Mentee fær háskólastyrk

29. des. 2009

Félag háskólakvenna og kvenstúdenta veitti námsstyrk til tveggja kvenna af erlendum uppruna sem stunda nám við Háskóla Íslands. Styrkurinn er veittur til að létta undir framfærslu enda hafa þær ekki rétt á námslánum á Íslandi.

Félagið er í samstarfi við Garðabæjardeild Rauða krossins sem rekur verkefnið „Félagsvinur – Mentor er málið“. Deildin leggur til mentora fyrir konurnar sem styðja þær í náminu og hjálpa að aðlagast íslensku samfélagi.

Kristýna Antonova frá Tékklandi og Thuy Thi Pham frá Víetnam hlutu styrkinn. Kristýna mætti ásamt mentornum sínum, Jennýu Heiðu, til að veita styrknum viðtöku. Thuy var erlendis en hún mun einnig fá mentor í janúar þegar hún snýr aftur til Íslands.

Mentor verkefni Garðabæjardeildar Rauða kross Íslands gengur út á að para saman íslenskar konur og konur af erlendum uppruna á Íslandi. Mentor-sambandið byggir á jafningjagrundvelli og gengur út á að opna dyr íslensks samfélags fyrir erlendu konunni og víkka sjóndeildarhring íslensku konunnar. Oft myndast góð vinátta á milli kvennanna sem blómstrar áfram eftir að verkefninu lýkur.

Þeir sem hafa áhuga á verkefninu og vilja gerast mentor eða mentee, vinsamlegast hafið samband við Erlu, erla@redcross.is eða síma 565 9494.