30. sep. 2010 : Við erum ekki vön að láta okkar eftir liggja hér í Kópavogi!

„Nú treystum við á að bæjarbúar gangi til liðs við okkur eins og ávallt þegar við leitum eftir stuðningi“, segir Ingibjörg Lilja Diðriksdóttir formaður Kópavogsdeildar. Laugardaginn 2. október verður gengið til góðs í Kópavogi og er stefnt á að ganga með söfnunarbauka í hvert hús í bænum og þarf deildin því á mörgum sjálfboðaliðum að halda, eða um 350 talsins.

Söfnunarfénu verður varið til verkefna Rauða kross Íslands í Afríku, sérstaklega til barna- og ungmennaverkefna í Malaví og Síerra Leóne. Í Malaví aðstoðar Rauði krossinn börn sem eiga um sárt að binda vegna alnæmis og í Síerra Leóne er unnið að stuðningi við stríðshrjáð börn og barnahermenn. Féð gerir Rauða krossinum meðal annars kleift að gefa munaðarlausum börnum eina heita máltíð á dag í athvörfum, þar sem þau geta líka leikið sér og fengið uppbyggjandi fræðslu. Sjálfshjálparhópar alnæmissmitaðra fá einnig aðstoð við að koma sér upp matjurtargörðum og að minnsta kosti 150 stríðshrjáð ungmenni á ári fá kennslu í lestri, skrift og ýmsum iðngreinum sem færir þeim aukin tækifæri í lífinu.

17. sep. 2010 : Sam-Frímúrarareglan færir Konukoti gjöf

Konukot, athvarf Rauða krossins fyrir heimilislausar konur, fékk í vikunni til sín góða gesti. Það voru meðlimir Sam-Frímúrarareglunnar, Le Droit Humain (sem á frönsku merkir mannréttindi eða mannlegt réttlæti) sem færðu athvarfinu styrk að upphæð 200 þúsund krónur.

Konukot er næturathvarf fyrir heimilislausar konur, samstarfsverkefni Reykjavíkurdeildar Rrauða kross Íslands og Reykavíkurborgar. Nánar um Konukot með því að smella hér.

3. sep. 2010 : Starfið á árinu 2009

2. sep. 2010 : Vel heppnuð bæjarhátíð

Bæjarhátíð Mosfellinga, Í túninu heima, sem fram fór síðustu helgi, var mjög vel heppnuð. Mismunandi hverfalitir prýddu allan bæinn og svo heppilega vildi til að húsnæði Kjósarsýsludeildar Rauða krossins, Þverholt 7 var einmitt í rauða hverfinu.

Deildin var með kynningarbás í íþróttahúsinu Varmá og kaffi fyrir sjálfboðaliða og velunnara deildarinnar að hátíð lokinni. Gaman var að finna áhuga og velvilja bæjarbúa á starfi Rauða krossins og þökkum við öllum kærlega fyrir innlit í básinn og kaffið!
 

 

1. sep. 2010 : SJÁ 102 í Flensborgarskóla

Áfanginn SJÁ102 er að fara í gang þessa haustönnina í Flensborgarskóla. Nemendur geta tekið þátt í sjálfboðnu starfi hjá Hafnarfjarðardeild Rauða krossins, farið á námskeið og lagt sitt af mörkum í fjáröflunarverkefni og fengið 2 einingar fyrir.

Meðal verkefna í boði eru: Heimsóknavinir, störf í Læk - athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, ungmennastarf og starf í Rauða krossbúðinni. Nemendur fá fræðslu um hugsjónir og störf Rauða kross hreyfingarinnar og sækja annað námskeið fyrir sjálfboðaliða. Einnig munu nemendur vinna kynningar- og fjáröflunarverkefni. Nemendur skrifa dagbók um vinnu sína. Áfanginn byggir á hugmyndum um þátttökunám (service learning) og er próflaus.