29. jún. 2011 : Gestir Dvalar heimækja Hvanneyri

Gestir Dvalar og starfsmenn lögðu á dögunum land undir fót og var ferðinni heitið til  Hvanneyrar. Þátttakan var mjög góð og hópurinn söng á leiðinni ásamt því að njóta leiðsagnar um það sem fyrir augu bar. Það var tekið vel á móti hópnum á Hvanneyri og hann fékk fræðslu um traktora og önnur gömul tæki auk þess að skoða kirkjuna á staðnum. Þá var einnig komið við í Ullarsetrinu þar sem hópurinn kynnti sér garn og prjónavörur.

Á heimleiðinni var svo keyptur ís fyrir alla og það er óhætt að segja að dagurinn hafi verið viðburðaríkur og ánægjulegur. Einn gestanna spurði hvort ekki væri boðið upp á hvíld að loknu ferðalaginu en allir komu þreyttir en sælir í bæinn.

22. jún. 2011 : Mannúð og menning byrjar á fullum krafti

Mannúð og menning, leikjanámskeið Rauða krossins í Reykjavík byrjaði 6. júní síðastliðinn. Fullt var á námskeiðið en hvert námskeið getur tekið á móti 50 börnum á aldrinum 7-12 ára. Börnin voru einstaklega glöð með dagskrána enda er hún fjölbreytt og lifandi en áhersla er lögð á Rauða kross fræðslu í gegnum skemmtilega leiki. Samtals verða haldin sjö námskeið í sumar en ennþá eru laus pláss á nokkur námskeið.

Skráning fer fram á vef Rauða krossins í Reykjavík.

16. jún. 2011 : Aðstoð Rauða krossins vegna húsbruna

Útkall barst frá Neyðarlínunni rétt fyrir klukkan tvö í nótt og óskað eftir aðstoð Rauða krossins vegna húsbruna í fjölbýlishúsi við Skúlagötu.

10. jún. 2011 : Ungir sjálfboðaliðar stóðu fyrir söfnun til styrktar Japans

Elvar Bragi Bjarkason, sjálfboðaliði Kópavogsdeildar Rauða krossins, stóð fyrir söfnun þar sem hann og samnemendur hans úr Menntaskólanum við Hamrahlíð söfnuðu pening til styrktar bágstöddum í Japan. Fleiri sjálfboðaliðar úr Plúsnum, ungmennastarfi deildarinnar, tóku einnig þátt í söfnuninni.

Unga fólkið hélt tónleika ásamt því að selja kökur og handgerða hluti í Smáralind. Þá gengu sjálfboðaliðarnir um með bauka og dreifðu bankanúmeri fyrir þá sem vildu gefa til söfnunarinnar.

9. jún. 2011 : Þjóðlandakvöld á Alþjóðatorgi ungmenna

Alþjóðatorg ungmenna er nýtt verkefni sem Reykjavíkurdeild Rauða krossins hefur sett á laggirnar. Þjóðlandakvöld er eitt af því sem á dagskránni verður og var það fyrsta haldið um síðustu helgi. Þemað að þessu sinni var Litháen og var boðið uppá litháenska ljúffenga rétti, tónlist og dansa.

Markmiðið með stofnun verkefnisins er að vinna gegn fordómum og rasisma í íslensku þjóðfélagi, virkja ungt fólk af erlendum uppruna í félagsstarfi og sem málsvarar, fræða um menningarlega fjölbreytni, skapa félagslega samtöðu og vinna að umburðarlyndi.

6. jún. 2011 : Rauðakrosshúsin - virknisetur fyrir atvinnulaust fólk

Rauði krossinn stendur fyrir öflugri þjónustu fyrir þá sem eru berskjaldaðir í íslensku samfélagi. Félagið leggur áherslu á að veita þá aðstoð sem mest þörf er fyrir á hverjum tíma. Deildir félagsins hafa sett á laggirnar verkefni sem miða að því að virkja fólk og rjúfa félagslega einangrun nú þegar þúsundir landsmanna glíma við atvinnuleysi og fjárhagsörðugleika.

Rauðakrosshúsin
Rauðakrosshúsið í Borgartúni í Reykjavík fagnaði eins árs starfsafmæli í mars. Starfsemin byggir á reynslu Rauða krossins af því að bregðast við áföllum og frá upphafi hafa gestir hússins sótt þangað sálrænan og félagslegan stuðning og ráðgjöf um ýmis úrræði í samfélaginu.

3. jún. 2011 : Gaf fermingarpeninga til Malaví

Anna Rún Arnfríðardóttir, nemandi í 8. bekk Kópavogsskóla, kom færandi hendi til Kópavogsdeildar Rauða krossins með peningagjöf að upphæð 20.000 krónur. Upphæðin var hluti peninga sem hún fékk í fermingargjöf og vildi Anna Rún láta þessa fjárhæð renna til góðs. Hún óskaði eftir því að gjöfin rynni til alþjóðaverkefna en hún tók þátt í að ganga til góðs síðastliðið haust og vildi að styrkurinn rynni í sama málstað.

Styrkurinn verður því nýttur í starf Rauða kross Íslands í Malaví en þar hefur félagið unnið með malavíska Rauða krossinum síðan 2002. Mikill árangur hefur náðst í starfi Rauða kross í Malaví í þau ár sem samvinnan hefur staðið og má til að mynda nefna að árið 2009 nutu um 3.600 börn aðstoðar og fengu tækifæri til að sækja skóla ásamt því að fá fæði og klæði og félagslegan stuðning.

1. jún. 2011 : Taktu til, farðu í sund og hjálpaðu Rauða krossinum í leiðinni

Rauði kross Íslands stendur fyrir fatasöfnun um allt land á uppstigningardag, fimmtudaginn 2. júní, í samstarfi við Eimskip. Gámum verður komið fyrir við allar sundlaugar ÍTR í Reykjavík og við sundstaði í Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ.  Einnig verður gámur við hús Rauða krossins í Mosfellsbæ, og  eins verður tekið á móti fötum á móttökustöðum Eimskips Flytjanda úti á landsbyggðinni.

Rauði krossinn hvetur fólk að taka til gömul föt og vefnaðarvöru og koma þeim í notkun að nýju með því að nýta ferðina um leið og farið er í sund í góða veðrinu. Athugið að söfnunin er aðeins þennan eina dag við sundstaðina, en auðvitað er hægt að gefa fatnað og klæði allan ársins hring á söfnunarstöðum Rauða krossins á Enduvinnslustöðvum  Sorpu á höfuðborgarsvæðinu og í söfnunargáma um allt land.