6. jan. 2011 : Kópavogsdeild auglýsir eftir sjálfboðaliðum í ýmis verkefni á vorönn

Undirbúningur fyrir starf deildarinnar á vorönn er nú í fullum gangi og vantar sjálfboðaliða til að sinna ýmsum verkefnum á næstu mánuðum.

Verkefnin eru fjölbreytt og ættu flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Það er undir sjálfboðaliðum komið hversu mikið af tíma sínum þeir gefa í verkefni, hvort sem það er í hverri viku, aðra hvora viku eða sjaldnar.

Verkefnin bjóða upp á einstakt tækifæri til að láta gott af sér leiða og öðlast dýrmæta reynslu.

3. jan. 2011 : Alþjóðlegir foreldrar er verkefni á vegum Kópavogsdeildar

Alþjóðlegir foreldrar er verkefni á vegum Kópavogsdeildar Rauða krossins. Hist er í Rauðakrosshúsinu Kópavogi í Hamraborg 11, 2. hæð, alla fimmtudaga frá kl. 10-12. Þátttaka er ókeypis. Foreldrar allra landa sem eru með börn á aldrinum 0-6 ára og vilja hitta aðra með lítil börn eru velkomnir.

Boðið er upp samverur þar sem reglulega fara fram fjölbreyttar kynningar og fræðsla fyrir foreldrana. Leikföng fyrir börnin eru á staðnum og léttar veitingar eru í boði.

Undanfarna fimmtudaga hafa foreldrar frá hinum ýmsu löndum tekið þátt í starfinu, t.d. Litháen, Þýskalandi, Póllandi, Kína, Japan og Íslandi. Á dagskrá var meðal annars skyndihjálparfræðsla með tilliti til ungra barna, fræðsla um holla næringu fyrir börn, kynning á þroskaleikföngum og heimsókn frá Tónagulli þar sem foreldrarnir fengu fræðslu um tónlistaruppeldi auk fastra liða eins og þegar þátttakendur koma með veitingar frá sínu heimalandi. Þá voru sumar samverurnar einnig helgaðar spjalli og almennri samveru foreldra þar sem þeir fá tækifæri til að kynnast á meðan börnin leika sér.