31. ágú. 2010 : Líf og fjör í Hamraborginni

Kópavogsdeild Rauða krossins tók þátt í vel heppnaðri Hamraborgarhátíð sem haldin var í sól og blíðu á laugardaginn. Opið hús var hjá deildinni og gátu gestir kynnt sér starf og verkefni deildarinnar auk þess sem boðið var upp á kaffi og meðlæti. Sjálfboðaliðar deildarinnar stóðu vaktina utandyra og seldu prjónavörur sjálfboðaliða og handverk frá vinadeild í Mósambík en ágóðinn, alls 27.500 krónur, rennur í verkefnið Föt sem framlag.

Hátíðin var haldin á vegum Kópavogsbæjar í samstarfi við verslanir, fyrirtæki og menningarstofnanir í Hamraborginni. Kópavogsdeild vill þakka bænum fyrir skemmtilegt framtak og hlakkar til að taka þátt í hátíðinni að ári.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefnum deildarinnar geta haft samband við deildina í síma 554 6626.

30. ágú. 2010 : Leitum að laganemum og lögfræðingum

Frá því sumarið 2009 hefur hópur laganema og lögfræðinga starfað sem sjálfboðaliðar Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins við réttindagæslu hælisleitenda. Sjálfboðaliðarnir hafa aðstoðað hælisleitendur á fyrstu stigum málsmeðferðar á þeim tíma sem þeir hafa ekki átt rétt á aðstoð lögmanns af hálfu hins opinbera.

Nú leitum við að nýjum sjálfboðaliðum til að bætast í hóp starfandi réttindagæslu sjálfboðaliða. Leitað er að lögmönnum eða laganemum (þurfa að vera komnir á þriðja ár laganáms eða lengra) með áhuga á málaflokknum.

Sjálfboðaliðar fylgja hælisleitendum í skýrslutökur og viðtöl hjá lögreglu og Útlendingastofnun og aðstoða við gerð greinargerða til Útlendingastofnunnar.

29. ágú. 2010 : Grill og gleði

Það var vaskur hópur sjálfboðaliða Hafnarfjarðardeildar sem mætti á umhverfisvaktina síðastliðið fimmtudagskvöld. Líkt og áður sá Rauði krossinn um að fegra umhverfið í miðbænum og var gengið um helstu göngustíga og útivistarsvæði og nokkuð magn af rusli tínt upp.

Markmið umhverfisvaktarinnar er tvíþætt, annars vegar að fegra bæjarlandið og okkar nánasta umhverfi og hins vegar að vekja almenning til umhugsunar um góða umgengni og mikilvægi þess að henda ekki frá sér rusli. Það voru sjálfboðaliðar á öllum aldri sem tóku þátt, allt frá þriggja ára og upp í ellilífeyrisþega, og voru allir kátir eftir hressandi umhverfisgöngu.

26. ágú. 2010 : Verkefnið Föt sem framlag fékk góðan fjárstyrk

Anna Bjarnadóttir, sjálfboðaliði og prjónakona, í verkefninu Föt sem framlag færði Kópavogsdeildinni í gær fjárstyrk að upphæð 263 þúsund krónur. Anna átti stórafmæli fyrr í sumar og í stað þess að þiggja gjafir bað hún fólk um að styrkja verkefnið. Þetta varð afraksturinn og kemur hann sér einkar vel fyrir verkefnið.

Fjármagninu verður varið til kaupa á garni fyrir sjálfboðaliða verkefnisins. Anna var ein af fyrstu sjálfboðaliðunum í verkefninu og hefur tekið þátt í því í yfir 20 ár. Deildin færir henni bestu þakkir fyrir þennan rausnarlega styrk.

5. ágú. 2010 : Lýkur við hundruðustu peysuna

Sigríður Björnsdóttir er sjálfboðaliði í Hafnarfjarðardeild Rauða krossins. Hún hefur lagt sitt af mörkum með þátttöku í landssöfnunum Rauða krossins Göngum til góðs en bætti um betur fyrir ári síðan þegar hún hóf þátttöku í verkefninu „Föt sem framlag" þegar söfnun hófst á ungbarnapökkum sem sendur voru til neyðaraðstoðar í Hvíta Rússlandi. Á myndinni sést hún ljúka við að prjóna hundruðustu peysuna, auk þess hefur hún prjónað nokkrar húfur, hosur og bleijubuxur.
 
Þegar Sigríður frétti af þessu verkefni var hún nýlega búin að minnka við sig vinnu og hafði því yfir meiri frítíma að ráða. Sá hún strax að þetta væri eitthvað fyrir sig þar sem hún hefur gaman af handavinnu en jafnframt engan áhuga á því að gera eitthvað sem engan tilgang hefur. Þarna gæti hún slegið tvær flugur í einu höggi. 

4. ágú. 2010 : Styðjum Rauða krossinn í Reykjavíkurmaraþoni 21. ágúst

Rauði kross Íslands hvetur félaga og velunnara sína að heita á eða hlaupa fyrir Rauða krossinn í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 21. ágúst. Hægt er að heita á hlaupara fram að miðnætti mánudaginn 23. ágúst með því að smella á hlaupastyrkur.is.

Til að skrá áheit þarf að smella á nafn hlaupara sem ætlunin er að heita á. Þá opnast síða hlauparans með upplýsingum um vegalengd, góðgerðafélag og jafnvel stuttum texta um það hversvegna hlaupari ætlar að hlaupa fyrir viðkomandi félag. Á síðu hlauparans er hægt að heita á hann með því að greiða með kreditkorti en einnig með því að senda áheita númer hans sem sms skilaboð. Upphæðin rennur síðan til þess góðgerðarfélags sem viðkomandi hlaupari valdi þegar hann skráði sig í hlaupið.

Hlaupum til góðs fyrir Rauða kross Íslands.