30. mar. 2010 : Hlutverk leiðtoga kynnt fyrir sjálfboðaliðum höfuðborgarsvæðis

Svæðisráð Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu stendur nú fyrir námskeiðum fyrir sjálfboðaliða. Fyrir nokkru var haldin kynning á Genfarsamningunum og í síðustu viku var haldið leiðtoganámskeið.

Leiðtoganámskeiðið fór fram í nýrri mynd, var haft styttra og tók einungis þrjár klukkustundir. Ýmsir fyrirlesarar frá deildunum á svæðinu, jafnt sjálfboðaliðar og starfsmenn, héldu erindi.

Fyrirlesarar fóru yfir mismunandi þætti leiðtogahlutverksins og voru efnistökin fjölbreytt s.s. hvað er að vera leiðtogi, hvað er að vera sjórnandi, hvernig best er að stýra innan félagasamtaka og mikilvægi stuðnings við sjálfboðaliða og umbunar, svo eitthvað sé nefnt.

29. mar. 2010 : Heimsókn frá Frostheimum

Það komu góðir gestir í heimsókn í Reykjarvíkurdeild Rauða krossins á mánudagsmorgun í dymbilvikunni, það voru krakkar úr frístundarheimilinu Frostheimum sem komu færandi hendi. Krakkarnir höfðu sett saman jólamarkað í desember, þar sem þau föndruðu og skreyttu og seldu handverk sitt gestum og gangandi. Ágóðan gáfu þau til hjálparstarfs Rauða kross Íslands í Malaví. Starfsmaður Rauða krossins í Reykjavík heimsótti krakkana í Frostheima í janúar og sagði þeim frá fjölbreyttu hjálparstarfinu í Malaví og svaraði spurningum þeirra.

Í dag komu svo krakkarnir færandi hendi og afhendu Rauða krossi Íslands söfnunarféð sem rennur óskipt til hjálpar þurfandi barna í Malaví. Hópurinn fékk sér létta hressingu í Reykjavíkurdeildinni horfði á stutt myndskeið með Hjálpfús og létu taka af sér mynd.

Það er vissulega gaman að taka á móti svona flottum, kurteisum og hressum krökkum eins og krakkarnir í Frostheimum eru.

29. mar. 2010 : Ungmenni Kópavogsdeildar skapa sitt eigið heimshorn

Ungmennahópur Kópavogsdeildar Rauða krossins hefur fengið afnot af einu herbergi í sjálfboðamiðstöðinni og vinnur nú að því að gera það að „sínu”. Ungir sjálfboðaliðar úr röðum Eldhuga og Plússins hafa haft penslana á lofti og skapað sitt eigið „heimshorn” eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Ungmennin máluðu heimskort á einn vegginn ásamt mynd af stofnanda Rauða krossins, Henry Dunant. Fleiri hugmyndir eru á teikniborðinu hjá ungmennunum til að skreyta herbergið en það á að vera vettvangur fyrir unga fólkið til að geta hist og jafnvel lært eða haft það notalegt án þess að eiginleg samvera sé á dagskrá. Þá mun herbergið einnig verða nýtt undir Enter-starfið fyrir unga innflytjendur.

26. mar. 2010 : Ungmennadeild stofnuð við Kjósarsýsludeild

Í gærkvöldi var stofnfundur ungmennadeildar Kjósarsýsludeildar Rauða krossins (URKÍ-Kjós) haldinn í Sjálfboðamiðstöðinni, Þverholti 7. Lög deildarinnar voru samþykkt og stjórn skipuð. Ágústa Ósk Aronsdóttir var kjörin formaður URKÍ-Kjós, en hún hefur borið hitan og þungan af ungmennastarfi deildarinnar undanfarin ár. Aðrir stjórnarmenn hafa einnig verið virkir í ungmennastarfi deildarinnar og URKÍ. Þau eru Þrúður Kristjánsdóttir, Anna Dúna Halldórsdóttir, Arnar Benjamín Kristjánsson og Gísli Freyr Guðbjörnsson.

Þessi kraftmiklu ungmenni eru stórhuga varðandi uppbyggingu ungmennastarfsins í Kjósinni og verður spennandi að fylgjast með þeim í framtíðinni.

 

24. mar. 2010 : Ungmennastarfið í fræðsluferð

Félagar í Ungmennastarfi deilda Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu dvöldu í Alviðru um síðustu helgi við leik og fræðslu.

Fræðslan var unnin upp úr námsefninu Kompási, handbók um mannréttindi fyrir ungt fólk sem Evrópuráð gaf út.

Hver hópur sá um eitt atriði á kvöldvökunni og var mikið lagt til. Þegar skemmtiatriðum lauk fóru krakkarnir út í hlöðu þar sem boðið var upp á skotbolta í myrkri, með upplýstum bolta.

Í lok ferðar var komið við í sundlaug Hveragerðis og þvegið af sér fyrir heimferð í rigningunni en hún virtist elta hópinn.

23. mar. 2010 : Evrópuvika gegn kynþáttafordómum

Í tilefni af Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti tóku unglingstarf Rauða krossins í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi, Mannréttindaskrifstofa, unglingastarf Þjóðkirkjunnar, Soka Gakkai á Íslandi og sjálfboðaliðar SEEDS á Íslandi höndum saman og stóðu fyri viðburðum í Smáralind til að vekja athygli á vikunni og fagna fjölmenningu á Íslandi.

Unga fólkið tók gesti og gangandi tali og spjallaði um kynþáttafordóma, dreifði fræðsluefni, barmmerkjum, póstkortum og nammi. Krakkarnir máluðu sig í framan í mismunandi litum og klæddust bolum með slagorðinu, Njótum fjölbreytileikans!

19. mar. 2010 : Ungir heimsóknavinir

Ungir heimsóknavinir er nýtt verkefni innan Kjósarsýsludeildar sem unnið er í samstarfi við Lágafellsskóla, Varmárskóla og dvalarheimilið Eirhamra.  Verkefnið er framhald af öðru samstarfsverkefni þessara aðila sem kallast Æskan og ellin á jólunum sem hefur það markmið að brúa bilið milli kynslóðanna.

Verkefnið hófst í síðustu viku þegar sex 6. bekkingar úr Lágafellsskóla heimsóttu Eirhamra ásamt sjálfboðaliða deildarinnar.  Í morgun fóru svo krakkar úr Varmárskóla í heimsókn og voru heimsóknirnar báðar mjög ánægjulegar.  Krakkarnir voru áhugasamir, prúðir og kurteisir og fannst heimsóknin fróðleg.  Íbúar og starfsfólk Eirhamra tók vel á móti krökkunum og þótti gaman að fá svona skemmtilega heimsókn.

18. mar. 2010 : Plúsinn styrkir börn á Haítí

Hulda, Unnur og Dagbjört fóru fyrir hópi sjálfboðaliða úr starfi Plússins, ungmennastarfi Kópavogsdeildar, og afhentu Kristjáni Sturlusyni framkvæmdastjóra Rauða kross Íslands og Þóri Guðmundssyni sviðsstjóra alþjóðasviðs um 60 þúsund krónur sem söfnuðust á fatamarkaði sem hópurinn hélt 6. mars síðastliðinn. Peningurinn verður nýttur til að aðstoða börn á Haítí sem eiga um sárt að binda vegna jarðskjálftans sem reið yfir landið 12. janúar.

Kristján og Þórir sögðu að fjárhæðin myndi nýtast afar vel enda væri mikil þörf á áframhaldandi aðstoð í landinu. Haítí var bágstatt ríki fyrir skjálftann en núna væri uppbyggingarstarf í gangi og enn mikil þörf á aðstoð.

10. mar. 2010 : Ávaxtaskurður í félagsvinaboði

Garðabæjardeild Rauða kross Íslands hélt boð fyrir fjörtíu hressar konur í lok febrúar. Konurnar eru allar þátttakendur í verkefninu „Félagsvinur kvenna af erlendum uppruna“ en þar eru leiddar saman íslenskar og erlendar konur með það að markmiði að veita erlendu konunni stuðning við aðlögun, námi og vinnu í íslensku samfélagi.

Sonja, tælenskur útskurðarmeistari, var fengin til að kenna örlítið sérstakan útskurð en það er útskurður í melónur, gúrkur og rófur svo eitthvað sé nefnt. Það urðu til mörg fögur listaverk á þessu kvöldi og ekki skemmdi það fyrir að fá gómsætar kökur frá Okkar Bakarí.
Þeir sem vilja vita meira um Félagsvinaverkefnið hjá Garðabæjardeild eru hvattir til að hafa samband við deildina í síma 565-9494 eða í gegnum tölvupóst: [email protected] 

9. mar. 2010 : Rauðakrosshúsið eins árs

Rauðakrosshúsið hélt upp á eins árs starfsafmæli síðasta föstudag. Fjölmörgum gestum, sjálfboðaliðum og öðrum velunnurum var boðið til veglegrar afmælisveislu með tónlist, uppistandi og afmæliskaffi. Rúmlega 120 manns mættu til veislunnar og fögnuðu áfanganum.

Sífellt fleiri gestir sækja Rauðakrosshúsið á degi hverjum, taka þátt í viðburðum og hópavinnu en að auki koma margir fyrir félagsskapinn og spjall yfir kaffibolla. Sjálfboðaliðar í Rauðakrosshúsinu taka á móti fólki og veita stuðning og jafningjaráðgjöf ef með þarf. Rauðakrosshúsið er staðsett að Borgartúni 25 og er opið virka daga frá klukkan 12-17.

5. mar. 2010 : Fatasöfnun mikilvægur stuðningur við verkefni í Malaví

Framlag Fatasöfnunar Rauða krossins sem deildir á höfuðborgarsvæðinu standa að var 38 milljónir vegna ársins 2009 og rennur það óskipt til verkefna í Malaví. Í Malaví hefur Rauði krossinn um árabil starfað að samstarfsverkefnum um umönnun barna sem eiga um sárt að binda vegna alnæmis, heimahlynningu alnæmisveikra og fæðuöryggi þeirra sem minnst mega sín. Örn Ragnarsson verkefnisstjóri Fatasöfnunar Rauða krossins afhenti Kristjáni Sturlusyni framkvæmdastjóra félagsins framlagið á svæðisfundi deilda á höfuðborgarsvæðinu.

Töluvert minna barst af fötum til Rauða krossins árið 2009 en árin tvö á undan, en sala í Rauðakrossbúðunum hefur á hinn bóginn aukist. Rauðakrossbúðirnar á höfuðborgarsvæðinu eru nú fjórar. Búðirnar tvær á Laugaveginum njóta sívaxandi vinsælda, og óhætt er að segja að ný verslun sem opnuð var í Mjóddinni í nóvember hafi slegið í gegn. Ein verslun er einnig í Hafnarfirði, og nokkrar deildir á landsbyggðinni hafa einnig opnað nytjamarkaði.

4. mar. 2010 : Sjálfboðaliðar Rauða krossins auka lífsgæði fólks

„Það hefur verið mjög skemmtilegt og gefandi að leiða Kópavogsdeild Rauða krossins í gegnum þær miklu breytingar sem orðið hafa á starfinu á undanförnum árum. Það er góð tilfinning að fara frá starfinu í blóma og geta jafnframt treyst því að uppbyggingunni verði haldið áfram af metnaði. Kópavogsdeild starfar í fjölmennu og öflugu bæjarfélagi og á að vera í fararbroddi innan Rauða krossins,“ segir Garðar H. Guðjónsson sem lét af formennsku í Kópavogsdeild Rauða krossins á aðalfundi í síðustu viku eftir átta ára sjálfboðið starf sem formaður. Ingibjörg Lilja Diðriksdóttir var kjörin formaður en hún hefur setið í stjórn síðan 2005. Hún er fyrst kvenna til að verða formaður deildarinnar.

Garðar var kjörinn í stjórn Kópavogsdeildar 2001 og varð formaður 2002. Hann hafði áður verið kynningarfulltrúi Rauða kross Íslands um árabil. Kópavogsdeild hafði þá einkum getið sér orð fyrir að vera leiðandi í uppbyggingu hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar og stofnun Dvalar, athvarfs fyrir fólk með geðraskanir. Hún hafði einnig verið meðal brautryðjenda í heimsóknaþjónustu sem þá fór einkum fram í Sunnuhlíð. Veikleikar deildarinnar voru hins vegar þeir að hún var lítt þekkt í bæjarfélaginu, hafði ekki sýnilega starfsaðstöðu, sjálfboðaliðar voru fáir og nýliðun lítil sem engin. Þessu vildi ný stjórn breyta.

2. mar. 2010 : Karfa af garni

Deildinni barst góð gjöf á dögunum þegar einn Kópavogsbúi kom færandi hendi með körfu fulla af garni. Kópavogsbúinn vildi styrkja Kópavogsdeildina og eftir að hafa kynnt sér verkefni hennar á vefsíðunni valdi hann að kaupa garn fyrir verkefnið Föt sem framlag. Sjálfboðaliðar í verkefninu munu prjóna ungbarnaflíkur úr garninu sem síðan verða sendar til barna og fjölskyldna í neyð erlendis. Sjálfboðaliðarnir prjóna til dæmis peysur, teppi, húfur, sokka og bleyjubuxur. Deildin þakkar þessum hugulsama Kópavogsbúa kærlega fyrir gjöfina. Hún mun koma að góðum notum.