29. nóv. 2010 : Starfsmenn leikskóla búa til jólagjafir

Starfsfólk á leikskólunum Reykjakoti og Hlaðhömrum í Mosfellsbæ hafa setið við í frítíma sínum undanfarna mánuði og prjónað húfur, vettlinga, sokka, ennisbönd, peysur og ýmislegt fleira. 

Í síðustu viku komu þau saman og pökkuðu prjónavörunum ásamt ýmsu öðru í 60 glæsilegar jólagjafir fyrir börn á leikskólaaldri. Leitað var til nokkurra fyrirtækja um aðstoð til að gera gjafirnar sem veglegastar og fengust góðar gjafir frá Barnasmiðjunni, Diplo eht, Ístex, Nóa Síríus og Bókaútgáfunni Sölku ehf.   

Gjafirnar voru afhentar Kjósarsýsludeild Rauða krossins sem mun úthluta  þeim í samvinnu við Lágafellskirkju.

25. nóv. 2010 : Skyndihjálparhópur höfuðborgarsvæðisins tekur til starfa

Neyðarnefnd deilda Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu og Ungmennadeild Rauða krossins í Reykjavík (URKÍ-R) hafa gert með sér samstarfssamning um starfsemi Skyndihjálparhóps.

Skyndihjálparhópurinn er tilraunaverkefni til þriggja ára og getur fólk allt frá 16 ára aldri tekið þátt í starfinu. URKÍ-R mun sjá um sjálfboðaliða hópsins á aldrinum 16-25 ára sem annast sjúkragæslu á viðburðum framhaldsskóla, en Neyðarnefnd heldur utan um starf fyrir sjálfboðaliða 23 ára og eldri sem standa munu fyrir fræðslu, kynningum og að draga úr skaða hjá ýmsum jaðarhópum í samfélaginu. Aðeins sjálfboðaliðar sem eru sjálfráða geta tekið þátt í gæslu og viðburðum, en ungt fólk á aldrinum 16-18 ára getur tekið þátt í æfingum og þjálfun. Allir sjálfboðaliðar Skyndihjálparhóps sem taka vaktir í gæslu og/eða viðburðum fara í inntökuviðtöl og fá góða skyndihjálparþjálfun.

24. nóv. 2010 : Atvinnuleitendur pakka jólagjöfum fyrir Mæðrastyrksnefnd Kópavogs

Ungir atvinnuleitendur sem taka þátt í sjálfboðaliðastarfi Rauða krossins aðstoðuðu Mæðrastyrksnefnd Kópavogs við að pakka inn jólagjöfum fyrir jólaúthlutunina í desember. Það skapaðist jólastemning í hópnum og einn sjálfboðaliði hafði jafnvel orð á því að þetta væri ágætis upphitun fyrir jólainnpökkun fjölskyldunnar.

Þessir atvinnuleitendur taka þátt í verkefnum þar sem blandað er saman atvinnuleit og sjálfboðaliðastarfi. Sjálfboðaliðarnir í verkefninu hafa tekið þátt í ýmsum störfum hjá Rauða krossinum síðustu mánuði eins og unnið í athvörfum fyrir fólk með geðraskanir, fatasöfnun, með innflytjendum og nýtt sér starf Rauðakrosshúsanna.

22. nóv. 2010 : Roksala á markaði Kópavogsdeildar

Fjöldi fólks mætti í Rauðakrosshúsið í Kópavogi á laugardaginn og gerði góð kaup á handverksmarkaði MK-nema. Til sölu voru alls konar prjónavörur, kökur, brjóstsykur, jólakort og handverk frá vinadeild í Mósambík. Alls seldust vörur fyrir 300.000 þúsund krónur. Ágóðinn rennur til verkefna innanlands.

Handverksmarkaðurinn var lokaverkefni MK-nemanna í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf. Markmið áfangans er að nemendur kynnist sjálfboðnu starfi hjá Rauða krossi Íslands. Nemendur vinna sem sjálfboðaliðar yfir önnina í samráði við kennara í MK og Kópavogsdeildina. Meðal verkefna í boði eru aðstoð við aldraða og einmana, störf í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, og félagsstarf með ungum innflytjendum. Nemendur fá fræðslu um hugsjónir og störf Rauða kross hreyfingarinnar og sækja námskeið fyrir sjálfboðaliða.

16. nóv. 2010 : Börn og ungmenni í starfi Kópavogsdeildar útbúa handverk fyrir markað

Síðustu vikur hafa börnin í Enter og unglingarnir í Eldhugum, barna- og unglingastarfi Kópavogsdeildarinnar unnið að gerð handverks sem selt verður á markaði hennar á laugardaginn, 20. nóvember næstkomandi. Vinnan hefur gengið vel en Enter börnin hafa unnið að gerð dagatals og Eldhugarnir búið til lakkrísbrjóstsykur. Þess má einnig geta að ungmenni úr Plúsnum, starfi fyrir 16-24 ára sjálfboðaliða, hafa búið til hálsklúta, hárskraut og skartgripi sem einnig verða til sölu á markaðinum.

Markaðurinn verður haldinn í Rauðakrosshúsinu, Hamraborg 11, 2. hæð, og stendur frá kl. 11-16. Þar verður einnig selt fleira handverk, eins og prjónavörur, sem unnið er af sjálfboðaliðum deildarinnar, heimagerðar kökur og handgerðir munir frá Mósambík.

9. nóv. 2010 : Félagsvinir hittast og skera út í ávexti

Þátttakendur í verkefninu Félagsvinir kvenna af erlendum uppruna gerðu sér glaðan dag nú í nóvember. Konurnar hittust í Rauðakrosshúsinu í Borgartúni 25 og skáru út í ávexti undir góðri leiðsögn Sonju, sem er fagkona á þessu sviði. Ávaxtaskurður sem þessi er tælenskur siður og gleður bæði augu og bragðlauka.

Það er vandasamt verk að skera út svo vel sé og ekki á allra færi, það var ótrúlegt hvað sumar kvennanna voru fljótar að tileinka sér handbragðið og hver melónan á fætur annarri var færð í nýjan búning. Það var mikið hlegið og spjallað en þegar einbeitingin náði hámarki færðist hljóð yfir hópinn.