25. feb. 2010 : Þáttaskil hjá Kópavogsdeild

Í gærkvöldi var fjölmennur aðalfundur hjá deildinni og má með sanni segja að þáttaskil hafi orðið. Garðar H. Guðjónsson, sem gegnt hafði formennsku hjá deildinni í 8 ár, gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og því var nýr formaður kjörinn, Ingibjörg Lilja Diðriksdóttir. Ingibjörg Lilja hefur setið í stjórn deildarinnar frá 2003 og verið gjaldkeri síðustu tvö ár. Í fyrsta skipti í sögu deildarinnar var kosið um formann á milli tveggja frambjóðenda og hlaut Ingibjörg Lilja afgerandi kosningu. Hún er einnig fyrsti kvenformaður deildarinnar.

Þá var kosið um fjögur laus sæti í stjórninni og tvö í varastjórninni. Fimm sjálfboðaliðar höfðu gefið kost á sér fyrir fundinn og tveir gáfu kost á sér í aðalstjórnina á fundinum. Arnfinnur Daníelsson, Ívar Kristmannsson og Sigrún Árnadóttir voru kjörin til tveggja ára stjórnarsetu og Sigrún Hjörleifsdóttir til eins árs. Þau munu taka sæti Hildar Tryggvadóttur Flóvenz, Hjördísar Einarsdóttur, Hjartar Þ. Haukssonar og Ingibjargar Lilju Diðriksdóttur nýkjörins formanns. Gunnar M. Hansson var endurkjörinn í varastjórn til eins árs og Björn Kristján Arnarson kom nýr inn í varastjórnina og hlaut kosningu til tveggja ára.

25. feb. 2010 : Unglingar á flótta í Reykjanesbæ

Hlutverkaleikurinn Á flótta var haldinn á Keilissvæðinu á Miðnesheiðinni um síðustu helgi. Þátttakendur voru að vanda hópur ungs fólks sem var tilbúið að setja sig í fótspor flóttamanna í heilan sólahring og taka þeim áskorunum sem flóttamenn í heiminum þurfa gjarnan að glíma við í sínu daglega lífi.  Það er Ungmennahreyfing Rauða krossins sem á veg og vanda að skipulagningu og framkvæmd leiksins.

Í upphafi fá þátttakendur nýtt nafn, þjóðerni, vegabréf og jafnvel nýja fjölskyldu. Þarnæst hefst örlagarík atburðarás þar sem þátttakendur neyðast til þess að flýja lengri eða styttri vegalengdir, kljást við skæruliða, hermenn, svartamarkaðsbraskara, fólkssmyglara og skriffinna, matarlausir, þreyttir og niðurlægðir. Allt miðar að því að upplifun þátttakenda verði eins raunveruleg og hægt er.

22. feb. 2010 : Námskeiðið Börn og umhverfi fyrir ungmenni fædd 1998 eða eldri

Námskeiðið Börn og umhverfi verður haldið sex sinnum hjá Reykjavíkurdeild Rauða krossins í maí og júní. Námskeiðin eru fyrir ungmenni fædd á árinu 1998 og eldri. Námskeiðið verður einnig haldið víðar um landið og munu auglýsingar birtast á vefnum jafnóðum og þau eru ákveðin undir liðnum Á döfinni.

Kennsla skiptist á fjögur kvöld og fer fram í húsnæði Reykjavíkurdeildar, Laugavegi 120. 5. hæð, kl. 18-21.

Á námskeiðinu er farið í ýmsa þætti sem varða umgengni og framkomu við börn. Rætt er um árangursrík samskipti, aga, umönnun og hollar lífsvenjur, leiki og leikföng. Lögð er áhersla á umfjöllun um slysavarnir og algengar slysahættur í umhverfinu ásamt ítarlegri kennslu í skyndihjálp. Að auki fá þátttakendur innsýn í sögu og starf Rauða krossins.

19. feb. 2010 : Vinadeildasamstarf Kópavogsdeildar við Maputo-hérað í Mósambík

Kópavogsdeild hefur átt í vinadeildasamstarfi við deild Rauða krossins í Maputo-héraði í Mósambík frá árinu 2007. Markmiðið með samstarfinu er að efla starf beggja deilda og skapa tengsl á milli sjálfboðaliða deildarinnar.

Sjálfboðaliðahópur innan Kópavogsdeildar heldur utan um samstarfið og hefur meðal annars skrifað fréttabréf til vinadeildarinnar með upplýsingum um starfið í Kópavogsdeild, skipulagt fræðslu um samstarfið og aðstæður í Mósambík innan Kópavogsdeildar sem og utan. Auk þess hefur hópurinn haldið utan um fjáröflun til styrktar ungmennaverkefnum deildarinnar í Maputo-héraði.

17. feb. 2010 : Myndbandasamkeppni fyrir ungt fólk 20 ára og yngri

Hafnarfjarðardeild Rauða krossins efnir til myndbandasamkeppni fyrir ungt fólk 20 ára og yngra. Þátttaka er heimill öllum félögum í Ungmennahreyfingu Rauða krossins af öllu landinu, en ekkert mál er að skrá sig félaga á staðnum.

Fimmtudaginn 18. febrúar kl. 17:30 verður kynning á viðfangsefni samkeppnirnar sem eru grundvallarmarkmið Rauða krossins. Þann 25. febrúar kl. 17:30 kemur Gunnar B. Guðmundsson leikstjóri Áramótsins 2009 og Astrópíu og leiðbeinir þátttakendum um framkvæmd verkefnisins.

Þessar kynningar fara fram í Sjálfboðaliðamiðstöðinni Strandgötu 24. Skilafrestur myndbanda er 18. mars og verða úrslit kynnt í mars.
Með innsendum myndböndum þarf að fylgja nafn, heimili, kennitala, símanúmer og tölvupóstfang viðkomandi þátttakenda. 

Taktu þátt!!!!  Vegleg verðlaun!!!!!!

 

16. feb. 2010 : Fyrsti ferfætti heimsóknavinur Kjósarsýsludeildar

Nú er Kjósarsýsludeild komin með sinn fyrsta heimsóknavin með hund og bjóðum við þær stöllur Heklu og eigenda hennar hjartanlega velkomnar til starfa! 

Hekla heimsækir reglulega ungan mann hér í Mosfellsbæ og er hverrar heimsóknar beðið með mikilli eftirvæntingu. Hekla skemmtir sér einnig hið besta í heimsóknunum og nýtur þess að vera miðpunktur athyglinnar. 

Þó nokkur undirbúningur liggur að baki hundaheimsókna. Eigendur hundanna byrja á því að láta skoða hundinn til að ganga úr skugga um að hann henti í verkefnið. Standist hundurinn matið þarf eigandinn að ljúka þriggja tíma námskeið fyrir almenna heimsóknavini og klukkutíma námskeiði sem er sér sniðið að hundaheimsóknum. Eftir það er fundinn gestgjafi sem vill fá heimsókn frá hundi og eiganda hans.

12. feb. 2010 : Hefur þú skoðun á atvinnumálunum?

Ef þú hefur skoðun á atvinnumálunum og þjóðmálum almennt þá vekjum við athygli á umræðum þjóðmálahóps sem hittist í sjálfboðamiðstöð Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins, Strandgötu 24, alla föstudaga kl. 10.

Í hópnum eru atvinnuleitendur sem hafa áhuga á að ræða vinnumarkaðs- og þjóðmál líðandi stundar. Ekki þarf að hafa neina sértæka þekkingu til að taka þátt í umræðunum, allt sem til þarf er áhugi.

Hópurinn er hluti af virkniúrræðum fyrir atvinnuleitendur og er það Guðrún Helga Sigurðardóttir blaðamaður sem heldur utanum hópinn. Umræður hópsins eru mjög fjörugar og tekið á mörgum málum. Nýverið fékk hópurinn bæjarstjóra Hafnarfjarðar, Lúðvík Geirsson, í heimsókn til að ræða vinnumarkaðsmál og leiðir til úrlausnar á atvinnuleysi í Hafnarfirði. Hópurinn hefur hug á því að fá fleiri gesti til sín til skrafs og ráðagerða.

9. feb. 2010 : Alþjóðlegir foreldrar hittast í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar

Góður hópur alþjóðlegra foreldra hittist í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar alla fimmtudaga. Hópurinn samanstendur af foreldrum ólíkra landa sem eru heima með lítil börn sín. Auk Íslendinga eru foreldrar frá til dæmis Póllandi, Suður-Afríku, Japan og Ghana. Reglulega er boðið upp á fræðslu eða kynningar sem flestar tengjast börnum. Leikföng eru á staðnum fyrir börnin og léttar veitingar eru í boði. Þátttaka er ókeypis. Allir eru velkomnir, innfæddir og innflytjendur, hvort sem þeir tala enga eða einhverja íslensku.

Verkefnið fór af stað hjá deildinni haustið 2007 og er markmið þess að rjúfa félagslega einangrun foreldra sem eru heima með lítil börn sín. Síðan verkefnið hófst hafa þátttakendur komið frá alls konar löndum og fimm heimsálfum. Auk ofangreindra landa hafa þátttakendurnir komið frá Svíþjóð, Bandaríkjunum, Þýskalandi, Guyana, Venesúela, Litháen, Lettlandi, Ítalíu, Rússlandi, Malasíu, Spáni, Kanada, Sri Lanka, Ástralíu, Noregi, Frakklandi, Eistlandi, Mexíkó, Moldovu, Tævan, Bretlandi, Perú og Írak.

5. feb. 2010 : Ný heimasíða www.aflotta.is

Verkefnið Á flótta hefur nú eignast heimasíðu þar sem hægt er að nálgast allar helstu upplýsingar um leikinn. Slóðin á síðuna er www.aflotta.is.

Næsti leikur fer fram á Keili svæðinu í Keflavík helgina 20.-21. febrúar og hægt er að skrá sig í leikinn hér

Á flótta er hlutverkaleikur þar sem þátttakendum gefst tækifæri á því að feta í fótspo flóttamanna. Leikurinn tekur einn sólarhing og á þeim tíma fá þátttakendur að upplfia aðstæður sem margir flótmenn lenda í.

Allir sem eru 13 ára og eldri geta tekið þátt í leiknum og er þátttökugjaldið 1.000.-

1. feb. 2010 : Starfsemi Lækjar tryggð árið 2010

Eitt að síðustu verkefnum Hafnarfjarðardeildar árið 2009 var að undirrita samning um rekstur Lækjar, athvarfs fyrir fólk með geðraskanir, fyrir árið 2010.

Lækur er rekinn sem samstarfsverkefni Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins, Hafnarfjarðarbæjar og Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Reykjanesi, en athvarfið var opnað árið 2003.

Samningurinn sem nú var gerður er til eins árs. Ástæða þess að samið er til skamms tíma í þetta skiptið er að áætlað er að málefni fatlaðra flytjist frá ríki til sveitarfélaga árið 2011. Starfsemi Lækjar hefur því verið tryggð fyrir árið 2010 en gera má ráð fyrir að sest verði að nýju að samningaborðinu næsta haust .