30. ágú. 2011 : Met slegið í gerð ungbarnapakka

Í síðustu viku vann prjónahópur Hafnarfjarðardeildar að því að pakka afrakstri vorsins og sumarsins í ungbarnapakkagerðinni. Alls var pakkað í 55 pakka og því ljóst að hópurinn hefur slegið met sitt í fjölda pakka frá fyrra ári. Árið 2010 útbjó hópurinn alls121 pakka en eftir síðustu pökkun er talan fyrir árið í ár komin í 162. Því er ljóst að mun fleiri pakkar verða útbúnir á þessu ári en í fyrra.

Prjónahópurinn vinnur í verkefni sem kallast föt sem framlag. Í því verkefni eru einnig nokkrar liðtækar saumakonur sem sauma ungbarnafatnað einkum úr flísefnum en einnig úr öðrum efnum sem þykja henta fyrir ungabörn. Hægt er að taka þátt bæði með því að mæta í vikulega hittinga prjónahóps á þriðjudögum kl. 13 og einnig með því að vinna heima. Þannig eiga allir áhugasamir að geta fundið flöt á þátttöku í verkefninu.

Nýlega hóf Rauði kross Íslands einnig að útbúa fatapakka fyrir eldri börn, frá 1 árs til 12 ára. Verða þeir pakkar sendir til Rauða krossins í Hvíta-Rússlandi en ungbarnapakkarnir fara bæði til Hvíta-Rússlands og Malaví.
 

25. ágú. 2011 : Viðtal við sjálfboðaliða: Íris Sigurðardóttir

Íris Sigurðardóttir er ungur sjálfboðaliði hjá Kópavogsdeildinni sem sinnir sjálfboðnu starfi í verkefninu Viltu tala meiri íslensku? Hún, ásamt fleiri sjálfboðaliðum, sér um vikulegar samverur þar sem íslenskir sjálfboðaliðar hitta fólk af erlendum uppruna sem vill æfa sig í að tala íslensku. Markmiðið er að gefa þeim sem vilja læra meiri íslensku tækifæri til að nota málið og auka við orðaforða sinn.

Íris hafði lengi hugsað um að gerast sjálfboðaliði og gera gagn. Hún segir: „Maður getur alltaf fundið tíma til að gera eitthvað sem gerir öðrum gott og þá fer manni sjálfum líka að líða betur.“ Hún segist hafa kynnst yndislegu fólki sem býr yfir ótrúlegum krafti og metnaði og hún dáist að því. Það er hvatning fyrir hana að sjá hvað fólk getur lagt mikið á sig til að ná markmiðum sínum.