið hjá Garðabæjardeild eru hvattir til að hafa samband við deildina í síma 565-9494 eða í gegnum tölvupóst: [email protected] 

9. mar. 2010 : Rauðakrosshúsið eins árs

Rauðakrosshúsið hélt upp á eins árs starfsafmæli síðasta föstudag. Fjölmörgum gestum, sjálfboðaliðum og öðrum velunnurum var boðið til veglegrar afmælisveislu með tónlist, uppistandi og afmæliskaffi. Rúmlega 120 manns mættu til veislunnar og fögnuðu áfanganum.

Sífellt fleiri gestir sækja Rauðakrosshúsið á degi hverjum, taka þátt í viðburðum og hópavinnu en að auki koma margir fyrir félagsskapinn og spjall yfir kaffibolla. Sjálfboðaliðar í Rauðakrosshúsinu taka á móti fólki og veita stuðning og jafningjaráðgjöf ef með þarf. Rauðakrosshúsið er staðsett að Borgartúni 25 og er opið virka daga frá klukkan 12-17.

5. mar. 2010 : Fatasöfnun mikilvægur stuðningur við verkefni í Malaví

Framlag Fatasöfnunar Rauða krossins sem deildir á höfuðborgarsvæðinu standa að var 38 milljónir vegna ársins 2009 og rennur það óskipt til verkefna í Malaví. Í Malaví hefur Rauði krossinn um árabil starfað að samstarfsverkefnum um umönnun barna sem eiga um sárt að binda vegna alnæmis, heimahlynningu alnæmisveikra og fæðuöryggi þeirra sem minnst mega sín. Örn Ragnarsson verkefnisstjóri Fatasöfnunar Rauða krossins afhenti Kristjáni Sturlusyni framkvæmdastjóra félagsins framlagið á svæðisfundi deilda á höfuðborgarsvæðinu.

Töluvert minna barst af fötum til Rauða krossins árið 2009 en árin tvö á undan, en sala í Rauðakrossbúðunum hefur á hinn bóginn aukist. Rauðakrossbúðirnar á höfuðborgarsvæðinu eru nú fjórar. Búðirnar tvær á Laugaveginum njóta sívaxandi vinsælda, og óhætt er að segja að ný verslun sem opnuð var í Mjóddinni í nóvember hafi slegið í gegn. Ein verslun er einnig í Hafnarfirði, og nokkrar deildir á landsbyggðinni hafa einnig opnað nytjamarkaði.

4. mar. 2010 : Sjálfboðaliðar Rauða krossins auka lífsgæði fólks

„Það hefur verið mjög skemmtilegt og gefandi að leiða Kópavogsdeild Rauða krossins í gegnum þær miklu breytingar sem orðið hafa á starfinu á undanförnum árum. Það er góð tilfinning að fara frá starfinu í blóma og geta jafnframt treyst því að uppbyggingunni verði haldið áfram af metnaði. Kópavogsdeild starfar í fjölmennu og öflugu bæjarfélagi og á að vera í fararbroddi innan Rauða krossins,“ segir Garðar H. Guðjónsson sem lét af formennsku í Kópavogsdeild Rauða krossins á aðalfundi í síðustu viku eftir átta ára sjálfboðið starf sem formaður. Ingibjörg Lilja Diðriksdóttir var kjörin formaður en hún hefur setið í stjórn síðan 2005. Hún er fyrst kvenna til að verða formaður deildarinnar.

Garðar var kjörinn í stjórn Kópavogsdeildar 2001 og varð formaður 2002. Hann hafði áður verið kynningarfulltrúi Rauða kross Íslands um árabil. Kópavogsdeild hafði þá einkum getið sér orð fyrir að vera leiðandi í uppbyggingu hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar og stofnun Dvalar, athvarfs fyrir fólk með geðraskanir. Hún hafði einnig verið meðal brautryðjenda í heimsóknaþjónustu sem þá fór einkum fram í Sunnuhlíð. Veikleikar deildarinnar voru hins vegar þeir að hún var lítt þekkt í bæjarfélaginu, hafði ekki sýnilega starfsaðstöðu, sjálfboðaliðar voru fáir og nýliðun lítil sem engin. Þessu vildi ný stjórn breyta.

2. mar. 2010 : Karfa af garni

Deildinni barst góð gjöf á dögunum þegar einn Kópavogsbúi kom færandi hendi með körfu fulla af garni. Kópavogsbúinn vildi styrkja Kópavogsdeildina og eftir að hafa kynnt sér verkefni hennar á vefsíðunni valdi hann að kaupa garn fyrir verkefnið Föt sem framlag. Sjálfboðaliðar í verkefninu munu prjóna ungbarnaflíkur úr garninu sem síðan verða sendar til barna og fjölskyldna í neyð erlendis. Sjálfboðaliðarnir prjóna til dæmis peysur, teppi, húfur, sokka og bleyjubuxur. Deildin þakkar þessum hugulsama Kópavogsbúa kærlega fyrir gjöfina. Hún mun koma að góðum notum.

25. feb. 2010 : Þáttaskil hjá Kópavogsdeild

Í gærkvöldi var fjölmennur aðalfundur hjá deildinni og má með sanni segja að þáttaskil hafi orðið. Garðar H. Guðjónsson, sem gegnt hafði formennsku hjá deildinni í 8 ár, gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og því var nýr formaður kjörinn, Ingibjörg Lilja Diðriksdóttir. Ingibjörg Lilja hefur setið í stjórn deildarinnar frá 2003 og verið gjaldkeri síðustu tvö ár. Í fyrsta skipti í sögu deildarinnar var kosið um formann á milli tveggja frambjóðenda og hlaut Ingibjörg Lilja afgerandi kosningu. Hún er einnig fyrsti kvenformaður deildarinnar.

Þá var kosið um fjögur laus sæti í stjórninni og tvö í varastjórninni. Fimm sjálfboðaliðar höfðu gefið kost á sér fyrir fundinn og tveir gáfu kost á sér í aðalstjórnina á fundinum. Arnfinnur Daníelsson, Ívar Kristmannsson og Sigrún Árnadóttir voru kjörin til tveggja ára stjórnarsetu og Sigrún Hjörleifsdóttir til eins árs. Þau munu taka sæti Hildar Tryggvadóttur Flóvenz, Hjördísar Einarsdóttur, Hjartar Þ. Haukssonar og Ingibjargar Lilju Diðriksdóttur nýkjörins formanns. Gunnar M. Hansson var endurkjörinn í varastjórn til eins árs og Björn Kristján Arnarson kom nýr inn í varastjórnina og hlaut kosningu til tveggja ára.

25. feb. 2010 : Unglingar á flótta í Reykjanesbæ

Hlutverkaleikurinn Á flótta var haldinn á Keilissvæðinu á Miðnesheiðinni um síðustu helgi. Þátttakendur voru að vanda hópur ungs fólks sem var tilbúið að setja sig í fótspor flóttamanna í heilan sólahring og taka þeim áskorunum sem flóttamenn í heiminum þurfa gjarnan að glíma við í sínu daglega lífi.  Það er Ungmennahreyfing Rauða krossins sem á veg og vanda að skipulagningu og framkvæmd leiksins.

Í upphafi fá þátttakendur nýtt nafn, þjóðerni, vegabréf og jafnvel nýja fjölskyldu. Þarnæst hefst örlagarík atburðarás þar sem þátttakendur neyðast til þess að flýja lengri eða styttri vegalengdir, kljást við skæruliða, hermenn, svartamarkaðsbraskara, fólkssmyglara og skriffinna, matarlausir, þreyttir og niðurlægðir. Allt miðar að því að upplifun þátttakenda verði eins raunveruleg og hægt er.

22. feb. 2010 : Námskeiðið Börn og umhverfi fyrir ungmenni fædd 1998 eða eldri

Námskeiðið Börn og umhverfi verður haldið sex sinnum hjá Reykjavíkurdeild Rauða krossins í maí og júní. Námskeiðin eru fyrir ungmenni fædd á árinu 1998 og eldri. Námskeiðið verður einnig haldið víðar um landið og munu auglýsingar birtast á vefnum jafnóðum og þau eru ákveðin undir liðnum Á döfinni.

Kennsla skiptist á fjögur kvöld og fer fram í húsnæði Reykjavíkurdeildar, Laugavegi 120. 5. hæð, kl. 18-21.

Á námskeiðinu er farið í ýmsa þætti sem varða umgengni og framkomu við börn. Rætt er um árangursrík samskipti, aga, umönnun og hollar lífsvenjur, leiki og leikföng. Lögð er áhersla á umfjöllun um slysavarnir og algengar slysahættur í umhverfinu ásamt ítarlegri kennslu í skyndihjálp. Að auki fá þátttakendur innsýn í sögu og starf Rauða krossins.

19. feb. 2010 : Vinadeildasamstarf Kópavogsdeildar við Maputo-hérað í Mósambík

Kópavogsdeild hefur átt í vinadeildasamstarfi við deild Rauða krossins í Maputo-héraði í Mósambík frá árinu 2007. Markmiðið með samstarfinu er að efla starf beggja deilda og skapa tengsl á milli sjálfboðaliða deildarinnar.

Sjálfboðaliðahópur innan Kópavogsdeildar heldur utan um samstarfið og hefur meðal annars skrifað fréttabréf til vinadeildarinnar með upplýsingum um starfið í Kópavogsdeild, skipulagt fræðslu um samstarfið og aðstæður í Mósambík innan Kópavogsdeildar sem og utan. Auk þess hefur hópurinn haldið utan um fjáröflun til styrktar ungmennaverkefnum deildarinnar í Maputo-héraði.

17. feb. 2010 : Myndbandasamkeppni fyrir ungt fólk 20 ára og yngri

Hafnarfjarðardeild Rauða krossins efnir til myndbandasamkeppni fyrir ungt fólk 20 ára og yngra. Þátttaka er heimill öllum félögum í Ungmennahreyfingu Rauða krossins af öllu landinu, en ekkert mál er að skrá sig félaga á staðnum.

Fimmtudaginn 18. febrúar kl. 17:30 verður kynning á viðfangsefni samkeppnirnar sem eru grundvallarmarkmið Rauða krossins. Þann 25. febrúar kl. 17:30 kemur Gunnar B. Guðmundsson leikstjóri Áramótsins 2009 og Astrópíu og leiðbeinir þátttakendum um framkvæmd verkefnisins.

Þessar kynningar fara fram í Sjálfboðaliðamiðstöðinni Strandgötu 24. Skilafrestur myndbanda er 18. mars og verða úrslit kynnt í mars.
Með innsendum myndböndum þarf að fylgja nafn, heimili, kennitala, símanúmer og tölvupóstfang viðkomandi þátttakenda. 

Taktu þátt!!!!  Vegleg verðlaun!!!!!!

 

16. feb. 2010 : Fyrsti ferfætti heimsóknavinur Kjósarsýsludeildar

Nú er Kjósarsýsludeild komin með sinn fyrsta heimsóknavin með hund og bjóðum við þær stöllur Heklu og eigenda hennar hjartanlega velkomnar til starfa! 

Hekla heimsækir reglulega ungan mann hér í Mosfellsbæ og er hverrar heimsóknar beðið með mikilli eftirvæntingu. Hekla skemmtir sér einnig hið besta í heimsóknunum og nýtur þess að vera miðpunktur athyglinnar. 

Þó nokkur undirbúningur liggur að baki hundaheimsókna. Eigendur hundanna byrja á því að láta skoða hundinn til að ganga úr skugga um að hann henti í verkefnið. Standist hundurinn matið þarf eigandinn að ljúka þriggja tíma námskeið fyrir almenna heimsóknavini og klukkutíma námskeiði sem er sér sniðið að hundaheimsóknum. Eftir það er fundinn gestgjafi sem vill fá heimsókn frá hundi og eiganda hans.

12. feb. 2010 : Hefur þú skoðun á atvinnumálunum?

Ef þú hefur skoðun á atvinnumálunum og þjóðmálum almennt þá vekjum við athygli á umræðum þjóðmálahóps sem hittist í sjálfboðamiðstöð Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins, Strandgötu 24, alla föstudaga kl. 10.

Í hópnum eru atvinnuleitendur sem hafa áhuga á að ræða vinnumarkaðs- og þjóðmál líðandi stundar. Ekki þarf að hafa neina sértæka þekkingu til að taka þátt í umræðunum, allt sem til þarf er áhugi.

Hópurinn er hluti af virkniúrræðum fyrir atvinnuleitendur og er það Guðrún Helga Sigurðardóttir blaðamaður sem heldur utanum hópinn. Umræður hópsins eru mjög fjörugar og tekið á mörgum málum. Nýverið fékk hópurinn bæjarstjóra Hafnarfjarðar, Lúðvík Geirsson, í heimsókn til að ræða vinnumarkaðsmál og leiðir til úrlausnar á atvinnuleysi í Hafnarfirði. Hópurinn hefur hug á því að fá fleiri gesti til sín til skrafs og ráðagerða.

9. feb. 2010 : Alþjóðlegir foreldrar hittast í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar

Góður hópur alþjóðlegra foreldra hittist í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar alla fimmtudaga. Hópurinn samanstendur af foreldrum ólíkra landa sem eru heima með lítil börn sín. Auk Íslendinga eru foreldrar frá til dæmis Póllandi, Suður-Afríku, Japan og Ghana. Reglulega er boðið upp á fræðslu eða kynningar sem flestar tengjast börnum. Leikföng eru á staðnum fyrir börnin og léttar veitingar eru í boði. Þátttaka er ókeypis. Allir eru velkomnir, innfæddir og innflytjendur, hvort sem þeir tala enga eða einhverja íslensku.

Verkefnið fór af stað hjá deildinni haustið 2007 og er markmið þess að rjúfa félagslega einangrun foreldra sem eru heima með lítil börn sín. Síðan verkefnið hófst hafa þátttakendur komið frá alls konar löndum og fimm heimsálfum. Auk ofangreindra landa hafa þátttakendurnir komið frá Svíþjóð, Bandaríkjunum, Þýskalandi, Guyana, Venesúela, Litháen, Lettlandi, Ítalíu, Rússlandi, Malasíu, Spáni, Kanada, Sri Lanka, Ástralíu, Noregi, Frakklandi, Eistlandi, Mexíkó, Moldovu, Tævan, Bretlandi, Perú og Írak.

5. feb. 2010 : Ný heimasíða www.aflotta.is

Verkefnið Á flótta hefur nú eignast heimasíðu þar sem hægt er að nálgast allar helstu upplýsingar um leikinn. Slóðin á síðuna er www.aflotta.is.

Næsti leikur fer fram á Keili svæðinu í Keflavík helgina 20.-21. febrúar og hægt er að skrá sig í leikinn hér

Á flótta er hlutverkaleikur þar sem þátttakendum gefst tækifæri á því að feta í fótspo flóttamanna. Leikurinn tekur einn sólarhing og á þeim tíma fá þátttakendur að upplfia aðstæður sem margir flótmenn lenda í.

Allir sem eru 13 ára og eldri geta tekið þátt í leiknum og er þátttökugjaldið 1.000.-

1. feb. 2010 : Starfsemi Lækjar tryggð árið 2010

Eitt að síðustu verkefnum Hafnarfjarðardeildar árið 2009 var að undirrita samning um rekstur Lækjar, athvarfs fyrir fólk með geðraskanir, fyrir árið 2010.

Lækur er rekinn sem samstarfsverkefni Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins, Hafnarfjarðarbæjar og Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Reykjanesi, en athvarfið var opnað árið 2003.

Samningurinn sem nú var gerður er til eins árs. Ástæða þess að samið er til skamms tíma í þetta skiptið er að áætlað er að málefni fatlaðra flytjist frá ríki til sveitarfélaga árið 2011. Starfsemi Lækjar hefur því verið tryggð fyrir árið 2010 en gera má ráð fyrir að sest verði að nýju að samningaborðinu næsta haust .

22. jan. 2010 : Menntun fjöldahjálparstjóra

Fjöldahjálparstjóranámskeið var haldið á vegum neyðarnefndar höfuðborgarsvæðis í vikunni. Færri komust að en vildu og verður því boðið upp á nýtt námskeið fljótlega sem verður auglýst á heimasíðunni undir dálknum Á döfinni.

Skemmtilegt er frá því að segja að á  meðan verðandi fjöldahjálparstjórar fræddumst um neyðarvarnir og fjöldahjálp voru fjöldahjálparstjórar að aðstoða við pökkun skyndihjálparbúnaðar sem sendur var til Haítí.

Þessir nýju fjöldahjálparstjórar bætast á lista fólks sem er tilbúið til að vera til taks ef til almannavarnarástands kemur. 

12. jan. 2010 : Ungmennastarfið fær góða heimsókn. Vilja gjarnan að Rauði kross Íslands taki upp búninga, en alls ekki marseringu!

Ungmennastarf Kjósarsýsludeildar fékk góða heimsókn á fyrsta fundi ársins.  Susan Yuen, 19 ára sjálfboðaliði Rauða krossins frá Hong Kong kom og sagði frá ungmennastarfinu þar. Umgjörð starfsins í Hong Kong er talsvert ólíkt því sem þekkist hér á landi og margt sem kom krökkunum á óvart.  

Ströng inntökuskilyrði eru inn í ungmennastarfið í Hong Kong, þar sem umsækjendur sitja námskeið og taka próf úr sögu Rauða krossins, grundvallarmarkmiðum og mannúðarstefnunni sem allir sjálfboðaliðar hafa að leiðarljósi í starfi sínu.  Rauði krossinn í Hong Kong er sá eini í heiminum sem marserar ennþá á fundum og þarf langar og strangar æfingar til að ná góðum tökum á marseringunni.

7. jan. 2010 : Leikskólabörnin á Norðurbergi styrkja Rauða krossinn

Leikskólabörnin á Leikskólanum Norðurbergi afhentu Hafnarfjarðardeild Rauða krossins fjárstyrk að upphæð 26.367 krónur sem er afrakstur söfnunar allt síðasta ár.

Börnin unnu verkefni með því að safna dósum og flöskum á ferðum sínum  með leikskólanum en í desember var bætt um betur og safnað dósum heima sem var bætt við söfnunina.

Styrkurinn rennur til barna í Malaví í Afríku en allt það fé sem börn á Íslandi styrktu Rauða krossinn með tombólusölu og öðrum fjáröflunum rennur til verkefnisins í Malaví. Á árinu 2009 söfnuðust rúmlega 800 þúsund krónur. Malaví er eitt af fátækustu ríkjum heims og staðsett í suðurhluta Afríku.

6. jan. 2010 : Við óskum eftir Félagsvinum

Finnst þér huggulegt að drekka kaffi og spjalla eða gera eitthvað skemmtilegt í góðum félagsskap? Hefur þú áhuga á að láta gott af þér leiða og opna dyr samfélagsins fyrir annarri manneskju?

Félagsvinur er sjálfboðaliði sem veitir manneskju af erlendum uppruna stuðning við að fóta sig í íslensku samfélagi. Hægt er að velja á milli tveggja verkefna: Félagsvinur kvenna af erlendum uppruna þar sem tengdar eru saman tvær konur sem þróa með sér eins konar vináttusamband þar sem markmið og þróun sambandsins eru ákveðin í sameiningu. Hins vegar Félagsvinur barna af erlendum uppruna þar sem sjálfboðaliðinn veitir barninu aukið bakland í hinu nýja samfélagi sem felur í sér að gera eitthvað skemmtilegt með barninu, aðstoða við heimanám eða tómstundagaman.  

Þátttaka í verkefnunum tekur ekki mikinn tíma, aðeins fáeinar klukkustundir á mánuði, en þessar klukkustundir geta gert gæfumuninn fyrir einstaklinga sem vilja aðlagast breyttum lífsháttum, læra tungumálið, kynnast Íslendingum og verða meiri þátttakendur í samfélaginu.