20. okt. 2010 : Hafnarfjarðardeild sinnir félagsstarfi fyrir hælisleitendur

Sumarið 2009 hófst mánaðarlegt félagsstarf fyrir hælisleitendur. Hópur sjálfboðaliða hjá Hafnarfjarðardeild Rauða krossins hafa séð alfarið um skipulag og framkvæmd starfsins og bjóða uppá fjölbreytta dagskrá svo sem ferðalög, danskvöld, tölvuleikjakvöld og hátíðarkvöldverð. Ferðalög eru alltaf vinsælust og hefur verið boðið upp á ferð í Bláa Lónið, réttir og náttúruskoðanir.

Deildirnar í Grindavík, Hveragerði, Vík og Vestmannaeyjum hafa allar tekið höfðinglega á móti þessum hópi auk þess sem Suðurnesjadeild hefur lánað húsnæði sitt undir spilakvöld og aðra viðburði sem fara fram í Reykjanesbæ.

Verkefnið hefur því í senn verið lyftistöng í félagslífi hælisleitenda sem og aukið á samstarf Rauða kross deilda og sjálfboðaliða þeirra.

15. okt. 2010 : Rauða kross búð á Garðatorgi - Opnunarhátíð og „List til góðs”

Laugardaginn 16. október næstkomandi kl. 13:00 -15:00 mun Garðabæjardeild Rauða krossins í samstarfi við Fatasöfnun Rauða kross Íslands opna fataverslun á Garðatorgi sem mun selja notaðan fatnað. Búðin verður mönnuð sjálfboðaliðum úr Garðabæ og allur hagnaður af sölu fatnaðarins rennur í Hjálparsjóð Rauða krossins. Af tilefni opnunarinnar býður Garðabæjardeild Rauða krossins til hátíðar á Garðatorgi (Hrísmóum 4). Allir eru velkomnir.

12. okt. 2010 : Laganemar og lögfræðingar vinna að réttindagæslu

Réttindagæsla fyrir hælisleitendur er verkefni sem hóf göngu sína sumarið 2009 á vegum Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins. Sjálfboðaliðarnir sem sinna verkefninu eru laganemar og lögfræðingar. Unnið er í samstarfi við deildina og félaganna Orator og Lögréttu.

Sjálfboðaliðarnir fylgja hælisleitendum í hælisskýrslu, aðstoða þá við gerð greinargerða til Útlendingastofnunar og fylgja þeim í birtingu þegar hælismáli er lokið.

Það er samdóma álit þeirra sem að verkefninu koma að vinna sjálfboðaliða Rauða krossins skipti sköpum fyrir fólk í þessari stöðu. Um 15 manna hópur hefur sinnt þessu verkefni en nýlega bættust 12 nýir sjálfboðaliðar við.

Réttindagæslan er hluti af verkefnum Hafnarfjarðardeildar til stuðnings hælisleitendum en að auki er boðið uppá heimsóknaþjónustu, félagsstarf og stuðningsfjölskyldur.

1. okt. 2010 : Hvaða götu ætlar þú að taka?

Rauði krossinn hvetur landsmenn til að taka þátt í landssöfnuninni Göngum til góðs laugardaginn 2. október.  Markmiðið er að fá 3.000 sjálfboðaliða til að ganga í öll hús á landinu og safna fyrir verkefni Rauða krossins í Afríku.

Ýmsir þekktir einstaklingar leggja Rauða krossinum lið í söfnuninni, og mun rapparinn Erpur Eyvindarson standa vaktina í heimabæ sínum Kópavogi megnið af deginum, og fjölmiðlakonan Tobba Marinós ætlar að standa við stóru orðin og taka Karlagötuna.

Þá munu Íslandsmeistararnir í knattspyrnu karla, meistaraflokkur Breiðabliks, ganga fyrir Rauða krossinn í Kópavogi.