28. feb. 2011 : Skaðaminnkun (Harm Reduction) Rauða krossins í Reykjavík

Gífurleg aukning HIV smita varð meðal fíkniefnaneytenda á Íslandi á síðasta ári.  Samkvæmt heimildum frá Landlæknisembættinu varð 100% aukning smita í þeim hópi milli áranna 2009 og 2010. Frá 1983 til 2010 hafa alls 42 fíkniefnaneytendur smitast af HIV. Þar af hefur helmingur þeirra smitast frá árinu 2007 eða 21. Sex smituðust árið 2007, fimm árið 2009 og 10 einstaklingar smituðust árið 2010.

Skaðaminnkun (Harm Reduction) sem aðferðafræði við að draga úr heilsufarsskaða þeirra sem eru í vímuefnaneyslu hefur verið að ryðja sér til rúms í Evrópu og Bandaríkjunum frá 1980. Í samfélagi þar sem vímuefnanotkun á sé stað hefur Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) bent á nauðsyn notkunar gagnreyndra inngripa sem byggjast á skaðaminnkun. Slík inngrip draga úr líkamlegum, félagslegum og efnahagslegum skaða neytenda, fjölskyldna þeirra og samfélagsins. Alþjóða skaðaminnkunar samtökin (International Harm Reduction Association (IHRA) ) skilgreinir skaðaminnkun sem:

... heildræna nálgun inngripa og aðstoðar sem byggja á lögum og reglugerðum og hafa það í forgrunni að draga úr neikvæðum heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum vímuefna á neytendur, fjölskyldur þeirra og samfélög.

Rauði krossinn í Reykjavík hefur nú tekið í notkun nýtt tæki til að auka og efla þá þjónustu sem hófst með heilsuhýsinu í október 2009. Hefur verkefnið nú fengið til afnota gamlan sjúkrabíl sem hefur verið endurinnréttaður með breytta starfsemi í huga. Bílinn, sem hlotið hefur nafnið Frú Ragnheiður í höfuð eins stofnenda Kvennadeildar Rauða krossins í Reykjavík, gerir sjálfboðaliðum verkefnisins kleyft að staðsetja sig nær markhópnum á fleiri stöðum í borginni. Þar að auki mun þjónustan framvegis vera í boði fjórum sinnum í viku í stað tvisvar sinnum og vaktir verða lengdar verulega.

21. feb. 2011 : Bjartur bregður á leik

Það er ekki bara Hafnarfjarðardeild sem á stórafmæli á árinu því að hundurinn Bjartur, sem er virkur sjálfboðaliði hjá deildinni, fagnaði nýverið 10 ára afmæli sínu.

Bjartur tekur í hverri viku þátt í sjálfboðnu starfi og heimsækir fólkið í Drafnarhúsi, dagvistun fyrir heilabilaða, ásamt Hrund eiganda sínum. En hann lætur ekki þar við sitja í góðverkum sínum heldur styður með ráðum og dáðum við bakið á Rauða kross starfinu.

Eins og almennilegum hundum sæmir fagnaði Bjartur að sjálsögðu afmæli sínum með vinum og ættingjum, jafnt tvífættum sem ferfættum. Hann fór þess sérstaklega á leit við afmælisgesti að í stað þess að kaupa gjafir handa honum legði fólk Rauða krossinum lið með fjárframlagi. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og alls safnaði Bjartur 26.601 kr. sem renna óskipt til starfs Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins.