29. des. 2010 : Ungir Hafnfirðingar láta sig mannúðarmálin varða

Börnin á leikskólanum Norðurbergi í Hafnarfirði hafa um árabil styrkt hjálparstarf Rauða krossins. Það gera þau með því að safna dósum og flöskum sem þau tína í göngutúrum sínum í nágrenninu og eitthvað kemur heiman að frá. Þau heimsóttu Hafnarfjarðardeildina fyrir skömmu og sungu nokkur lög fyrir starfsfólkið sem skemmti sér vel.

Alls söfnuðu börnin á Norðurbergi samtals 21.043 krónum í ár. Peningarnir fara í sjóð „tombólubarna“ sem er notaður til að kaupa skólavörur fyrir börnin á Haítí sem eiga um sárt að binda eftir hamfarirnar.

26. des. 2010 : Sjálboðaliðar óskast sem stuðningsfjölskyldur flóttamanna

Þann 10. desember síðastliðin komu til landsins tvær flóttafjölskyldur frá Kólumbíu í boði ríkisstjórnar Íslands, en fjölskyldurnar hafa nú sest að í Reykjavík.

Reykjavíkurdeild Rauða krossins óskar eftir sjálfboðaliðum til að sinna stuðningsfjölskylduhlutverki við flóttamannafjölskyldurnar.

Áhugsamir hafi samband við:

Karen H. Theodórsdóttir, [email protected]
Sími 545-0404

eða

Jeimmy Andrea, [email protected]

17. des. 2010 : Margt og mikið að gerast hjá Móral

Krakkarnir í Móral, ungmennastarfi Kjósarsýsludeildar Rauða krossins, héldu jólamarkað í Álafosskvosinni nú í desember. Til sölu voru fjölbreyttar og fallegar prjónavörur frá sjálfboðaliðum og velunnurum deildarinnar og ilmandi heimagerður brjóstsykur sem krakkarnir höfðu útbúið.

Ágóði markaðsins var 50.000 krónur og rennur hann í jólaúthlutun Kjósarsýsludeildar

Mórall er hópur krakka 13-16 ára sem hittist alla mánudaga kl. 20 í Þverholti 7.

Krakkarnir fræðast um Rauða krossinn, vinna verkefni tengd hugsjónum og starfi Rauða krossins um allan heim, fara í ferðir og hitta aðrar ungmennadeildir. Það kostar ekkert að vera með. Komdu og kíktu ef þú þorir....

16. des. 2010 : Viltu bregðast við í neyð?

Viðbragðshópur Höfuðborgarsvæðis getur bætt við sig fleiri sjálfboðaliðum. Viðbragðshópurinn sinnir neyðaraðstoð fyrir óslasaða þolendur á vettvangi bruna, vatnstjóna, rýmingar húsa og annarra alvarlegra atburða sem lenda utan skipulags almannavarna.

Hópfélagar taka bakvaktir eina viku í senn. Þeir taka námskeið áður en þeir hefja störf, m.a. í sálrænum stuðningi og úrlausnum eftir tjón. Hópurinn starfar undir Neyðarnefnd höfuðborgarsvæðis sem velur einstaklinga í hópinn. Sjálfboðaliðar þurfa að vera búnir að ná 23 ára aldri.

Næsta námskeið fyrir verðandi félaga í viðbragðshóp er fyrirhugað um miðjan febrúar og inntökuviðtöl hefjast síðustu viku í janúar.

7. des. 2010 : Heitt kakó í miðbæ Reykajvíkur

Átta þúsund bollar af heitu kakói verða gefnir alla laugardaga í desember og á Þorláksmessu. 150 sjálfboðaliðar standa vaktina á 12 stöðvum víðsvegar um miðbæinn. Tilgangurinn er að safna til styrktar Elínborgarsjóði Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands en sjóðnum er ætlað að styrkja einstaklinga og fjölskyldur sem á þurfa að halda.

Með sjálfboðaliðum Reykjavíkurdeildar er fjöldi erlendra sjálfboðaliða á vegum SEEDS sjálfboðaliðasamtakanna en án hjálpar allra sjálfboðaliðanna væri söfnun sem þessi ógerleg.

6. des. 2010 : Tombólukrakkar í bíó

Mikil stemning var í Laugarásbíó nú um helgina á degi sjálfboðaliðans, 5. desember, þegar kvikmyndahúsið bauð öllum krökkum sem eiga heima á höfuðborgarsvæðinu og voru með tombólu á árinu í bíó. Myndin sem var sýnd heitir Arthúr 3 en hún kom út í nóvember á þessu ári.

Tæplega einni milljón króna var safnað af 550 tombólubörnum á liðnu ári og er það met framlag frá þessum yngsta hópi styrktarmanna Rauða kross Íslands.

3. des. 2010 : Hekla er heimilishundur með hlutverk

Fyrsti hundurinn til að sinna sjálfboðnu starfi fyrir Rauða krossinn í Mosfellsbæ heitir Hekla. Hún er vinaleg blendingstík og heimilishundur Völu Friðriksdóttur líffræðings. Hekla gegnir margföldu hlutverki sem heimsóknavinur Rauða krossins.

2. des. 2010 : Það er gott að láta gott af sér leiða - Viðtal við sjálfboðaliða

Rakel Sara Hjartardóttir er 19 ára Kópavogsbúi sem hefur verið sjálfboðaliði hjá Kópavogsdeild í hátt á annað ár. Hún hefur unnið með börnunum í Enter en þau eru ungir innflytjendur á aldrinum 9-12 ára. Verkefnið er unnið í samvinnu við móttökudeild nýbúa í Álfhólsskóla og hófst árið 2004. Börnin koma einu sinni í viku eftir skóla í Rauðakrosshúsið Hamraborg 11 og fá meðal annars málörvun og fræðslu í gegnum fjölbreytta leiki og vettvangsferðir. Markmið verkefnisins er að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því.

Rakel Sara ákvað í byrjun að gerast sjálfboðaliði þar sem hún hafði frítíma sem hún vildi nýta til góðs. Þá hafði hún heyrt af Rauða krossinum í Kópavogi í gegnum vinkonu sína. Hún hafði því samband við Kópavogsdeild, fór í viðtal og fékk að heyra hvaða sjálfboðaliðastörf væru í boði fyrir hana. Hún hafði sérstakan áhuga á því að vinna með börnum og þess vegna varð Enter-starfið fyrir valinu.