9. des. 2011 : Sparifataskipti

Barnafata skiptimarkaður fyrir 12 ára og yngri er starfræktur í Rauðakrosshúsinu Þverholti 7 alla þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 10-13.  Þar er hægt að skipta heillegum fatnaði og skóm í aðrar stærðir og gerðir.  Markaðurinn er ókeypis og opinn fyrir alla.  Fram að jólum verður einnig hægt að skipta á sparifötum og skóm og því upplagt fyrir foreldra að koma og skipta þeim fötum sem börnin eru vaxin upp úr yfir í önnur sem passa betur!

2. des. 2011 : Aðventusúpa í tilefni af alþjóðadegi sjálfboðaliðans

Sunnudaginn 4. desember kl. 11-13 verður boðið upp á rjúkandi aðventusúpu hér í Þverholtinu.  Tilefnið er alþjóðadagur sjálfboðaliðans og vonumst við til að sem flestir sjái sér fært að koma og eiga ljúfa stund með okkur áður en tekist er á við kuldabola og jólastúss.

Hlökkum til að sjá ykkur!

29. nóv. 2011 : Brjóstsykurgerð hjá Móral

Það var sætur fundur hjá Móral í gær, en þá bjuggu krakkarnir til marglitan og ljúffengan brjóstsykur.  Af mikilli hugulsemi skildu krakkarnir nokkra brjóstsykra eftir fyrir gesti Rauðakrosshússins og voru þeir bruddir með ánægju hér í morgun.

29. nóv. 2011 : Brjóstsykurgerð hjá Móral

Það var sætur fundur hjá Móral í gær, en þá bjuggu krakkarnir til marglitan og ljúffengan brjóstsykur.  Af mikilli hugulsemi skildu krakkarnir nokkra brjóstsykra eftir fyrir gesti Rauðakrosshússins og voru þeir bruddir með ánægju hér í morgun.

28. nóv. 2011 : Tvö hundruð og sjötíu þúsund söfnuðust á jólabasar Kópavogsdeildar

Jólabasar deildarinnar var haldin á laugardaginn síðastliðinn og var afraksturinn 270 þúsund krónur. Fjármagnið verður nýtt í verkefni deildarinnar innanlands. Á basarnum var hægt að gera góð kaup á alls kyns prjónavörum og jólaföndri. Sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag lögðu til prjónavörur og sjálfboðaliðar í sérstökum basarhópi lögðu til ýmis konar jólaföndur en hópurinn tók til starfa í haust í þeim tilgangi að útbúa handverk á basarinn. Enn er handverk til sölu í Rauðakrosshúsinu í Hamraborg 11, 2. hæð, og hægt að gera góð kaup á virkum dögum kl. 9-15

28. nóv. 2011 : Deiglan með opið hús á laugardögum

Deiglan, virknisetur atvinnuleitenda í Hafnarfirði, mun verða með opið hús alla laugardaga í aðventunni. Nú um helgina var fyrsta opnunin þar sem gestir Deiglunnar sýndu hvernig á að bera sig að við ýmiskonar handverksgerð auk þess sem handgerðir munir voru til sölu. Gestir og gangandi gátu fengið sér rjúkandi kakó, kaffi og nýbakaðar vöfflur gegn frjálsu framlagi.

Að sögn Guðrúnar Ólafsdóttur, verkefnisstjóra Deiglunnar, var aðsókn mjög góð og mikill áhugi á því kraftmikla starfi sem boðið er uppá í Deiglunni. Það er því tilhlökkun í hópnum um framhaldið og þegar byrjað að skipuleggja næstu opnun sem verður laugardaginn 3. desember frá 13-18.

Fyrir framan Rauðakrosshúsið í Hafnarfirði kúrir Jólaþorpið svo upplagt er að slá tvær flugur í einu höggi og heimsækja þorpið og Deigluna í sömu ferð.

 

25. nóv. 2011 : Jólasöfnun Rauðakrossins í Reykjavík - sjálfboðaliðar óskast.

Líkt og undanfarin ár stendur Reykjavíkurdeild Rauða krossins að úthlutunum til þeirra sem minna mega sín í formi fjárstyrkja í samstarfi við Hjálparstofnun kirkjunnar. Ljóst er að þörfin fyrir aðstoð um hátíðirnar hefur síst minnkað frá fyrra ári.

Við leitum nú til sjálfboðaliða okkar um að taka að sér að gefa kakó til gesta og gangandi í miðbænum á laugardögum  í desember og safna um leið til styrktar jólaúthlutunum. Á hverri starfsstöð verður staðsettur söfnunarbaukur Rauða krossins og mun allt það fé sem safnast renna beint í jólaúthlutanir.

Kaupmenn við umræddar verslunargötur leggja til aðstöðu við 10 verslanir, borð, skreytingar og piparkökur. Þá munu sjálfboðaliðasamtökin SEEDS hjálpa til við kakódreifinguna með því að reka þrjár uppáhellingarstöðvar. Mjólkin verður í boði MS, súkkulaði til uppáhellingar í boði Nóa-Síríus og drykkjarílát í boði Gevalia.

21. nóv. 2011 : Gott vinnuframlag í Kópavogi!

Kópavogsdeild barst rausnarlegt framlag til starfseminnar frá sjálfboðaliðasamtökunum Veraldarvinir - Worldwide Friends á dögunum  þar sem  sjálfboðaliðar þaðan lögðu fram krafta sína. Sjálfboðaliðar úr félaginu sinna á ári hverju ýmsum verkefnum bæði fyrir ríki, einstaklinga og stofnanir. Má þar nefna umhverfisverkefni og aðstoð við bændur. Á veturna fækkar verkefnum fyrir hópinn og  þess vegna höfðu þau samband við Kópavogsdeild og buðu fram aðstoð sína.

21. nóv. 2011 : Ungir heimsóknavinir

Verkefnið Ungir heimsóknavinir er unnið í samstarfi við Hlaðhamra / Eirhamra, Lágafellsskóla og Varmárskóla.  Í síðustu viku fóru vaskir krakkar úr Varmárskóla í heimsókn á dvalarheimilið, spjölluðu og sungu fyrir íbúana og kynntu sér starfsemina.

21. nóv. 2011 : Ungir heimsóknavinir

Verkefnið Ungir heimsóknavinir er unnið í samstarfi við Hlaðhamra / Eirhamra, Lágafellsskóla og Varmárskóla.  Í síðustu viku fóru vaskir krakkar úr Varmárskóla í heimsókn á dvalarheimilið, spjölluðu og sungu fyrir íbúana og kynntu sér starfsemina.

14. nóv. 2011 : Duglegur vinkvennahópur

Vinkonurnar Helena Ósk Baldursdóttir, Rebekka Rán Kristjánsdóttir, Rakel Rut Kristjánsdóttir, Viktoría Karen Ottósdóttir, Sigrún María Steinsgrímsdóttir og Líf Þórðardóttir föndruðu skraut úr pappa og seldu á Kjalarnesi.  Hver hlutur kostaði 5-10 krónur, en nokkrir gáfu þeim meira og tókst þannig að safna 9.201 krónu, svo þær hafa heldur betur verið duglegar að föndra og selja.

 

14. nóv. 2011 : Duglegur vinkvennahópur

Vinkonurnar Helena Ósk Baldursdóttir, Rebekka Rán Kristjánsdóttir, Rakel Rut Kristjánsdóttir, Viktoría Karen Ottósdóttir, Sigrún María Steinsgrímsdóttir og Líf Þórðardóttir föndruðu skraut úr pappa og seldu á Kjalarnesi.  Hver hlutur kostaði 5-10 krónur, en nokkrir gáfu þeim meira og tókst þannig að safna 9.201 krónu, svo þær hafa heldur betur verið duglegar að föndra og selja.

 

6. nóv. 2011 : Halloween partý hjá Móral

Mikið fjör var á síðasta fundi Mórals, ungmennastarfs Kjósarsýsludeildar, en þá var haldið Halloween partý. Mórall er hópur krakka 13-16 ára sem hittist alla mánudaga kl. 19:30 í Þverholti 7. 

Fleiri myndir má finna á Facebooksíðu deildarinnar hérna. 

Í Móral fræðast krakkarnir um Rauða krossinn, vinna verkefni tengd hugsjónum og starfi Rauða krossins um allan heim, fara í ferðir og hitta aðrar ungmennadeildir.  Það kostar ekkert að vera með okkur.  Komdu og kíktu ef þú þorir....

2. nóv. 2011 : Tilkynning - neyðaraðstoð fyrir jólin í Kópavogi

Mæðrastyrksnefnd Kópavogs og Kópavogsdeild Rauða krossins veita neyðaraðstoð fyrir komandi jól til þeirra sem eiga lögheimili í Kópavogi þann 1. desember 2011. Tekið er á móti umsóknum frá 7. nóvember til og með 6. desember.

28. okt. 2011 : Hópstjórar óskast í verkefni Kópavogsdeildar

Kópavogsdeild vantar sjálfboðaliða til að vera hópstjórar í nokkrum verkefnum eins og heimsóknaþjónustu, Föt sem framlag og basarhóp. Hlutverk hópstjóra í heimsóknaþjónustu er meðal annars að stýra og undirbúa mánaðarlegar samverur, taka þátt í námskeiðum fyrir nýja heimsóknavini og önnur tilfallandi verkefni í samráði við verkefnastjóra. Í verkefninu Föt sem framlag vantar hópstjóra til að hafa umsjón með veitingum og öðrum tilfallandi verkefnum í mánaðarlegu prjónakaffi. Hlutverk hópstjóra í basarhóp er að undirbúa vikulegar samverur, hafa umsjón með handavinnunni og önnur tilfallandi verkefni.

27. okt. 2011 : Takk fyrir Hafnfirðingar!

25. okt. 2011 : Vinkonur sungu til styrktar Rauða krossinum

Vinkonurnar Júlía Guðbjörg Gunnarsdóttir og Helena Freysdóttir ákváðu að safna fyrir Rauða krossinn á dögunum með því að syngja fyrir fólk og biðja um framlög í staðinn. Með þessu framtaki sínu söfnuðu þær um 4.000 krónum sem þær færðu Rauða krossinum.

24. okt. 2011 : Afrakstur söfnunar í Rauðkrossvikunni ríflega 500 þúsund krónur

Söfnunin sem Kópavogsdeild stóð fyrir í Kópavogi á fimmtudag, föstudag og laugardag gekk mjög vel og söfnuðust ríflega 500 þúsund krónur. Sjálfboðaliðar deildarinnar stóðu á fjölförnum stöðum í bænum með söfnunarbauka en baukarnir voru einnig staðsettir hjá nokkrum fyrirtækjum. Aksturinn mun nýtast vel í starfi deildarinnar og styrkja þau fjölmörgu verkefni hún sinnir. Deildin þakkar kærlega öllum þeim sem gáfu í söfnunina sem og sjálfboðaliðunum sem stóðu vaktirnar.

18. okt. 2011 : Viðtal við Sigrúnu Guðmundsdóttur, gestgjafa í heimsóknaþjónustu

Sigrún Guðmundsdóttir, sem er nýorðin 84 ára, hefur fengið til sín heimsóknavin frá Kópavogsdeild um nokkurra mánaða skeið. Dóttir Sigrúnar hafði samband við deildina fyrir hönd móður sinnar og óskaði eftir heimsóknavin fyrir hana. Sigrún og heimsóknavinurinn hittast einu sinni í viku og finnst henni það ágæt tilbreyting. Þau fara út að ganga saman og henni finnst gott að hafa stuðninginn í göngutúrunum. „Það er gott að fá félagsskapinn“, segir hún einnig og mælir með heimsóknaþjónustunni.

17. okt. 2011 : Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, heimsótti Kópavogsdeild í dag

Í tilefni af Rauðakrossvikunni, sérstakri kynningarviku Rauða krossins, sem hófst í dag heimsótti Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Kópavogsdeild en forsetinn er verndari hreyfingarinnar á Íslandi. Hann hitti hóp af ungum sjálfboðaliðum og kynnti sér störf þeirra fyrir deildina. Hér voru komnir saman ungir sjálfboðaliðar sem taka þátt í verkefnum eins og Enter, Eldhugum, Plúsnum og heimsóknaþjónustu. Þeir sögðu honum frá verkefnunum, hvað þau gera fyrir deildina og hvað sjálfboðna starfið gefur þeim. Þá ræddu þeir við forsetann um mikilvægi sjálfboðaliðastarfa og hversu skemmtilegt og gefandi starfið er.

30. ágú. 2011 : Met slegið í gerð ungbarnapakka

Í síðustu viku vann prjónahópur Hafnarfjarðardeildar að því að pakka afrakstri vorsins og sumarsins í ungbarnapakkagerðinni. Alls var pakkað í 55 pakka og því ljóst að hópurinn hefur slegið met sitt í fjölda pakka frá fyrra ári. Árið 2010 útbjó hópurinn alls121 pakka en eftir síðustu pökkun er talan fyrir árið í ár komin í 162. Því er ljóst að mun fleiri pakkar verða útbúnir á þessu ári en í fyrra.

Prjónahópurinn vinnur í verkefni sem kallast föt sem framlag. Í því verkefni eru einnig nokkrar liðtækar saumakonur sem sauma ungbarnafatnað einkum úr flísefnum en einnig úr öðrum efnum sem þykja henta fyrir ungabörn. Hægt er að taka þátt bæði með því að mæta í vikulega hittinga prjónahóps á þriðjudögum kl. 13 og einnig með því að vinna heima. Þannig eiga allir áhugasamir að geta fundið flöt á þátttöku í verkefninu.

Nýlega hóf Rauði kross Íslands einnig að útbúa fatapakka fyrir eldri börn, frá 1 árs til 12 ára. Verða þeir pakkar sendir til Rauða krossins í Hvíta-Rússlandi en ungbarnapakkarnir fara bæði til Hvíta-Rússlands og Malaví.
 

25. ágú. 2011 : Viðtal við sjálfboðaliða: Íris Sigurðardóttir

Íris Sigurðardóttir er ungur sjálfboðaliði hjá Kópavogsdeildinni sem sinnir sjálfboðnu starfi í verkefninu Viltu tala meiri íslensku? Hún, ásamt fleiri sjálfboðaliðum, sér um vikulegar samverur þar sem íslenskir sjálfboðaliðar hitta fólk af erlendum uppruna sem vill æfa sig í að tala íslensku. Markmiðið er að gefa þeim sem vilja læra meiri íslensku tækifæri til að nota málið og auka við orðaforða sinn.

Íris hafði lengi hugsað um að gerast sjálfboðaliði og gera gagn. Hún segir: „Maður getur alltaf fundið tíma til að gera eitthvað sem gerir öðrum gott og þá fer manni sjálfum líka að líða betur.“ Hún segist hafa kynnst yndislegu fólki sem býr yfir ótrúlegum krafti og metnaði og hún dáist að því. Það er hvatning fyrir hana að sjá hvað fólk getur lagt mikið á sig til að ná markmiðum sínum.

12. júl. 2011 : Rauði krossinn virkjaður vegna slyss í Múlakvísl

Deildir Rauða krossins á Vík og á Kirkjubæjarklaustri voru virkjaðar í dag vegna bílslyss í Núpsvötnum. Í bílnum voru 17 farþegar sem voru á leið austur en slysið átti sér stað þegar verið var að ferja farþegana yfir ána.

Opnaðar voru fjöldahjálparstöðvar og sjálfboðaliðar deildanna voru í viðbragðsstöðu til að veita farþegum aðhlynningu og sálrænan stuðning.
 

12. júl. 2011 : Neyðarnefnd á höfuðborgarsvæði kölluð út vegna bruna í Hringrás

Neyðarnefnd Rauða kross deilda á höfuðborgarsvæðinu og fulltrúi deildanna í aðgerðastjórn almannavarna höfuðborgarsvæðisins var kölluð út um fjögurleytið í nótt vegna stórbruna á endurvinnslusvæði Hringrásar í Sundahöfn.

Undirbúningur að rýmingu hófst strax en ekki þurfti að koma til rýmingar þar sem vindátt var afar hagstæð og beindi reyknum út á haf. Aðgerðum Rauða krossins lauk um klukkan 8.

8. júl. 2011 : Skyndihjálparhópur að störfum

Nýstofnaður skyndihjálparhópur deilda Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu hefur nóg fyrir stafni þessa dagana. Síðustu vikur hafa sjálfboðaliðar hópsins heimsótt fjölmörg sumarnámskeið Rauða krossins og verið með stuttar skyndihjálparkynningar. Þá er hópurinn duglegur við að halda fundi og þróa starfið. Flestir fundir hópsins eru með þjóðfundarsniði þar sem tryggt er að skoðanir allra komi fram.

Hópurinn hefur sett sér metnaðarfull markmið um að fjölga þátttakendum á skyndihjálparnámskeiðum Rauða krossins verulega og ætlar að nýta til þess ýmsar leiðir eins og heimsóknir til fyrirtækja og stofnana, skyndihjálparkynningar í verslunarmiðstöðvum, fjölbreytta útgáfu kynningarefnis og bæjarhátíðir.

29. jún. 2011 : Gestir Dvalar heimækja Hvanneyri

Gestir Dvalar og starfsmenn lögðu á dögunum land undir fót og var ferðinni heitið til  Hvanneyrar. Þátttakan var mjög góð og hópurinn söng á leiðinni ásamt því að njóta leiðsagnar um það sem fyrir augu bar. Það var tekið vel á móti hópnum á Hvanneyri og hann fékk fræðslu um traktora og önnur gömul tæki auk þess að skoða kirkjuna á staðnum. Þá var einnig komið við í Ullarsetrinu þar sem hópurinn kynnti sér garn og prjónavörur.

Á heimleiðinni var svo keyptur ís fyrir alla og það er óhætt að segja að dagurinn hafi verið viðburðaríkur og ánægjulegur. Einn gestanna spurði hvort ekki væri boðið upp á hvíld að loknu ferðalaginu en allir komu þreyttir en sælir í bæinn.

22. jún. 2011 : Mannúð og menning byrjar á fullum krafti

Mannúð og menning, leikjanámskeið Rauða krossins í Reykjavík byrjaði 6. júní síðastliðinn. Fullt var á námskeiðið en hvert námskeið getur tekið á móti 50 börnum á aldrinum 7-12 ára. Börnin voru einstaklega glöð með dagskrána enda er hún fjölbreytt og lifandi en áhersla er lögð á Rauða kross fræðslu í gegnum skemmtilega leiki. Samtals verða haldin sjö námskeið í sumar en ennþá eru laus pláss á nokkur námskeið.

Skráning fer fram á vef Rauða krossins í Reykjavík.

16. jún. 2011 : Aðstoð Rauða krossins vegna húsbruna

Útkall barst frá Neyðarlínunni rétt fyrir klukkan tvö í nótt og óskað eftir aðstoð Rauða krossins vegna húsbruna í fjölbýlishúsi við Skúlagötu.

10. jún. 2011 : Ungir sjálfboðaliðar stóðu fyrir söfnun til styrktar Japans

Elvar Bragi Bjarkason, sjálfboðaliði Kópavogsdeildar Rauða krossins, stóð fyrir söfnun þar sem hann og samnemendur hans úr Menntaskólanum við Hamrahlíð söfnuðu pening til styrktar bágstöddum í Japan. Fleiri sjálfboðaliðar úr Plúsnum, ungmennastarfi deildarinnar, tóku einnig þátt í söfnuninni.

Unga fólkið hélt tónleika ásamt því að selja kökur og handgerða hluti í Smáralind. Þá gengu sjálfboðaliðarnir um með bauka og dreifðu bankanúmeri fyrir þá sem vildu gefa til söfnunarinnar.

9. jún. 2011 : Þjóðlandakvöld á Alþjóðatorgi ungmenna

Alþjóðatorg ungmenna er nýtt verkefni sem Reykjavíkurdeild Rauða krossins hefur sett á laggirnar. Þjóðlandakvöld er eitt af því sem á dagskránni verður og var það fyrsta haldið um síðustu helgi. Þemað að þessu sinni var Litháen og var boðið uppá litháenska ljúffenga rétti, tónlist og dansa.

Markmiðið með stofnun verkefnisins er að vinna gegn fordómum og rasisma í íslensku þjóðfélagi, virkja ungt fólk af erlendum uppruna í félagsstarfi og sem málsvarar, fræða um menningarlega fjölbreytni, skapa félagslega samtöðu og vinna að umburðarlyndi.

6. jún. 2011 : Rauðakrosshúsin - virknisetur fyrir atvinnulaust fólk

Rauði krossinn stendur fyrir öflugri þjónustu fyrir þá sem eru berskjaldaðir í íslensku samfélagi. Félagið leggur áherslu á að veita þá aðstoð sem mest þörf er fyrir á hverjum tíma. Deildir félagsins hafa sett á laggirnar verkefni sem miða að því að virkja fólk og rjúfa félagslega einangrun nú þegar þúsundir landsmanna glíma við atvinnuleysi og fjárhagsörðugleika.

Rauðakrosshúsin
Rauðakrosshúsið í Borgartúni í Reykjavík fagnaði eins árs starfsafmæli í mars. Starfsemin byggir á reynslu Rauða krossins af því að bregðast við áföllum og frá upphafi hafa gestir hússins sótt þangað sálrænan og félagslegan stuðning og ráðgjöf um ýmis úrræði í samfélaginu.

3. jún. 2011 : Gaf fermingarpeninga til Malaví

Anna Rún Arnfríðardóttir, nemandi í 8. bekk Kópavogsskóla, kom færandi hendi til Kópavogsdeildar Rauða krossins með peningagjöf að upphæð 20.000 krónur. Upphæðin var hluti peninga sem hún fékk í fermingargjöf og vildi Anna Rún láta þessa fjárhæð renna til góðs. Hún óskaði eftir því að gjöfin rynni til alþjóðaverkefna en hún tók þátt í að ganga til góðs síðastliðið haust og vildi að styrkurinn rynni í sama málstað.

Styrkurinn verður því nýttur í starf Rauða kross Íslands í Malaví en þar hefur félagið unnið með malavíska Rauða krossinum síðan 2002. Mikill árangur hefur náðst í starfi Rauða kross í Malaví í þau ár sem samvinnan hefur staðið og má til að mynda nefna að árið 2009 nutu um 3.600 börn aðstoðar og fengu tækifæri til að sækja skóla ásamt því að fá fæði og klæði og félagslegan stuðning.

1. jún. 2011 : Taktu til, farðu í sund og hjálpaðu Rauða krossinum í leiðinni

Rauði kross Íslands stendur fyrir fatasöfnun um allt land á uppstigningardag, fimmtudaginn 2. júní, í samstarfi við Eimskip. Gámum verður komið fyrir við allar sundlaugar ÍTR í Reykjavík og við sundstaði í Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ.  Einnig verður gámur við hús Rauða krossins í Mosfellsbæ, og  eins verður tekið á móti fötum á móttökustöðum Eimskips Flytjanda úti á landsbyggðinni.

Rauði krossinn hvetur fólk að taka til gömul föt og vefnaðarvöru og koma þeim í notkun að nýju með því að nýta ferðina um leið og farið er í sund í góða veðrinu. Athugið að söfnunin er aðeins þennan eina dag við sundstaðina, en auðvitað er hægt að gefa fatnað og klæði allan ársins hring á söfnunarstöðum Rauða krossins á Enduvinnslustöðvum  Sorpu á höfuðborgarsvæðinu og í söfnunargáma um allt land.

30. maí 2011 : Metþátttaka í vorgleði sjálfboðaliða um helgina

Vorgleði sjálfboðaliða Kópavogsdeildar var haldin í sól og blíðu á laugardaginn í athvarfinu Dvöl við Reynihvamm 43. Sjálfboðaliðar deildarinnar fjölmenntu með maka, börn, barnabörn og aðra ættingja en vel yfir 80 manns voru mættir.

Gestirnir nutu veðurblíðunnar saman yfir grillmat og öðrum veitingum. Þeir sungu saman og börnin fengu andlitsmálun ásamt því að töframaður sýndi listir sínar. Nokkrir hundar sem starfa sem heimsóknavinir mættu einnig og slógu í gegn hjá öðrum gestum vorgleðinnar.

Myndir úr vorgleðinni má sjá ef smellt er á hlekkinn hér að neðan.
 

25. maí 2011 : Æfing hjá Viðbragðshópi höfuðborgarsvæðis

Viðbragðshópur höfuðborgarsvæðisins fékk boð um að mæta á æfingu í gær, þriðjudaginn 24. maí klukkan 17. Hópnum var stefnt á Álftanes þar sem búið var að setja upp dagskrá og aðstöðu í hjólhýsi Reykjavíkurdeildar og bílnum Frú Ragnheiði og mættir voru 22 leikarar á öllum aldri.

Æfingunni var skipt á tvær stöðvar og þolendur (leikarar) fóru á milli til að sjálfboðaliðar viðbragðshópsins fengju fleiri tækifæri til að æfa sig í viðtalstækni og sálrænum stuðningi. Þannig var að hluta komið í veg fyrir galla sem oft er á æfingum þegar mjög margir sjálfboðaliðar eru um hvern leikara.

25. maí 2011 : Ungir heimsóknavinir

Verkefnið Ungir heimsóknavinir er samstarfsverkefni Kjósarsýsludeildar Rauða krossins, dvalarheimilisins Hlaðhamra, Lágafellsskóla og Varmárskóla. Sjálfboðaliði deildarinnar sækir krakka úr sjöttu og sjöunda bekkjum í skólann og röltir með þeim á Hlaðhamra. Þar fá þau að skoða heimilið, heimsækja heimilismenn og spjalla við þá.

Í gær fóru nemendur Varmárskóla í heimsókn á Hlaðhamra og var það síðasta heimsókn þessa skólaárs. Krakkarnir voru einstaklega kurteis og áhugasöm og höfðu frá mörgu skemmtilegu að segja.  Klara Klængsdóttir, sem er gamall kennari úr Varmárskóla, sýndi krökkunum herbergið sitt og sagði frá því hvernig lífið var í Mosfellsbæ þegar hún var að alast þar upp og kenna á Brúarlandi. Klöru fannst gaman að heyra að hluti af Krummaklett, sem sprengdur var upp þegar Eirhamrar voru byggðir, er nú fyrir utan leikskólann Hlaðhamra.

Verkefnið hefur gengið einstaklega vel í vetur og er tilhlökkunarefni að taka upp þráðinn þegar skólar hefst aftur í haust.

18. maí 2011 : Ná þyrfti til fleiri virkra sprautufíkla

Frú Ragnheiður er verkefni rekið af Reykjavíkurdeild Rauða krossins. Bíll er færður á milli staða þar sem mest er þörf á þjónustunni og sjálfboðaliðar standa vaktir. Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. maí 2011.

17. maí 2011 : Vorferð Félagsvina kvenna af erlendum uppruna

Félagsvinir kvenna af erlendum uppruna gerðu sér glaðan dag þann 15. maí og fóru í ferðalag upp á Akranes. Þar tók á móti hópnum fríður flokkur sjálfboðaliða Akranesdeildar. Tilefnið var að fagna vorinu og njóta þess að eiga góða stund saman.

Það var um 35 manna hópur kvenna og barna sem lagði af stað og álíka stór hópur sem tók á móti Félagsvinunum á Akranesi. Farið var á safnasvæðið en þar var boðið upp á ratleik, sem fólk tók misalvarlega. Einnig nutu þær þess að borða saman í fallegu húsi sem heitir Stúkuhús og byggt var í upphafi 20. aldar. Að því loknu var farið í leiki þar sem keppnisskapið sagði til sín, þá skipti engu máli hvort fólk var 7 eða 57 allir náðu að skemmta sér vel og lifa sig inn í leikina.Hægt er að sjá myndir á facebook síðu verkefnisins.

12. maí 2011 : Krakkarnir í Enter hafa í ýmsu að snúast

Krakkarnir sem starfa með Kópavogsdeild Rauða krossins í verkefninu Enter hafa að undanförnu aðhafst ýmislegt skemmtilegt. Meðal annars fengu þau góða heimsókn frá Birte Harksen tónlistarkennara sem kenndi börnunum lög sem vöktu mikla athygli og lukku. Uppruni laganna var frá ýmsum löndum og meðal annars frá þeirra fæðingarlöndum. Krakkarnir lögðu nýlega leið sína í Þjóðminjasafnið. Vel var tekið á mót þeim, margt að skoða og farið var í leiki. Á næstkomandi laugardag verður farið með hópinn í hina árlegu vorferð þar sem börnin fá að fara á hestbak og leiki úti í náttúrunni.

4. maí 2011 : Mórall kynnir Rauða krossinn fyrir Lionsklúbbnum Úu

Nokkrar stelpur úr Móral, ungmennastarfi Kjósarsýsludeildar, héldu kynningu á Rauða krossinum og ungmennastarfi deildarinnar fyrir Lionskonur í klúbbnum Úu sem hélt aðalfund sinn í húsnæði deildarinnar. Sögðu þær frá verkefnum ársins og hvað framundan er hjá þeim.

Það hefur verið nóg að gera í ár hjá krökkunum í Móral. Þau hafa fræðst um Rauða krossinn og verkefni hans innanlands sem utan og tekið þátt í sameiginlegum uppákomum og ferðum með krökkum í ungmennastarfi Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu. Þau skipulögðu og héldu jólamarkað þar sem allur ágóðinn, 60.000 krónur, rann í jólaaðstoð deildarinnar. Ýmislegt er framundan hjá krökkunum, eins og skyndihjálparnámskeið og heimsókn í Fataflokkun Rauða krossins.

2. maí 2011 : Viðbragðshópur höfuðborgarsvæðisins í heimsókn hjá slökkviliðinu

Sjálfboðaliðar í viðbragðshóp höfuðborgarsvæðisins heimsóttu slökkviliðið í síðustu viku. Hópurinn vinnur náið með slökkviliðinu á vettvangi og mikilvægt að báðir aðilar séu meðvitaðir um störf hvers annars. Þó nokkrir nýliðar voru í hópnum ásamt þaulreyndum sjálfboðaliðum viðbragðshópsins.

Gestgjafarnir tóku að vonum vel á móti sjálfboðaliðunum og byrjuðu á að sýna slökkvibíla og sjúkrabíla. Það tókst þó ekki betur en svo að í upphafi kynningar var slökkviliðið og sjúkrabílar kallaðir út og sjálfboðaliðarnir urðu því af tækjakynningunni.

29. apr. 2011 : Ungmennin í Hafnarfjarðardeild brugðu sér í leikhús

Krakkarnir í ungmennastarfinu hjá Hafnarfjarðardeild fjölmenntu í Gaflaraleikhúsið í gær og sáu hina bráðskemmtilegu sýningu Fúsa Froskagleypi.

Það er mikið framundan hjá ungmennunum í maí mánuði. Farin verður óvissuferð með ungmennastarfi Kópavogsdeildar, haldin leiklistarskemmtun með leikkonunni Önnu Brynju Baldursdóttir og sameiginlegur hittingur allra krakkanna á höfuðborgarsvæðinu.

Krakkarnir í Hafnarfirði hittast á fimmtudögum kl 17:30-19:00 og eru allir velkomnir að taka þátt. Hægt er að mæta á staðinn en allar nánari upplýsingar er hægt að fá hjá starfsmönnum deildarinnar í 565 122 eða [email protected].

28. apr. 2011 : Alþjóðlegir foreldrar fengu góða heimsókn

Alþjóðlegir foreldrar hittast vikulega í Rauðakrosshúsinu í Kópavogi og eiga góða stund saman með börnunum sínum. Reglulega er boðið upp á ýmiss konar fræðslu eða viðburði sem tengist annaðhvort börnum eða innflytjendum á Íslandi. Það sem af er ári hafa Alþjóðlegir foreldrar til dæmis fengið ráðgjöf varðandi svefnvenjur ungbarna, málþroska tvítyngdra barna og auk þess fengið fræðslu um heilbrigt og gott mataræði ungbarna. Auk þess eru reglulega haldnar samverur þar sem þátttakendur koma með ,,smakk að heiman” þar sem hver kemur með smárétt frá sínu heimalandi til að kynna fyrir hinum.

Á dögunum fékk hópurinn einnig góða heimsókn frá Birte Harksen sem er dönsk og menntuð sem grunnskólakennari, en hefur síðustu ár sérhæft sig í tónlistarstarfi og starfar nú sem tónlistarkennari í tveimur leikskólum. Hún hefur einnig hlotið  þróunarstyrki í þágu tónmenntar ungra barna. Hún fór með börnunum í ýmsa leiki með söng og leiklist sem vakti mikla lukku hjá börnunum og foreldrum líkt og myndir sýna. 
 

18. apr. 2011 : Á tíræðisaldri og vinnur handverk fyrir Kópavogsdeild Rauða krossins

Fjöldi fólks lagði leið sína í Rauðakrosshúsið í Kópavogi á laugardaginn og gerði góð kaup á markaði MK-nema en markaðurinn er lokaverkefni þeirra í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf. Til sölu voru alls kyns prjónavörur og handverk sjálfboðaliða deildarinnar, brjóstsykur, lyklakippur og þá höfðu nemendur einnig útbúið veglegan kökubasar. Alls söfnuðust tæplega 230 þúsund krónur. Ágóðinn rennur til verkefna innanlands.
 
Meðal sjálfboðaliða sem unnu handverk fyrir markaðinn er Oddur Jónsson Kópavogsbúi og elsti sjálfboðaliði Kópavogsdeildar, en Oddur er fæddur þann 20. apríl 1915 og fagnar því  96 ára afmæli í næstu viku. Oddur mætti á markaðinn færandi hendi líkt og ávallt en hann lagði til gríðarlega mikið magn af sokkum og vettlingum sem hann vinnur bæði hratt og vel. Að eigin sögn hefur hann mikið gagn og gaman af sinni vinnu þrátt fyrir að sjónin sé farin að daprast aðeins.

15. apr. 2011 : Markaður Kópavogsdeildar á laugardaginn

Kópavogsdeild Rauða krossins heldur markað á morgun, laugardaginn 16. apríl kl. 11-16 í Rauðakrosshúsinu Hamraborg 11, 2.hæð.

Markaðurinn er lokaverkefni nemenda Menntaskólans í Kópavogi í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf. Einnig koma sjálfboðaliðar úr ýmsum öðrum verkefnum Kópavogsdeildar að markaðnum, ungir sem aldnir.

Til sölu verður fjölbreytt úrval af handverki sjálfboðaliða líkt og prjóna- og saumaverk fyrir allan aldur, treflar, ennisbönd, peysur og fallegar handunnar ljósaseríur. Auk þess hafa yngstu sjálfboðaliðar deildarinnar útbúið lyklakippur og sælgæti sem einnig verður til sölu. Þá verður veglegur kökubasar á staðnum.

8. apr. 2011 : Gestir athvarfa Rauða krossins sýna myndlist í Kringlunni

Gestir í athvörfum Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu hafa í vetur málað myndir, mest á masónítplötur með akrýllitum en einnig á striga. Þeir efna nú til sýningar á verkum sínum í Kringlunni, og verður hún opnuð í dag, föstudaginn 8. apríl kl. 13:30.

Rauði krossinn rekur þrjú athvörf fyrir fólk með geðraskanir á höfuðborgarsvæðinu: Vin i Reykjavík, Læk í Hafnarfirði og Dvöl í Kópavogi. Markmið athvarfanna er að rjúfa félagslega einangrun, draga úr fordómum og auka lífsgæði þeirra sem eiga við geðsjúkdóma er að stríða.

7. apr. 2011 : Námskeiði POWERtalk vel tekið

POWERtalk deildin Fífa í Kópavogi hélt þriggja kvölda námskeið fyrir atvinnuleitendur og sjálfboðaliða Rauða krossins í mars. Á námskeiðinu var farið yfir framkomu í ræðustól, líkamstjáningu, uppbyggingu ræðu og margt fleira. Almenn ánægja var með námskeiðið og höfðu sjálfboðaliðar á orði að það væri gaman að fá tækifæri til að þjálfa sig í að tala fyrir framan hóp af fólki.

Kópavogsdeild þakkar Fífu frábært framtak, hlýhug og veit að námskeiðið mun nýtast atvinnuleitendum og sjálfboðaliðum deildarinnar vel.

31. mar. 2011 : Ungir heimsóknavinir

Ungir heimsóknavinir er verkefni sem Kjósarsýsludeild Rauða krossins vinnur í samstarfi við Lágafellsskóla, Varmárskóla og dvalarheimilið Hlaðhamra. Sjálfboðaliði deildarinnar sækir krakkana í skólann og fylgir þeim á Hlaðhamra þar sem þau fá að skoða aðstöðuna og spjalla við heimilismenn. 

Á dögunum fóru sex krakkar úr sjöunda bekk Lágafellsskóla í heimsókn á Hlaðhamra. Ekkert þeirra hafði komið þangað áður og kom það þeim mjög á óvart hve margt spennandi var þar í boði. Glervinnsla var í fullum gangi, en það var ekkert síðra að skoða mannlausan líkamsræktarsalinn og bókbandsherbergið. 

30. mar. 2011 : Plúsinn afhendir styrk til Haítí

Sæunn Gísladóttir og Anna María Guðmundsdóttir fóru fyrir hópi sjálfboðaliða úr starfi Plússins, ungmennastarfi Kópavogsdeildar, og afhentu Þóri Guðmundssyni sviðsstjóra alþjóðasviðs og Sólveigu Ólafsdóttur sviðsstjóra útbreiðslusviðs, hátt í fimmtíu þúsund krónur sem söfnuðust á fatamarkaði hópsins þann 19. mars síðastliðinn.

Peningurinn verður nýttur til að styðja við börn á Haítí sem enn eiga um sárt að binda vegna jarðskjálftans sem reið yfir landið fyrir rúmu ári. Samanlagt hefur þá Plúsinn styrkt það verkefni um vel yfir hundrað þúsund krónur en þau lögðu einnig ágóða af markaði sínum á síðasta ári í sama verkefni.

17. mar. 2011 : Öflugir ungir sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar halda fatamarkað

Ungir sjálfboðaliðar úr Plúsnum, ungmennastarfi Rauða krossins í Kópavogi fyrir 16-24 ára, hafa unnið að margvíslegum verkefnum undanfarin ár og haft áhrif á samfélagið sitt með ýmsum hætti. Hægt er að taka þátt í ýmsum hópum innan Plússins líkt og stýrihópi, hönnunarhópi og fræðsluhópi.

Meðal verkefna sem Plúsinn hefur staðið að eru alþjóðleg kaffihúsakvöld, forvarnarfræðsla, viðburðir og fjáraflanir en undanfarna daga hafa þeir verið að undirbúa sinn árlega fatamarkað til styrktar góðu málefni.

3. mar. 2011 : Ný stjórn URKÍ-Kjós

Aðalfundur Ungmennadeildar Kjósarsýsludeildar RKÍ (URKÍ-Kjós) var haldinn í gær. Ár er liðið síðan deildin var stofnuð, en megin markmið hennar er að skipuleggja og stýra ungmennastarfi innan Kjósarsýsludeildar.

Helstu verkefni síðasta árs voru:
- Mórall, ungmennahópur fyrir 13-16 ára
- Sameiginlegir viðburðir með öðrum deildum höfuðborgarsvæðisins
- Sumarnámskeið fyrir 7-12 ára börn
- Kynningar í grunnskólum og framhaldsskólum
- Heimanámsaðstoð

2. mar. 2011 : Föt sem framlag í ungmennastarfinu

Í ungmennastarfi Hafnarfjarðardeildar taka krakkarnir sér ýmislegt fyrir hendur. Nýverið fræddust þau um verkefni Rauða krossins, Föt sem framlag þar sem sjálfboðaliðar á öllum aldri hanna, prjóna og sauma fatnað. Þar eru búnar til peysur, húfur, buxur, teppi, sokkar og vettlingar. Með varningnum eru búnir til ungbarnapakkar fyrri börn 0-12 mánaða sem sendir eru til þróunar- og neyðaraðstoðar erlendis t.d til Malaví og Gambíu sem og Hvíta Rússlands. Krakkarnir  horfðu á myndband um verkefnið, undirbúning og afhendingu ungbarnapakkanna í Hvíta Rússlandi.

Og börnin létu ekki á sér standa og tóku í prjónana til þess að framleiða eitthvað sem gæti komið sér vel í pökkunum.

28. feb. 2011 : Skaðaminnkun (Harm Reduction) Rauða krossins í Reykjavík

Gífurleg aukning HIV smita varð meðal fíkniefnaneytenda á Íslandi á síðasta ári.  Samkvæmt heimildum frá Landlæknisembættinu varð 100% aukning smita í þeim hópi milli áranna 2009 og 2010. Frá 1983 til 2010 hafa alls 42 fíkniefnaneytendur smitast af HIV. Þar af hefur helmingur þeirra smitast frá árinu 2007 eða 21. Sex smituðust árið 2007, fimm árið 2009 og 10 einstaklingar smituðust árið 2010.

Skaðaminnkun (Harm Reduction) sem aðferðafræði við að draga úr heilsufarsskaða þeirra sem eru í vímuefnaneyslu hefur verið að ryðja sér til rúms í Evrópu og Bandaríkjunum frá 1980. Í samfélagi þar sem vímuefnanotkun á sé stað hefur Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) bent á nauðsyn notkunar gagnreyndra inngripa sem byggjast á skaðaminnkun. Slík inngrip draga úr líkamlegum, félagslegum og efnahagslegum skaða neytenda, fjölskyldna þeirra og samfélagsins. Alþjóða skaðaminnkunar samtökin (International Harm Reduction Association (IHRA) ) skilgreinir skaðaminnkun sem:

... heildræna nálgun inngripa og aðstoðar sem byggja á lögum og reglugerðum og hafa það í forgrunni að draga úr neikvæðum heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum vímuefna á neytendur, fjölskyldur þeirra og samfélög.

Rauði krossinn í Reykjavík hefur nú tekið í notkun nýtt tæki til að auka og efla þá þjónustu sem hófst með heilsuhýsinu í október 2009. Hefur verkefnið nú fengið til afnota gamlan sjúkrabíl sem hefur verið endurinnréttaður með breytta starfsemi í huga. Bílinn, sem hlotið hefur nafnið Frú Ragnheiður í höfuð eins stofnenda Kvennadeildar Rauða krossins í Reykjavík, gerir sjálfboðaliðum verkefnisins kleyft að staðsetja sig nær markhópnum á fleiri stöðum í borginni. Þar að auki mun þjónustan framvegis vera í boði fjórum sinnum í viku í stað tvisvar sinnum og vaktir verða lengdar verulega.

21. feb. 2011 : Bjartur bregður á leik

Það er ekki bara Hafnarfjarðardeild sem á stórafmæli á árinu því að hundurinn Bjartur, sem er virkur sjálfboðaliði hjá deildinni, fagnaði nýverið 10 ára afmæli sínu.

Bjartur tekur í hverri viku þátt í sjálfboðnu starfi og heimsækir fólkið í Drafnarhúsi, dagvistun fyrir heilabilaða, ásamt Hrund eiganda sínum. En hann lætur ekki þar við sitja í góðverkum sínum heldur styður með ráðum og dáðum við bakið á Rauða kross starfinu.

Eins og almennilegum hundum sæmir fagnaði Bjartur að sjálsögðu afmæli sínum með vinum og ættingjum, jafnt tvífættum sem ferfættum. Hann fór þess sérstaklega á leit við afmælisgesti að í stað þess að kaupa gjafir handa honum legði fólk Rauða krossinum lið með fjárframlagi. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og alls safnaði Bjartur 26.601 kr. sem renna óskipt til starfs Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins.

 

6. jan. 2011 : Kópavogsdeild auglýsir eftir sjálfboðaliðum í ýmis verkefni á vorönn

Undirbúningur fyrir starf deildarinnar á vorönn er nú í fullum gangi og vantar sjálfboðaliða til að sinna ýmsum verkefnum á næstu mánuðum.

Verkefnin eru fjölbreytt og ættu flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Það er undir sjálfboðaliðum komið hversu mikið af tíma sínum þeir gefa í verkefni, hvort sem það er í hverri viku, aðra hvora viku eða sjaldnar.

Verkefnin bjóða upp á einstakt tækifæri til að láta gott af sér leiða og öðlast dýrmæta reynslu.

3. jan. 2011 : Alþjóðlegir foreldrar er verkefni á vegum Kópavogsdeildar

Alþjóðlegir foreldrar er verkefni á vegum Kópavogsdeildar Rauða krossins. Hist er í Rauðakrosshúsinu Kópavogi í Hamraborg 11, 2. hæð, alla fimmtudaga frá kl. 10-12. Þátttaka er ókeypis. Foreldrar allra landa sem eru með börn á aldrinum 0-6 ára og vilja hitta aðra með lítil börn eru velkomnir.

Boðið er upp samverur þar sem reglulega fara fram fjölbreyttar kynningar og fræðsla fyrir foreldrana. Leikföng fyrir börnin eru á staðnum og léttar veitingar eru í boði.

Undanfarna fimmtudaga hafa foreldrar frá hinum ýmsu löndum tekið þátt í starfinu, t.d. Litháen, Þýskalandi, Póllandi, Kína, Japan og Íslandi. Á dagskrá var meðal annars skyndihjálparfræðsla með tilliti til ungra barna, fræðsla um holla næringu fyrir börn, kynning á þroskaleikföngum og heimsókn frá Tónagulli þar sem foreldrarnir fengu fræðslu um tónlistaruppeldi auk fastra liða eins og þegar þátttakendur koma með veitingar frá sínu heimalandi. Þá voru sumar samverurnar einnig helgaðar spjalli og almennri samveru foreldra þar sem þeir fá tækifæri til að kynnast á meðan börnin leika sér.