30. apr. 2010 : Lærði að prjóna lopapeysu á einum mánuði

Allt frá því að Dvöl tók til starfa hafa nokkrir skiptinemar á vegum AUS, sem eru alþjóðleg ungmennaskipti, verið þar sem sjálfboðaliðar. Dvöl er athvarf fyrir fólk með geðraskanir þar sem Kópavogsdeild Rauða krossins kemur að reksti.

Ungmennunum hefur verið vel tekið af gestum og vinnuframlag vel þegið af starfsfólki.

Í byrjun apríl kom til Dvalar stúlka frá Slóvakíu sem heitir Ráchel Kovácová, 24 ára gömul og sálfræðingur að mennt. Hún verður í Dvöl þangað til í desember á þessu ári.

29. apr. 2010 : Skrifað undir samning um Deigluna

Í gær, miðvikudag, skrifuðu Hafnarfjarðar- og Garðabæjardeildir Rauða krossins undir samstarfssamning við sveitarfélögin Hafnarfjörð og Garðabæ um virkniúrræði í Deiglunni í bæjarfélögunum tveimur.

Markmiðið með rekstri Deiglunnar er að skapa vettvang fyrir atvinnuleitendur í Hafnarfirði og Garðabæ til sjálfseflingar og virkni í atvinnuleit. Boðið verður uppá námskeið og afþreyingu sniðna að þörfum atvinnuleitenda og með virkri þátttöku þess hóps sem vill nýta sér starfsemi Deiglunnar.

Starfsemin mun fara fram í sjálfboðamiðstöðvum beggja deilda, í Hafnarfirði að Strandgötu 24 og í Garðabæ á Garðatorgi. 

27. apr. 2010 : Ungmennastarfið í Þjóðleikhúsinu

Um miðjan apríl fór hópur úr krakkastarfi og ungmennastarfi Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins í skemmtilega heimsókn í Þjóðlekhúsið. Ferðin byrjaði ekkert allt of vel þar sem strætóinn bilaði á miðri leið og þurfti því að breyta ferðatilhöguninni. En krakkarnir gerðu bara gott úr því og komust að lokum í Þjóðleikhúsið. Þar var vel tekið á móti þeim og fengu þau frábæra leiðsögn um leikhúsið. Heyrðu allt um starfseminna þar, fengu að skoða stóra sviðið bæði að ofan og undir því, fóru í alla króka og kima baksviðs, skoðuðu hvernig leikmyndin virkar, sáu búningsherbergi leikaranna, fengu að máta hárkollur og margt fleira. 

Við þökkum Þjóðleikhúsinu kærlega fyrir þessar frábæru móttökur. 

23. apr. 2010 : Rauði krossinn á umhverfisvaktinni

Rauða kross deildin í Hafnarfirði hefur ásamt öðrum félagasamtökum í Hafnarfirði skrifað undir samning við Hafnarfjarðarbæ um umhverfisvaktina. Þetta er í þriðja skipti sem Hafnarfjarðarbær stendur fyrir umhverfisvaktinni og annað árið sem sjálfboðaliðar Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins taka þátt.

Verkefnið gengur útá það að félagasamtök taka hluta bæjarlandsins í fóstur og sjá um hreinsun á opnum svæðum fjórum sinnum á ári. Fyrsta tímabilið hefst þann 25. apríl, á degi umhverfisins, sem er fæðingardagur Sveins Pálssonar sem lauk prófi í náttúrufræði árið 1791, fyrstur Íslendinga.

8. apr. 2010 : Frásögn frá Jórdaníu

Á spennandi vegabréfakvöldi unglingastarfs URKÍ-H um daginn kynntu systurnar Shirin Erla og Golnaz krökkunum heimaland sitt Jórdaníu.

Systurnar eru báðar búsettar í Hafnarfirði og hafa tekið virkan þátt í starfi Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins. Á vegabréfakvöldinu sögðu þær frá landinu sínu, matarmenningunni og hvernig var að búa í Jórdaníu. Þetta var í annað skipti sem Shirin mætir til að kynna ungu Rauða kross fólki landið sitt en áður hafði hún heimsótt krakkana í barnastarfinu. Margt áhugavert kom fram í máli þeirra systra og voru allir mun fróðari um þetta fjarlæga land eftir heimsóknina.

Vegabréfaverkefni URKÍ-H er hluti af fræðslustarfi sem unnið er í barna og unglingastarfi Rauða krossins. Þar fræðast krakkarnir um framandi lönd og menningu með það að markmiði að auka viðsýni sína og umburðarlyndi fyrir fjölbreytileika mannlífsins. Ýmis lönd hafa verið kynnt frá því að verkefnið hófst eins og t.d. Svíþjóð, Palestína, Gambía og nú síðast Jórdanía.

7. apr. 2010 : Félagvinir óskast

Félagsvinir fyrir konur og börn af erlendum uppruna – Sjálfboðaliðar óskast ! 

Það skiptir sköpum fyrir innflytjendur að hafa einhvern til að leita til þegar þeir reyna að aðlagast nýju samfélagi, nýjum siðum og menningu. Vilt þú sýna stuðning í verki og bjóða fram krafta þína við að opna dyr nýja samfélagsins?

Við leitum eftir íslenskum konum á öllum aldri til að gerast félagsvinir. Hægt er að gerast félagsvinur konu eða barns af erlendum uppruna. Í báðum tilfellum felur það í sér 9-12 mánaða samband við einstakling sem þarf andlegan stuðning við aðlögun í íslensku samfélagi og/eða aðstoð við að rjúfa félagslega einangrun. Námskeið fyrir félagsvini verður haldið 27. apríl. Nánari upplýsingar eru að finna á heimasíðu Garðabæjardeildar RKÍ en einnig er hægt að hafa samband við Erlu í síma 565 9494 eða í gegnum tölvupóst: [email protected].
 

6. apr. 2010 : Kynntu föt sem framlag

Fyrir skemmstu hélt Heimilisiðnaðarfélagið útgáfuhóf vegna útgáfu ársritsins Hugar og handar. Þar kynnti handverksfólk, sem fjallað er um í nýjasta riti Hugar og handar, þau verkefni sem það vinnur að.

Þær Anna Jóna, Díana og Lizzi, sem allar eru í prjónahópi hjá Hafnarfjarðardeild, kynntu verkefnið föt sem framlag fyrir hönd Rauða krossins. Að þeirra sögn var útgáfuhófið hið áhugaverðasta og aðsókn mjög góð. Margir sýndu verkefninu föt sem framlag áhuga og runnu kynningarbæklingar um verkefnið út eins og heitar lummur.

Nú taka tuttugu og fimm deildir þátt í föt sem framlagi svo áhugasamir um allt land ættu að geta tekið þátt. Sjálfboðaliðar bæði prjóna og sauma fatnað fyrir börn á fyrsta ári. Nú í apríllok fer sending ungbarnapakka til Rauða krossins í Malaví og strax í kjölfarið hefst vinna við næstu sendingu.