22. jan. 2010 : Menntun fjöldahjálparstjóra

Fjöldahjálparstjóranámskeið var haldið á vegum neyðarnefndar höfuðborgarsvæðis í vikunni. Færri komust að en vildu og verður því boðið upp á nýtt námskeið fljótlega sem verður auglýst á heimasíðunni undir dálknum Á döfinni.

Skemmtilegt er frá því að segja að á  meðan verðandi fjöldahjálparstjórar fræddumst um neyðarvarnir og fjöldahjálp voru fjöldahjálparstjórar að aðstoða við pökkun skyndihjálparbúnaðar sem sendur var til Haítí.

Þessir nýju fjöldahjálparstjórar bætast á lista fólks sem er tilbúið til að vera til taks ef til almannavarnarástands kemur. 

12. jan. 2010 : Ungmennastarfið fær góða heimsókn. Vilja gjarnan að Rauði kross Íslands taki upp búninga, en alls ekki marseringu!

Ungmennastarf Kjósarsýsludeildar fékk góða heimsókn á fyrsta fundi ársins.  Susan Yuen, 19 ára sjálfboðaliði Rauða krossins frá Hong Kong kom og sagði frá ungmennastarfinu þar. Umgjörð starfsins í Hong Kong er talsvert ólíkt því sem þekkist hér á landi og margt sem kom krökkunum á óvart.  

Ströng inntökuskilyrði eru inn í ungmennastarfið í Hong Kong, þar sem umsækjendur sitja námskeið og taka próf úr sögu Rauða krossins, grundvallarmarkmiðum og mannúðarstefnunni sem allir sjálfboðaliðar hafa að leiðarljósi í starfi sínu.  Rauði krossinn í Hong Kong er sá eini í heiminum sem marserar ennþá á fundum og þarf langar og strangar æfingar til að ná góðum tökum á marseringunni.

7. jan. 2010 : Leikskólabörnin á Norðurbergi styrkja Rauða krossinn

Leikskólabörnin á Leikskólanum Norðurbergi afhentu Hafnarfjarðardeild Rauða krossins fjárstyrk að upphæð 26.367 krónur sem er afrakstur söfnunar allt síðasta ár.

Börnin unnu verkefni með því að safna dósum og flöskum á ferðum sínum  með leikskólanum en í desember var bætt um betur og safnað dósum heima sem var bætt við söfnunina.

Styrkurinn rennur til barna í Malaví í Afríku en allt það fé sem börn á Íslandi styrktu Rauða krossinn með tombólusölu og öðrum fjáröflunum rennur til verkefnisins í Malaví. Á árinu 2009 söfnuðust rúmlega 800 þúsund krónur. Malaví er eitt af fátækustu ríkjum heims og staðsett í suðurhluta Afríku.

6. jan. 2010 : Við óskum eftir Félagsvinum

Finnst þér huggulegt að drekka kaffi og spjalla eða gera eitthvað skemmtilegt í góðum félagsskap? Hefur þú áhuga á að láta gott af þér leiða og opna dyr samfélagsins fyrir annarri manneskju?

Félagsvinur er sjálfboðaliði sem veitir manneskju af erlendum uppruna stuðning við að fóta sig í íslensku samfélagi. Hægt er að velja á milli tveggja verkefna: Félagsvinur kvenna af erlendum uppruna þar sem tengdar eru saman tvær konur sem þróa með sér eins konar vináttusamband þar sem markmið og þróun sambandsins eru ákveðin í sameiningu. Hins vegar Félagsvinur barna af erlendum uppruna þar sem sjálfboðaliðinn veitir barninu aukið bakland í hinu nýja samfélagi sem felur í sér að gera eitthvað skemmtilegt með barninu, aðstoða við heimanám eða tómstundagaman.  

Þátttaka í verkefnunum tekur ekki mikinn tíma, aðeins fáeinar klukkustundir á mánuði, en þessar klukkustundir geta gert gæfumuninn fyrir einstaklinga sem vilja aðlagast breyttum lífsháttum, læra tungumálið, kynnast Íslendingum og verða meiri þátttakendur í samfélaginu.